Þykistuleikurinn gegn Rússum

Þjóðverjar eru búnir að reikna út að verði lokað fyrir orkuna frá Rússlandi myndi skella á efnahagskreppa. Kórónuveiran hefði lokað þjónustugeiranum, en þessi kreppa myndi bitna á hjarta þýsks iðnaðar og leiða til þess að landsframleiðsla myndi dragast saman um allt að þrjá af hundraði [3%]. Þá yrði dýrara að útvega orkuna. Það myndi hafa áhrif á verðlag og jafnvel draga úr samkeppnishæfni þýskrar framleiðslu.

Þessi athyglisverðu orð eru í leiðara Morgunblaðsins 26. mars 2022. Þýsk stjórnvöld gráta af því að það er of dýrt að refsa Rússum fyrir stríðsreksturinn í Úkraínu. Úr þessu má lesa að efnahagslegar refsiaðgerðir mega ekki vera of dýrar fyrir þá sem beita þeim og þetta virðist vera útbreitt skoðun í Evrópu. Friðelskandi fólk vill auðvitað ekki borga of mikið fyrir friðinn en krefjast hans engu að síður.

Þvílík della. Það verður dýrt að stöðva Rússa, fylgi hugur máli, sem vissulega má draga í efa. Svona er allt sýndarmennska, innihaldslaust mal og tal sem engu skiptir.

Og þú, lesandi góður. Ertu með í baráttunni fyrir friði ef efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússum muni kosta þig sem nemur 20% af tekjum þínum eða kaupmætti?

Nei, auðvitað ekki. Þú ert engu skárri en aðrir í Evrópu í þykistuleiknum gegn Rússum. 

Hingað til hafa Rússar aðeins hrist sig vegna refsiaðgerðanna en halda svo áfram að drepa fólk í Úkraínu og sprengja borgir og bæi í tætlur. Á meðan berast óstaðfestar fréttir sem eiga að gera okkur, almenning, ánægða með refsiaðgerðirnar. Her Rússa er í vandræðum, Pútín er veikur og rússnesku almenningur muni bylta stjórninni í Kreml. Svona sögur bera öll einkenni falsfrétta.

En, en, en ... það er búið að taka flugvélar, hús og snekkjur af rússnesku auðmönnunum, ólígörkunum, kannt þú að segja. Þetta skiptir engu máli. 

Rússar hafa ekki lent í miklu vanda vegna refsiaðgerðanna. Kínverjar hjálpa þeim. Jafnvel íslensk fyrirtæki sem seldu til Rússlands senda nú vörur þangað í gegnum Kína. Allt lekur í gegn rétt eins og gasið og olían til Þýskalands, hveitið og byggið til Frakklands, og SWIFT er bara orðin tóm því auðvitað þarf að borga fyrir lekann frá Rússlandi.

Dettur einhverjum í hug að baráttan gegn stríðsrekstri Rússa muni ekki verða Evrópu dýr sé tilgangurinn raunverulega sá að stöðva stríðsvél innrásarliðsins.

Efnahagslega refsiaðgerðir eiga að vera þannig að almenningur í Rússlandi þjáist og helst rísi upp gegn stjórnvöldum. Til þess er leikurinn gerður.

Aldrei hafa efnahagslegar refsiaðgerðir verið nógu harðar og verða það ekki nema því aðeins að almenningur hérna megin finni fyrir þeim. Öllum samskiptum við Rússa þarf að hætta og það mun óhjákvæmilega leiða til tímabundinna óþæginda hérna megin járntjaldsins nýja.

Þjóðverjar eru eins og allar aðrar þjóðir. Gráta tapað fé. Evrópuþjóðunum finnst betra að láta Úkraínumenn þjást en verðbólgan vaxi, vextir hækki, samkeppnishæfnin minnki, ferðaþjónustan staðni, atvinnuleysi aukist, hagvöxtur hrynji, með öðrum orðum; að allt stefni í kalda kol.

Ágæti lesandi. Þú ert eflaust á móti stríði, manndrápum og eyðingu borga og bæja svo framarlega sem baráttan kosti þig ekki nema örfáar krónur sem þú veiðir sjálfur upp úr buddunni. 

Við fordæmum Pútín og rússnesk stjórnvöld og teljum okkur til góða fólksins en erum ekki tilbúin til að borga fyrir friðinn. Hann er síst af öllu ókeypis.


Mæli með þessum í prófkjörinu í Reykjavík

Hverja á að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosningunum?

Margir velta þessu fyrir sér og sumir hafa spurt mig ráða. Ég fæ ekki að kjósa lengur í Reykjavík, flúði þaðan og í Kópavogi og þar hef ég lagt mitt lóð á vogarskálarnar í prófkjörinu sem var um síðustu helgi.

Væri ég búsettur í Reykjavík fengju þessi mitt atkvæði:

  1. Hildur Björnsdóttir
  2. Marta Guðjónsdóttir
  3. Kjartan Magnússon
  4. Örn Þórðarson
  5. Ólafur Guðmundsson
  6. Birna Hafstein
  7. Valgerður Sigurðardóttir
  8. Helgi Áss Grétarsson
  9. Ragnheiður J. Sverrisdóttir

Fyrstu fimm frambjóðendurna þekki ég persónulega. Hildur Björnsdóttir eru tvímælalaust efni í traustan leiðtoga og mun án efa draga fjölda atkvæða að, hörkudugleg og vel máli farin.

Marta, Kjartan, Örn og Ólafur búa yfir gríðarlegri þekkingu í borgarmálum og hafa aldrei látið meirihlutann í borgarstjórn eiga neitt inni hjá sér. Þetta fólk verður bakbeinið í borgarstjórnarlista flokksins.

Þekking Ólafs Guðmundssonar í samgöngumálum er mikil og hefur hann gagnrýnt meirihlutann harðlega fyrir bullið með borgarlínuna og öryggismál í umferðinni.

Aðrir koma nýir inn í borgarmálin. Birna Hafstein hefur getið sér góðs orðs í menningarmálum og er þekkt fyrir fagmennsku og lipurð. 

Valgerður Sigurðardóttir er borgarfulltrúi og leggur meðal annars áherslu á húsnæðismál sem meirihlutinn í borginni hefur klúðrað eftirminnilega.

Helgi Áss Grétarsson er harður gagnrýnandi borgarlínunnar og telur að hún sé alltof dýrt mannvirki.

Ragnheiður J. Sverrisdóttir hefur unnið að velferðarmálum og með heimilislausum með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Í prófkjörinu tekur núna þátt einvalalið traustra Sjálfstæðismanna. Því miður má aðeins kjósa níu frambjóðendur, ekki fleiri og ekki færri og ekki skrifa neitt annað en númer við nöfnin, annars er atkvæðið ógilt.

Kosið er á föstudaginn frá 11 til 18 og á laugardaginn frá 9 til 18. Kjörstaðir eru þessir:

  • Valhöll, Háaleitisbraut 1
  • Árbær, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Hraunbæ 102
  • Grafarvogur, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Hverafold 1-3
  • Breiðholt, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Álfabakka 14a (Mjódd)
  • Vesturbær, Fiskislóð 10

Ég hvet fólk til að kjósa. Nú er tími til að búa til öflugan lista Sjálfstæðisflokksins og losna við vinstri meirihlutann. 


Veðurspár og -fréttir voru einfaldari í gamla daga

HvarfMjög djúp lægð er væntanleg að Hvarfi í fyrramálið. Sendir hún skil yfir landið með stormi eða roki, talsverðri rigningu og hlýnandi veðri.

Svo segir í fréttum Veðurstofu Íslands á Fésbókinni. Ekki veit ég hvar á landinu Hvarf er og af því er mikið mein. Stofnunin er stundum dálítið dul með landafræðina sína, gefur takamarkaðar upplýsingar. 

Til dæmis rignir aldrei í Grennd (Grend) en alltaf einhver staðar í sama hreppi, til dæmis á Stökustað sem er alræmt rigningarbæli.

Svo er að eðlisfræðin. Ekki veit ég hvað kallast kaldur loftmassi og ekki heldur heitur loftmassi. Og hvað gerist hittist svona massar tveir af ólíkum uppruna? Er það eins og þegar heitt vatn og kalt vatn blandast saman og úr verður volgt vatn? Nei, ábyggilega ekki. Miklu frekar að þá verði dómsdagsfárviðri nema auðvitað í Grennd.

Svo er það hjalið um vindinn. Aldrei hvessir á Íslandi, aldrei lægir. Vindur er ýmist mikill eða lítill, hann minnkar eða stækkar (eykst). Öll börn vissu í gamla daga hvað kul þýddi, gola, gjóla, rok, hvassviðri, stormur og fárviðri. Foreldra sóttu ekki börnin í skólann á þessum dögum, þau komu sér sjálf heim, börðust móti slagveðri, stormi  og skafrenningi sem Vegagerðin kallar í dag „snjórenning“.

Í gamla daga hlustuðu afi og amma og pabbi og mamma og börnin á veðurspána í útvarpinu. Þá var þulan þessi (halda skal fyrir nefið meðan lesið er upphátt og draga seiminn):

Reykjavííík, rigniiing, suðaustaaaan átta vindstiiig, skyggniii fjórtán kílómetraaar, hiti fégur stiiig, loftþrýstingur hækkandiii.

Þá var talað um rigningu, afar sjaldan úrkomu, aldrei vind, enga metra á sekúndu. Loftmassar voru ekki til né heldur þrýstilínur. Engum hefði dottið í hug að tala um „austurströndina“, „norðurströndina“ eða „vesturströndina“. Jú, suðurströndin hefur verið til frá því nokkru fyrir landnám enda ein og samfelld frá Þorlákshöfn og austur fyrir Hornafjörð.

Og aldrei sendu lægði eitt eða neitt. Þær komu bara og fóru með öllum sínum ósköpum rétt eins og farþegi úr strætó eða flugvél.

Enginn sagði suðurSTRÖNDINA, það er með áherslu á seinni helming orðsins; NorðaustanLANDS, FaxaFLÓA, VestFIRÐI og svo framvegis.

Nú er sjaldnast tala um snjó á jörðu. Vegagerðin fann upp orðið „snjóþekja“ sem þykir víst afar gáfulegt. Þó snjór sé á Stökustað segir Vegagerðin að þar sé „snjóþekja“, jafnvel þó landið sé flekkótt, engin þekja allt að Grennd. Þar snjóar aldrei.

Á myndinni sjást þeir staðir á landinu sem bera örnefnið Hvarf samkvæmt upplýsingum Landmælinga. Og nú rennur loks upp fyrir mér að syðst á Grænlandi er Hvarf. Má vera að öllum hafi verið það ljóst. Ég þurfti samt að skrifa þennan pistil áður en það kviknaði á perunni hjá mér. Nenni ekki að henda honum.

En hvað varð eiginlega um veðurskipið Bravó?


Þessa kýs ég í prófkjörinu í Kópavogi.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi verður haldið laugardaginn 12. mars 2022. Að sjálfsögðu mun ég kjósa.

Sjálfstæðismaðurinn Ármann Kr. Ólafsson hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 1999 og bæjarstjóri frá því 2012 og hættir nú. Munu margir sjá eftir honum. Hann hann hefur verið maður sátta og samvinnu enda virðist bæjarstjórnin í Kópavogi vera sem ein heild ólíkt því sem er í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem meirihlutinn hlustar ekki, virðist haldinn ofnæmi fyrir íbúunum.

Ég hef búið í Kópavogi frá árinu 2018 og líkað ansi vel. Hins vegar hef ég lengst af búið í Reykjavík og mun áreiðanlega snúa þangað aftur þegar ég verð orðinn stór.

Nú hef ég gert upp hug minn og ætla að kjósa eftirtalda frambjóðendur í prófkjörinu:

  1. Karen Elísabet Halldórsdóttir
  2. Ásdís Kristjánsdóttir
  3. Hjördís Ýr Johnson
  4. Andri Steinn Hilmarsson
  5. Hannes Steindórsson
  6. Sigvaldi Egill Lárusson

Ekkert af þessu fólki þekki ég persónulega en fjölmargir hafa mælt með þeim sem og öðrum frambjóðendum. Mér líst vel á þetta fólk og veit að það mun taka starf sitt sem bæjarfulltrúi mjög alvarlega og þar af leiðandi verður þetta sigurstranglegur list.

Ég hvet alla til að kjósa. Kjörstaður er í Lindaskóla í Núpalind 7 og er opið frá 10 til 18.


Fyndin tillaga og bráðnauðsynleg

Hann seg­ir að til­lög­unni hafi verið frestað, eins og oft sé gert þegar til­lög­ur koma beint inn, en að hún verði tek­in fyr­ir á næsta fundi. Pawel vildi ekki lýsa end­an­legri af­stöðu sinni til máls­ins fyrr en það hef­ur verið tekið fyr­ir.

BresnevSvo segir í frétt á mbl.is. Í gamla daga var í fjölmiðlum á Vesturlöndum oft vitnað í sovéska blaðið Pravda en nafnið þýðir sannleikur en var þó ekki réttnefni. Oft þurftu sérfræðingar í vestri að rýna í efni blaðsins til að átta sig á hver stefna Sovétríkjanna væri í einstökum málum.

Víkur nú sögunni til nútímans að Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur að heiti Garðastrætis verði breytt í Kænugarðsstræti. Við götuna var sendiráð Sovétríkjanna í áratugi. Svo var breytt um nafn á hinu illa heimsveldi og nú heitir það Rússland eins og landsvæðið hét um aldir.

Tillaga Eyþórs fékk ekki glæsilegar undirtektir hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Því til sanninda eru ofangreind orð Pavels Bartoszeks sem er formaður nefndarinnar og borgarfulltrúi Viðreisnar og situr í Vinstrimeirihlutanum í borgarstjórn.

PavelPavel getur ekki, frekar en þeir sem skrifuðu í Pravda forðum daga, tekið opinbera afstöðu til nafnbreytingarinnar. Fyrst þarf vinstri meirihlutinn að koma saman og finna út hvernig hægt sé að fella tillöguna, vísa henni frá eða fresta um ókomin ár. Raunar er það þannig að Pavel þarf að fara heim og spyrja Dag Eggertsson borgarstjóra hvernig hann eigi að snúa sér í málinu.

Rykfallnir Kremlarfræðingar hafa nú fengið það verðuga verkefni að kanna hver sé skoðun Pavels Bartoszeks á nafnbreytingunni. Hann gefur líklega ekkert uppi nema í dulmáli rétt eins og kommarnir sem skrifuðu í Pravda.

Við þurfum þó enga Kremlarfræðinga. Dettur einhverjum í hug að það þurfi að grandskoða nafnbreytinguna? Öllum Reykvíkingum þykir hún smellin, bráðfyndin og afar brýn. Öllum nema vinstrinu sem stekkur ekki bros á vör.

„Tillöguna þarf að taka fyrir“ áður en Pavel getur leyft sér að brosa eða hlægja. Líklega mun borgarstjóri hringræða þetta eins og jafnan er sagt er um þá sem tala mikið og lengi án þess að komast nokkru sinni að kjarna málsins.

Ágæti lesandi, ekki halda niðri í þér andanum. Borgarstjóri mun pottþétt ekki sjá neina skoplega hlið á málinu. Hann er einfaldlega á móti öllu því sem Sjálfstæðismenn leggja til. Tillögunni verður vísað frá. Punktur.

Efri myndin er að Leóníd Brésnefi, aðalritara Sovéska kommúnistaflokksins. Hann brosti aldrei nema þegar einhver .
Neðri myndin er af Pavel Bartoszek borgarfulltrúa Viðreisnar í vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Hann brosir ekki nema með leyfi borgarstjóra.

 


Úkraína á ekki möguleika gegn Rússum

Svisslendingar bættust í gær í hóp þeirra ríkja sem bönnuðu allar flugvélar frá Rússlandi í lofthelgi sinni ...

Las þetta í Mogganum mínum í morgun. Finnst þetta stórmerkileg útspil Svisslendinga en frekar útlátalaust fyrir þá. Sviss er sem eyja, umkringd ESB ríkjum sem þegar hafa bannað flug Rússa í Evrópu og því er ansi erfitt fyrir þá að komast til Sviss, jafnvel þó þeim væri leyfilegt að fljúga þar. Þó ber þess að geta að í Sviss eru áreiðanlega margir Rússar og vissara að banna þeim að fara í útsýnisflug.

Ísland hefur bannað Rússum að fljúga í lofthelgi sinni. Ég legg til að borgarstjórinn í Reykjavík, sem er kunnur mannvinur, gangi enn lengra og banni Rússum að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Blönduósingar, gætu gert hið sama. Einnig Hornfirðingar, Ísfirðingar og Hólmarar svo ekki sé nú talað um Akureyringa. Rússar munu þá ábyggilega sjá sig um hönd og hrökklast frá Úkraínu.

Góða fólkið er svo gott og það lætur ekkert tækifæri ónotað til að auglýsa sig. Afar sterkt er að formæla Pútín, kalla hann heimskan, vitfirrtan, geðveikan og svo framvegis.

Raunveruleikinn er hins vegar ekkert grín og stríð er enginn leikur. Jafnvel þó allur heimurinn sé á móti Rússum og allir fjölmiðlar tíundi stríðsreksturinn og greini frá hetjulegri vörn Úkraínumanna er ljóst að þeir eiga ekki nokkurn möguleika gegn árásarhernum. Ekkert getur orðið þeim til bjargar nema önnur ríki komið þeim til aðstoðar á vígvellinum eða bylting verði heima við. Hvorugt mun gerast.

Því miður er staðan þessi. Pútín og samstarfsmenn hans eru ekki heimskir. Þegar hér er komið sögu geta Rússar ekki snúið til baka, það væri ósigur. Það er því rétt sem segir í forystugrein Morgunblaðsins í dag:

Stríðsvélin er komin of langt. Hún er nú á sjálfstýringu og óstöðvandi. Pútín er nú næstur að völdum í Rússlandi á eftir sjálfstýringunni, sem sest er við enda langa borðsins sem sífellt lengist.

Eina von Úkraínumanna og raunar eina von Evrópu er að Rússar taki í taumanna og bylti Pútín og stjórn hans. Líklega gerist ekki fyrr en líkistur hermanna úr Úkraínu verði sendar til Rússlands. Þá verður það alltof seint fyrir Úkraínu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband