Óþekktir yfirburðir, eftirköst og drasla til

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Þýða er ekki þíða

Sé maður ekki alveg smekklaus finnst manni sögnin að affrysta ljót en sögnin að þíða falleg. 

Í stað þess að „affrysta“ mat skulum við þíða hann. Hann þiðnar þá, í stað þess að „affrystast“ (affrjósa?) og verður þiðinn í stað þess að verða „affrosinn“ (affreðinn?). 

En þíðum hann alltaf með í-i.

Málið á blaðsíðu 52 í Morgunblaðinu 14.3.2019.

 

1.

„Þingið hefur nú tvisvar fellt með óþekktum yfirburðum „eina samninginn sem völ er á“.“

Leiðari Morgunblaðsins 14.3.2019          

Athugasemd: Þetta er skrýtið. Höfundur er að segja frá vandræðum bresku ríkisstjórnarinnar vegna Brexit, brottför landsins úr ESB. Breski forsætisráðherrann á í miklum vandræðum í þinginu. Hann segir að samningurinn hafi verið felldur með „óþekktum yfirburðum“.

Hvað er óþekkt? Atkvæðagreiðslan í breska þinginu þann 10. mars fór þannig að 391 greiddi atkvæði gegn og 242 með. Ekkert er þarna óþekkt nema óþekktin í þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem greiddu ekki atkvæði eins og ríkisstjórnin vildi.

Þegar leiðarahöfundur talar um „óþekkta“ yfirburði á hann við að þeir hafi verið meiri en áður hafa þekkst. Orðalagið er út ensku. Enskumælandi segja: „Something is unheard of“. Við tölum á annan veg hér á landi nema ætlunin sé að útbreiða „ísl-ensku“. Ekki má samt nota lýsingarorðið „óheyrilegur“ í þessu sambandi.

Það sem er óþekkt er ekki þekkt. Danmörk sigraði Ísland með fjórtán mörkum gegn tveimur og er fátítt að lið vinni með slíkum yfirburðum í fótbolta (ekki „óþekktum“ yfirburðum).

Tillaga: Þingið hefur nú tvisvar fellt „eina samninginn sem völ er á“ með meiri yfirburðum en þekkst hafa í atkvæðagreiðslum í breska þinginu.

2.

Eftirköst Christchurch-árásarinnar rétt að byrja.“

Frétt á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 18.02.2019.         

Athugasemd: Hér eru stuttar vangaveltur um merkingu fyrirsagnarinnar, sérstaklega nafnorðsins eftirköst. Er ekki alveg viss um hvort blaðamaðurinn átti sig á orðinu. Af efni fréttarinnar má ráða að ekki er víst að eftirköstin séu öll slæm.

Í hugum flestra merkir orðið neikvæðar afleiðingar. Til dæmis er hausverkur oft eftirköst of mikillar áfengisdrykkju. Setji ég dísil á bensínbíl verður hann ógangfær, það eru slæm eftirköst. 

Sá sem kaupir lottómiða myndi aldrei orðað það sem svo að vinningurinn sé eftirköst kaupanna. Ekki heldur eru það eftirköst að fá afslátt við kaup á vöru.

Að þessu sögðu væri skárra að nota orðið afleiðingar. Til dæmis telja margir að takmarkanir á byssueign séu nauðsynleg aðgerð en aðrir eru ósammála.

Tillaga: Afleiðingar árásanna í Christchurch eru margvíslegar.

3.

Hann draslar til – rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.“

Frétt á dv.is.         

Athugasemd: Sögnin að drasla er alþekkt. Þegar einhver draslar þarf hinn sami eða aðrir að taka til. Þannig gerast hlutirnir á bestu heimilum, vinnustöðum og jafnvel úti í sjálfri náttúrunni. Annars er þetta skemmtileg frétt á DV, fjallar um unglinginn sem á að vísa út af heimilinu því hann draslar svo mikið. Og unglingurinn er köttur.

Stundum renna sama orð og orðasambönd. Sá sem tekur til segist gera það vegna þess að einhver „draslaði til“. Þetta síðasta er auðvitað bull. 

Á malid.is segir: 

‘draga með erfiðismunum, róta e-u til; slarka, svalla’ … so. drasla virðist auk þess nafnleidd af *drasil-, sbr. drösla af drösull (2) (s.þ.). Sjá drasa og dræsa.

Gaman er að sjá þarna tenginguna við drösul, þá glaðnar yfir mörgum. Á malid.is segir um það orð:

‘hestur; †hestsheiti’. Uppruni óljós. Orðið hefur verið tengt við gr. (lesb.) thérsos ‘hugrekki’, sbr. gotn. gadaursan ‘dirfast’. Vafasamt. E.t.v. fremur sk. drösla og eiginl. s.o. og drösull (2). 

Ýmsir hafa haft það á móti þessari ættfærslu að hestsheitið hljóti að vera hrósyrði, en slíku er valt að treysta, nöfn af þessu tagi eru oft tvíhverf og heitið hefur e.t.v. í upphafi merkt taumhest, beislisfák eða jafnvel staðan hest.

Má vera að Jónas Hallgrímsson hafi ekki haft gæðing í huga er hann orti:

Drottinn leiði drösulinn minn,
drjúgur verður síðasti áfanginn.

Þetta er auðvitað úr ljóðinu Sprengisandur. Furðulegt er annars hvað mann rekur langt í spjalli um orð. 

Tillaga: Hann draslar, rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband