Snæfellsjökull rýrnar og rýrnar
29.8.2012 | 00:52
Myndin sem Haraldur Sigurðsson, eldjallafræðingur, tók af hæstu þúfunni á Snæfellsjökli er stórkostleg. Ég hef aldrei séð hana svona nakta, hef þó margoft gengið á Jökullinn.
Hér er mynd sem raunar er af pistilhöfundi og er tekin um miðjan júní 1993. Þarna má sjá glugga á Þúfunni. Vísbending þess sem koma skyldi.
Í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar var ég oft fararstjóri hjá Útivist í ferðum undir Jökul og við gengum oft upp. Í fyrstu ferðunum gat maður sett á sig gönguskíðin við þjóðveginn og gengið upp. Stundum fékk maður Tryggva Konráðsson, sem þá rak ferðir upp á Jökul undir nafninu Snjófell, til að koma með svigskíðin upp í ferðum sínum á snjótroðaranum. Þá fékk maður dúndurrennsli upp á nærri því tíu kílómetra.
Smám saman styttist þó rennslið. Tryggvi setti upp skíðalyftu undir Þríhyrningi. Lyfturnar komu úr Hveradölum við Hellisheiði. Skíðasvæðið entist ekki lengi því sífellt dró úr ákömu á jökulinn og alltaf hitnaði meira í veðri.
Núna er jökullinn krosssprunginn og erfitt að fara upp á hann nema um miðjan vetur.
Þessi saga af Snæfellsjökli minnir mig á eitt skiptið er ég kom á Grímsfjall í júlí 1991 eftir göngu frá Kverkfjöllum og var ferðinni heitið í Skaftafell. Held að annað hvort hafi verið lítil ákoma á jökulinn eða sumarið einstaklega heitt. Þá var enginn snjór í kringum skála Jöklarannsóknarfélgsins og fundum við ýmsar minjar um leiðangra á fjallið undanfarna áratugi. Jafnvel flöskur undan gosdrykknum Miranda sem ekki hafði verið framleitt í tuttug eða þrjátíu ár og gamlar Pepsíflöskur. Ógetið skal um mannlegan úrgang sem eigendur héldu ábyggilega að væri vel geymdur í jöklinum næstu mannsaldra.
Ætlaði hér að birta nokkrar myndir af Snæfellsjökli sem ég hef tekið undafarna áratugi en kom bara einni inn, af hverju, veit ég ekki.
Þúfan í jöklinum er íslaus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já það er gaman að fræðast um söguna okkar og takk fyrir þetta Sigurður og merkileg þessi litaafbrigði í jarðlögunum á toppnum, annars höfum við það er ég og fjölskyldan haft gaman að fara vestur og austur í steinaskoðanir og tínslur og eru þeir steinar sem við eigum hér heima alltaf jafn vinsælir í skoðun hjá yngri kynslóðinni ekki síður en fullorðnum.
Fyrsta jaspissteininn okkar fundum við rætur Snæfellsjökuls.
Kv.góð
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 29.8.2012 kl. 06:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.