Píratinn McCarthy sem talar tungum tveim
30.12.2016 | 12:35
Nýkjörinn þingmaður Pírata, Smári McCarthy, gerði fyrir hönd Pírata tilraun til að mynda ríkisstjórn á Íslandi. Flokkurinn ætlar sér að breyta íslenskum stjórnmálum til betri vegar.
Ástæða er til að draga einlægni mannsins í efa og þar af leiðandi flokksins.
Götustrákar vaxa úr grasi og flestir breytast. Þeir læra nýja siði, þroskast og læra samskipti. Aðrir eru þó til sem ekkert nýtt læra og halda sig við það sem þeir best kunna og tileinkuðu sér á götunni. Þar gildir hávaðinn, lætin, eineltið, ofbeldið ...
Síst af öllu rökræður, yfirvegun kurteisi og gott viðmót.
Sá sem lætur hafa eftir sér formælingar á borð við þær sem birtast á meðfylgjandi mynd af Twitter getur varla verið vel innrættur.
Látum vera þó verðandi forseti Bandaríkjanna sé illa þokkaður og jafnvel vondur. Sá sem kann ekki að stilla orðum sínum í hóf á ekki að sitja á Alþingi Íslendinga. Og þar að auki bendir orðalag þingmannsins til þess eins að hann sé ekki vel að sér í enskri tungu, þrátt fyrir eftirnafnið. Mjög auðveldlega er hægt að tjá skoðanir sínar á ensku án þess að nota þetta heimskulega f orð. Notkun þess sýnir bara innrætið.
Á vefritinu stundin.is skrifar Smári McCarthy, núverandi alþingismaður:
Hvers vegna þjóðarsálin er svo heiftug? Hvers vegna er svona erfitt fyrir fullorðið fólk að eiga samtal án þess að úr verði gífuryrtur leðjuslagur?
Síðar í sömu grein segir maðurinn:
En ég óttast að ef samfélagsumræðan bæði á Alþingi og í fjölmiðlum fer ekki að batna mun lítið duga til langs tíma að óska eftir skynsömum umræðum.
Það mun koma sá tími þar sem enginn hreinlega man hvernig á að færa rök fyrir máli sínu, vera kurteis og gagnrýninn, og jafnvel stafsetja einföldustu orð.
Já, þetta er sami maðurinn og skrifaði textann sem birtist á myndinni hér fyrir ofan. Hann er skrifaður 28. desember 2015, aðeins rúmum hálfum mánuði eftir að hann formælti Donald Trump.
Er hægt að treysta svona manni? Er hægt að treysta Pírötum?
Einn daginn formælir hann frambjóðenda í forsetakjöri í útlöndum og annan daginn hvetur hann til hófstilltrar umræðu hér innanlands.
Á hreinni íslensku er svona maður kallaður tvöfaldur, tali tungum tveim, sé óútreiknanlegur.
Slíkum er ekki treystandi, síst af öllu á löggjafarþinginu.
Myndina af Twitter er fengin af grein á vefritinu pressan.is þar sem fjallað er um þingmanninn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Víkverji og járnhylkin
30.12.2016 | 11:08
Víkverji er nafnið á skemmtilegum dálki í Morgunblaðinu. Í honum túlka blaðamenn hugsun sína, stundum á fjölbreyttan og skemmtilegan máta eins og í dag. Höfundurinn leggur út af Karíus og Baktusi þeim bráðfyndnu karakterum í sögu hins norska Thorbjörn Egner.
Þeir kumpánar eru fulltrúar þeirra eyðingarafla sem skemma tennur mannfólks og vilja ekkert meir en sykurmeti, sem allir vita að er afar óhollt gott.
Dálkur Víkverja er stuttur og því er hér tekið það Bessaleyfi að birta hann í heild:
Karíus og Baktus leynast víða. Það fyrsta sem Víkverja dettur í hug í því sambandi er frásagnirnar endalausu af ráðsmönnunum, sem helst ber á góma í tengslum við eyðileggingu og holur og berja göt í allt sem heilt er að hætti norsku bræðranna.
Karíus og Baktus leynast víða. Það fyrsta sem Víkverja dettur í hug í því sambandi er frásagnirnar endalausu af ráðsmönnunum, sem helst ber á góma í tengslum við eyðileggingu og holur og berja göt í allt sem heilt er að hætti norsku bræðranna.
Annar ráðsmannanna sá til þess í aðdraganda jóla að fjölmiðlar birtu af honum myndir með öxina á lofti við eyðingu skóga og hinn hélt sig við eyðingu gatna. Hugsunarháttur þeirra kemur vel í ljós í þýðingu Huldu Valtýsdóttur:
Kóngalífi lifum við,
látum aldrei Jens fá frið,
höggvum, höggvum nótt og dag ...
Í sögunni um Karíus og Baktus var bræðrunum norsku refsað eins og vera ber en í raunveruleikanum leika hinir íslensku enn lausum hala. Þó ekki á hjóli, því enginn hefur sést á hjóli undanfarna daga í borginni, ekki einu sinni á Kemstvallagötu, Ervallagötu eða Finnstvallagötu.
Á jólum átu margir og drukku sem mest þeir gátu en eftir sátu sölumennirnir með sárt ennið í huga ráðsmanna. Til hvers að bjóða upp á þessar vörur, þegar þær seljast eins og heitar lummur? heyrðist spurt hjá þeim í ráðhúsinu, að sögn.
Tvímenningarnir, sem öllu ráða í borginni, hafa haft þetta hugfast allt kjörtímabilið. Til hvers að bjóða upp á mat í leikskólum þegar börnin klára alltaf af disknum? Til hvers að hreinsa götur og stíga ef þau fyllast aftur af drullu og skít?
Til hvers að tæma ruslatunnur ef þær fyllast alltaf aftur? Til hvers að vera með flugbraut ef hún er aðeins notuð til þess að bjarga mannslífum? Til hvers að bæta við nýjum akreinum þegar ökumenn bíla nota þær bara til þess að greiða fyrir umferð og komast leiðar sinnar?
Samgöngukerfi er ekki til þess að koma þessum járnhylkjum á milli staða, sagði ráðsmaðurinn og þar við situr, þegar árið 2017 er handan við hornið. Thorbjörn Egner hafði annað í huga.
Minni í leiðinni á þennan pistil.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ESB, rakettur og múlasnar ...
30.12.2016 | 10:13
Skömmu fyrir áramót tilkynntu fréttamenn að ESB hefði ákveðið að Íslendingum skyldi hér eftir vera óheimilt að skjóta á loft tilteknum gerðum flugelda á gamlaárskvöldi.
Svo segir í leiðara Morgunblaðs dagsins. Í honum er fjallað um skrifræði Evrópusambandsins, já þess hins sama og Samfylkingin Vinstri grænir og fleiri flokkar vildu að Ísland sameinaðist.
Í ESB ráða kommissarar sem bera enga lýðræðislega ábyrgð. Þeir stjórna og gefa út lög og reglur sem ríkjum sambandsins ber að samþykkja og skrifa undir. Ekkert ríki hefur rétt til að breyta þeim eða laga þau að aðstæðum í landi sínu. Þess vegna gilda hér lög um múlasna.
Hversu asnalegt sem það nú er mega Íslendingar ekki skjóta upp tilteknum tegundum flugelda á gamlaárskvöldi, eins og segir í leiðara Morgunblaðsins. Þar segir ennfremur:
Engin flugbjörgunarsveit hefur selt flugelda sem ná til meginlands Evrópu. Þetta mál kemur búrókörlum í Brussel og kerlingum þeirra ekkert við. Hvers vegna í ósköpunum kysstu menn auðmjúkir þennan ómerkilega vönd eins og hina. Vissulega hafa verri mál verið kjössuð.
En eru flugeldar á íslensku gamlaárskvöldi þúsund kílómetra frá Evrópu svo notaður sé frasi búrókrata, ekki úr seilingarfjarlægð þeirra? Íslendingum er heimilt að gera ekkert með þvælu af þessu tagi. ESB má þá grípa til gagnráðstafana.
Endilega að láta sambandið gera það, svo að skrípaleikurinn blasi við öllum.
Þetta litla mál er táknrænt. Það sýnir að embættiskerfið er stjórnlaust og að ístöðulausir stjórnmálamenn eru gagnslausir á vaktinni.
Engum dettur í hug að mótmæla heimskulegum skipunum frá ESB, hvað þá að hafa þær að vettugi.
Er nú ástandið á Íslandi orðið slíkt að við tökum möglunarlaust við skipunum að frá meginlandi Evrópu, breytum siðum og venjum til að þóknast þeim sem eru svo langt frá okkur og hafa um margt þarfara að hugsa en flugeldaskot okkar á gamlaárskvöld?
Næst má búast við því að bannað verði að borða kæsta skötu, svokallaður þorramatur verði aflagður, bannað verði að ganga á fjöll eftir sólsetur í Brussel, brennur verði bannaðar, rekstur björgunarsveita verði bannaðar nema í þeim séu starfsmenn á fullum launum og svo má lengi telja upp það sem við höfum á annan hátt en þeir í Evrópu.
Má vera að við höfum ekki þrek til að berjast á móti tilskipunum frá Brussel vegna þess að EES samningurinn með kostum og göllum geri okkur værukær og við höfum gleymt að Ísland er sjálfstætt ríki og við séum ein þjóð. Þá erum við líka bölvaðir múlasnar og eigum ekkert betra skilið heldur en ístöðulausa stjórnmálamenn sem þykjast standa vaktina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)