Getur lögreglan valið sér lög til þess að framfylgja?

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, ritar góða grein í Morgunblaðið í morgun. Hann ber saman aðgerðir lögreglunnar á Ísafirði og í Reykjavík þegar um stórviðburði er að ræða.

Fjölsóttir viðburðir í Reykjavík valda því að fólk freistast til að leggja bílum sínum þar sem þægilegast er. Í flestum tilvikum eru á almenn bílastæði orðin full og fátt annað til ráða. Nefna má til dæmis fótboltaleiki á KR vellinum, handbolta- eða fótboltaleiki í Laugardal og viðburði í miðbæ Reykjavíkur. Þá hagar lögreglan í Reykjavík sér eins og sjómenn í mokfiskeríi. Allir fá stórsektir og fjöldinn allur er óánægður og lögreglan gengur í gegnum erfiða tíma í eilífðar PR málum sínum.

Þetta gerist ekki á Ísafirði eins og Kristinn segir um fótboltaleik Kí/Bolungarvík og KR:

Bílum var lagt hvar sem hægt var án þess að það veldi truflun á umferð eða spjöllum á umhverfi, í vegarkanti eða á grasflötum. Það hefði verið hægur vandi fyrir lögregluna á Ísafirði að sekta bílaeigendur tugum saman ef hún nálgaðist löggæsluna eins og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. En það var ekki gert enda engin ástæða til. Það var aldrei til vandi sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af. Borgararnir leystu vandann sem var vegna skorts á bílastæðum á þann hátt að engin ástæða var fyrir afskipti lögreglunnar. Skynsemin ræður á Ísafirði. 

Kristinn nefnir einnig til sögunnar fjölsóttar hátíðir á Dalvík og að Hrafnagili. Lögreglan á þessum stöðum lét framtak ökumanna algjörlega afskiptalaust.

Löggæsla snýst einmitt um þetta, að láta skynsemina ráða. Sömu lög gilda á Ísafirði, í Eyjafirði og í Reykjavík en framkvæmdin er ólík. Fyrir gesti í Reykjavík er það dýrt spaug. Framundan er menning- arnótt og Reykjavíkurlögreglan gerði betur í því að viðhafa starfsaðferðir lögreglunnar í Eyjafirði og vinna með gestunum.

Undir þessi orð Kristins er óhætt að taka. Ekki dugar fyrir lögregluna að halda því fram að fólk eigi að bara að taka strætó eða koma gangandi. Aðalatriðið er að lögreglan á ekki að efna til einhvers ófriðar við almenning. Vissulega er um að ræða lögbrot þegar bílum er lagt hist og her. En það er regla í allri óreiðunni. Hver og einn gerir sitt besta og umferðin gengur snuðrulaust fyrir sig bæði fyrir of eftir. En líklega er það ekki aðalatriðið heldur hvernig lögreglan kýs að velja sér lögbrot til að vinna í og Kristinn hnýtir í þetta:

Það þarf frekari skýringa við í ljósi framkvæmdarinnar á sömu lögum annars staðar á landinu. En lögreglan sjálf grefur undan þessum rökum sínum með aðgerðarleysi gagnvart öðru lagabanni. Þannig er að skýrt bann er í lögum við því að tala í síma undir stýri án þess að vera með handfrjálsan búnað. Það blasa við fjölmörg dæmi þess að umrædd lög eru brotin. Líklega skipta þau lögbrot hundruðum á hverjum degi. Þau eru sýnu alvarlegri en stöðubrot þar sem um öryggi, líf og heilsu fólks, er að ræða. En lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er aðgerðarlaus og setur kíkinn fyrir blinda augað. Hvað veldur? Getur lögreglan valið sér lög til þess að framfylgja? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband