Bloggfærslur mánaðarins, september 2021
Enginn samúð með tapara sem vælir og kennir öðrum um
27.9.2021 | 10:33
Tapi einstaklingur í kosningum eða nái ekki þeim árangri sem hann sóttist eftir þarf það ekki að þýða að hann sé ver gefinn en aðrir eða minni háttar. Margt ræður því hver sigrar, bæði tilviljanir, vinna, þrautseigja og svo öll smáatriðin sem skipta máli þegar upp er staðið.
Engum líkar við taparann sem barmar sér og kennir öðrum um ófarir sínar.
Einn af þessum sáru töpurum er Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir, alþingismaður og varaþingmaður á síðasta kjörtímabili. Hann hafði ekki erindi sem erfiði í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðuvesturkjördæmi. Nú skrifar hann grein í Mogga dagsins og rekur raunir sínar.
Hann fullyrðir að tap sitt sé eftirfarandi að kenna:
- Formaður uppstillinganefndar var á móti honum
- Þingkona úr Mosfellsbæ var á móti honum
- Formaður flokksins vorkenndi honum ekki
- Ritari flokksins vorkenndi honum ekki
- Fórnarlamb lyga, niðurlægingar og svika
Þar með er stjórnmálaþátttöku Vilhjálms Bjarnasonar lokið. Aldrei hefði hann átt að skrifað þessa bitru grein. Hún er honum ekki til framdráttar nema síður sé. Hann dæmir samherja sína hart. Líkir þingkonu við hundstík. Að sjálfsögðu taka lesendur afstöðu til greinarinnar. Samherjum líkar illa við hana því Vilhjálmur vegur að þeim sem staðið hafa þétt saman. Vel má vera að hægt hefði verið að standa öðru vísi að málum. Þingkonan sem Vilhjálmi er svo uppsigað við hefur staðið sig vel. Hefur kjörþokka sem Vilhjálm skortir.
Sannast hér að margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Eflaust má draga í efa að að þeir útvöldu eigi skilda vegsemd sína en hinir ekki. Og víst er að fjölmargir skilja ekki mikið eftir sig þrátt fyrir að hafa verið valdir og setið lengi á þingi.
Þegar upp er staðið kann að vera að ekki séu allir ánægðir með vegferð sína og ábyggilega margir sem myndu breyta á annan hátt fengju þeir tækifæri til. En fyrir alla muni ekki væla opinberlega á þennan hátt.
Vilhjálmur segist ganga uppréttur og stoltur frá borði þrátt fyrir svik annarra við sig og niðurlægingu. Greinin segir hins vegar allt annað. Karlinn er beinlínis hokinn, sár og fúll. Í stað þess að bera höfuðið hátt svo eftir sé tekið skrifar maðurinn samúðargrein um sjálfan sig. Hnýtir í vonda fólkið. Aumingja ég gegn öllum hinum, ofureflinu.
Vilhjálmur sat á þingi og var síðar varaþingmaður. Ekki hafa allir náð svo glæsilegum árangri. Hann hefur efni á að gleðjast yfir því.
Ástæðan fyrir því að hann situr ekki lengur á þingi er einfaldlega sú að hann fékk ekki stuðning til þess í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Fjölmargir tóku þátt lýðræðisveislunni sem prófkjör flokksins eru og allflestir eru kátir með varnarsigur flokksins í kosningunum síðasta laugardag.
Karlinn hefur allt á hornum sér þó hann ætti að vera stoltur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þjóðin löðrungar öfgavinstrið en vill sömu ríkisstjórn
26.9.2021 | 12:04
Þjóðin hafnaði Sósíalistum. Þeir fengu aðeins 8.174 atkvæði. Meira að segja launþegarnir í Einingu höfnuðu þeim. Aðeins öfgafyllsta liðið úr Vinstri grænum og Pírötum kusu þá en það dugði ekki til. Árangurinn var snautlegur, enn eitt gjaldþrotið hjá formanninum sem í þetta sinn klæddist gallajakka eins og hann heldur að verkalýðsleiðtogar geri.
Þjóðin hafnaði Miðflokknum, klausturflokknum. Honum var hegnt fyrir ósæmilega framkomu sína. Náði með herkjum inn tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum og einum uppbótar en verður minnsti þingflokkurinn. Gjörsamlega óviðunandi árangur fyrir flokk sem þóttist geta greitt almenningi hundruð þúsunda króna af almannafé ef ríkissjóður væri rekinn með halla. Kjósendur féllu ekki fyrir þessu bragði.
Viðreisn verður næstminnsti flokkurinn á Alþingi með aðeins fimm þingmenn, bætti þó við sig einum. Einn þeirra var eldsnöggur að finna blóraböggulinn og kvartar nú sáran undan því að Seðlabankastjóri hafi fullyrt að útilokað væri að tengja íslenska krónu við Evru. Varaformaður flokksins, sem enginn veit hvað heitir, náði eðlilega ekki kjöri. Ekki heldur Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður sem hafði þó verið ansi áberandi á síðasta þingi.
Þjóðin hafnaði Evrópusambandshugmyndum Viðreisnar og Evrutengingunum. Flokkurinn fékk færri atkvæði en bæði Píratar og Flokkur fólksins. Inga Sæland hefur greinilega mun meiri kjörþokka en Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Flokkur fólksins er sagður senuþjófur kosninganna. Flokkurinn hafði rekið tvo þingmenn úr flokknum á síðasta kjörtímabili. Þeir fóru í klausturflokkinn en eru nú báðir horfnir úr stjórnmálum. Eftir voru aðeins tveir þingmenn. Í kosningunum gaf þjóðin flokknum fjóra til viðbótar og munu nú verða sex á næsta þingi. Geri aðrir betur. Inga Sæland formaður flokksins hefur það orð á sér að vera einlæg og trú skoðunum sínum og flokksins. Á næstu misserum mun koma í ljós hvort nýir þingmenn flokksins séu slíkir bógar geta aðstoðað við að koma fram breytingum á kerfinu meðal annars öldruðum til hagsbóta.
Píratar sigla lygnan sjó. Miðað við hamaganginn og lætin í þeim á síðasta þingi og í kosningabaráttunni gerist ekki neitt. Flokkurinn er vinstri flokkur, nær sósíalistum en öðrum, ef marka má rannsóknir á viðhorfum þeirra sem hann studdu í skoðanakönnunum. Nýja stjórnarskráin var eitt af kosningamálum Pírata. Þjóðin var ekki sammála og telur hana ekki á dagskrá. Hún hafði ekki einu sinni áhuga á heitstrengingu flokksins að vinna ekki með Sjálfstæðisflokknum. Enda mun enginn vinna með villingunum í Pírötum.
Samfylkingin fór ansi flatt í kosningunum, er taparinn. Flokkurinn hreykti sér hátt, trúði á að úrslit kosninganna yrðu svipaðar og í skoðanakönnunum. Formaðurinn sór að hann myndi aldrei mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum og var hreykinn eins og barn sem segist loksins ætli að hætta að nota bleyju. Flokkurinn græddi ekkert á yfirlýsingunni en gerði bleyjulaust upp á bak. Hann mun einfaldlega ekki taka þátt í ríkisstjórn, hvorki með Sjálfstæðisflokknum né öðrum. Þjóðin gaf honum utanundir og skikkaði hann áfram í stjórnarandstöðu. Löðrungurinn svíður. Ólíklegt er að Logi Einarsson haldi áfram sem formaður.
Einn af þeim sem kom Samfylkingunni til hjálpar var Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar í ríkisstjórninni alræmdu 2009 til 2013. Flótti hans úr VG vakti enga athygli, dugði Samfylkingunni ekki neitt.
Staða Vinstri grænna er athyglisverð. Flokkurinn tapaði greinilega miklu fylgi. Öfgavinstrið hljóp frá borði og til Sósíalista. Því er nú vitað að 8.174 Íslendingar eru sósíalistar. Þeir koma úr VG, Samfylkingunni og Pírötum. Hefði flokkur Sósíalista ekki boðið fram hefðu þessir flokkar staðið skár og VG líklega betur en aðrir.
Sjálfstæðisflokkurinn getur vel við unað. Hann fær jafn marga þingmenn og árið 2017 þó svo að fylgi hans minnkaði um 0,8% á öllu landinu. Brynjar Níelsson náði ekki kjöri og er missir af honum. Hins vegar bætist við öflugt fólk í öllum kjördæmum.
Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Það er óumdeilt. Formaðurinn mun eflaust gera kröfu til embættis forsætisráðherra en það verður erfitt verkefni. Formaður Sjálfstæðisflokksins mun einnig gera kröfu til þess. Formaður Vinstri grænna hefur þó tögl og hagldir í sínum höndum.
Ríkisstjórnin hélt vell og vel það. Þrátt fyrir tap Vinstri grænna jók hún þingmeirihluta sinn. Ríkisstjórnin mun halda áfram sé vilji til þess hjá Vinstri grænum. Annað stjórnarmynstur er ekki í sjónmáli.
Katrín Jakobsdóttir getur krafist þess að verða áfram forsætisráðherra og án VG yrði stjórnarkreppa í landinu. Vinstri flokkarnir hafa ekki nægan þingstyrk til að mynda ríkisstjórn nema með Viðreisn og Miðflokknum. Viðreisn mun ábyggilega selja sál sína til að komast í ríkisstjórn en Píratar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki starfa með Miðflokknum.
Þá er aðeins einn kostur eftir og það er samstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og annað hvort Flokks fólksins eða Viðreisnar. Þeir hafa samanlagt meirihluta 35 eða 34 þingmenn. Fyrrnefndu flokkunum mun ábyggilega þykja það ansi tæpur meirihluti miðað við að starfa með VG. Þar fyrir utan hafa þeir ekkert álit á Viðreisn.
Niðurstaðan er því sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu vilja starfa áfram með Vinstri grænum sem fengi forsætisráðherrann. Hins vegar mega fyrrnefndu flokkarnir vara sig á því að gefa VG ekki góð ráðuneyti annars er hætt við því að flokkurinn gangi hálfvolgur í ríkisstjórnina. Slíkt er stórhættulegt í stjórnmálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.2.2022 kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Litlu flokkarnir eru gagnslausir þrátt fyrir fallegar umbúðir
24.9.2021 | 20:40
Stjórnmálin eru eins og Makkintosh dolla. Í henni er aragrúi af gómsætum molum. Eftir að hafa freistast til að kaupa svona nammi áttar maður sig á því að litirnir segja ekkert til um hversu gott nammið er. Og þannig er það með stjórnmálaflokkanna sem fyrir kosningar pakka loforðum sínum inn í fallegar umbúðir.
Eftir kosningar gerist það sama og þegar við veljum fallega molann. Hann er í engu samræmi við útlitið. Bragðast illa. Óbragðið kemur fljótt fram.
Flokkur fólksins
Áferðafallegt nafn og kosningabarátta Flokks fólksins eru umbúðir. Hann mun ekki hafa nein áhrif frekar en hingað til. Hann er dæmdur til að vera smáflokkur komist hann á þing. Formaðurinn hefur hátt, það eitt hefur hann lært á síðustu fjórum árum. Rífur sig, fer rangt með og vera má að hann gráti dálítið til að fá samúð.
Hvað ætla kjósendur að gera ef þátttaka Flokks fólksins í ríkisstjórn kosti að Ísland gangi í Evrópusambandið eða að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu? Skiptir þetta engu máli?
Ekki það? Flokkurinn ætlaði að bæta kjör aldraða, öryrkja og annarra og í leiðinni kann hann að gjörbreyta stefnu landsins í utanríkismálum eða leggja Landspítalanum til 50% meira fé án þess að gera neina kröfur til hans um meðferð fjárins. Staðreyndin er sú að kjósandinn veit ekkert hvernig flokkurinn mun haga sér komist hann í ríkisstjórn.
Píratar
Píratar eru samskonar flokkur sem kostað hefur ríkið mikið fé. Aðall hans er að leggja fram ótrúlegar fyrirspurnir á þingi um hitt og þetta sem litlu skiptir. Afleiðingin er sú að stjórnvöld hafa þurft að eyða miklum tíma í að svara, tíma sem annars hefði farið í mikilvægari mál eins og að vinna fyrir almenning. Og hvað gerðu Píratar við öll svörin? Ekkert. Þökkuðu ekki einu sinni fyrir ómakið.
Atkvæði greitt Pírötum kann að leiða til þess að Ísland gangi inn í Evrópusambandið, fyrirtæki landsins verði skattpínd. Er til dæmis skynsamlegt að taka upp stórhækkað auðlindagjald ofan á tekjuskatt fyrirtækja í sjávarútvegi? Dettur fólki hug að tveggja manna bátur til dæmis á Skagaströnd geti greitt auðlindagjald? Nei, en þá eiga að koma undantekningar frá aðalreglunni og undantekningar frá undantekningunum. Ekki traustvekjandi.
Viðreisn
Viðreisn er annar flokkur sem pakkað er inn í fagrar umbúðir en er í raun ekkert annað en umbúðirnar. Hann reynir allt hvað tekur að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum þó allir forystumenn flokksins komi þaðan og líka kjósendur hans. Viðreisn vill ekki einu sinni vinna með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna tók hann saman við Samfylkinguna, Vinstri græna og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur og kyngdi ælunni. Hann leggur í herferð gegn bílaumferð, flugvellinum og öðru sem fólk þarf nauðsynlega á að halda. Óbragðið er Evrópusambandsaðildin og Evran sem er í raun það eina sem flokkurinn byggir á.
Dettur einhverjum í hug að einhliða binding krónunnar við Evru eða upptaka gjaldmiðilsins muni ekki hafa slæm efnahagsleg áhrif þjóðina. Í stað þess að geta leiðrétt gengi krónunnar er það fest og þar með mun atvinnuleysi stóraukast. Gjaldeyrisskapandi fyrirtæki munu eiga einskis annars úrkosta en að segja upp fólki. Og önnur fylgja á eftir.
Sósíalistar
Flokkurinn sem kennir sig við sósíalismann er með áferðafalleg kosningaloforð. Óbragðið er að hann ætlar að beita aðra ofbeldi. Dæmi hæstiréttur ekki eins og flokkurinn vill ætlar hann að ryðja dóminn, bókstaflega. Henda dómurunum í burtu og skipa aðra sem dæma eftir línu flokksins. Ofbeldi er aðall sósíalista í gegnum söguna. Já, og skrifstofur Sjálfstæðisflokksins eiga að verða almenningssalerni. Þannig er nú heiftin. Og aðalsprautan í flokknum er svokölluð afturbatapíka, náungi sem var aðalkapítalistinn í útrásinni, setti fjölda fyrirtækja á hausinn og hafði launin af fjölda fólks.
Allt eru þetta því sem næst eins máls flokkar. Komist þeir á Alþingi mun fólki koma á óvart hvert þeir stefna að öðru leiti en helstu kosningaloforðin benda til.
Fimm eða sex flokka ríkisstjórn
Í Reykjavík ræður meirihluti fjögurra flokka. Afleiðingin eru ótal hneykslismál sem kinnroðalaust má kalla spillingu.
Kjósendur þurfa að hugsa sig vel um. Ekki greiða smáflokkum atkvæði, flokkum sem aldrei munu geta breytt einu eða neinu nema í hrossakaupum við ríkisstjórnarmyndun.
Hvað sagði ekki aðalpersónan í Forest Gump bíómyndinni:
My mama always said, life is like a box of chocolates. You never know what you're gonna get.
Fallegir innpakkaðir molar í Makkintosh dollunni eru ekki allir góðir. Sumir eru einfaldlega betri. Ekki eru allir stjórnmálaflokkar góðir en það vitum við ekki fyrr en eftir kosningar.
Sjálfur kýs ég Sjálfstæðisflokkinn. Ég þekki hann og treysti forystumönnum hans.
Fát grípur lögguna sem lokar gossvæðinu með hún hugsar
15.9.2021 | 13:35
Mikið fát greip lögregluna á Suðurnesjum rétt fyrir hádegi miðvikudaginn 15. september. Þá tók að flæða suður úr hrauntjörn í Geldingadal skammt frá stóra gígnum. Flestir sem fylgjast að staðaldri með þróun gossins gerðu ráð fyrir því að það myndi gerast enda er það eðli hrauns að fylgja þyngdarlögmálinu, renna niður í móti.
Lögreglan hafði ekkert spáð í það hvað yrði um hraunið. Hélt líklega að hraun í Geldingadal rynni alls ekki heldur héldi til þarna efra, kólnaði og yrði til friðs.
Þegar hrauntjörnin brast datt löggunni ekkert í hug annað en að fyrirskipa allsherjarlokun, ekki aðeins á svæðinu í þar sem hraunið rann heldur á öllu gossvæðinu. Loka Nátthagadal, Geldingadal eystri, Meradal, Langahrygg og Stóra-Hrúti. Öllu skyldi lokað meðan löggan væri að hugsa. Gott ef ekki var bannað að ganga á Esju.
Fjallið var smalað, allir reknir í burtu. Og löggan hugsar og hugsar.
Auðvitað er grín að þessu gerandi. Geir og Grani úr Spaugstofunni eru komnir til starfa hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og orðnir yfirmenn, skipa fyrir.
En grínlaust. Lögreglan á Suðurnesjum virðist ekki fylgjast með. Hún þekkir ekki landið, hefur enga reynslu í gönguferðum og kann varla að lesa landakort. Af og til þarf hún að hugsa. Það er svo sem gott.
Fát grípur lögguna þegar eitthvað gerist sem henni finnst óvænt. Engin yfirvegun, fólk er bara rekið í burtu. Jafnvel fólk sem er betur búið og með enn meiri reynslu en björgunarsveitarmenn, landverðir ... og jafnvel löggan. Jafnvel skynsamt fólk.
Björgunarsveitarforingi lætur hafa þetta eftir sér á Vísi:
Ég skil fólk alveg, þetta er eins og flugur á skít. Það sogast að þessu en er ekki að átta sig á menguninni þegar þetta er svona heitt. Það er gríðarlegur hiti í þessu. Mínir menn eru búnir að bakka út úr hita, segir Bogi Adolfsson.
Göngufólki er líkt við flugur á skít. Hvað er eiginlega að manninum? Hann virðist halda að aðeins mínir menn forðist hitann af glóandi hrauni en ekki sauðsvartur almúginn.
Yfirlögregluþjónn segir í viðtali við Ríkisútvarpið:
Gunnar segir um lokunina að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða, þar til hlutirnir skýrast nánar.
Forkólfurinn þarf að hugsa málið þó það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir.
Hraunflæðið er bundið við fjallið vestan við Nátthagadal, þar sem áður var vinsæl gönguleið. Með ákveðnum rökum má segja að þar gæti myndast hætta taki að flæða yfir varnargarða. Langt er í það. Engin hætta er hinum megin dalsins, á Langahrygg eða Stóra-Hrúti, ekki heldur austur í Meradal. Samt er öllu lokað. Harðlokað eins og dómgreind löggunnar.
Um tveimur tímum eftir að löggan lét loka svæðinu virðist hraunrennslið hafa dvínað og glóandi hraunið er orðið svart. Breytingin sést greinilega á beinu streymi Ríkisútvarpsins og á sjálfvirkri myndavél Veðurstofunnar.
Þeim sem standa svona illa að verki eigum við að treysta fyrir öryggi okkar á öðrum sviðum. Lái mér hver sem vill en ég treysti ekki handabaksvinnubrögðum þessa fólks.
Þeir sem streitast á móti löggunni, landvörðum og björgunarsveitum eru kærðir fyrir brot gegn valdstjórninni. Hversu heimskulega sem valdstjórnin hagar sér hótar hún að kæra þá sem á móti henni standa. Þannig er til dæmis gert í Hvíta-Rússlandi um þessar mundir.
Myndin er af hrauntjörn vestan við gíginn. Hún er tekin úr glæsilegri hreyfimynd, sjá hér. Veit ekki hver tók hana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)