Hálfpólitíkus prédikar hömlur á tjáningafrelsi

Nú ráðast þeir fram málsvarar ritfrelsis, lýðræðis og tjáningafrelsis og krefjast þess að manni nokkrum verði refsað fyrir skoðanir sínar. Jafnvel hálfpólitíkus Samfylkingarinnar Bjarni Karlsson stígur fram og og prédikar að Geir Waage verði sviptur hempunni fyrir þær. Ástæðan er sú að í ítrustu dæmum um afleiðingar þagnarbindindis þess síðarnefnda gæti það kannski, ... ef til vill, ... hugsanlega ... orðið til þess að maður sekur um ógurlega glæpi verði ekki gripinn.

Gallinn við allt þetta ef og kannski er sá að með öllu er óljóst hvort sá sem skriftar fyrir séra Geir Waage sé bankaræningi, njósnari Rússa, morðingi, forstöðumaður Wikileaks, kynferðisglæpamaður eða bara þingmaður Samfylkingarinnar nema því aðeins að'ann Geir segi frá. Og Geir ætlar ekki að segja frá, ekki fekar en blaðamaður sem gætir heimildamanna sinna.

Bjarni Karlsson er greinilega einn af þeim sem reiðir hátt til höggs af því að honum þykir þyturinn í högginu og hljómurinn þegar það fellur eftirsóknarverður. Honum skiptir líklega engu máli hver verður fyrir. Hann vill refsa manni fyrir eitthvað sem hugsanlega getur gerst. Er þá bara ekki í lagi að setja hann Bjarna inn fyrir að geta hugsanlega framið glæp.

Tjáningarfrelsið skiptir öllu í þjóðfélagi, síður hvað er sagt eða ósagt. Það er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum og krefjast þess að einhver embættismaður lofi því fyrir guði almáttugum að segja frá  verði hann þess vís að einhver hafi sprengt Álfastein, drepið og étið æðarfugl eða kastað brauðmolum á flötina fyrir framan stjórnarráðið. Hvað þá að um alvarlegri glæpi sé að ræða og jafnvel þá sem maður veigrar sér við því að nefna.

Um leið og ég fordæmi skrif hálpólitíkusarins Bjarna Karlssonar tel ég ekkert að því að hann tjái sig með þessum hætti um Geir Waage og þann rétt Bjarna skal ég verja á sama hátt og Geirs. Það þýðir síst af öllu að ég sé sammála þeim.


mbl.is „Nú þarf Geir Waage að hætta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Það er varla nein sérstök árás á tjáningarfrelsið að reka opinberan starfsmann sem tilkynnir að hann neiti að fara að lögum.

Myndirðu hafa sama viðhorf til grunnskólakennara sem neitaði að segja frá því ef hann kæmist að því að einn nemenda hans væri misnotaður? Eða ef lögreglumaður segðist ætla að sleppa því að handtaka morðingja sem hann hefði vitneskju um, af því að morðingjar verða líka að hafa einhvern að tala við?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 22.8.2010 kl. 11:01

2 Smámynd: Ólöf de Bont

Það er einmitt í skjóli þagnarskyldunnar þar sem stærstu glæpirnir hafa átt sér stað.  Ég sé mig ekki sem starfandi prest eða sálusorgara hlusta á játningu manns um alvarlegan glæp án þess að hvetja hann til að opinbera verknað sinn, sækja sér hjálp og bæta fyrir brot sitt.  Það eru mörg stig á þagnarskyldunni, en að þegja yfir barnamisnotkun, morði, nauðgunum er eitthvað sem ég held að geri vígðan prest að nánst vel geðröskuðum einstaklingu því það er ekki hægt að bera slíka vitneskju innra með sér án þess að bugast eða flækjast í hryllingsvef þeirra fíknar sem verknaðurinn hefur í för með sér.

Skyldan til þess að upplýsa að barn sé misnotað, að maður sé myrtu er ofar þagnarskyldu - því trúi maður á að Guð sé almáttugur þá er auga hans allstaðar og þá er máttur hans og vilji að mennirnir opni augun og tali út illa anda.

Persónulega sé ég ekkert annað en heilbrigt við skoðun Bjarna en skekkju á afstöðu Geirs -

Ólöf de Bont, 22.8.2010 kl. 11:26

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég held að enginn hafi sagt að Geir mætti ekki hafa þessa skoðun eða tjá hana, aðeins að það samrýmdist illa hans hlutverki.

Nýlega var lögreglumaður, með látum, færður til í starfi vegna varnaðarorða hans til kvenna að ganga hægt um gleðinnar dyr.

Svo kemur prestur fram á sjónarsviðið og lýsir því yfir að hann fari ekki að landslögum og hvetur, að því er best verður séð, aðra til þess sama. Verður Geir þá næsti biskup?

Það er undarlegt að draga pólitík inn í svona mál. Hvað koma pólitískar skoðanir Bjarna, Geirs, biskups og annarra stórleikara málsins því við, nema til að heyra hljóm höggsins?  

Hefði þessi grein orðið öðruvísi eða alls ekki, hefðu línur flokkanna legið með öðrum hætti hjá séra Bjarna?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.8.2010 kl. 11:51

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið. Fólk hefur rétt til að segja skoðun sína og lýsa yfir því að þeir standi við hana. Ég styð það en þar með þarf ég ekki að vera hlyntur skoðunum þeirra. Þetta kom skýrt fram í pistlinum.

Tinna, þú verður að skilja að ég er ekki sammála Geir Waage, en ég virði rétt hans til að tjá sig með þeim hætti sem hann kýs. Dæmin sem þú tekur eru þar af leiðandi ekki réttmæt frekar en ég spyrði þig hvort blaðamaður ætti rétt á að vernda heimildarmann sinn. Myndi einhverju breyta þótt heimilamaðurinn stolið skjölum sem sýna fram á að forsætisráðherra hefði persónulega samið um laun Seðlabankastjóra? Myndi það einhverju breyta þótt annar heimildarmaður hefði viðurkennt að hann hafi framið viðurstyggilegan glæp?

Ólöf, pistill minn var ekki um heilbrigði skoðana heldur rétt til að hafa þær og lýsa þeim yfir. Það er margt sem maður er óhress með en vandinn eykst með hugsanir fólk, um þær vitum við ekkert og því er vonlaust að ætla sér að refsa fyrir þær.

Axel, hefði Bjarni skrifað þennan væri hann ekki pólitíkus, hálfpólitíkus, eins og ég orðaði það í ókurteisi minni? Ég er hreinlega agndofa yfir því að stjórnmálamaður og hvað þá prestur, skuli vilja svipta einhvern embætti sínu án þess að fyrir liggi neinn glæpur eða brot á starfsháttum. Það vekur mér þó enn meiri undrun að þú skulir taka undir slíkt. Hef lesið margt ágætt eftir þig svo þetta kemur á óvart.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.8.2010 kl. 12:49

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Mér fyrirmunað að skilja að einhver reyni að færa rök fyrir því að trúnaður við glæpamenn og svíðinga standi framar en öryggi og velferð barna. Getur einhver horft í augu barnanna sinna og tjáð þeim það?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.8.2010 kl. 13:35

6 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Það er rétt að Geir hefur ekki framið neinn glæp - svo við vitum.

Verðum við virkilega að bíða eftir því að það komist upp að Geir hafi haldið hlífiskildi yfir níðingi? Hver ætti að segja frá? Ekki Geir sjálfur, varla níðingurinn. Við verðum sumsé að "vonast eftir" því að fórnarlamb komi fram, sem hefur sannanir fyrir því að Geir hafi vitað af glæpnum en ekki aðhafst neitt. 

Ég vil helst ekki bíða eftir því.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 22.8.2010 kl. 14:01

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Axle, það er mér einnig fyrirmunað að skilja.

Hins vegar fjallar pistillinn ekki um það heldur refsingar fyrir skoðanir og jafnvel afbrot sem hugsanlega verður framið eða kannski alls ekki.

Eigum við að taka upp refsingar vegna hugsanaglæpi ...?

Málið er bara endanlega þannig að yfirlýsing um trúnað prestsins við skriftarbarn getur ekki verið glæpur. Hún er skoðun og við getum verið sammála manninum eða ekki.

Ég lýsti því yfir á þessum vettvangi meðan á gosinu í Eyjafjallajökli stóð að ég vildi fara á jökulinn og skoða gíginn þrátt fyrir að lögreglan hefði lokað honum og bannað ferðir þangað upp. Var ég sekur um lögbrot með yfirlýsingu minni? Þess ber að geta að ég fór ekki upp þrátt fyrir einlægan ásetning.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.8.2010 kl. 14:18

8 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Þú hlýtur að sjá mun á því að leggja eingöngu sjálfan þig í hættu með (hugsanlegu) lögbroti og því að opinber starfsmaður leggi barn í hættu, þvert á bæði landslög og siðareglur eigin stéttarfélags, auk þess að ganga gegn bæði almennum siðferðisviðmiðum og meintum siðferðisviðmiðum stofnunarinnar sem hann starfar hjá.

