Nátturuvernd er ekki einkamál vinstri manna
25.4.2012 | 09:08
Hugmyndir vinstriflokkanna um að fækka stórkostlega virkjanakostum eins og endurspeglast í rammaáætlun og umbreytingin á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem birtist í fiskveiðistjórnunarfrumvörpunum leiða því til meiri ásóknar mannsins í óendurnýjanlegar auðlindir jarðar. Stefna vinstriflokkanna í þessum málum opinberar þá sem auðlindasóða!
Ég er ekki alls kostar sammála Tryggva Þór Herbertssyni, alþingismanni, sem ritar grein í Morgunblaðið í morgun undir fyrirsögninni Auðlindasóðar. Fleirum sjálfstæðismönnum en mér er verulega annt um náttúru landsins og höldum því fram að ekki séu allar virkjanir af hinu góða. Vandinn er sá að að með vatnsaflsvirkjunum er landi sökkt. Óafturkræfar breytingar eru gerða á landi. Og sannast sagna eru ekki allir virkjunarkostir góðir, þeir geta verið rekstarlega óhagkvæmir eða staðsetningin getur rekist á við önnur not eins og landbúnað eða ferðaþjónustu og útiveru.
Vítin til varnaðar eru mörg og liggur beinast við að líta til svokallaðrar Hellisheiðavirkjunar en hún og umhverfi hennar var hannað á þann hátt að fallegu útivistarsvæði var gjörbreytt og það raunar eyðilagt. Lítum til Kárahnúkavirkjunar þar sem landi var sökkt vegna raforkuframleiðslu fyrir álver í Reyðarfirði. Þar er nú staðan sú að Íslendingum fækkar meðal starfsmanna og útlendingum fjölgar.
Ég sé ekki að ástæða sé til að virkja jarðhita á Torfajökulssvæðinu og gjörbreyta þá þessu stórkostlega svæði. Sama á við Hólmsá og Hólmsárlón, Langasjó og fleiri og fleiri staði. Eigum við virkilega að breyta Þjórsá og virkja hana og vaða síðan í Blöndu í Langadal? Þarnæst liggur beinlínis fyrir að auka við raforkuframleiðslu fyrir austan, hækka yfirborð Lagarins, skítt með það þó Egilsstaðir fari hálfir á kaf.
Rammááætlun er nauðsynlegt verkfæri til að gera sér grein fyrir virkjunarmöguleikum. Við þurfum ekki að teljast til vinstri manna þó við viljum vernda náttúru landsins.
Hins vegar skil ég ekki hvers vegna þingmaðurinn þarf að blanda saman rammaáætlun um virkjunarkosti og alræmdum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Nema því aðeins að þetta sé pólitískur leikur hjá Tryggva að koma því inn hjá fólki að þeir sem séu náttúruvernd og auðlindaskattur ríkisstjórnarinnar séu grein af sama meiði. Þetta er svona gamalt trix sem kemur áreiðanlega í bakið á þeim sem það nota.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:30 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta innlegg, Sigurður. Gott að sjá að enn skuli vera til menn í mínum gamla flokki, sem geta horft á hlutina af víðsýni eins og gert var í þeim flokki áður en Davíðsmenn tóku völdin.
Þórir Kjartansson, 25.4.2012 kl. 11:41
Bestu þakkir, Þórir. Hins vegar verð ég endilega að taka það fram að ég ber mikla virðingu fyrir Davíð Oddssyni og verkum hans.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.4.2012 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.