Bloggfærslur mánaðarins, desember 2021
2.686 km
31.12.2021 | 18:20
Í um síðustu áramót strengdi ég þrjú nýársheit. Þau voru:
- Klífa Everest
- Synda á norðurskautið
- Kaupa happdrættismiða
- Taka þorsk í fóstur.
Þetta eru allt göfug markmið sem gera mann fagran að innan, eins og sagt er. Happdrættismiðann keypti ég í desember (enginn vinningur). Hitt verður að bíða næsta árs.
Annars stóð ekki til að gera neitt annað en það hefðbundna; en drekka bjór, koníak, verða fullur, fara á djammið þess á milli sem ég byggi mig undir að standa við heitin. Því miður fór lítið fyrir drykkjuskapnum af ástæðum sem nú skal greint frá.
Fyrir algjöra tilviljun vildi svo til þann fyrsta janúar árið 2021 að ég gekk út úr húsi mínu mér til heilsubótar. Sko, veitti ekki af eftir hressileg áramót. Segja má að ég hafi varla komið heim síðan.
Fyrir mér fór eins og honum Forrest Gump sem álpaðist út og hljóp og hljóp og hljóp þangað til hann lét af hlaupum. Ég gekk og gekk og gekk og gekk. Hef ekki enn hætt.
Hef nú lagt að baki 2.686 kílómetra. Er þá enginn hissa á því hvers vegna ég náði ekki markmiðunum tólf; klífa Úlfarsfell, synda í Laugardalslauginni, taka strætó og læra á flugvél.
Nei, ég gekk ekki þessa kílómetra í einum áfanga, þeir urðu 245.
Ég fann tvær leiðir, tíu og fimmtán km langar. Gekk oftast þá skemmri en hina um helgar og á tyllidögum. Þar að auki hef ég gengið á fjöll, druslast margoft um eldstöðvar á Reykjanesi og brölt á jökla. Allt er samviskusamlega fært til bókar; vegalendir, tími og annað gáfulegt.
Til að gera afrek mitt sem glæstast hef ég dregið göngurnar á kort, svona til að þykjast vera eitthvað.
Fyrst gekk ég hringveginn (1.321 km), hélt þaðan um Snæfellsnes, Dali og um Vestfirði, til Ísafjarðar og svo í Kaldalón, að Bæjum, yfir Dalsheiði og í Leirufjörð.
Þá orti ég:
Ljótur ertu Leirufjörður
líst mér illa á þig.
Að þú sért af guði gjörður
gengur yfir mig.
Bara ansi vel ort, þó ég segi sjálfur frá. Þó kann vel að vera að einhver annar hafi ort þessa ágætu vísu enda hefur mér aldrei þótt Leirufjörður ljótur. Þvert á móti.
Nú, ég gekk svo um Hornstrandir (ekki í fyrsta sinn) og allt suður að Staðarskála við botn Hrútafjarðar. Þaðan villtist ég upp á Arnarvatnsheiði og inn á Kjöl sem ég skokkaði í desember.
Og nú á gamlársdegi er ég sumsé staddur einhvers staðar á milli Gullfoss og Sandár. Endir. Kemst í þykjustunni ekki heim. Afþakka leit björgunarsveita. Veit að ættingjar, vinir og kunningjar myndu hugsanlega leita að mér í vor.
Göngurnar eru fjarri því að vera afrek nema fyrir sjálfan mig. Ég gerði aðeins það sem hverjum manni ber skylda til; halda sér í formi, láta líkamann erfiða. Eða með orðum Guðmundar fjallamanns Einarssonar frá Miðdal:
Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum.
Til að gera tilveruna bærilegri hóf ég að hlusta á sögur af öllu tagi, mest þó fornsögur. Hundleiðinlegar göngur urðu í skyndilega stórskemmtilegar. Ég hlakkaði til að fara út að ganga og hlusta á frásagnir af hetjum í Njálssögu, miskunnarlaus örlög í Laxdælu, yfirgang og pólitík í Eyrbyggju, ættarsöguna í Vatnsdælu, spakmælin í Grettissögu, vonlausa tilveru Gísla Súrssonar og svo framvegis. Einnig sígildar sögur nútímans og glæpasögur Nesbös hins norska. Best af öllu var að eiga vinskap við Einar Kárason sem þreyttist aldrei á að lesa fyrir mig úr bókum sínum. Aldrei kvartaði skáldið.
Ekki heldur nokkrir einstaklega skemmtilegir vinir sem slógust af og til í för með mér, léttu mér lífið og sporin, og þoldu masið í mér (sumir komu nú bara einu sinni, hvernig sem á því stendur).
Og hvað fæst út úr svona flandri, spyr lesandinn.
Sosum ekki neitt. Spikið á manni minnkar, sem er hugsanlega jákvætt. Annars er þetta bara fyrirhöfn. Maður svitnar og þarf að þvo fötin, skórnir hraðslitna og kaupa þarf nýja; oft kemur hælsæri af nýjum skóm. Stundum er manni kalt. Fyrir kemur að maður hrasar. Ekki er alltaf hægt að treysta á rafhlöðuna í símanum mínum (iPhone 6), hún á það til að tæmast á miðri leið og þá varð allt frekar dapurt og jafnvel samfylkingarskáldið þagnar.
Hvað ætlarðu svo að gera á nýju ári, spyr lesandinn með ólund, enda safnar hann spiki í sófa sínum.
Held áfram, auðvitað. Hvað annað?
Nú strengi tvö nýársheit:
- Annað hvort ek ég eða hleyp jafnmarga km á árinu 2022 og ég gerði á liðnu ári.
- Ætla að vera góður við hunda og ketti.
- Fer í kirkju á næstu jólum ef enginn faraldur bannar.
- Syndi frá Reykjavík og upp á Akranes og hjóla til baka (eða syndi á Akranesi og ek heim).
- Ganga berfættur á volgu hrauni á Reykjanesi.
Má vera að ég hætti bara að ganga og fari að hlaupa eins og Forrest Gump. Sko, ég er ennþá ungur. Kann allt, get allt miklu betur en
Hvernig sem veltist óska ég lesandanum spennandi árs og gleði og ánægju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2022 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jólakveðjur á Þorláki, svoooooo obbboslea j-ó-l-a-l-e-g-a-r
23.12.2021 | 09:52
Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:
Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.
Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:
Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.
Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.
Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.
Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.
Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.
Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).
Jólakveðjur útvarpsins
Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.
Því er nú víðsfjarri. En úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis Stína, Barði, börnin og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda 3.466 kveðjur þetta árið.
Sko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).
Á kaffistofunni í vinnunni minni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.
Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakka, ár, nýtt, líða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.
Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund fjögur hundruð sextíu og sex jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu.
Ríkisútvarpið græðir
Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.
Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í loftið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, skamma krakkana eða eitthvað annað þrifalegt.
Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega fjórtán milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Meira að segja útvarpsstjórinn tekur þátt í upplestrinum og er það í eina skiptið að hann vinnur handtak þarna innandyra.
En bíddu nú aldeilis við, kærir lesandi. Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.
Rafræna tómið
Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu.
Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta.
Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum.
Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu, eða í Kína. Ó nei. Ekki aldeilis. Á skal á endanum stafa, eins og kellingin sagði við vaðið. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.
Gasalega jólalegt
Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra lesa jólakveðjur í tíu mínútur. Kemur nú krókur á móti þessu bragði og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn (landsins, Lions eða einhver annar).
Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:
En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.
Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það útvarpsstjóri.
(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Déskotinn
17.12.2021 | 13:54
Ég var fyrsti maðurinn í Ríkið þennan föstudag þegar aðventan reyndi af veikum mætti að lýsa upp skammdegismorguninn. Auðvitað vildi ég gera mitt til að gera tilveruna bjartari. Gekk því út í rökkrið með nokkra bjóra í fanginu og rándýra koníaksflösku. Áður en ég bakkaði út úr stæðinu smellti ég einum bjór opnum með annarri hendi, með einari eins og við strákarnir segjum stundum. Munaði ekkert um það. Snjall, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn forðum í brennunni. Hjá mér var önnur glóð sem ég hugsaði gott til. En ég bakkaði fyrst og ók síðan áfram en komst ekki út. Þar sem ég hafði ekið inn kom bíll á móti mér og að auki var þarna bannskilti. Útafakstur bannaður, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn í liðsbón á Þingvöllum. Umsvifalaust beygði ég til hægri og það ískraði næstum því í dekkjum. Flott. Við hitt hliðið biðu nokkrir bílar eftir að komast út. Ég teygði mig í bjórinn og var kominn með hann að vörunum þegar ég tók eftir löggumanni með hvítan hjálm sem stóð við fremsta bílinn.
Hvað í fjandanum er löggan að gera? hugsaði ég með mér. Ofurnæmur skilningu minn á aðstæðum var slíkur að svarið var lá mér í augum uppi. Varlega lagði ég bjórinn frá mér í flöskuhólfið á milli sætanna, setti húfuna mína ofan á og svo hann sæist nú ekki. Svo opnaði ég alla glugga til að lofta út gufunni úr bjórnum sem ég hafði opnað.
