Fæðuöryggi þjóðarinnar og landbúnaðurinn

Hvernig tryggjum við Íslendingar fæðuöryggi þjóðarinnar? Eða er ekkert slíkt til sem kallast má því nafni og eru vesturlandabúar tryggðir gegn öllum þeim vanda sem hugsanlega getur valdið fæðuskorti?

Ég hef lengi velt þessum þætti öryggismála landsins fyrir mér án þess þó að komast að ákveðinni niðurstöðu. Held að við ættum samt að fara okkur varlega í að opna landið fyrir flóði erlendra landbúnaðarafurða sem gætu valdið því að íslenskur landbúnaður biði skaða af. Ekki má misskilja þessi orð á þann veg að landbúnaðurinn sé heilagur og ósnertanlegur. Síður en svo. Hann nýtur mikilla styrkja af almannafé og yfrir vikið á að gera kröfur til hans.

Ekki er einfalt mál að bera saman verðlag á t.d. matvöru á milli landa. Þar kemur margt til álita eins og til dæmis íbúafjöldi landsins og hlutfall innflutnings á matvöru, þ.e. að hve miklu leyti eru matvöru framleiddar innanlands og hversu mikið er nauðsynlegt að flytja inn. Sé gert ráð fyrir því að frjáls verðmyndun ríki í landinu þá má frekar búast við því að markaður ráði verðmyndun nema því aðeins og stjórnmálamenn geri innanlandsframleiðslu hærra undir höfði en innfluttri.

Þannig er það hér á landi, lögð eru tollar, gjöld og ýmsar aðrar takmarkanir á innfluttar landbúnaðarafurðir til þess að styrkja innanlandsframleiðslu.

Margir krefjast þess að innflutningur verði gefinn frjáls, íslenskur landbúnaður eigi að geta staðið jafnfætis útlendum þegar kemur að vali neytandans í verslunum hér á landi.

Ég er varkár, kannski íhaldssamur, og þó ég sé hlyntur frelsi leyfi ég mér að  staldra við og íhuga ýmis álitamál. Skoðum nokkur sem benda til þess að ekki skyldi gefa innflutning landbúnaðarafurða alveg frjálsan:    

  • Framleiðsla er dýrari hér á landi vegna náttúrulegra aðstæðna, uppskerur miklu færri en erlendis.
  • Framleiðsla hér á landi er „lífrænni" en víðast hvar annars staðar. Til dæmis má ekki nota fúkkalyf í fóður og hormónanotkun er bönnuð, varnir gegn skordýrum verða að vera náttúrlegar osfrv.
  • Vegna sjúkdómsvarna er innflutningur á erlendum dýrastofnum er miklum takmörkunum háður og þar með verður öll ræktun erfiðari.
  • Fæðuöryggi landsins byggist á því ef einhver ógn steðjar að annars staðar þá ætti þjóðin að geta brauðfætt sig. Nefna má styrjaldir, náttúruhamfarir af einhverju tagi, hrun í viðskiptum milli landa og fleira.
  • Landbúnaður er alls staðar niðurgreiddur og víðast deila menn um réttlæti slíkra styrkja. Verði slíkir styrkir lækkaðir eða aflagðir hækkar verðið að sjálfsögðu.

Við þurfum að muna eftir gosinu í Eyjafjallajökli 2010 er fulgumferð stöðvaðist um nánast alla Evrópu. Fyrir vikið dró úr innflutningi á matvælum og öðrum vörum sem framleiddar voru utan Evrópu.

Spurningin sem hvílir á mér og mörgum öðrum er einfaldlega sú hvort ekki séu hugsanlega aðstæður sem geta tafið eða komið í veg fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum í lengri eða skemmri tíma. 

Er einhver þess fullviss um að náttúruhamfarir utan Íslands, í Evrópu eða annars staðar, geti ekki valdið hörumungum í landbúnaðarframleiðslu sem bitnar á okkur? Á sama hátt má nefna hernaðarátök eða styrjaldir. Og síðast en ekki síst má ekki gleyma þeirri ógn semstafað getur af leka og óhöppum í kjarnorkuverum.

Þetta mál er flókið og ástæða til að staldra við og huga að framtíðinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband