Þvingunaráskriftin að Ríkisútvarpinu gengur ekki
24.7.2013 | 11:15
Ríkisútvarpið er enn og aftur í umræðunni og núna vegna skorts á hlutleysi. Einhverra hluta vegna er það talið sjálfsagt og eðlilegt að fá Hallgrím Helgason, rithöfund og samfylkingarmann, til að vera með reglulega pistla í útvarpi »allra landsmanna« og gefa honum tækifæri til að tjá skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar. Hallgrímur á að sjálfsögðu rétt á því að tjá sig eins og aðrir, en ef Ríkisútvarpið á að vera vettvangur fyrir pólitískan áróður er eðlilegt og sanngjarnt að öll sjónarmið fái aðgang að hljóðnemanum í Efstaleiti. Það virðist hins vegar ekki vera raunin eða það er mín tilfinning að sum sjónarmið virðast eiga betri aðgang að stofnuninni en önnur.
Þannig skrifar Vilhjálmur Andri Kjartansson, blaðamaður á Morgunblaðinu, í Pistli dagsins á bls. í blaði sínu. Ég er einfaldlega sammála Vilhjálmi. Skil raunar ekkert í því hvers vegna ég fæ ekki að tjá skoðanir mínar í Ríkisútvarpinu á sama hátt og Hallgrímur Helgason. Hann er hlutdrægur og ég verð það líka en á öndverðum meiði við Hallgrím.
Vilhjálmur ræðir um skylduáskrift að Ríkisútvarpinu og hann er ósáttur við hana, vill eðlilega velja hvaða sjónvarp hann horfir á. Hann segir:
Ég kaupi ekki áskrift af Stöð 2 þar sem kostnaðurinn vegur ekki upp á móti dagskrárefninu sem ég myndi hugsanlega gefa mér tíma til að horfa á. Hins vegar kaupi ég áskrift af Stöð 2 Sport í þeim tilgangi einum að horfa á umfjöllun um íslenska knattspyrnu, þannig virkar frjáls markaður. Um Ríkisútvarpið gilda hins vegar einhver allt önnur lögmál á óljósum forsendum um sérstakt hlutverk stofnunarinnar.
Þetta snýst allt um val einstaklingsins, hvað honum fellur í geð og hvað ekki. Ríkisútvarpinu er hins vegar þröngvað upp á fólk, hvort sem það vill eða ekki.
Ég trúi því ekki að fólk myndi sætta sig við að þjóðinni yrði gert að greiða áskrift að Morgunblaðinu og hún innheimt í formi skatta. Vilhjálmur orðar þessa hugsun svo ákaflega vel er hann segir þetta í niðurlagi Pistilsins:
Ég furða mig á siðferði þess fólk sem gerir þá kröfu til mín að greiða niður dagskrárefni Ríkisútvarpsins á sama tíma og það lofar sig fyrir að lesa ekki né kaupa Morgunblaðið því þar gætu mögulega leynst sjónarmið sem því hugnast ekki. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að skattgreiðendur ráði hvort þeir greiði í Ríkisútvarpið eða eitthvað annað eins og t.d. til björgunarsveita landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.