Löggan var með eitthvað tæki og otaði því að mér.
Hvað er þetta, spurði ég áhyggjufullur.
Það kemur í ljós, sagði löggan, og brosti feimnislega. Blástu.
Má ég ekki bara koma síðar, spurði ég. Því þegar þarna var komið sögu sá ég dálítið eftir því að hafa burstað tennurnar í morgun upp úr vodka, en þá hafði mér fundist það alveg rosalega fyndið. Andremman sem fylgdi var hins vegar ekki góð. Ég át því piparkökur frá Bónusi í morgunmat til að eyða bragðinu.
Löggan hló og hélt ég væri að gera að gamni mínu.
Sko, ég verð örugglega betur upplagður á morgun, fullyrti ég.
Ha, ha, ha. Löggan hló innilega.
Ég blés og reyndi að velja skársta loftið úr lungunum. Mér misheppnaðist.
Heyrðu nú góði, sagði löggan, þegar tækið pípti. Röddin breytti um tón, hætti að vera föðurleg, og nú var hann eins og kennari sem komst að því að ég hafði ekki lært heima. Hann hló ekki lengur og brosti ekki heldur.
Viltu gjöra svo vel og stíga út úr bílnum? Svo mikill mannþekkjari er ég að ég áttaði mig nokkuð skjótt á því að þetta var eiginlega ekki spurning.
Ég horfði á lögguna. Fann að haka seig.
Löggan horfði á mig, gleðilaust.
Ég gaf í, rúllaði upp öllum gluggum og saug upp í nefið, gerði þetta allt þrennt án vandræða. Bíllinn hökti fyrst en náði samt að komast áfram og ég ók á fullri ferð út úr bílastæðinu, upp næstu götu til austurs, niður þar næstu og svo til vinstri og þá hafði ég farið í hring, kominn aftur að hliðinu þar sem ég hafði ekið út án þess að kveðja kátu lögguna. Sá á eftir lögguhjólinu á leið upp götuna sem ég hafði ekið. Auðvitað myndi hann ekki vita að ég væri kominn aftur á sama stað.
Déskoti hvað ég er klókur, hugsaði ég, kveikti á græjunum og hlustaði á Va, pensiero, Þrælakórinn úr Nabucco eftir Verdi, þenja raust sína. Ég hækkaði og ók aftur sömu leið og ók eins og hinir, var bara rólegur. Kórinn fyllti bílinn. En uppi á horni beygði ég í vestur og saup á bjórnum. Hann var kaldur og góður. Snillingur þessi Verdi. Del Giordano le rive saluta ... söng kórinn.
Nokkru síðar heyrði ég í sírenu löggubíls. Blá, blikkandi ljós langt fyrir aftan mig. Ég svínbeygði til hægri og fyrir stóran vörubíl sem flautaði á mig og ljótur bílstjórinn sendi mér illt auga. Mér var alveg sama, ég hægði ferðina mikið og sendi honum fingurkveðju. Ljótur bílstjórinn þeytti eimpípurnar og var alveg kominn upp að mér að aftan. Ég hafði búist við þessu. Nú skyggði vörubíllinn á mig svo löggan sá mig ekki enda ók hún á fullri ferð vestur. Bjánar. Áttu ekkert í mig. ... O mia Patria, si bella e perduta! ... Þvílík fegurð og ég trallaði með.
Ég yfirgaf félagsskap vörubílsins, gaf í og ók sem byssubrendur á eftir löggunni. Þessu býst enginn lögga við, að fulli kallinn aki á eftir henni í eftirleitinni. Þarna var ég eins og hann Arnes útilegumaður sem leitað var að í Akrafjalli á 18. öld. Hann hafði slegist í hóp leitarmanna og hjálpaði þeim að leita að sjálfum sér og gekk það eðlilega frekar illa. Enginn áttaði sig á klókindum Arnesar né heldur áttaði löggan sig á mínum.
Ég gaf í og fylgdi löggunni á þeysireið hennar í vestur. Þá varð mér litið í baksýnisspegilinn. Déskotinn. Fyrir aftan mig glömpuðu blá ljós og nógu skarpur var ég til að átta mig á að það voru engin jólaljós. Ég skipti eldsnöggt um akrein og bláu ljósin fylgdu. Dé...
Þetta hlýtur að vera tilviljun, hugsaði ég. Opnaði annan bjór með einari, saup á honum og fann að mér óx ásmegin. Ég get allt. Er mestur og bestur. Gatnamót voru framundan. Með bjórinn í hægri hendi beygði ég til vinstri, bíllinn tók vel við, í dekkjunum ískraði þegar hann skrensaði á blautu malbikinu, svona alveg eins og í bíómyndum. Í baksýnisspeglinum sá ég að löggan elti mig ekki, hún fjarlægðist, og ég sem af öllum háska hlæ, gaf í. Bíllinn þeyttist áfram og beint í fangið á kyrrstæðum strætó sem á óskiljanlegan hátt beið á rauðu ljósi. Ég fór ekki lengra þennan daginn nema ef verið gæti að ég hafi farið til himna. Til baka kom ég, man ekki hvort ég hafi verið rekinn eða farið sjálfviljugur enda allt eins líklegt að þar hafi verið löng biðröð eins og eftir kóvid skimun. Skipti engu máli.
Verst þótti mér að ég hafði misst bjórinn og hann sullaðist út um allan bíl. Ég man svo glöggt eftir suðinu sem kom úr sprungnum bjórdósum á á gólfinu.
... che ne infonda al patire virtù! Þrælakórinn lauk söng sínum.
Déskotinn ... man ég að mér varð á orði, þegar ég sá bjórinn freyða á gólfinu. Skyldi koníakið vera óbrotið?
Þá vaknaði ég. Sá að sængurverið var rifið, lampinn lá brotinn á útvarpinu sem suðaði. Gluggatjöldin voru komin upp í rúm og ég hafði migið á mig.
Déskotinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.2.2022 kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óökuhæfur - tímapunktur - að sjá aukningu eftirspurnar
3.12.2021 | 10:58
Orðlof
Lög eða skilningur
Það verður að beita öðrum rökum en lögfræðilegum við skilgreiningu á fullveldinu nú á tímum. Eins og áður verða þjóðir að sækja styrk í menningararf sinn og uppruna til að skapa sér það svigrúm sem þær vilja njóta. Lögin eru aðeins umgjörð.
Það þýðir lítið að setja ákvæði um íslenska tungu í lög eða stjórnarskrá sé ekki lögð rækt við að efla skilning á gildi hennar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
13 hafa greinst í Portúgal
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Blaðamaður Ríkisútvarpsins er ósamkvæmur sjálfum sér. Ýmist byrjar hann málsgrein á tölustaf eða bókstöfum.
Af hverju heldur hann sig ekki bara við bókstafina. Það er svo auðvelt.
Tillaga: Þrettán hafa greinst í Portúgal
2.
73 þingmenn Moderaterna
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Blaðamaður á Vísi heldur, líkt og margir aðrir blaðamenn, að ekkert sé að því að byrja málsgrein á tölustaf. Enginn leiðréttir hann og stjórnendur fjölmiðilsins vita líklega ekki betur.
Tillaga: Sjötíu og þrír þingmenn Moderaterna
3.
Óökuhæfur sökum veikinda.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Varla er manninum ekið. Er ekki venjan sú að segja að bíll sé óökuhæfur? Er sagt að bilaður bíll sé veikur?
Á málið.is segir um orðið óökuhæfur:
sem er ekki hægt að aka
ekki í ástandi til að aka bíl
Þar höfum við það. Hvort tveggja má nota, um bíl og ökumann. Dreg nú samt í efa að orðin ökuhæfur eða óökuhæfur séu mikið notuð um fólk. Þess vegnar er tillagan skárri
Tillaga: Gat ekki ekið bíl vegna veikinda
4.
Flest þarf að hreinsa á einhverjum tímapunkti, jafnvel tjörnina norðan við Ráðhús Reykjavíkur eins og hér er gert.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 3.12.21.
Athugasemd: Orðið tímapunktur er orðleysa sem hingað til hefur ekki þurft í íslensku. Líklega komið út ensku, point of time.
Prófið að sleppa orðinu og merking málsgreinarinnar mun ekkert breytast.
Ef þörf þykir má nota orðalagið einhvern tímann og það dugar vel.
Tillaga: Flest þarf að hreinsa jafnvel tjörnina norðan við Ráðhús Reykjavíkur eins og hér er gert.
5.
Við sjáum mikla aukningu eftirspurnar hjá viðskiptavinum okkar, við sjáum met í því
Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 3.12.21.
Athugasemd: Þetta er haft eftir fjölmiðlafulltrúa Landsvirkjunar. Svona orðavaðall er afar algengur en með dálítilli hugsun hefði verið hægt að sleppa kansellístílnum og orða þetta eins og alþýða manna talar.
Tillaga: Eftirspurn hefur aldrei verið meiri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)