Barbie þenaði - lofthelgi yfir landi - vel tókst að tímasetja gos
8.8.2023 | 10:25
Orðlof
Minna starfshlutfall
Ekki hefi ég ákveðnar skoðanir á því hvort það var rétt ákvörðun að loka sendiráðinu í Moskvu. Það hefði kannski mátt draga úr starfseminni eins og hin norrænu löndin gerðu í sínum sendiráðum.
Það var líklega erfiðara fyrir okkur að gera það því það eru bara fáar hræður starfandi í okkar sendiráði. En samt hefði mátt draga úr umfanginu, t.d. með því að láta sendiherrann sofa til hádegis annan hvern dag.
Þórir S. Gröndal ræðismaður í Ameríku í grein í Morgunblaðinu 8.8.823.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings, er óróinn ekki enn kominn niður í bakgrunnsgildi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er átt við með bakgrunnsgildi? Af hverju skýrir blaðamaðurinn ekki orðið út fyrir lesendum? Blaðamaður þarf að vera gagnrýninn í störfum sínum. Spyrja, spyrja og spyrja.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Kallar eftir lengri frest fyrir Níger.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Orðalagið kalla eftir skilst ekki. Er verið að biðja um lengri frest, óska eftir honum, krefjast, heimta eða álíka. Tillagan miðast við efni fréttarinnar.
Líklega er heimild blaðamannsins fréttveitan Reuters en þar stendur í fyrirsögn:
Italy calls on West African states (ECOWAS) to extend Niger ultimatum.
Þýðing blaðamannsins verður að teljast frekar hraðsoðin enda þýðir enska orðalagið calls on ekki að einhver hafa kallað eða kallað eftir. Líklega hefur utanríkisráðherrann skorað á Afríkuríkin að veit lengri frest.
Tillaga: Vilja lengri frest fyrir Niger.
3.
Barbie þénaði meira en milljarð.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta skilst en kvikmyndin Barbie þénar ekki neitt frekar en bíll eða aðrir dauðir hlutir. Framleiðendur myndarinnar hafa hins vegar þénað á henni og það allvel. Þó verður að viðurkenna að í fljótu bragði er nokkuð snúið að orða þetta á annan hátt en segir í tillögunni.
Blaðamenn sem hafa ekki alist upp við lestur skilja stundum ekki orðin sem þeir grípa til. Sögnin að þéna er fallegt orð og merkir að vinna sér inn pening.
Það er skylt orðinu þjóna, þénari og þénasta. Stundum er sagt að þénustan hafi verið góð og er þá átt við að þjónustuna, til dæmis á veitingahúsi. Í dönsku finnst orðið tjenlig einni tjene og svipuð orð í öðrum norðurlandamálum
Tillaga: Meira en milljarður í tekjur af Barbie.
4.
Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi yfir landinu vegna
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Alkunna er að lofthelgi landa er hvergi annars staðar en yfir þeim eins og orðið bendir til. Til að ekkert misskiljist tekur blaðamaðurinn það fram að hún sé yfir landinu. Það er góðra gjalda vert.
Tillaga: Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi landsins vegna
5.
Allt þýfi var endurheimt úr næturráni í Skerjafirði.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Orðaröðin skiptir máli. Tillagan er skárri.
Tillaga: Allt þýfi úr næturráni í Skerjafirði hefur verið endurheimt.
6.
Telja má jákvætt við nýafstaðið gos hve vel tókst að tímasetja það.
Forystugrein Morgunblaðsins 8.8.23.
Athugasemd: Þetta er óskiljanlegt. Í orðunum felst að mannlegur máttur hafi komið gosinu af stað. Flest bendir til að svo sé ekki.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ferðafrelsið og löggan á Suðurnesjum
5.8.2023 | 11:18
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir slæma hegðun gesta á gossvæðinu á föstudagskvöld hafa haft áhrif á þá ákvörðun sína að gönguleiðum að gosstöðvum verði framvegis lokað klukkan 18.
Svo segir í frétt í Morgunblaðinu 24.7.23. Er svona stjórnsýsla í lagi? Stenst hún lög? Getur bara löggan lokað á ferðafrelsi almennings vegna þess að nokkrir göngumenn fóru í taugarnar á henni? Eru refsingar af þessu tagi líðandi?
Þetta er álíka gáfulegt og að loka vínbúðum vegna þess að einhverjar fyllibyttur brjóta rúðu. Banna akstur á Reykjanesbraut vegna þess að nokkrir aka of hratt. Er þá ekki ástæða til að banna lögreglumönnum að hafa afskipti af fólki vegna þess að nokkrir hafa fengið dóma fyrir ofbeldi. Já, og banna björgunarsveitina því einn velti fjórhjólinu sínu og handleggsbrotnaði (hver gætti öryggis björgunarmannsins?).
Forvarnir?
Stjórnsýsla lögreglunnar á Suðurnesjum er farin að snúast um verklag hennar, vinnutíma og meintan skort á starfsmönnum. Allt tal um öryggi göngufólks er auðsjáanlega yfirvarp. Suðurnesjalöggan heldur að verkefnið sé forvarnir sem er rangt. Hún er einfaldlega að skipta sér af því sem hún á að láta að mestu leyti vera.
Víða um land er hættulegra en við Litla-Hrút, lengra að fara til aðstoðar og aðstæður erfiðari. Hvergi er þó landi lokað. Furðulegt.
Enn fær fólk að ganga óáreitt um Hornstrandir og Vonarskarð, klífa Herðubreið og Botnsúlur, leggja leið sína upp í Hveradal í Kverkfjöllum og arka um Fögrufjöll og fara á jökla svo örfá dæmi séu tekin.
Hver gætir að öryggi þessa fólks?
Jú, það sjálft.
Er því treystandi?
Varla að mati löggunnar á Suðurnesjum.
Hvað gerist þegar óhöpp verða í þessum gönguferðum? Jú, mikið rétt. Kallað er á aðstoð björgunarsveita, lögreglu og jafnvel Landhelgisgæslu. Allir þessir koma til aðstoðar, margir um langan veg. Til þess er nú leikurinn gerður. Af hverju er ekki sami háttur hafður á við Litla-Hrút?
Hvað myndi nú gerast ef lögreglustjórar um allt land færu að fordæmi löggunnar á Suðurnesjum og byrjuðu að skipta sér af göngufólki?
Líklega yrði fyrst yrði hlegið að þeim; vel, lengi og innilega. Ekki nokkur maður myndi taka mark á þeim. Síðan yrðu þeir kærðir fyrir embættisafglöp.
Loka Meradalsleið
Hafði löggan á Suðurnesjum öryggi fólks í huga þegar hún lét það ganga Meradalsleið á móti reyk af brennandi mosa og eiturgasi í upphafi gossins? Þegar hún loksins áttaði sig höfðu þúsundir höfðu farið að gosstöðvunum, vaðið nærri því eld og eimyrju, gengið í brunnum mosa upp að ökkla. Þá var gönguleiðinni lokað í marga daga og beðið eftir að hvassri norðanáttinni linnti. Á meðan mátti til ekki ganga reyklausa leið að gosstöðvunum frá Krókamýri við Vigdísarvallaveg. Honum var lokað og skrökvað til um ástæðuna.
Hvers vegna fer fólk hættulega nærri gígnum? Einfaldlega vegna þess að löggan smalar því að honum eftir lögguleiðinni, Meradalsleið. Hún endar vestan við Hraunsels-Vatnsfell þar sem mosi er brunninn og aðeins askan eftir. Væri löggunni annt um öryggi ferðamanna myndi hún loka Merardalsleið og hætta að áreita fólk.
Nú er gönguleiðum að gosstöðvunum lokað klukkan 18 dag hvern. Nóg er þó að koma einni mínútu áður og þá er hægt að dvelja við gíginn alla nóttina. Ætlar löggan ekki að gæta öryggis þessa fólks? Sem sagt lokað en ekki lokað. Gáfulegt.
Nýr dómsmálaráðherra virðist ekkert gera annað en að tala um erfiðu gönguleiðina frá Vigdísarvöllum en nefnir ekki Krókamýri. Er hún sátt við bjánaskapinn í löggunni? Er hún á móti ferðafrelsi?
Ferðafrelsi
Vesturleiðin yfir Fagradalsfjall er góð þó löng sé. Frábær útsýnisstaður er við Litla-Hrút og einnig af toppi hans.
Hér er loksins komið að aðalatriðinu. Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2003 segir:
c. tryggja rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar og stuðla þannig að almennri útivist í sátt við náttúruna, landsmönnum til heilsubótar og velsældar.
Við hvað styðst Lögreglustjórinn á Suðurnesjum þegar hann lætur sem ofangreind lög séu ekki til. Að minnst kosti er honum ekki umhugað um heilsubótarþáttinn og velsældina þegar hann lætur fólk arka Meradalsleið á móti reyk og gasi úr eldgígnum.
Líkur benda til að eldgosið við Litla-Hrút muni ekki endast lengi. Engu að síður ættu yfirvöld að auðvelda fólki að komast að gosstöðvunum. Í stað þess að þykjast vita allt og kunna, finna upp hjólið af eigin takmörkuðu hyggjuviti, ætti löggan að leita aðstoðar hjá reyndum fjallamönnum til dæmis í Ferðafélagi Íslands, Alpaklúbbnum, Toppförum og öðrum snillingum með áratuga reynslu í skipulagningu gönguferða. Þó fyrr hefði verið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)