Þúsundir hlaupa hlaup og barn gengur á græna kallinum

Nokkrar athugasemdir um málfar og málnotkun í fjölmiðlum, sumar léttvægar en aðrar verri.

1.

„Lawrence sem er ein áhrifamesta kona heims í dag hélt nýlega ræðu í fögnuði fyrir konur í Hollywood sem haldin var af Elle, þar tjáir hún sig um þessa reynslu.“ 

Frétt á pressan.is.    

Athugasemd: Ætli blaðamaðurinn hafi ekki óvart skrifað „fögnuði“ í stað „fagnaði“ frekar en að hann hafi ekki vitað betur? Góð regla að láta einhvern annan lesa yfir fyrir birtingu.

Fagnaður merkir veisla, jafnvel „partí“ og visslega kann að vera fögnuður í fagnaði.

Fögnuður er gleði sem er persónubundin. Í veislu getur ríkt fögnuður sem þó er ekki alltaf reyndin.

Greinilegt er að þessi orð eru af sama uppruna og sami maður getur verið feginn að hafa tilefni til að fagna.

Tillaga: Lawrence sem er ein áhrifamesta kona heims í dag hélt nýlega ræðu í fagnaði fyrir konur í Hollywood sem haldin var af Elle, þar tjáir hún sig um þessa reynslu.  

2.

„Þannig hefst frétt Los Ang­eles Times í gær­kvöldi en Campos er sá sem árás­armaður­inn skaut á hót­el­inu í Las Vegas áður en hann skaut 58 manns til bana og særði tugi.“ 

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Nástaða er leiðinleg og pirrandi. Hér hefði auðveldlega verið hægt að losna við hana, aðeins að lesa yfir og vera gagnrýninn á eigin skrif.

Tillaga: Þannig hefst frétt Los Ang­eles Times í gær­kvöldi en Campos er sá sem árás­armaður­inn skaut á hót­el­inu í Las Vegas áður en hann myrti 58 manns og særði tugi annarra.   

3.

„70.000 hlaupa skemmtihlaup.“ 

Frétt á baksíðu viðskipablaðs Morgunblaðsins 19. október 2017.     

Athugasemd: Kjánalegt er að orða það þannig að einhver hlaupi hlaup, skiptir engu hvað hlaupið er kallað.

Tillaga: 70.000 taka þátt í skemmtihlaupi.   

4.

„Salurinn sprakk, mamman grét og dómararnir misstu það.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Skemmileg fyrirsögn en hvað skyldu dómararnir hafa misst? Þetta er raunar ein furðulegasta fyrirsögn sem um getur og erfitt að skýra skringilegt orðalag.

Tillaga: Salurinn sprakk, mamman grét og dómararnir misstu ... lystina/vatnið/áhugann/lífið/sig (hef ekki hugmynd).

5.

„Láti hann verða af því gæti það orðið til að skvetta olíu á eld­inn.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Þetta er afar undarleg málsgrein og vart skiljanleg. Blaðamenn ættu ekki að skreyta skrif sín með orðatiltækjum, málsháttum eða orðalengingum sem bæta engu við efni frétta. Þess í stað er betra að skrifa nákvæmlega það sem um er að ræða. 

Tillaga: Láti hann verða af því gæti hann aukið enn á óróann.

6.

„Héraðsdóm­ur komst að þeirri niður­stöðu að menn­irn­ir ættu rétt á miska­bót­um vegna ærumeiðandi aðdrótt­ana sem fæl­ust í um­mæl­un­um sem hafa nú verið ómerkt.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Frekar ljótt þegar tvö tilvísunarfornöfn eru í sömu málsgrein, „… sem fælust …“ og „… sem hafa …“. Afskaplega auðvelt er að snúa sig út úr svona bóndabeygju með snyrtilegum punkti.

Tillaga: Héraðsdóm­ur komst að þeirri niður­stöðu að menn­irn­ir ættu rétt á miska­bót­um vegna ærumeiðandi aðdrótt­ana sem felast í um­mæl­un­um. Þau hafa nú verið ómerkt.

7.

„Með sí­vax­andi fjölda gesta hafði mynd­ast ákveðið spor í spírallaga sneiðing upp hól­inn. Fór sporið bæði breikk­andi og seig niður.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Spor er far á jörðu eftir fót manna eða dýra. Þar sem sjást mörg fótspor er talað um slóð og það á við í þessu tilviki. Spor er eins í eintölu og fleirtölu en breytist með greini. Af þessu má sjá að málsgreinarnar eru ekki rétt orðaðar. Þetta er þó ekki algilt.

