Skjálftar í Skjaldbreið, kvika eða spennulosun ...
11.12.2017 | 09:24
Hratt dregur úr skjálftavirkni í Skjalbreið eins og greinilega má sjá á tímalínu á vedur.is. Athygli vekur samt hversu lítil dreifing er á skjálftunum. Þeir eru því sem næst í einum hnapp, skammt neðan við gíginn að austanverðu. Þetta sést greinilega á kortinu sem hér fylgir og er af vedur.is.
Leikmaðurinn heldur að þetta segi nú ákaflega lítið um aðstæður annað en að þarna er jarðskorpan frekar sprungin sem getur verið ástæðan fyrir því að skjálftarnir hafa verið svona staðbundnir. Þó sést á gögnum að þeir eiga uppruna sinn frá um 11 km dýpi og upp í fjögurra km. Hmm ... dularfullt.
Aðeins níu skjálftar voru stærri en tvö stig og þeir eiga það sammerkt að eiga uppruna sinn á fimm til sjö km dýpi. Er það ekki skrýtið?
Væri þarna um kvikuinnskot að ræða dregur leikmaðurinn þá ályktun að fleiri skjálftar myndu finnast og á stærra svæði í kringum fjallið.
Hér eru nokkur dæmi um skjálfta sem orðið hafa vegna kvikuinnskota í jarðskorpunni.
Norðaustan við Öskju hafa verið viðvarandi skjálftar, sértaklega í kringum Herðubreið. Skjálftarnir hafa haft sömu einkenni, verið staðbundnir. Svo hafa þeir dáið út en skömmu síðar hafa orðið samskonar skjálftar skammt frá.
Í Mýrdalsjökli hafa orðið svipaði skjálftar. Þar hafa komið hrinur af og til, verið nokkur staðbundnir en síðan hreyfst um öskjuna á sama hátt.
Í Öræfajökli byrjuðu skjálftarnir í austurhlíðum jökulsins en hafa síðan dreifst um það allt, síst mælast þeir í öskjunni sjálfri. Miklu frekar austan hennar og norðan.
Leikmaðurinn dregur því þær ályktanir af ofangreindum dæmum að skjálftarnir í Langjökli eigi ekki uppruna sinn í kvikuinnskoti heldur séu þeir af völdum spennu sem hreinlega losnar á þessum slóðum. Spennan getur hafa byrjað vestast á Reykjanesi og færst síðan upp í Langjökul. Vitað er að skjálftar á einum stað á Reykjanesi, og einnig Suðurlandi og ábyggilega víðar, hafa byggt upp spennu og valdið skjálftum á öðrum stað og svo koll af kolli.
Leikmaðurinn viðurkennir að þessi röksemdafærsla er götótt og ekki síst fyrir þá sök að í Heklu eru sárafáir skjálftar. Engu að síður draga vísindamenn þá ályktun, og hafa stuðning af mælitækjum sínum, að kvikuhreyfingar séu undir því og skammt kunni að vera í gos.
Sem sagt, það sem hér hefur verið sagt eru staðlausir stafir ...
Myndin var tekin í gær og sjá má að þá var Skjaldbreið enn á sínum stað og óbreytt þrátt fyrir jarðskjálftanna. Eða eins og einn glöggur lesandi fyrri pistils um Skjaldbreið sagði í athugasemdum:
Verra væri hinsvegar ef gosið kæmi upp í hlíðum Skjaldbreiðar en ekki í toppgígnum því þá gæti hin reglulega skjaldlögun fjallsins aflagast. Ekki viljum við það.
Engin merki sjást um eldgos | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.