Enska orðið to step merkir sjaldnast að stíga
21.2.2019 | 22:09
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com.
Kominn til að vera
Sé tekið dæmi af áhrifum enskunnar má nefna að í fyrirsögn aðsendrar greinar í Morgunblaðinu í þessari viku stóð: Frjálslyndi flokkurinn er kominn til að vera. Og nú er spurt. Vera hvað?
Sögnin að vera er áhrifslaus og ósjálfstæð sögn. Hún segir ekkert án aðstoðar annarra orða, hún þarf fyllingu, sem í setningafræðinni nefnist sagnfylling.
Sagnfylling er oftast lýsingarorð og lýsir það þá einhverjum eða einhverju sem við er átt. Til dæmis, hann er gamall, eða hún er fögur.
En hvernig er þá þessi ranga notkun komin inn í málið? Jú, svarið virðist einfalt. Það er enskan. He has come to stay. Á íslensku þýðir þetta: Hann hefur fest sig í sessi eða hann hefur náð fótfestu svo einhver dæmi séu tekin.
Þess vegna hefði fyrirsögnin átt að vera: Frjálslyndi flokkurinn hefur fest sig í sessi, án þess þó að umsjónarmaður hyggist leggja einhvern dóm á sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar.
Morgunblaðið, Íslenskt mál, 1.6.2002.
1.
Svona stíga alvöru leiðtogar upp.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Enginn stígur upp nema ef til vill á stól til að skipta um peru. Alvöru leiðtogar taka af skarið, taka frumkvæðið. Eitthvað rangt er samt við það að tala um alvöru leiðtoga. Hver er andstæðan? Plat leiðtogi, grín leiðtogi ? Hér má bæta því við að í þessu tilviki er nafnorðið alvara til áhersluauka án þess að tilefni sé til að finna einhverja andstæðu við orðalagið. Svona er þó oftast notað í talmáli, fer illa í ritmáli.
Enskan er merkilegt tungumál og fallegt. Þó það sé af germönsku málstofni eins og íslenska eru þau gjörólík. Mestu munar um orðalag, skipan orða í setningu og fleira. Margt er hægt að þýða beint úr ensku og á íslensku en oft er það ekki hægt nema að útkoman verði einhvers konar ensk-íslenska sem með réttu nefnd hráþýðing og er ekki til fyrirmyndar.
Enska sagnorðið to step merkir bókstaflega að stíga, einnig að skrefa, ganga, feta og margt fleira.
Nafnorðið step getur þýtt skref, trappa í stiga, rim í lausum stiga, og margt, margt fleira. Step by step er hægt að þýða beint: Skref fyrir skref.
Ekki fer alltaf saman að vera afburðagóður í ensku og íslensku. Sá sem þýðir verður að búa yfir næmum skilningi á íslensku, hafa talsverðan orðaforða, og bera skyn á blæbrigði málsins. Blaðamaður sem þýðir illa skemmir málið. Illa þýdd frétt er eins og skemmd matvæli í verslun, þau eru ekki hæf til sölu, raunar er bannað að selja þau.
Orðasambönd með enska sagnorðinu to step vefjast ekkert fyrir sumum blaðamönnum, þeir fara einfaldlega illa með þau, menga íslenskt mál með ónýtum skemmdum þýðingum.
Hér er stuttleg samantekt um ensk orðasambönd með sögninni to step og þýðingar á þeim:
- Step aside
- Getur þýtt að hætta.
- Hvað gerir formaður húsfélagsins sem stígur til hliðar? Er hann ekki bara hættur? Ekki stíga til hliðar.
- Hann getur auðvitað hætt tímabundið, vikið til hliðar eða frá, dregið sig í hlé og svo framvegis
- Step back
- Getur þýtt að hætta við, snúa við, ekki stíga til baka.
- Step down
- Þýðir yfirleitt að hætta, ekki að stíga niður nema það sé ljóst af samhenginu.
- Formaður húsfélagsins er hættur, stígur ekki niður.
- Formaður húsfélagsins stígur úr ræðustólnum eða fer úr honum.
- Sá sem stendur uppi á kassa stígur af honum, frekar fyrr en síðar.
- Step something down
- Minnka eitthvað, draga úr.
- Step forward
- Getur þýtt að bjóðast til einhvers, láta vita af sér og svo framvegis. Ekki stíga áfram.
- Step in
- Getur þýtt að taka þátt í einhverju, taka af skarið. Ekki stíga inn.
- Step out
- Þýðir oftast að fara út. Formaður hússtjórnar vék af fundi. Ekki stíga út.
- Step out on
- Getur þýtt að halda framhjá maka sínum (stepping out on you/him/her).
- Step something up
- Getur þýtt að auka við, bæta við. Lögreglan jók viðbúnað sinn, ekki stíga viðbúnaðinn upp.
Niðurstaðan er þessi. Enska sagnorðið to step er sjaldnast hægt þýða með sögninni að stíga nema það sé ljóst af samhenginu.
Tillaga: Svona gera leiðtogar.
2.
Það að að seinka sólarupprás og sólsetri getur leitt til þess að líkamsferlum getur seinkað.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þett er frekar máttlaus og ljót málsgrein, ef ég má orða það svo. Mér finnst að fólk sem byrjar setningar á persónufornafninu það þurfi að hugsa sinn gang, skilja hvað um er að ræða. Ég hef stundum skrifað um þetta vandamál og hér er kafli úr einum pistli:
Orðið er mikið til óþurftar. Varla er hægt að segja annað vegna þess að oft hefur það einstaklega óskýra meiningu, er næstum því merkingarsnautt. Með því að setja það fyrst í setningu eða málsgrein tapar höfundur yfirsýn, gerir mál sitt lakara, verður næstum barnalegur og nær ekki neinu flugi í skrifum sínum. Um leið og höfundur reynir að skrifa framhjá orðinu batnar textinn og meiri tilfinning kemur fram.
Íslenskufræðingar hafa skrifað mikið um það sem í máli þeirra nefnist aukafrumlag. Mér sýnist að flestum sé ekkert sérstaklega vel við orðið þannig notað enda hefur það fengið uppnefnið leppur.
Lítum á tilvitnunina. Hún er röng því enginn mannlegur máttur getur seinkað sólarupprás eða sólsetri. Auðvitað er verið að tala um klukkuna en það er bara leti að stytta sér svona leið.
Látum þetta vera og skoðum málsgreinina sem byrjar svo óhönduglega. Henni hefði mátt snúa við eins og gert er í tillögunni hér fyrir neðan. Sleppum það að og gerum söguna fyllri og skiljanlegri.
Tillaga: Líkamsferlum getur seinkað fylgi klukkan ekki náttúrulegri sólarupprás og sólarlagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður,
Ég er nú farinn að ryðga svolítið, en mér finnst að orðtækið að eitthvað sé komið til að vera hafi verið notuð lengi. Er nokkuð viss um að hafa heyrt hana þegar ég var að alast upp fyrir hálfri öld. En þori ekki að fara með það 100% Eftir tæp 20 ár í enskumælandi landi þá hefur það orðið æ ljósara fyrir mér hversu mikið af ensku er komið úr málum Norðurlanda. Sérstaklega þegar koma fyrir nokkuð gömul orð, sem eru ekki lengur í tísku en frúna rekur minni til af og til.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 22.2.2019 kl. 02:15
Sæll, Arnór,
Bestu þakkir fyrir innlitið. Á lífsleiðinni er svo ótalmargt hefur átt greiða leið inn í kollinn á manni, tóm vitleysa og hugsanlega eitthvað skárra. Varla fyrir mig, meðalmanninn, að greiða svo úr að fátt sitji eftir nema að sem rétt er og gott.
Þegar mér er boðið eitthvað segi ég stundum, nei takk, ég er góður. Þetta síðara er auðvitað tóm vitleysa (e. I'm good) og á ekkert erindi inn í málið okkar.
Orðasambandið „Komið til að vera“ er líka óþarft. Rökin eru ansi góð hjá umsjónarmanni dálksins í Mogganum, til dæmis er hann segir:
Hún [sögnin að vera] segir ekkert án aðstoðar annarra orða, hún þarf fyllingu, sem í setningafræðinni nefnist sagnfylling.
Mikilvægt er að vera gagnrýninn á það sem maður segir og skrifar. Þetta er engin „öfgamálstefna“ vegna þess að það er svo ótalmargt sem skekkir undirstöður íslenskunnar.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.2.2019 kl. 08:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.