Yfirhalning, endinn á eldinum og fólk pint og myrt ...
15.1.2019 | 10:18
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Sprengdi flugeld í garði íbúa.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Mér finnst þetta dálítið skrýtin fyrirsögn þó eflaust sé hún ekki röng. Hún er bara klúðursleg og vakti því athygli mína. Sá ekki eftir að hafa lesið áfram.
Seinna í fréttinni segir:
Lögreglumenn höfðu uppi á viðkomandi sem viðurkenndi ekki verknaðinn en kvaðst þó ætla að hætta þessu.
Þarna hló ég upphátt.
Í menntaskólanum sögðu íslenskukennarnir að ég ætti ekki að nota slettuna viðkomandi, hún væri danska. Síðar varð til orðið hlutaðeigandi sem íslenskumönnum þótti ekki skárra. Í Málfarsbankanum á malid.is segir:
Orðinu viðkomandi er oft hægt að sleppa. Til dæmis fer betur á að tala um rekstur fyrirtækjanna en rekstur viðkomandi fyrirtækja.
Auðvitað er hægt að sleppa slettunni og segja: Lögreglumenn höfðu uppi á manninum sem ...
Tillaga: Sprengdi flugeld í garði íbúðarhúss.
2.
Heimilislaus maður fær yfirhalningu.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Er nú ekki nóg á einn heimilislausan mann lagt svo hann sé ekki í þokkabót skammaður? Jú, sá sem fær yfirhalningu er skammaður. Á malid.is segir um orðið yfirhalningu:
það að skamma einhvern duglega
Ekki veit ég um uppruna orðsins en hér er blaðmaðurinn að þýða úr ensku sem enginn á að gera nema hafa tök á báðum málunum. Ensk orðabók segir um orðið makover:
a complete transformation or remodeling of something, especially a person´s hairstyle, makeup, or clothes.
Blaðamaðurinn kann að vita hvað makeover þýðir en þegar hann skrifar fréttina verður honum fótaskortur á íslenskunni og þýðir orðið rangt. Vefst mér líka tunga um höfuð, finn ekkert eitt orð sem hentar hér svo að ég reyni lengri leiðina með hliðsjón af efni fréttarinnar.
Tillaga: Heimilislaus maður fær klippingu og ný föt.
3.
Sjá fyrir endann á eldinum.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér er ekki verið að tala um langeld í reykmettuðu húsi þar sem ekki sést enda á milli. Blaðamaðurinn er líklega að segja að líkur séu til að eldurinn verði brátt slökktur, slökkviliði nái brátt tökum á honum. Orðafærið hjá blaðamanninum er eins og vatn úr heiðskírum læk ...
Sé ætlunin að nota orðtök eða orðasambönd þá verða þau að hæfa fréttinni. Enginn sér fyrir endan á eldi nema eldstæðið sé langt
Tillaga: Slökkvistarfinu lýkur brátt.
4.
Teikavei, teikavei. Nings
Auglýsing á Bylgjunni kl. 17:55, 14.1.2019.
Athugasemd: Þið þarna, Bjarni Óskarsson og Hrafnhildur Ingimarsdóttir, skráðir eigendur Nings, skiptir íslenskan ykkur engu máli? Er það stefna ykkar að setja móðurmálið skör lægra en enskuna?
Fyrirtækið auglýsir á ensku í íslensku útvarpi. Take-a-way er upprunalega amerískt hugtak sem merkir að viðskiptavinurinn komi, kaupi matinn og fari með hann til neyslu annars staðar. Annað amerískt er dræv þrú (drive through).
Auðvitað virðist þetta vera kúl (e. cool) en hliðarverkunin er einfaldlega sú að svona dregur smátt og smátt þróttinn úr málinu. Bjarni og Hrafnhildur vinna gegn íslenskunni.
Og það sem verra er, útvarpsstöð eins og Bylgjan tekur athugasemdalaust við auglýsingunni. Eru engar siðareglur hjá þessu úvarpsfyrirtæki eða er því sama um íslenskt mál?
Tillaga: Sæktu matinn til okkar. Nings.
5.
markvisst leitað uppi hinsegin fólk, það fangelsað, pynt og myrt.
Frétt kl. 17 á Bylgjunni 14.1.2019 (skráð eftir minni).
Athugasemd: Þetta er ekki gott, fljótfærnin skemmir frétt. Fréttamaðurinn þekkir ekki sögnina að pynda en ræður ekki við hana. Hún beygist sterkt í lýsingarhætti þátíðar. Fólkið var pyntað. Orðið sem er í tilvitnuninni hér að ofan er ekki til.
Tillaga: Markvisst leitað uppi hinsegin fólk, það fangelsað, pyntað og myrt.
6.
Blaðið kaus hann einnig bestu kaupin, en
Grein á bls. 11 í bílablaði Morgunblaðsins 15.1.2019.
Athugasemd: Hér segir blaðamaður frá Rexton jeppa og vitnar í blaðið 4x4 Magazine sem hafi kosið hann sem bestu kaupin.
Í þessu tilfelli hefur blaðið talið bílinn, valið hann eða útnefnt sem bestu kaup jeppa. Dreg stórlega í efa að kosningar hafi átt þarna hlut að máli.Má vera að greidd hafi verið atkvæði á ritstjórninni. Mikill munur er á atkvæðagreiðslu og kosningum.
Svo velti ég fyrir mér hvers vegna alls kyns bílar sem kallaðir eru jeppar skuli ekki vera prófaðir á fjallvegum, þeim til dæmis ekið yfir ár og fljót. Þegar menn treysta sér ekki til þess finnst mér einsýnt að þessir bílar eru aðeins fjórhjóladrifnir en ekki jeppar í hefðbuninni merkingu þess orðs.
Tillaga: Blaðið taldi hann einnig bestu kaupin, en
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.