Slími sprautað í kjöt og fisk ...!

Mörg gáfumenni eru misskilin og talin vitgrönn því þau kunna ekki þá reglu að þegja þegar það á við. Þetta datt mér í hug á laugardagsmorgni er ég las athugasemdir frétt á dv.is um innkaup Halldórs Jónssonar, verkfræðings í Flórída. Í fréttinni segir:
 
Halldór tekur dæmi af innkaupum sínum eitt kvöldið fyrir matarboð sem hann bauð til. „Fór í búð um kvöldið. Keypti 12 Heineken bjóra, 1.5 L af góðu hvítvini og 1.5 L af góðu rauðvíni, það var von á gestum, 12 svínakótelttur,kartöflur, baunadós, 1,5 lítra af ís, glas af rauðkáli, sítrónur, eintak af Time. 95 dollarar. 

Og nítíu og fimm dollarar eru um tólf þúsund og fimmhundruð krónur svo það sé nú á hreinu. Og svo segir áfram í fréttinni og er vitnað beint í ofangreindan Halldór:

0.75 L af bourbon wiskí á 9 dollara. Fatnaður ótrúlega ódýr.Einbýlishús á 100 000 dollara. 80 % lán á 3.%. Íbúðir á 70.000. Stór nýr bíll á 25.000 dollara. Notaðir á skít og kanil. Og til viðbótar þá eru tannlæknar svo ódýrir og góðir hérna að fólk er farið að beinlínis að koma hingað til að nýta sér þá.
 
Þetta er nú allt gott og blessað og fróðlegt að lesa um að verðlag á stórum markaðssvæðum sé lægra en hér í fámenningu lengst út í ballarhafi. En DV býður lesendum sínum að gera athugasemdir við fréttir og ekki vantar það við þessa frétt og þar komum við að gáfumönnunum, látum þá vitgrönnu vera. Eiginlega eru athugasemdirnar þrjátíu og sex svo kostulegur lestur að halda mætti að þeir vitgrönnu héldu á penna en ekki öfugt.
 
Einn 48 ára maður segir, og er hann kynntur til sögunnar sem „sá með flest ummæli“:
 
Það má benda Halldóri Jónssyni á það að ein af ástæðum þess hvað verðlag allt á Íslandi er hátt er hinn landlægi klíkuskapur og spilling sem eru sannkölluð þjóðarmein. Hann veit áreiðanlega hvað við er átt og getur ásamt félaga sínum Gunnari Birgissyni velt því fyrir sér í góðu tómi.

Engin önnur rök fylgja. Annar, sagður menntaskólakennari, segir svo afskaplega skorinorður og skýr:

Hvað eru LÁGVÖRUR? Eru það vörur eins og kjöt og fiskur sem er búið að sprauta með alls konar sykurvatni, próteindufti og slími til að þyngja það? Eða er eitthvað annað að baki því að kalla vörur lágar eða háar?

Þetta með slímið er nú aldeilis skúbb. Hugsið ykkur, matvörur sprautaðar með slími ... Ojbara. Annar leggur ómengað gullkorn í umræðuna:

Svo var sagt í Mogganum um daginn og varla lýgur Morgunblaðið að fjórði hver bandaríkjamaður væri ólæs og hefði ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. þar hafið það.

Hmm, hvað með verðlagið sem frá segir í fréttinni? Og fleiri grípa til röksemda af íturvaxinni þekkingu sinni og segja, þó óvíst sé um tilganginn:

Misþyrmt hormónakjöt og efnahagur sem gengur bara vegna þess að þeir sem sjá um framleiðsluna lifa í örbyggð í Mexico, Kína eða verksmiðjum í USA sem myndu aldrei hafa starfsleyfi á norðurlöndum. Hvernig getiði byrt svona einblýnt rugl?

Örbyggð er líklega hérað í Mexíkó. Skorinorðar yfirlýsingar vantar ekki heldur:

Viltu lifa meðan þú getur eða vera dauður áður en þú hefur lifað? Steik á túkall eða pulsa? Kom on!

Drekkum í dag, iðrumst á morgun, sagði skáldið. Ekki vantar heldur pólitíkina:

Þetta er Halldór Jónsson, verkfræðingur. Hann er fyrst og síðast sjálfstæðismaður og stjórnarandstæðingur, eins og sést á viðtalinu við hann. Hann myndi ekki þekkja velferðarkerfi þótt hann ætti lífið að leysa.

Einmitt, sjórnarandstæðingur og sjálfstæðismaður má ekki tjá sig ... Og svo vantar ekki heldur dýptina:

Því meir sem ég bý frá Íslandi, því meir líkist það því systkyni bandaríkjanna sem fékk aldrei í skóinn. 

Já, góðan daginn ... 

Læt þetta nægja af athugasemdum um litla frétt ef frétt skyldi kalla um verðlag ýmiss konar neysluvöru. Sleppti mörgu skynsamlegu en tók eiginlega bara öfgarnar. Þetta er svona sæmileg lýsing á ruglinu sem birtist í athugasemdum dv.is, lítið málefnalegt og sjaldan að þær bæti fréttina eins og ég hélt að væri nú tilgangurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þessi frétt í DV er engin frétt, heldur copering af bloggsíðu Halldórs, þess ágæta manns.

Það er staðreynd að verðlag víða erlendis er lægra en hér á landi, enda markaðir stærri og gjarnan ódýrara að framleiða matvöruna. 

Þetta eru hellstu rök aðildarsinna fyrir inngöngu í ESB og tel ég að Halldór hafi verið að sýna fram á að víðar en í Evrópu er hægt að fá ódýrar vörur.

Það sem þó kemur á óvart í þessu sambandi er að Ísland kemur bara nokkuð vel út í samanburði á matvöruverði, við löndin sem liggja norðanlega í ESB og er matvöruverð hér töluvert lægra en t.d. í Danmörku. Hver skýring þessa er liggur ekki ljóst fyrir, þar sem öll rök styðja það að verð matvöru ætti að vera töluvert lægra í Danmörku en hér, þó einungis stærð markaðarins sé tekin til greina.

Það er því spurning fyrir þá sem vilja sækja eftir aðild að einhverjum stórþjóðum, af því þeir telji að lækka mætti matvöruverð með þeim hætti, hvort þetta fólk ætti ekki frekar að sækja eftir því að við verðum 51. fylki Bandaríkjanna.

Það er svo spurning hvað matarkarfan hans Halldórs myndi kosta, kominn hingað nyrst norður á Atlantshafið, eftir flutning frá Flórída. Þá er víst að 12.000 kr. sem hann borgaði þar myndi ekki duga.

Gunnar Heiðarsson, 30.3.2013 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband