Jarðskjálftasvæðið NA Grímseyjar

eldstodvarkerfi-norduland-sjo 2Hér eru tvær mikilvægar staðreyndir sem áhugamenn um jarðfræði þurfa að vita:

  1. Jarðskjálftar eru sjaldnast fyrirboðar eldgosa
  2. Kvikuhreyfingar í jarðskorpunni valda jarðskjálftum sem leiða þó ekki alltaf til eldgosa.

Gríðarlegir jarðskjálftar hafa verið norðaustan við Grímsey frá því í byrjun febrúar 2018. Enn hafa þeir ekki leitt til eldgosa. Þetta gerðist ekki heldur þegar mikil jarðskjálftahrina varð á sömu slóðum frá 31. mars til 4 apríl 2013.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt er eldvirkni á flekaskilunum afar algeng. Staðreyndin er nefnilega sú að Ísland er á slíkum skilum og myndaðist vegna eldsumbrota sem enn standa yfir og því færist vestuhlut landins til vestur og hinn hlutinn til austurs.

jardskjalftar-grimsey-nafirJarðfræðingar hafa greint eldstöðvakerfin fyrir norðan land og eru þau merkt með rauðu á efstu myndinni. Svokallað Grímseyjarbelti er efri blá línan en Húsavíkurmisgengið sú neðri. Bæði eru þau hluti af flekaskilunum og á þeim tveimur eru jarðskjálftar tíðastir eins og glögglega sést á neðstu myndinni.

Sé efsta myndin stækkuð sjást nöfnin á eldstöðvakerfunum. Jarðskjálftarnir eru nú við Nafir, vestan og sunnan í því kerfi. Árið 2013 voru skjálftarnir nokkru sunnar, næstum á milli Nafa og Mánáreyjakerfisins. 

Eldgos varð á Mánareyjakerfinu árið 1867 en náði ekki upp á yfirborð. Engu að síður er sjávardýptin ekki mjög mikil þarna, líklega um 50 til 400 metrar.

SkjálftarNæsta mynd er af jarðskjálftasvæðinu norðaustan við Grímsey. Athugið að norður er til hægri.

Þetta er heillandi mynd af landslagi á sjávarbotninum. Þarna eru fell og fjöll, sum ansi brött og há, líklega um tvö til þrjúhundruð metrar. Sé myndin stækkuð og rýnt aðeins í hana, sjást bláir deplar á fjórum stöðum. Þetta eru eldgígar. Svörtu línurnar eru misgengi á hafsbotninum.

Neðsta myndin er nokkuð merkilegt. Hún sýnir jarðskjálfta á tímabilinu 1994 til 2006. Sjá má nokkur ártöl sem sýna upptök stórra skjálfta í gegnum tíðina.

Skjálftarnir raðast eftir flekaskilunum, það er Grímseyjarbeltinu og Húsavíkurmisgenginu. Rauðu örvarnar sýna rekstefnuna. Hægra megin rekur flekanna í suðaustur, en vinstra megin í norðvestur. Loks sjást sprungusveimarnir á landi en þeir hafa norður-suður stefnu á þessum slóðum. Myndina fékk égfyrir nokkrum árum á jarðfræðinámskeiði hjá Páli Einarssyni, jarðeðlisfræðingi, sem haldið var hjá Endurmenntun.

Myndir og upplýsingar í þessari stuttu samantekt eru að öðru leyti frá Isor, mjög áhugaverð og vel skrifuð grein hér.


mbl.is Lýsa yfir óvissustigi vegna skjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband