Bráðamóttökuþjónusta, þágufallssýki og hryðjuverk gegn íslenskunni

1.

„LeBron og ljósmyndaminni hans uppskáru klapp eftir ótrúlegt svar.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: LeBron er bandarískur körfuboltamaður. Hann virðist vera minnugur mjög sem er öfundsverður hæfileiki. Maður og minni hans er þó eitt og hið sama og verður ekki í sundur skilið. Ekki frekar en hendur hans eða aðrir útlimir, nefið eða eyrun.

Einhverjir myndu nú reka upp stór augu ef sagt væri um að þeir hafi átt stórleik, körfuboltamaðurinn og fætur hans. Ekki yrði undrun lesenda minni ef því yrði bætt við að hendur hans hafi átt síðri leik.

Vonandi skilst hér að LeBron uppskar klapp eftir ótrúlegt svar sem byggðist á góðu minni hans, það lék aungvan einleik þar sem maðurinn sjálfur var fjarri.

Hvað er nú eiginlega ljósmyndaminni? Samkvæmt orðanna hljóðan er minninu líkt við ljósmynd. Sá sem í hlut á getur lýst aðstæðum eins og hann væri að horfa á ljósmynd. 

Í því tilviki sem um er rætt er greinilegt að maðurinn gat lýst atburðarás, ekki einstöku atviki. Þar með væri réttara að tala um kvikmyndaminni eða hreyfimyndaminni. Þessi orð eru þó varla til. Réttast er því að blanda ekki ljósmynd saman við minni í þessu tilviki.

Gera mætti athugasemdir við annað orðalag í fréttinni.

Tillaga: LeBron fékk klapp fyrir að muna atburðarás afar skýrt.

2.

„Elvis yfirgefur bygginguna: Það tekur hann 2-3 skipti að velta fyrir sér læsingunum áður en hann kemst út.“ 

Fyrirsögn á dv.is.    

Athugasemd: Fyrirsögn er til þess gerð að vekja athygli lesenda. Í því felst að hún þarf að vera skiljanleg, ekki er nóg að hún grípi athygli fyrir kjánaskap.

Ofangreind tilvitnun í DV er óskiljanleg og bara kjánaleg. Enski frasinn „Elvis has left the building“ er þjóðfrægur í Bandaríkjunum og víðar. Uppruni hans er á þann vega að þegar Elvis Presley lauk tónleikum var mikið klappað og reynt að fá hann til að syngja eitt eða fleiri aukalög. Var þá iðulega gripið til þessa orðalags í þeirri von að áheyrendur hættu að klappa hann upp.

Þess má líka geta að í lok vinsælla bandarískra sjónvarpsþátta var í lok hvers þáttar sagt: „Fraser has left the building.“ Þótti það sköruglega mælt enda stóð frægð þáttanna og ágæt skemmtun undir gorgeirnum.

Köttur gengur út um glugga og fákunnandi blaðamaður þýðir þessi einföldu orð á íslensku sem við það missa reisn og verður eins og sprungin blaðra á gangstétt. Fyrirsögnin hjálpar ekkert upp á fréttina enda ekki neitt í henni sem réttlætir svona hana.

Skömminni skárra hefði verið að nota það sem hér er gerð tillaga um. Það var ekki gert enda les enginn yfir það sem fréttabörnin skrifa.

Tillaga: Kötturinn Elvis lærir af sjálfsdáðum að opna glugga.

3.

„Þeim vantaði markmann …“ 

Fyrirsögn á visi.is.     

Athugasemd: Margir hafa hætt að amast við „þágufallssýkinni“ en hún er engu að síður frekar hvimleið, að minnsta kosti þeim fjölmörgu sem var kennt að skilja hana og forðast. 

Þó sumir séu farnir að þola þetta þá er það engu að síður þannig að sagnir stjórna föllum. Sögnin að vanta krefst þess að fá þolfall, um það er ekki deilt.

Tillaga: Þá vantaði markmann …

4.

„Í morg­un voru 29 sjúk­ling­ar sem höfðu lokið bráðamóttökuþjón­ustu og voru að bíða eft­ir inn­lögn­um á legu­deild­ir.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Þetta er haft eftir lækni á bráðamóttöku Landsspítalans í Fossvogi. Hvað skyldi hið langa, margsamsetta og ljóta orð bráðamóttökuþjónusta þýða? Lykilorðið er hér þjónusta. 

Hingað til hefur sá sem veitir þjónustu verið veitandinn, bókstaflega. Þjónn á veitingahúsi þjónar til borðs. Afgreiðslumaður í verslun veitir neytandanum ákveðna þjónustu. Sama á við strætóbílstjóra og jafnvel lögreglumann sem hér áður fyrr var iðulega nefndur lögregluþjónn en það starfsheiti virðist vera að tapast úr málinu. Jafnvel lækir, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliðar þjóna. Þegar þessir hætta í vinnunni má segja að þeir hafi lokið þjónustu.

Í nútímamáli er sá neytandi sem tekur við þjónustunni. Hann getur verið gestur á veitingahúsi, kaupandi í verslun, farþegi í strætó og almennur borgari sem lögreglumaður leiðbeinir. Á stofnanamáli má kalla þetta fólk þjónustuþega, en það er ákaflega ljótt og ógeðfellt orð og varla upp á það bjóðandi.

Sá sem þetta ritar finnst alveg ómögulegt og illskiljanlegt að að sjúklingar hafi „lokið bráðamóttökuþjónustu“. Þetta fólk þjónaði ekki neinum, það var til meðferðar. Af vinsemd má skilja orðið sem svo að sjúklingar hafi fengið bráðamóttökuþjónustu. Drögum þar línuna en ekki að þetta fólk hafi lokið þessari þjónustu. Það gengur engan veginn upp. 

Niðurstaðan er því sú að lykillinn til skilnings er sagnorðið sem við notum með stofnanaorðinu „bráðamóttökuþjónusta“, sögnin að fá í stað þess að ljúka. 

Tillaga hér að neðan er miklu skárri en tungutakið sem Landspítalafólkið hefur tileinkað sér og blaðamenn apa eftir með óttablandinni virðingu fyrir þeim fyrrnefndu. Læknir lýkur þjónustu en sjúklingur hefur fengið hana.

Mikið er ofnotkun nafnháttar leiðinleg. Voru að bíða í stað þess að segja og skrifa biðu.

Innlögn er meðal annars hafgola. Ég held að þegar heimamenn í Húnaþingi tala um innlögn þá eigi þeir við þokuna sem berst inn með norðan eða norðaustan golu.

Tillaga: Í morgun höfðu tuttugu og níu sjúklingar fengið bráðaþjónustu og biðu eftir að komast að á legudeildum.

5.

„Texasranch á KFC einn sá krispasti sem sögur fara af.“ 

Úr auglýsing frá Texasborgurum á Skjánum.

Athugasemd: Þegar Bjarni Thorarensen, skáld, frétti af dauða Baldvins Einarssonar orti hann þessa harmstöku sem er víðkunn og stórkostlega myndræn:

Ísalands 
óhamingju
verður allt að vopni;
eldur úr iðrum þess,
ár úr fjöllum
breiðum byggðum eyða.

Bjarni mátti ekki mæla fyrir harmi. Víst er að óhamingja Íslands verður ekki minni þegar óprúttnir auglýsingasölumenn fara með tungumálið eins og tilvitnunin bendir til. Þeir og þykjast klárir í „ungmæl´ensku“. Þeir sem þetta gera eru hryðjuveramenn, leitast við að skemma íslenskuna og þeim er sama um glæsileika hennar, fjölbreytileika og fegurð.

Og ekki aðeins við hönnuði auglýsingarinnar að sakast heldur bera stjórnendur KFC á Íslandi mesta ábyrgð á að svona bulli sé dreift yfir breiðar byggðir landsins. Skömm sé þessu liði.

Tillaga: Texsasranch á KFC, einn sá stökkasti sem sögur fara af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband