Sturluð stoðsending, endilangt þvert og keppni sem vann

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Eignarréttur eyjunnar hefur verið þrætuepli milli landanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar þegar Rússar tóku Shikotan af Japönum.“ 

Frétt á bls. 6 í Morgunblaðinu 11.06.2018.        

Athugasemd: Hér er orðalagið ekki rétt. Af samhenginu má ráða að Rússar og Japanir deila um yfirráð yfir eyjunni, eignaréttinn. Nú er ekki er svo að eyjan sjálf sé með einhvern eignarétt eins og segir þarna.

Þarna vantar forsetningu og rétt fall. Hins vegar er þetta ekki vel orðuð málsgrein en það er annað mál.

Tillaga: Eignarréttur á eyjunni hefur verið þrætuepli milli landanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar þegar Rússar tóku Shikotan af Japönum

 

2.

Hjóla þvert yfir Bretland.“ 

Fyrirsögn á bls 28 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11.08.2018        

Athugasemd: Í viðtalinu er rætt við fólk sem hjólaði frá suðurhluta Englands til norðurstrandar Skotlands, sem sagt eftir endilöngu Bretlandi. Þetta gerðist í júlí en samt er sögnin að hjóla í fyrirsögninni í nútíð rétt eins og fólkið sé enn á ferð.

Hefði fólkið hjólað þvert yfir Bretland hefði það hjólað frá vestri til austurs eða öfugt, þverað eyjuna.

Í flestum sundlaugum syndir fólk eftir endilangri lauginni, ekki þvert yfir. Gangbraut liggur venjulega þvert yfir veg.

Orðskilningur blaðamannsins er þvert á rétta íslensku. Varla er hann þver, þá má búast við að hann þverskallist eða þvargi.

Tillaga: Hjóluðu um endilangt Bretland

3.

Sjáðu sturlaða stoðsendingu Wayne Rooney.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Orðfæri íþróttablaðamanna um fótbolta vekja oft furðu. Rooney átti ekki frábæra, magnaða, góða, ágæta eða vel heppnaða stoðsendingu. Nei, hún var sturluð. Hér er auðvitað verið að hefja efsta stig hefðbundinna lýsingarorða upp í eitthvað annað og heimssmíða veldi.

Mér finnst ekki fara vel á þessu, því gengisfelling veldisupphafningar hófst eiginlega strax og þetta varð vinsælt. Jafnvel aumustu sendingar eru sturlaðar eða geggjaðar. Leikmaður KA potaði boltanum frá vítateig og í gegnum hjörð andstæðinga og inn í markið. Þulur á sjónvarpsstöð kallaði þetta geggjað mark.

Nú má spyrja hvort útlokað sé að snúa aftur til eðlilegs máls í lýsingum á fótboltaleikjum eða hvort íþróttablaðamenn finni næst upp á þriðju veldisaukningu í lýsingum. Þá verði sendingar Rooneys og mörk hér á landi ekki lengur kend við veiki á geði heldur hugsanlega matreiðslu.Þá sjáum við líklega steiktar sendingar frá Rooney, grillaðar og jafnvel gufusoðnar.

Svo er það þessi árátta að ávarpa lesandann í fyrirsögn. Sjáðu, skoðaðu og svo framvegis. Þetta er bara gert í gulu pressunni, lélegum fréttamiðlum þar sem ritstjórnin kann ekki að búa til fyrirsagnir.

Tillaga: Frábær stoðsending Rooney skipti sköpum.

4.

Lokanir á umferðaræðum Suðurlands.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Skrauthvörf eru fyrirbrigði í flestum tungumálum, kallast líka veigrunarorð, fegrunarheiti, skrautyrði. 

Í fjölmiðlum er svona annars vegar til að ekki sé alltaf verið að tuða með sömu orðin og hins vegar til að gera lesturinn þægilegri fyrir lesandann eða hlustandann. Dæmi er að í stað þess að skíta ganga menn örna sinna eða hægja sér. Í vissu tilvikum æla menn eða gubba. Oft fer betur á því að segja að einhver hafi kastað upp.

Skrauthvörf ber að nota varlega, þau verða leiðinleg. Óþarfi er að kalla vegi umferðaræðar. Þetta eru bara vegir sem í sumum tilvikum má líkja við æðakerfi líkamans en er fyrir löngu orðið úrelt og þreytt samlíking.

Byrjendur í blaðamennsku og skrifum eiga ábyggilega eftir fara í beina útsendingu og segja: „[í svokölluðum „standupum“ byrja allir fréttamenn á því að segja já], við erum hér á umferðaræðinni Suðurlandsvegi og hér er verið að malbika. 

Einfalt mál er best.

Tillaga: Lokanir á vegum á Suðurlandi.

5.

Ungur starfsmaður setur öryggið greinilega á oddinn og notar eyrnaskjól og augnhlífar til þess að koma í veg fyrir skaða sem orsakast gæti vegna notkunar á hreinsitækinu.“ 

Texti með mynd á bls. í Morgunblaðinu 14.08.2018.       

Athugasemd: Myndatextar gegna mikilvægu hlutverki í dagblöðum. Alltof margir nota hann til að segja eitthvað sem þarf ekki að orða vegna þess að „mynd segir meira en þúsund orð“. Í stað þess að lýsa útbúnaði mannsins á myndinni hefði blaðamaðurinn getað sagt frá vélinni sem hann notar. Ekki er alveg skýrt hvað hún gerir og hvernig hún vinnur.

Svo er það orðalagið sem er fyrir neðan allar hellur. Þvílík steypa er þetta:

… að koma í veg fyrir skaða sem orsakast gæti vegna notkunar á hreinsitækinu.

Þetta er innihaldslaus langlokutexti sem hefur sáralitla þýðingu og er í sjálfu sér tímaeyðsla að lesa. Skynsamlegast hefði verið að setja punkt á eftir orðinu skaða. Hitt liggur í augum uppi.

Tillaga: Sleppa þessar málsgrein, hún segir ekkert.

6.

Elías sigraði leikritasamkeppni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1989.“ 

Frétt á dv.is.        

Athugasemd: Óvitaskapur er líklega orðið sem flestum dettur í hug þegar blaðamaður heldur því fram að einhver hafi sigrað keppni. Enginn sigrar keppni vegna þess að keppnin er ekki þátttakandi. Fólk sigrar í keppni. 

Í fréttinni er sagt frá Elíasi Snæland Jónssyni sem lengi var blaðamaður og aðstoðarritstjóri á Vísi. Hann tók við fréttum og greinum meðal annars frá óreyndum blaðamanni eins og undirrituðum og gerði athugasemdir, lét endurskrifa og hjálpaði mönnum til frekari þroska í faginu. 

Ansi er ég hræddur um að Elías væri orðinn uppiskroppa með rauða pennann væri hann stjórnandi á DV í dag. Hitt er pottþétt að undir góðri handleiðslu gæti meðal annarra fréttabarnið, sem heldur því fram að einhver sigri keppni, hugsanlega orðið góður blaðamaður þegar fram líða stundir.

Tillaga: Elías sigraði í leikritasamkeppni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1989.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband