Þórður, of lítið og of seint
17.5.2018 | 19:29
Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með handarbaksvinnubrögðum sem einkennt hafa launamál einstakra starfsmanna í Hörpu. Enn ótrúlegra er að hinn mikli sómamaður, Þórður Sverrisson, skuli ekki hafa haft betri stjórn á málum, er hann þó stjórnarformaður. Hann hefði átt að vita betur en hleypa máli í þær ógöngur sem þær eru komnar í.
Við, almenningur, vitum fátt annað er að laun framkvæmdastjórans hafi verið hækkuð og svo lækkuð aftur. Stjórn Hörpu hefur haldið því fram að um hafi verið að ræða falsfrétt, launin hafi aldrei verið hækkuð.
Svo voru á þriðja tug starfsmanna látnir taka á sig launalækkun. Þórður, þú lætur ekki almenna starfsmenn taka á sig launalækkun. Þú umbunar þeim og færð meira út úr starfi fólksins.
Verst hefur þó verið að fylgjast með framkomu framkvæmdastjórans sem hefur líklega skort auðmýkt og vinalegra framkomu. Það kann ekki góðri lukku að stýra í þessu glæsilega húsi sem á allt sitt undir meðlagi frá ríki og borg.
Og nú berast þær fréttir að stjórn Hörpu ætli að lækka laun stjórnarmanna. Svona látalæti eru gagnslaus. Þórður, þetta er of seint og skiptir ekki nokkru máli. Skaðinn er mikill og verður ekki afmáður með lækkun stjórnarlauna.
Hver sá eiginlega um almannatengslin fyrir Hörpu?
Fallið verði frá hækkun stjórnarlauna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þegar þetta mál kom upp þóttu mér viðbrögð framkvæmdastjórans undarleg, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ég velti því m.a. fyrir mér á hvaða forsendum framkvæmdastjórinn hefði verið ráðinn og þóttist fá svar við þeirri spurningu þegar stjórnarmenn byrjuðu að tjá sig. Það er eins og allir hafi verið sammála um "málstaðinn" og að engum hafi dottið í hug að velta upp öðru sjónarhorni.
Staða stjórnar og framkvæmdastjóra er síður en svo kræsileg (orðin hroki og síðar heimaskítsmát komu upp í huga mér) og það sem verra er, það mun ekki hljóma trúverðugt ef þau að endingu játa á sig mistök og biðjast afsökunar. Með öðrum orðum þykir mér þeim ekki sætt.
TJ (IP-tala skráð) 18.5.2018 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.