Í norðurlandamálum er spor til sem slóð. Nefna má „skispor“, skíðaslóð sem er troðin leið fyrir gönguskíðafólk. Búin eru til tvö spor, fyrir sitt hvort skíðið. Í íslensku er sagt að járbrautalest aki eftir spori sínu. Við óhapp kann hún að fara út af sporinu. Sporgöngumaður er sá sem gengur í sömu spor og sá sem leiðir. Hér er bókstaflega átt við spor, ekki slóð. Spor er yfirleitt aldrei notað um göngustíga eða gönguslóð og engin ástæða til.

Spírallaga er tökuorð sem skilst en betra er að nota orðið skáhallt.

Tillaga: Göngufólk hafði myndað slóð skáhallt upp hólinn. Hún seig og breikkaði eftir því sem fleiri gengu þarna um.

8.

„Ný og glæsileg Hagkaupsverslun hefur opnað í Kringlunni.“ 

Fyrirsögn í auglýsingu á bls 21 í Morgunblaðinu 28. október 2017      

Athugasemd: Hér er spurning til lesandans: Hvað opnaði Hagkaupsverslunin? 

Svör skulu send til Finns Árnasonar, forstjóra Haga, en fyrirtækið á og rekur Hagkaupsverslanirnar. Netfangið hjá Finnir er fa@hagar.is. Verðlaun fyrir rétt svar eru ókeypis vöruúttekt í Hagkaupi í heilan mánuð ... nei, heilt ár!

Tillaga: Ný og glæsileg Hagkaupsverslun opnuð í Kringlunni..

9.

„Þáttaröðin gerist í djúpri sjöu þegar hugtakið „fjöldamorðingi“ er óþekkt og almennt er gert ráð fyrir því að morðingjar, fjöldamorðingjar og nauðgarar séu einfaldlega fæddir brenglaðir.“ 

Úr dálkinum Ljósvaki á bls.64 í Morgunblaðinu, 28. október 2017.      

Athugasemd: Hér er vísað í þátt á Netflix sem höfundur pistilsins segir að „gerist í djúpri sjöu …“ Það skilst alls ekki. Sé verið að vísa til tímabils þá stenst það ekki því þáttaröðin á að hafa gerst á níunda áratug síðustu aldar.

Síðar í pistlinum segir:

Heilt á litið er þáttaröðin frábær og Ljósvaki mælir hiklaust með binge-áhorfi fyrir þá sem ekki nenna að fylgjast með kosningunum um eina ferðina enn.

Hvað er þetta „binge-áhorf“? Er höfundurinn að slá um sig með tæknilegri tilvísun eða áttar hann sig ekki á því hvað hann er að skrifa og fyrir hverja. Grundvallarregla blaðamanns er að skrifa skiljanlega, upplýsa lesandann. Um þetta má svo sem deila því til hvers að einfalda hlutina þegar svo auðvelt er að flækja þá.

Tillaga: [Engin tillaga]

10.

„En sannleikurinn er hann var að ganga yfir á græna kallinum. Hún sá hann ekki og það varð til þess að þegar hún beygði inn á gangbrautina klessti hún á Kára.“ 

Úr frétt á pressan.is.     

Athugasemd: Í skelfilega illa skrifaðri frétt er þessa tilvitnun að finna. Á umferðaljósi við gangbraut er mynd af manni. Börn tala um græna eða rauða kallinn. Þannig læra þau hvenær megi ganga yfir.

Fullorðnir mega svo sem tala barnamál. Hins vegar þurfa blaðamenn að laga og leiðrétta málvillur viðmælandans þegar fréttin er skrifuð. Ekki er öllum gefið að vera blaðamaður og kunna að skrifa frétt.

Ökumaðurinn „klessti á Kára“. Svona orðalag er ekki bjóðandi. Bíl er ekki „klesst“ á gangandi vegfaranda. Má vera að hægt sé að klessa flugu en ekki fólk ... að minnsta kosti er þetta afar óviðeigandi orðalag. Blaðamaður sem áttar sig ekki á þessu er í röngu starfi.

Tillaga: Sannleikurinn er sá að hann gekk yfir á grænu ljósi. Hún sá hann ekki og ók á því Kára á gangbrautinni.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband