Fréttablaðið í herferð gegn Bjarna Benediktssyni?

Á talsmáta Svandísar Svavarsdóttur, alþingismanns og fyrrum ráðherra Vinstri grænna, heitir það „klúður“ að Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, skuli ekki hafa hlutast til um „eitthvað“ þegar Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun.

Engu að síður hafði Svandís staðið að því ásamt félögum sínum og öðrum þingmönnum að stofna og setja lög um Bankasýslu ríkisins. Stofnunin er með sérstaka stjórn, framkvæmdastjóra og starfsmenn sem hafa þann starfa að sinna eignarhaldi ríkisins á fjármálastofnunum, þar með talið Landsbankanum. Markmiðið var að færa bankamálin í burtu frá stjórnmálunum. Það veit Svandís en skiptir hana engu máli.

Enginn efast um að æðsta takmark Svandísar Svavarsdóttur er að koma upp um „spillingu“ Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokksins, og því talar hún um „klúður“ Bjarna vegna þess að hann aðhafðist „ekkert“ í þessu Borgunarmáli. Svo óforskömmuð er þessi stjórnmálamaður að hún svífst einskis í pólitík sinni, lætur að því liggja að þar sé spilling sem engin er. 

Verri og leiðari virðist Fréttablaðið vera í sínum leik. Á forsíðu blaðsins í dag forsíðan lög undir frétt með þessari fyrirsögn, sem er á stærð við það þegar hamfarir verða eða stríð brjótast út:

Einar ræddi Borgunarmálið ekki við Bjarna frænda sinn.

Sem sagt, einn þeirra sem keyptu hlut Landsbankans í Borgun ræddi ekki við bróðurson sinn um málið. Hver er þá fréttin? Jú, hún er á sama meiði og talsmáti Svandísar Svavarsdóttur, alþingismanns Vinstri grænna, að láta að einhverju liggja, ekki segja það beinum orðum heldur eftirláta öðrum túlkunina.

Og þannig segir meðal annars í forsíðufréttinni í Fréttablaðinu og síðan endurtekið með smávægilegum orðalagsbreytingum í innfrétt:

Það hefur vakið tortryggni í tengslum við umrædd viðskipti að Einar og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eru frændur. En Einar segist ekki hafa látið frænda sinn vita af því að hann hygðist taka þátt í þessum viðskiptum. „Nei, ég hef aldrei rætt þetta mál við hann,“ segir Einar.

Aðspurður segist Einar ekki hafa haft áhyggjur af því að skyldleiki sinn við Bjarna Benediktsson yrði til þess að gera málið tortryggilegt. „Nei, það hvarflaði ekki að mér.“ Einar segist hafa fengið fyrstu upplýsingar um viðskiptin í nóvember 2014, í sama mánuði og viðskiptunum lauk.

Flestir sjá að „fréttin er dauð“, ekkert nýtt er í henni. Hvers vegna er búin til frétt um þetta? Jú, ábyggilega vegna þess að „lesendur okkar þurfa að vita hvað er að gerast“ verða ábyggilega viðbrögð ritstjóra blaðsins. Þá dugar ekki bara forsíðan heldur þarf að endurtaka sömu „frétt“ inni í blaðinu. Hver er tilgangurinn ef ekki að gera Bjarna Benediktsson tortryggilegan?

Þetta sjá allir og skilja enda framsetningin nokkuð umbúðalaus. 


mbl.is Landsbankinn ber ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband