Stráið græna og fimmti gírinn ...

Strá

Eitt af því merkilegasta sem ég hef séð er lítið grænt strá sem fann til sólarljóssins og leitaði upp úr öskunni á Bröttufannarfelli efst á Fimmvörðuhálsi - og komst í gegn. 

Og þarna um miðnætti á öskuþrúgandi Hálsinum, örskammt frá tveimur sjóðheitum gígum sem nýlega höfðu lokið ætlunarverk sínu, flögraði að mér sú hugsun hversu gaman það væri að geta ort ljóð. Ef þetta væri ekki staðurinn og stundin ... En ekkert gerðist og ég tók bara meðfylgjandi mynd.

Þá datt mér í hug erindið úr kvæðinu sem ég hef svo miklar mætur á, Áföngum eftir Jón Helgason. 

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm

sólvermd í hlýjum garði;

áburð og ljós og aðra virkt

enginn til þeirra sparði;

mér var þó löngum meir í hug

melgrasskúfurinn harði,

runninn upp þar sem Kaldakvísl

kemur úr Vonarskarði. 

Þetta flaug allt í einu í gegnum kollinn á mér þegar ég las Moggann í morgun og kom að pistli Péturs Blöndals á blaðsíðu 16. Hann nefnist „Íhaldsemi og skáldskapur“ og sker sig úr öllu þessu amstri um dæmgurmálin, rétt eins og græna stráið á Fimmvörðuhálsi.

Í pistlinum ræðir Pétur um þann ótta sem margir báru í brjósti um hefðbundið kveðskaparform, að atómljóðin svokölluðu, þessi ljós sem hafa ekkert form myndu gera útaf við ferskeytluna. Það gerðu þau ekki, eins og fram kemur.

Svo kom að þeirri meintu hættu sem ferskeytlunni stafaði af limrunni, hinu brátskemmilega ljóðaformi. Þá vitnar Pétur til Þórarins Eldjárns sem gerði lítið úr hættunni og sagði svo snilldarlega:

Alveg eins mætti þá leggjast gegn sonnettum eins og Eg bið að heilsa. Limran er löngu búin að vinna sér þegnrétt í

íslenskum kveðskap. Hún kemur aldrei í staðinn fyrir ferskeytluna þó hún geti ýmislegt sem ferskeytlunni er ekki hent. Ef til vill liggur munurinn aðallega í fimmtu línunni sem líkja má við fimmta gírinn í góðum bíl. 

Er það ekki góð byrjun á degi að lesa svona bjartan pistil um ljóð?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband