Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Ritstjóraraus Sigmundar E. Rúnarssonar

Vissir þú lesandi góður að Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri Fréttablaðsins er á sama máli og helstu fjöldamorðingjar sögunnar, Stalín, Maó og Hitler?

Hvernig veit ég það?

Jú, þeir sögðu af fullvissu sinni að einn plús einn væri sama sem tveir. Sigmundur lærði sömu stærðfræði.

Auðvitað er þetta tóm della en ég get ekki stillt mig um að nota sömu heimskulegu röksemdafærsluna og Sigmundur gerir í leiðara dagsins í Fréttablaðinu. Honum finnst alveg ómögulegt að rússneski sendiherrann skuli hafa fengið grein birta í Morgunblaðinu. Sigmundur segir þetta:

Það er beinlínis sorglegt að sjá útgerðarvaldið á Íslandi eyða prentsvertu í öfgafullan áróður af þessu tagi gagnvart saklausri þjóð sem horfir nú upp á alþýðu manna vera stráfellda í gegndarlausum loftárásum af hálfu Rússa sem einbeita sér að því að rústa heimilum fólks og öllum viðkvæmustu innviðum landsins.

En þá liggur það líka fyrir að hverju aðdáun blaðsins beinist.

Þetta segir maðurinn sem er sammála helstu fjöldamorðingjum sögunnar. Afsakið, þetta segir blaðafulltrúi „góða fólksins“ í Samfylkingunni.

Enskumælandi tala um „guilt by association“ sem útleggja má sök vegna tengsla eða samskipta, og þykir ekki merkileg röksemdafærsla um sekt. Sigmundur ritstjóri færir sektardóminn niður á enn lægra plan. Segir í hálfkveðinni vísu að ritstjórar Morgunblaðsins dáist að Pútín fyrir þá sök eina að birta grein eftir rússneska sendiherrann.

Páll Árdal varaði við svona: 

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

Orðalag ritstjórans á Fréttablaðinu er svo ómerkileg að hann getur ekki stillt sig um að tala um „útgerðarauðvaldið“ sem leyfir sér að prenta áróður sendiherrans. Hvernig á að skilja þetta? Líklega felst í því að ritstjóri Fréttablaðsins myndi aldrei birta grein sem hann er efnislega ósammála. En þá liggur það líka fyrir hvert viðhorf mannsins til lýðræðisins beinist.

Ágæti lesandi er ekki nokkuð langt til seilst að reyna að koma höggi á keppinautinn með því að væna hann um „Rússadekur“ eða álíka? Síst hafa ritstjórar Morgunblaðsins verið sekir um slíkt, frekar að vinstri menn hafi fordæmt þá fyrir stuðning sinn við Nató og vestrænt lýðræði. Eða bendir eitthvað til þess að núverandi ritstjóri hafi breytt um skoðun í þessu efnum?

Svona skrifar engin ekki nema sá sem er ölvaður og stendur í ræðustól á Alþingi.

Hva?

Má ekki nefna fulla kallinn sem núna er ritstjóri?

Högg fyrir neðan beltisstað?

Æ, æ.

 

 


Skoðanakönnun hjálpar svaranda að mislíka mjög - eða hata

Hægt er að klúðra heilli skoðanakönnun með því að leggja svarendum orð í munn. Auðvita á að varast það. Fjölmiðlanefnd lét fyrir stuttu gera könnun sem um margt er vafasöm. Niðurstöður hennar er auðveldlega hægt að draga í efa.

Hér er ein spurningin:

Er einhver hópur sem þér mislíkar mjög?

Sárasaklaus. Ætti ég að svara henni hefði ég einfaldlega sagt nei, mér mislíkar ekki mikið við neina hópa. Auðvitað kann að vera að manni sé í nöp við það sem einstaka hópar eða fólk sem tengt er hópum lætur frá sér fara. Þannig held ég að flestum sé farið. 

Hins vegar er afar líklegt að svar margra myndi breytast ef spurt væri á þennan hátt:

Hér fylgir listi með ólíkum hópum í samfélaginu sem fólk getur haft mismunandi skoðanir á. Er einhver hópur sem þér mislíkar mjög?

HóparÞetta er það sem borið var fram fyrir svarendur. Listinn sem fylgir breytir öllu, gefur hverjum manni byr í seglin. Boðið er upp á hlaðborð af hópum sem maður getur látið sér líka illa við og það á stundinni, nær umhugsunarlaust. Sjá meðfylgjandi töflu.

Hvers vegna? Einfaldlega vegna skyldurækni. Ég er spurður og sjálfsagt er að svara. Í fermingarveislunni er það sjálfsögð kurteisi að bragða á öllum sortum, jafnvel þeim sem manni líst ekkert á.

Skyndilega er sá sem ekki mislíkaði við nokkurn mann orðinn fúll út í allt og alla. Hann rámar í fjölmiðlafréttir, „vonda fólkið“. Þegar hann sér alla listann yfir hópanna, hlaðborðið sjálft, man hann hver skylda hans er; að svara ítarlega, samkvæmt fréttum fjölmiðla. „Hakaðu við alla sem þú vilt“, og svarandinn gerir það svikalaust.

Hvað merkir sögnin að mislíka? Í almennu máli getur það merkt að gremjast vegna einhvers eða falla eitthvað illa svo vitnað sé í orðabókina. En, svo bætist hitt við; áhersluorðið mjög og „mislíkunin“ fer að nálgast gildishlaðna orðið að hata. Svarandinn gerir ef til vill ekki greinarmun á að mislíka og hata því hlaðborðið breytir öllu.

Gjörbreyting verður á merkingu orðalagsins „mislíka mjög“ þegar á eftir fara nöfn hópa sem nefndir eru í könnuninni.

Hversu skammt er í að sá sem „mislíkar mjög“ við Gyðinga, Pólverja, múslima hati þá. Merkir við til að segja eitthvað: „Jú, ég hata Ísraela sem fara illa með Palestínumenn.“ Ekki eru allir Gyðingar Ísraelar, skiptir það engu máli?

Jú, ég hata femínista, ég hata múslima, íhaldsmenn, kapítalista. vopnasafnara, loftlagsafneitara, transfólk, lögguna, alþingismenn ...

Svona könnun er furðuleg. Líkist ansi mikið svokölluðum „smellufréttum“ veffjölmiðla sem búa til vafasamar fyrirsagnir til þess eins að plata fólk til að opna fréttina.

Skoðanakönnunin býður upp á ótal viðtöl við fulltrúa þess sem framkvæmdi hana. Þá myndast vandlætingin: Guð minn góður! Hvað er að gerast? Þvílíkar öfgar. Erum við svona miklu verri en Svíar sem er samanburðarþjóð í könnuninni. Könnunin er fullkomin rétt eins og smellufrétt.

„Hvers vegna er þér illa við veganista, geturðu rökstutt svarið?“ „Ha, hvað? Nei, sko, mér finnst bara asnalegt að fólk borði ekki kjöt.“

„Af hverju mislíkar þér mjög við rómafólk, geturðu rökstutt svarið?“

„Hvers vegna er þér svona uppsigað við marga hópa?“

Eflaust verður fátt um svör þegar gengið er á fólkið sem svaraði þessari spurningu. 

Aðalatriðið er það sem nefnt var i upphafi. Mislíki þér mjög við einhverja hóp nefndu þá. Ég skora á þig.

Sá sem býr til skoðanakönnun á ekki að hjálpa svarandanum og mynda sér skoðun.

Hefði enginn listi fylgt spurningunni segir mér svo hugur um að niðurstaðan hefði ekki orðið fréttnæm. En það var ekki tilgangurinn.

Smellufréttin er aðalatriðið. Og blaðamannastéttin gleypti við þessu, gagnrýnislaust.

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband