Óvissustig virkjað og góðar, betri eða bestu læknishendurnar
18.2.2018 | 12:47
1.
Tíu valkostir sem KSÍ gæti skoðað ef Heimir ákveður að hætta.
Fyrirsögn á fótboltavefsíðunni 433.pressan.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa fyrirsögn átti um tvennt að velja. Annars vegar að nota nafnorðið val eða nafnorðið kostur. Þessi tvö orð merkja næstum því það sama, á þeim er þó blæbrigðamunur.
KSÍ gæti átt tíu kosta völ, það er valið um tíu þjálfara í stað Heimis. Hins vegar er alveg ómögulegt að steypa saman þessu tveimur orðum, útkoman er slæm, valkostur er ljótt orð og það er órökrétt.
Eitthvað myndi nú blaðamaðurinn segja ef einhvern væri titlaður sóknarframlínumaður í fótboltaliði. Sóknarmaður er sá sem sækir og á að skora, hann er venjulegast í framlínu liðsins. Tvítekningar á borð við þessa á auðvitað ekki að nota.
Í stað þess að nota valkostur í fyrirsögninni hefði verið miklu betra að nota nafnorðið þjálfarar.
Raunar er fyrirsögnin léleg, of löng og barnsleg.
Tillaga: Tíu kostir fyrir KSÍ hætti Heimir.
2.
Í ákærunni er að finna eina lengstu setningu sem sést hefur á prenti í langan tíma.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hver skyldi nú vera munurinn á setningu og málsgrein? Í stuttu og einfölduðu máli mynda setningar málsgrein. Langa setningin er í raun löng málsgrein. Mjög algengt er að rugla þessu saman, sem er slæmt. Álíka eins og átta sig ekki á muninum á sentimetra og millimetra.
Raunar er fyrirsögnin ekki góð.
Tillaga: Í ákærunni er að finna eina lengstu málsgrein sem sést hefur á prenti í langan tíma.
3.
Endurtekið undir áhrifum fíkniefna á rúntinum með dóttur sína.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta er hörmulega léleg fyrirsögn, er þó blaðamaðurinn mjög reyndur og ætti ekki að gera sig sekan um svona klúðuyr. Hvað er eiginlega endurtekið? Maðurinn hafði áður verið undir áhrifum fíkniefna og gerist aftur sekur um óhæfuna, í bæði skiptin var hann með dóttur sína í bílnum.
Í þessu tilviki bera að nota atviksorðið aftur. Lögreglan tók bílstjórann aftur fyrir akstur undir áhrifum. Hugnist blaðamanninum ekki þetta getur hann svon sem notað orðasambandið enn á ný. Enn á ný tekinn ...
Tillaga: Tekinn aftur undir áhrifum fíkniefna á rútuntinum með dóttur sína.
4.
Óvissustig virkjað á Hellisheiði og Þrengslum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Útilokað er að virkja óvissustig? Þetta er slík endaleysa að maður spyr sig hvort það sé búið að útvista fréttaskrifum til Nígeríu. Stundum berast þaðan fjárpógsbréf á betra máli en þessu.
Hvað er óvissustig? Þetta er svona loðið og teygjanlegt orð, komið úr ranni Vegagerðarinnar og merkir líklega að aðstæður séu ótryggar. Þar af leiðandi er óvissustig ekki virkjað heldur er lýst yfir að slíkt ástand sé komið á. Þetta getur verið vegna náttúrulegra ástæðna, til dæmis ofankomu, skafrennings, sandfoks, hugsanlegs eldgoss og svo framvegis.
Alveg ómögulegt er að binda sig svo í tæknilga hugsun að skynsemi komist ekki að. Orðalagið verður einhvers konar nýkanselístíll, gáfulegt tal án gáfna.
Tillaga: Óvissustigi lýst yfir á Hellisheiði og Þrengslu vegna veðurs.
5.
Hellisheiðin, Þrengsli, Sandskeið, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru lokaðar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Tvennt er aðfinnsluvert í þessari litlu tilvitnun úr frétt af vefsíðu Morgunblaðsins. Annars vegar er það skortur á samhengi og hins vegar ákveðinn greinir á örnefni.
Mikilvægt er að hafa gott samhengi í skrifum. Ljótt er að sjá að eitt örnefnið hér að ofan er með ákveðnum greini en hin ekki. Best væri ef engin væri greinirinn.
Mjög fátítt er að örnefni og sérnöfn beri greini nema í sérstökum tilvikum. Ekið er yfir Hellisheiði og um Þrengsli. Þetta á fyrst og fremst við um ritmál. Í talmáli er ekki beinlínis rangt að segja að margar vörður séu á Hellisheiðinni þó betur færi á því að sleppa greininum.
Fáir kaup inn í Hagkaupinu/Hagkaupunum, Bónusinu, Nettóinu, þó er það til að eldra fólk leggi leið sína í Bónusið. Engu að síður versla margir í Krónunni, Melabúðinni eða Sunnubúðinni. Líklegast veltur notkun greinis á sérnöfnum fyrirtækja á hefð eða þá að sum taka auðveldara við honum en önnur.
Frekar óviðkunnanlegt er að taka svo til orða að einhver hafi gengið á Hekluna, Hvannadalshnúkinn, Syðstusúluna, Eyjafjallajökulinn, Herðubreiðina eða Vífilsfellið svo dæmi séu tekin. Einhvern veginn er það þó svo að sum örnefni taka betur við ákveðnum greini en önnur, nefna má Esjuna eða Hengilinn.
Þrátt fyrir það sem hér er sagt er sá sem þetta ritar er engu að síður hlyntari því að nota ekki ákveðinn greini í örnefnum eða sérnöfnum, en ekkert er þó án undantekninga. Enginn myndi þó bæta ákveðnum greini við mannanöfn, nema ef til vill í hálfkæringi.
Tillaga: Hellisheiði, Þrengsli, Sandskeið, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru lokaðar.
6.
Það eru engin rök fyrir því að færa hana ekki undir betri læknishendur.
Úr frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu, föstudaginn 16. febrúar 2018.
Athugasemd: Forðastu klisjur, segir Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri og blaðamaður, á vef sínum.
Ekki er með nokkrum hætti hægt að stigbreyta orðtök. Að flytja einhvern undir lænishendur er skýrt og greinilegt. Varla er hægt að tala um að flytja einhvern undir betri læknishendur. Við það verða hendurnar einhvers konar tæki, eins og sturtuhaus, sem sjúklingur er fluttur undir í von um einhverjar bót á ástandi
Vitleysan felst í því að skilja ekki hvernig orðtök eru mynduð og notuð, og halda að klisjur séu lesendum skiljanlegar.
Fái einhver ekki rétta meðferð hjá lækni er ráðið að leita til annars læknis.
Tillaga: Þetta eru engin rök gegn því að flytja hana til sérfræðinga/annarra lækna/annars sjúkrahúss.
7.
WOW-þota úr leik að sinni.
Fyrirsögn á bls. 4 í Fréttablaðinu, föstudaginn 16. febrúar 2018.
Athugasemd: Skilningur á málinu er grundvöllur á notkun þess. Þegar einhver er úr leik að sinni skilja flestir það svo að sá hinn sami sé ekki væntanlegur fyrr en talsvert síðar. Að minnsta kosti ekki nokkrum dögum.
Fótboltamaðurinn sem meiðist er ekki úr leik að sinni ef hann kemur aftur inn á völlinn. Ekki heldur ef varamaður kemur í stað hans en svo birtist hann í næsta leik. Hafi hann fótbrotnað, slitið hásinn eða álíka má fullyrða að maðurinn sér úr leik að sinni.
Í fréttinni kemur fram að þessi þota sé biluð og verði aftur komin í notkun eftir fjóra daga. Ekki er það nú langur tími. Máltilfinningin segir manni að fyrirsögnin sé ekki alveg rétt.
Tillaga: Biluð Wow-þota kemst fljótlega í loftið.
8.
Lægra hlutfall 17 ára tekur bílpróf.
Fyrirsögn á bls. 40 í Mannlífi, föstudaginn 16. febrúar 2018.
Athugasemd: Í fréttinni er ljóst að æ færri 17 ára ungmenni taka bílpróf. Þau voru 86,5% árið 1994 en 72,1% á síðasta ári. Lesandinn skilur þessar tölur þannig að sífellt færri þeirra sem eru 17 ára taka bílpróf.
Spurningin er því þessi: Af hverju má ekki segja það berum orðum. Hvað kemur hlutfallið þessu við?
Greinilegt er að æ færri lesa skynsamlegar leiðbeiningar Jónasar Kristjánssonar, fyrrum ritstjóra og blaðamanns, sjá jonas.is:
- Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
- Stuttur stíll er skýr og skýr stíll er spennandi.
Tillaga: Þeim fækkar sífellt sem taka bílpróf 17 ára.
9.
Frakkinn Olivier Giroud skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea sem fór auðveldlega í gegnum Hull í 5. umferð enska bikarsins í knattspyrnu í kvöld þar sem lokatölur urðu 4:0.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvergi blómstra klisjur meira en á íþróttasíðum. Góðir blaðamenn á því sviði sanna þó, að svo þarf ekki að vera. En hinir veiklunduðu hrynja hópum saman fyrir handhægri flatneskju. Það er óafsakanlegt, en hefur ákveðnar skýringar. Þetta segir Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri og blaðamaður á vef sínum.
Því miður er ofangreind tilvitnun úr vef Moggans með afar léleg. Chelsea vann Hull með yfirburðum. Nei, blaðamaðurinn þurfti að finna einhverja klisju eða umorða sannleikann svo hann líti betur út, það er að hans mati. Chelsea fór auðveldlega í gegnum Hull. Þvílík della. Af hverjur lengir hann skrifin? Jú, það er vegna þess að hann kann ekki þá gullvægu reglu að skrifa stutt og skiljanlega og sleppa öllum klisjum. Líklega hefur enginn sagt honum til, eru þó margir framúrskarandi blaðamenn á Mogganum.
Tillaga: Frakkin Oliver Giroud skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea sem vann Hull 4:0 í 5. umferð enska bikarsins.
10.
Keflavíkur- liðið lagði allt undir og skildi allt eftir á gólfinu í Vesturbænum og uppskar eftir því á meðan KR-ingar voru ískaldir fyrir utan 3ja stiga línuna.
Úr frétt á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 17. febrúar 2018.
Athugasemd: Hvað þýðir orðalagið að skilja allt eftir á gólfinu. Veðja á að þetta sé heimatilbúið hjá íþróttafréttamanni og hann sé frekar óvanur skrifum og jafnframt illa lesinn.
Hvernig stendur svo á nástöðunni lagði allt undir og skildi allt eftir ? Þetta er einfaldlega ljótt að sjá.
Er sá sem heldur ró sinni talinn vera ískaldur? Oft tala íþróttafréttamenn um að sá sem er á vítapunktunum sé ískaldur, það er síst af öllu taugaóstyrkur. Í ofangreindri tilvitnun er merkingin hins vegar þveröfug. KR-ingarnir skoruðu fáar þriggja stiga körfur af því að þeir voru ískaldir, að sögn blaðamannsins.
Tillaga: Keflavíkur- liðið lagði allt undir og uppskar eftir því á meðan KR-ingar voru slappir fyrir utan 3ja stiga línuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.