Veitum hinum raunverulegu burðarásum orðu
1.1.2018 | 16:08
Engin ástæða er til að lasta þá sem forseti Íslands sæmdi á nýársdag heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Allt ábyggilega gott fólk og flestir heimsfrægir á Íslandi. Orðuveitingar hafa þó lengi einkennst af því að heiðra þá sem hafa unnið vinnuna sína um langa tíð, helst að lokinni starfsæfi. Alls kyns embættismenn hafa hlotið hana fyrir störf sem án efa hafa verið framúrskarandi, forystumenn í atvinnulífinu og listamenn af ýmsu tagi.
Minna hefur farið fyrir því ágæta láglaunafólki sem hefur sinnt störfum sínum af engu minni kostgæfni að starfsemin á vinnustað þeirra hefði farið á hliðina hefðu það ekki mætt í skamman eða lengri tíma.
Mér er það minnisstætt á árinu sem leið að starfsmaður sýslumannsembættis varð bráðkvaddur, samstarfsmönnum og vinum til mikillar sorgar ekki síður en fjölskyldu. Starf þessa ágæta manns varð ekki fyllt fyrr en löngu síðar jafnvel þó allir samstarfsmenn legðust á eitt.
Á vinnuferðum mínum um landið allt síðasta ár hef ég kynnst fjölda fólks sem eru burðarásar á vinnustöðum sínum, skynsamt, yfirvegað, harðduglegt og heiðarlegt fólk. Ég á hér ekki við stjórendur eða yfirmenn heldur fólkið á gólfinu eins og það er oft nefnt. Hversu mikilvægt er það ekki fyrir þjóðfélagið að sem flestir búi yfir þessum kostum? Nóg er af úrtölufólkinu, slugsurum og þykjustuliðinu.
Ég gæti nafngreint fjölda fólks hjá sýslumannsembættum landsins sem eiga skilið að fá orðu fyrir störf sín. Auðvelt er að nefna jafnmarga sem hafa sinnt félagsmálum og verið þar burðarásar. Í ónefndu ferðafélagi þekkti ég fólk sem naut félagsskaparins en lagði á sig ómælda vinnu til að félagið næði að blómstra og viðskiptavinir þess gætu notið þess að ferðast um landið.
Lesendur mínir geta ábyggilega bætt hér um betur og nefnt alþýðumanninn, konu og karl, sem ættu skilið orðu fyrir störf sín. Fólkið sem sinnir störfum sínum á þann hátt að mætti það einn góðan veðurdag ekki í vinnuna eða félagslífið myndi þjóðfélagið hreinlega stöðvast. Ég er næstu því vissuum að jörðin myndi hætta að snúast.
Einhver lesenda minna sem er málkunnugur forsetanum ætti að skjóta þessu að honum. Má vera að við næstu orðuveitingu fengju burðarásarnir umbun þjóðfélagsins fyrir störf sín. Þá yrði kátt á landinu.
Tólf fengu fálkaorðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér Sigurður. Án þess að gera lítið úr neinum þeirra, sem fengið hafa þessar orður gegnum árin, væri gaman að sjá fleiri Jóna og Gunnur í þessum hópi. Alþýðufólk sem afrekar eitthvað umfram það, sem til er ætlast af þeim.
Þakka góða pistla gegnum tíðina, með áramótakveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 1.1.2018 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.