Engin orsakatengsl milli meints brots og hrunsins

Eftir mikið erfiði var komið að hinu pólitíska uppgjöri í Landsdómi í gær. Uppskeran gegn Geir H. Haarde, fyrrerandi forsætisráðherra, var lítil sem engin. Hann var sýknaður af öllum veigamestu ákvörðunum en dæmdur fyrir verklag sem allar ríkisstjórnir frá upphafi höfðu tileinkað sér.

Samkvæmt landsdómi var Geir ekki sekur um eftirfarandi ákæruatriði en þau eru eins og sjá má mjög alvarleg:

  1. að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri. 
  2. að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfuríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
  3. hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesavereikninga Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins

Ofangreint er auðvitað hin pólitíska ákæra. Á grundvelli fordæmisins er nú vandalítið að kæra Steingrím J. Sigfússon fyrir aðkomu hans að Byr, Spkef og Sjóvá. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í hefndarhug myndi hann eflaust undirbúa slíka málssókn, en hann er það ekki.

Hins vegar var Geir sakfelldur fyrir að „hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni …“. Allir geta hins vegar séð að þessi formkrafa segir ekkert til um þá fundi sem haldnir voru um efnið utan ríkisstjórnarfundar og þá með ráðherrum. Rétt er að þessir fundir voru ekki formlega skráðir né haldnar fundargerðir. Slíkt hefur aldrei verið gert í gjörvallri sögu stjórnarráðsins og þó svo að það hafi verið gert en Geir vanrækt það er varla hægt að líta að það sem stórfellda sök.

Væri Sjálfstæðisflokkurinn í hefndarhug væri honum í lófa lagið að ákæra Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir sama forsmatriði í tengslum við atvinnuleysi, skuldastöðu heimilanna og árásir ríkisstjórnarinnar á atvinnulíf landsmanna. En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í hefndarhug þó okkur flokksmönnum sé mikið niðri fyrir út af þessum makalausa Landsdómi og makalausri sakfellingu hans. 

Eiginlega hitti Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, naglann á höfuðið þegar hann segir í grein í Morgunblaðinu í morgun:

Engin skynsamleg tilraun hefur verið gerð til að sýna fram á orsakatengsl milli þessa brots og þeirra afleiðinga sem komu fram í hruni íslensku bankanna, enda engin leið að sýna fram á að formleg fyrirtaka þessara mála á ráðherrafundum hefði raunverulega breytt nokkru um rás atburða. Það var líka niðurstaða 6 dómara af 15 að einnig bæri að sýkna fyrir þennan ákærulið. Dreg ég enga dul á að ég tel að sú niðurstaða sé mun rökréttari en niðurstaða meirihlutans. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband