Til hamingju Vökumenn
4.2.2011 | 09:27
Ánægjulegt að sjá Vöku, gamla félagið mitt, sigra í kosningum til stúdentaráðs. Hér áður fyrr var alltaf óskaplegt streð að fá fólk til að mæta á kjörstað og meðan ég var þarna töpuðum við hverjum kosningunum á fætur öðrum.
Við vökustaurar vorum með þá kenningu að stuðningsmenn Vöku nenntu einfaldlega ekki á kjörstað nema þeir væru bókstaflega dregnir. Kosningarnar núna voru hins vegar rafrænar, og séu stuðningsmenn Vöku jafn latir og forðum þá hafa þeir í það minnsta nennt að kjósa við skrifborðið heima hjá sér.
Á þessum árum mínum í Vöku og raunar í langan tíma fyrir og eftir náðu Mussukommarnir alltaf aðeins fleirum á kjörstað. Þess vegna sat lið eins og Ingibjörg Sólrún, Össur og annað velmegtarfólk á valdastólunum, prjónaði og hló að tilraunum okkar Vökumanna til að gera okkur gildandi enda var flest fellt sem við lögðum til. Já, prjónaði. Á fundum stúdentaráðs tíðkaðist að kvenfólkið meðal vinstri manna stundaði handavinnu sína af fullum krafti út allan fundinn. Þetta hafði ég aldrei séð áður og þótti furðulegt.
Ég náði þeim heiðri að verða varamaður í eitt ár í Stúdentaráði og það var eftirminnileg reynsla. Sat einnig í stjórn Vöku með afskaplega góðu fólki og sumt af því hafa verið nánir vinir síðan, t.d. Tryggvi Agnarsson, sem var formaður, Ásta Möller og Sigurður Hektorsson sem var ritari stjórnarinnar. Sá síðastnefndi á raunar eftir að skila fundargerðunum stjórnarinnar sem hann gerir eflaust áður en yfir lýkur ... vona ég. Maður kynntist fjöldanum öllum af góðu fólki í félagsstarfi Vöku og ekki síður mörgum úr liði andstæðinganna. Margs er að minnast, skemmtilegra funda og ekki síður þeirra heiftarlegu, utanlandsferð, útgáfumálum. Allt hollt og gott ungu fólki og prýðilegt veganesti inn í framtíðina.
Vonandi gengur Vöku vel og félagið ástundi málefnaleg stjórnmál, það er alltaf farsælast.
Vaka sigraði í kosningunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.