Auðvitað má séra Geir hafa skoðanir eins og aðrir. Þegar skoðanir hans hafa áhrif á starfið sem hann gegnir, starf sem m.a. getur falið í sér að fá vitneskju um viðbjóðslega glæpi, er hins vegar ekkert að því að benda á að hugsanlega færi honum betur að vera í einhverju öðru starfi. Starfi þar sem eru t.d. minni líkur á því að hann hylmi yfir með fólki sem nauðgar börnum.

Ef þú hefðir bloggað um það að þér þætti allt í lagi að menn sem nauðguðu börnum ættu það bara við sjálfa sig og þú sæir ekki ástæðu til að tilkynna það sérstaklega til yfirvalda ef einhver væri að misþyrma barninu sínu, þætti mér það ógeðfellt viðhorf. Þú hefðir að sjálfsögðu fullan rétt á að tjá þessa skoðun, en ef þú værir t.d. leikskólakennari eða barnalæknir þætti mér ekkert óeðlilegt við það að fólk færi fram á að þú yrðir rekinn. 

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 22.8.2010 kl. 14:35

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held að nú sé nóg komið. Bestu þakkir fyrir innlitið, Tinna.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.8.2010 kl. 14:57

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Sigurður. Það er stór munur á því að hafa skoðanir á embætti sínu og því að lýsa því yfir að maður ætli ekki að fara að þeim lögum, sem um embætti manns gilda, svo ekki sé talað um að hvetja aðra menn í sams konar embætti að fara ekki að lögum.

Það er eðlileg krafa að allir opinberir starfsmenn fari að þeim lögum, sem gilda um embætti þeirra. Þess vega er yfirlýsing um það að maður ætli ekki að fara að lögum ef tiltekið tilfelli kemur upp næg ástæða fyrir brottrekstri að mínum mati. Það er allt annað en að segja að lögin ættu að vera öðruvísi en þau eru. Það er að tjá skoðanir sínar og er öllum heimilt enda tjáningarfrelsi í landinu.

Sigurður M Grétarsson, 22.8.2010 kl. 15:56

11 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nafni, svo ég setji mig mun aðeins í spor Geirs þá má ekki gleyma því hvers vegna hann lýsir þessu yfir, þ.e. trúnaðarskyldunni. Öll höfum við skilning á blaðamanninum sem vill virða heimildarmann sinn. Engu að síður getur hann lent í sömu hremmingunum og presturinn. En að reka mann fyrir skoðun sína hugsanlegu máli, gengur alls ekki upp. Fordæmið verður þá svo alvarlegt að auðveldlega verður hægt að losna við aðra embættismenn fyrir enn minni sakir.

Menn hljóta að halda sig við prinsípið svo ekki fari hreinlega allt úr böndunum. Ekki er alltaf spurning um hylmingu yfir viðurstyggilega glæp heldur mörg önnur tilvik sem eru hagstæðari þeim sem gæta þarf heimildarinnar.

Annars held ég að ég hafi sagt allt það sem ég þarf að segja um þetta mál og læt því hér með lokið af minni hálfu. Gestir mínir hér á athugasemdasíðunni mega að sjálfsögðu halda áfram vangaveltunum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.8.2010 kl. 16:38

12 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Það er spurning hversu langt prinsípið á að ganga."Ég segi ekki frá neinu sem mér er sagt í trúnaði" er of víðtækt. Ef ég myndi nú hvísla því að þér í trúnaði að ég hefði komið fyrir sprengju í miðbænum á Menningarnótt, ertu þá bundinn þagnareiði? Ef svarið er nei, hversu mörgum lífum þarf uppljóstrunin þá að bjarga áður en hún fer að "borga sig"? Hver ákveður það?

"Ég segi ekki frá neinu sem mér er sagt í trúnaði nema það varði klárlega velferð annarrar manneskju, og þá sérstaklega ef viðkomandi er barn eða getur af öðrum ástæðum síður varið sig" er ágætis prinsíp.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 22.8.2010 kl. 18:13

13 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Sigurður. Það skiptir engu máli hvers vegna opinber embættismaður segist ekki ætla að virða þau lög, sem um hans starf gilda. Það er ekki hægt að líða það að opinberum embættismanni sé ekki treystandi til að virða þau lög, sem um hans starf gilda. Það á því ekkert skilt við það að reka mann fyrir skoðanir sínar að reka slíkan embættismann.

Fréttamönnum er heimilt að vernda heimildarmenn sína samkvæmt lögum. Það er því ekki sambærilegt við mál Greirs. Ef hins vegar fréttamönnum væri það ekki heimilt samkvætm lögum þá væri ekki hægt að líða það að vera með fréttamann á opinberum fréttamiðli, sem lýsir því yfir að hann muni ekki fara að lögum um starf sitt.

Sigurður M Grétarsson, 22.8.2010 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband