Bless við jólin, staður sem lokar og ríkisstjórn sem þarf að opna
10.1.2019 | 14:06
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Með öðrum og betri orðum
Verði sprenging í fjölda þeirra feðra (sem nýta sér rétt til feðraorlofs) hefur þeim feðrum stórfjölgað.
[V]ondar veðurfarslegar aðstæður eru hugsanlega vont veður.
Og ekki kemur á óvart ef ökumenn sem hafa slæman akstursmáta aka illa.
[P]eningalega launuð störf gætu svo verið launavinna.
Málið á bls. 24 í Morgunblaðinu 7.1.2019.
1.
Sagt bless við blessuð jólin með blysför á brennustað.
Fyrirsögn/myndatexti á forsíðu Morgunblaðsins 7.1.2019.
Athugasemd: Þetta kallast að ég held ofstuðlun. Þarna er hrúgað inn orðum sem byrja á stafnum b. Tilgangurinn virðist ekki neinn annar. Útkoman er barnalegur texti sem þó gleður hvorki börn né aðra.
Fyrirsögnin á líklega ekki að vera fyrripartur vísu. Hún gæti samt næstum því verið það, en á henni er galli. Á vefsíðu Ragnars Inga Aðalsteinssonar segir:
Það kallast ofstuðlun þegar ljóðstafir verða of margir innan braglínuparsins sem stuðla skal. Í frumlínunni eiga stuðlar að vera tveir og einn höfuðstafur í síðlínunni. Ef stuðlar eru fleiri eða hljóð höfuðstafs tvítekið er það kallað ofstuðlun.
Þegar börn eru lítil tala þau einfalt mál en svo eldast þau, orðasafnið stækkar og þau ættu að öllu jöfnu að geta tjáð sig á fjölbreyttan hátt. Engu að síður virðast barnamál enn talsvert notað af yngra fjölmiðlafólki. Það notar orð eins og klessa á (þegar bílar lenda í árekstri), dingla (hringja útidyrabjöllu eða álíka), öskra (í stað þess að kalla eða hrópa), pínu (í merkingunni lítið, dálítið eða mjög lítið), segðu bless (í stað þess að kveðja) og fleiri.
Kveðjuorðið bless er án efa komið af sögninni að blessa, stytting af blessaður/blessuð. Kristnin hefur haft meiri áhrif en margir átta sig á. Við kveðjum og segjum bless, en kveðjumst líka þegar við hittumst. Í nútímamáli segjum við bless er við skiljum. Við segjum blessaður/blessuð þegar við hittumst rétt eins og á kveðjustund. Aftur á móti hefur sögnin að kveðja alveg einstaklega fjölbreytta merkingu, en nóg um það síðar.
Sorglegt að ókeypis menntun í tuttugu ár og nokkur reynsla í blaðamennsku skuli ekki verða til þess að fólk þrói með sér laglegan stíl og geti svo, þegar kallið kemur, samið snyrtilegan texta undir fallegri mynd eins og þeirri sem birtist þarna á forsíðu Moggans. Má vera að ég ýki hér dálítið. Líklega ræður smekkur áliti, en samt
Tillaga: Jólin kvödd með blysför og brennu.
2.
No pun intended.
Upphafsorð viðmælanda í Kastljósi.
Athugasemd: Ég sat fyrir framan skjáinn um daginn og horfði á upphaf Kastljóss, sem ég geri ekki oft. Þar kom ung og fögur kona og brosmild svaraði hún fyrstu spurningu umsjónarmanns með þessum orðum sem vitnað er til hér að ofan.
Mér brá nokkuð illilega og féll kjálkinn með skelli á gólfið. Er ég hafði loksins náð honum upp var þátturinn búinn. Fyrir mitt litla líf get ég ekki munað hvað var verið að ræða eða hver þessi laglega kona var.
Hitt er varasamt ef farið er að ræða málin á blendingi ensku og íslensku í Kastljósinu. Konan ágæta var ekki að grínast enda þýða ofangreind orð að brandarinn var ekki ætlaður sem móðgun.
A joke exploiting the different possible meanings of a word or the fact that there are words which sound alike but have different meanings: the Railway Society reception was an informal party of people of all stations (excuse the pun) in life.
Þetta sagði orðabókin um pun.
Tillaga: Höldum okkur við annað hvort, íslensku eða ensku. Þessi tvö tungumál blandast afar illa saman.
3.
Síðustu helgi lokaði nafnlausi pizzustaðurinn en nú á fimmtudaginn opnar þar nýr staður, Systir, sem er í eigu sömu aðila.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Af hverju kemur svona vitleysa upp aftur og aftur á Mogganum. Blaðamenn verða að skilja að staðir opna ekkert og þeir loka engu. Aftur á móti geta eigendur veitingahúsa, hótela og fyrirtækja með aðra starfsemi opnað og lokað húsum að vild.
Þar að auki finnst mér varla hægt að segja svona: Síðustu helgi lokaði Vantar ekki forsetninguna um?
Svo er mörgum hulin ráðgáta hvers vegna fólk er kallað aðilar, nema auðvitað að hluthafarnir séu fyrirtæki en ekki virðist svo vera miðað við myndina sem fylgir fréttinni.
Hins vegar er ástæða til að hrósa eigendunum fyrir að velja íslenskt nafn á nýja veitingastaðinn. Með því sýna þeir sjaldgæft hugrekki. Illa gefið fólk hefði líklega kallað staðinn The Icelandic Sister Heratage Cuisine Group eða eitthvað álíka hallærislegt.
Tillaga: Um síðustu helga var Nafnlausa pizzustaðnum lokað og næsta fimmtudag verður nýr staður opnaður í sama húsnæði. Hann heitir Systir og er í eigu sama fólks.
4.
Óþarfi að fara í eitthvað panikmód
Umræðuþáttur í morgunútvarpi Rásar1 í Ríkisútvarpinu 9.1.2019.
Athugasemd: Tvær akureyrskar konur voru kvaddar í síðdegisþátt Ríkisútvarpsins til að rökræða um íbúafjölda á Akureyri. Önnur var frá meirihluta bæjarstjórnar, hin var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í minnihlutanum.
Fulltrúi meirihlutans taldi enga ástæðu til að vera með áhyggjur út af fækkun fólks á Akureyri. Óþarfi að fara í eitthvað panikmód , sagði konan.
Panic Mode má þýða sem einhvers konar hræðsluástand. Flestir þekkja slettuna að panikera. Mode getur merkt ástand. Orðið þekkist í mörgum greinum; tækjum, tölvum, myndavélum, sjónvarpi og svo framvegis. Einnig í tísku, stærðfræði, tónlist og fleiru.
Fáir taka svo til orða eins og konan í umræðuþættinum. Flestir hefðu sagt í hennar sporum að þrátt fyrir íbúafækkun væri betra að halda ró sinni og spyrna við fótum. Undantekning eru auðvitað þeir sem vilja sýna að þeir séu sigldir (hvað þýðir eiginlega að vera sigldur?).
Ekki verður nógsamlega brýnt fyrir fólki að tala íslensku, ekki sletta, sérstaklega ekki á opinberum vettvangi. Staðreyndin er einfaldlega sú að við, almenningur, tökum ósjálfrátt mark á orðalagi fræga fólksins í fjölmiðlunum og tileinkum okkur það. Samanber þetta:
Hvað höfðingjarnir hafast að
hinir meina sér leyfist það.
Svo segir í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar.
Og hvers konar sletta er þetta: Passía? og sálmur. Jú, hvort tveggja eru orð sem komu fyrir ævalöngu inn í íslensku. Á Vísindavefnum segir Einar Sigurbjörnsson:
Íslenska orðið passía er myndað af latneska orðinu passio sem þýðir þjáning (sbr. passion á ensku, dönsku og þýsku).
Á Wikipedia segir svo um orðið sálmur:
Orðið sálmur kemur af latnesku psalmus (að syngja með undirleik af strengjahljóðfæri) sem upphaflega kemur af forngrísku psalmos (að spila á strengjahljóðfæri).
Sálmar aðgreina sig frá öðrum ljóðum með því að ætíð vera af trúarlegum toga. Sálmar eru oftast lofsöngur eða bæn til guðs eða andlegs valds.
Ólafur Hjaltason hét fyrsti lúterski biskupinn á Hólum. Stutt æviágrip hans birtist í dálkinum Merkir Íslendingar í Morgunblaðinu 9.1.2018. Þar segir meðal annars:
Ólafur lét prenta nokkrar bækur í prentsmiðjunni á Breiðabólstað í Vesturhópi. Til eru tvær óheilar bækur sem hann gaf út: Passio (þ.e. píslarpredikanir, 1559), eftir Antonius Corvinus, í þýðingu Odds Gottskálkssonar, og Guðspjallabók.
Í stuttu máli eru bæði orðið komin inn í málið úr latnesku og hafa fyrir löngu unnið sér þegnrétt. Niðurstaðan er því sú að íslenskan getur tekið við erlendum orðum en fyrir alla muni veljum þau vandlega.
Tillaga: Best er að halda ró sinni
5.
Trump forseti verður að hætta að halda bandarísku þjóðinni í gíslingu, verður að hætta að búa til neyðarástand og verður að opna ríkisstjórnina aftur.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þessi orð eru höfð eftir Nancy Peloci, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjanna. Þýðingin er hins vegar ekki í lagi. Samkvæmt Washington Post sagði Pelosi:
President Trump must stop holding the American people hostage, must stop manufacturing a crisis and must reopen the government.
Blaðamaðurinn skilur annað hvort ekki íslensku eða ensku. Bandaríska ríkisstjórnin er ekki lokuð og því þarf ekki að opna hana. Ástæðan er einfaldlega sú að blaðamaðurinn misskilur enska orðið government í þessu samhengi. Engu að síður skrifar hann annars staðar í fréttinni:
Þriðjungur alríkisstofnana hefur verið lokaður í hátt í þrjár vikur vegna kröfu forsetans sem neitaði að skrifa undir útgjaldafrumvörp sem hefðu fjármagnað rekstur stofnananna fyrir jól.
Blaðamaðurinn talar ýmist um lokaða ríkisstjórn eða lokaðar alríkisstofnanir. Er það til of mikils mælst að blaðamaður haldi sig við eina útgáfu á enska orðinu government? Er það ekki heldur mikið örlæti að hafa tvö tilvísunarfornöfn í einni málsgrein. Frekar slappur stíll.
Fleira er gangrýnisvert er í fréttinni en það tekur of langan tíma að útlista.
Tillaga: Trump forseti verður að hætta að halda bandarísku þjóðinni í gíslingu, búa til neyðarástand og opna ríkisstofnanir.
6.
Seinkun klukkunnar: Almenningur velur á milli þriggja kosta.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þessi fyrirsögn segir allt sem segja þarf. Þrír kostir í boði. Hrósa ber blaðamanninum fyrir þetta. Í fréttinni sjálfri segir hins vegar:
Í greinargerðinni er skoðað hvort seinka eigi klukkunni og hafa þrír valkostir verið settir fram, sem vinna á úr í samráði við almenning.
Andsk... (ég meina shit). Skyldi blaðamaðurinn ekki sjá neinn mun á tveimur orðum, kostur og valkostur. Hið seinna er bölvuð rassbaga enda samsett af tveimur orðum sem bæði hafa mjög svipaða merkingu, val og kostur en á þeim er þó blæbrigðamunur.
Varla telst það blaðamanni til afsökunar þó að í skýrslunni um staðartíma á Íslandi, sjá hér, sé rassbagan notuð. Blaðamaður á að vita betur þó sumir embættismenn kunni ekki almennilega íslensku.
Ekkert er til sem heitir valkostur. Hins vegar hefur orðið náð fótfestu vegna þess að enginn mælir gegn því. Sama er með svo fjölda annarra orða sem allir eru hættir að agnúast út í. Hér eru nokkur dæmi til skemmtunar, sönn og skálduð:
Pönnukökupanna
Pottjárnspottur
Dýragarðsdýr
Bílaleigubíll
Borðstofuborð
Peningaþvættisþvættingur
Hestaleiguhestur
Knattspyrnudeild Knattspyrnufélags Reykjavíkur.
Tréherðatré
Hafnarfjarðarhöfn
Vestmannaeyjaeyjar
Fimleikadeild Fimleikafélags Hafnarfjarðar
Að vísu eru sum orðanna góð og gild önnur tómt rugl, svona strangt til tekið. Gaman væri að fá fleiri svona orð frá lesendum. Samsetningin getur verið bráðfyndin.
Ég hef safnað svona orðum, einnig tvítekningarorðum í örnefnum. Hér eru nokkur dæmi:
Axlaröxl í Vatnadalsfjalli
Árdalsá i Andakíl
Bjargabjörg á Skaga
Eyjarey sunnan Skagastrandar
Hoffellsfjall við Hornafjörð
Hólahólar undir Jökli
Staðarstaður á Snæfellsnesi
Skagastrandarströnd, gæti verið við Skagaströnd
Dalsdalur í Skagafirði (og raunar víðar)
Þó þetta sé nú fyrst og fremst til skemmtunar segja svona tvítekningarorð dálitla sögu sem er fróðleg þegar tungumálið er skoðað.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður
Ég varð alsæll þegar ég rakst á umfjöllun á mbl.is hvar sagt var frá þessum skrifum þínum. Ég las reglulega pistla Eiðs heitins Guðnasonar mér til ánægju og gagns. Hef ég saknað þess að einhver tæki upp þráðinn og nennti að skrifa um málfar í fjölmiðlum.
Þú óskar eftir orðum sem fela í sér tvítekningar. Heitið Bakkárholtsá hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og má finna skemmtilega skýringu á því á Vísindavefnum. En landanum er ekki alls varnað í nafngiftum sínum á náttúrunni og umhverfi okkar því í Vestur-Skaftafellssýslu má finna sveit sem kallast Fljótshverfi og í gegnum þá sveit rennur Hverfisfljót. Þetta gæti talist naumhyggja.
Með kveðju,
Magnús
Magnús (IP-tala skráð) 11.1.2019 kl. 00:49
Þakka þér fyrir, Magnús. Skil að fáir nenni svona skrifum, þau taka ansans ári langan tíma, að minnsta kosti hjá mér.
Skýringin á Vísindavefnum um Bakkárholtsá er svipuð því sem ég hef lesið um önnur örnefni. Um önnur hefur maður getið sér til hvernig örnefnin hafa þróast. Hoffellsfjall er örugglega kennt við bæinn sem hét Hoffell og var áður kennt við fjallið en nú er það kennt við bæinn. Eða hvað?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.1.2019 kl. 08:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.