Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020
Kalla eftir, vél er hetja og rúllandi steinar
9.7.2020 | 23:19
Orðlof
Orðsporshrun Fjármálaeftirlitsins
Nýlega (10.4.2018) birti Fjármálaeftirlitið skjal á heimasíðu sinni undir heitinu:
Niðurstaða athugunar á ferli fjárfestingar Frjálsa lífeyrissjóðsins í Sameinuðu sílikoni hf.
Ekki var það efnið sem vakti athygli mína heldur stíll og framsetning en í skjalinu stendur m.a. (leturbreytingar mínar):
Með hliðsjón af hinu sérstaka rekstrarfyrirkomulagi lífeyrissjóðsins og hagsmunatengslum rekstraraðila lífeyrissjóðsins við umrædda fjárfestingu var niðurstaða athugunarinnar sú að lífeyrissjóðurinn hefði ekki horft nógu gagnrýnum augum á þau hagsmunatengsl sem voru til staðar við fjárfestingu í Sameinuðu sílikoni og af þeim sökum ekki tekið fullnægjandi tillit til þeirrar orðsporsáhættu sem lífeyrissjóðurinn stóð frammi fyrir vegna þessa. Þá taldi stofnunin að skjalfesting á forsendum og umræðum í tengslum við ákvörðun stjórnar hefði verið verið ófullnægjandi í ljósi þess að lífeyrissjóðurinn og rekstraraðili hans voru báðir hagsmunaaðilar að verkefninu.
Enn fremur segir í skjalinu:
Þá fór Fjármálaeftirlitið fram á að lífeyrissjóðurinn gripi til ráðstafana til að lágmarka orðsporsáhættu vegna hagsmunatengsla sjóðsins og rekstraraðila og endurskoðaði verklag sitt, svo sem með stefnu um hvenær óskað er eftir utanaðkomandi greiningum á fýsileika og áhættu fjárfestinga og hvernig fjárfestingaferli lífeyrissjóðsins skuli háttað þegar rekstraraðili eða aðilar honum tengdir eru einnig haghafar að verkefnum.
Óþarft er að fjölyrða um einstök atriði úr þessu makalausa skjali en ég fæ ekki betur séð en með frekari skrifum af þessum toga gæti Fjármálaeftirlitið staðið frammi fyrir orðsporstapi ef ekki orðsporshruni.
Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
segir að staða samgöngumála á svæðinu hamli byggðaþróun og kallar eftir göngum á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Allir sem lesa fréttina vita að svæðið er í Álftafirði og Skutulsfirði og í þeim síðanefnda er Ísafjörður. Staða samöngumála þarna hamlar varla byggðaþróun annars staðar á landinu. Nafnorðið svæði er því óþarft.
Orðalagið að kalla eftir er skelfilega máttlaust, loðið og segir varla neitt. Sá sem kallar eftir göngum milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar er að óska eftir þeim, biðja um þau, krefjast þeirra, heimta og svo framvegis.
Sama er með orðalagið að biðla til sem er jafn máttlaust, loðið og tilgangslítið í flestum tilfellum. Betra er að biðja, óska, hvetja til, skora á, örva, eggja, brýna og svo framvegis.
Tillaga: segir að staða samgöngumála hamli byggðaþróun og óskar eftir göngum milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.
2.
Að sögn Þorvalds Kolbeinssonar, framkvæmdastjóra Háskólabíós, var öryggiskerfið hetja dagsins.
Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 6.7.20.
Athugasemd: Vél getur ekki verið hetja. Hér hefði farið betur á því að segja að öryggiskerfið hefði bjargað miklu, jafnvel deginum. Aðeins fólk getur verið hetjur.
Á málið.is er Íslensk orðsifjabók og þar segir um hetju:
kappi, hraustmenni, hugrakkur maður [ ] Upphafl. merk. e.t.v. ofsækjandi, víðförull vígamaður e.þ.u.l.
Mikilvægt er að haga orðum eftir tilefni. Vélar og tæki gera aðeins það sem þau eru forrituð til, annars eru þau biluð. Reykskynjari fer í gang þegar hann skynjar reyk. Varla getur öryggiskerfið verið kappi, hraustmenni eða hugrakkur maður.
Blaðamaður á að vita að viðmælendur tala ekki alltaf gullaldarmál og verkefni hans er að lagfæra málfar, ekki dreifa ambögu, en orðið merkir rangmæli, klaufalegt orðfæri, mismæli.
Tillaga: Að sögn Þorvalds Kolbeinssonar, framkvæmdastjóra Háskólabíós, bjargaði öryggiskerfið miklu.
3.
Það geta auðveldlega rúllað steinar frá fólki sem er á ferðinni
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Steinar sem losna í björgum eða hlíðum falla. Líklega rúlla þeir á leiðinni, hvað annað. Steinn sem rúllar er frekar sakleysilegur og hættulítill. Annað mál er þegar hann er í brattri hlíð, þá fellur hann með vaxandi hraða.
Tillaga: Fólk í fjallgöngu getur losað um steina og þeir fallið
4.
Ákærður fyrir nauðgun gegn fjórum konum.
Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 7.7.20.
Athugasemd: Hér á ekki nafnorðið við. Skýrara er að nota sögnina að nauðga. Margir blaðamenn eiga það til að nota nafnorð í stað sagnar. Oftast er það ekki gott.
Tillaga: Ákærður fyrir að nauðga fjórum konum.
5.
Daniels lék sjálfur á fiðluna af mikilli hind
Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 8.7.20.
Athugasemd: Hér kemur fyrir ókunnuglegt orð, í það minnsta er það ekki er þekkt í þessu samhengi. Hind er kvendýr hjartar en þar með er ekki öll sagan sögð. Á málið.is segir:
Hind kv. (16. öld) hagleikur, kunnátta, list; auðmýkt.
Líklegt er að fáum sé kunnugt um þessa merkingu orðsins.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framkvæma handtöku, standa upp fyrir sjálfum sér og Baldur togaður
5.7.2020 | 14:43
Orðlof
Málsnið
Málsnið er heildaryfirbragð málsins og mótast af efni og aðstæðum. Á sama hátt og við klæðum okkur í ólík föt fyrir ólík tilefni veljum við málinu mismunandi búning eftir aðstæðum. Það sem er viðeigandi í einu málsniði getur því verið óviðeigandi í öðru. Val á málsniði ræðst af ýmsum þáttum eins og miðli, markmiði, textategund, viðtakanda, aðstæðum og efni.
Við veljum okkur til dæmis annað málsnið þegar við gerum grein fyrir fræðilegum niðurstöðum á ráðstefnu en þegar við spjöllum við vini okkar í heita pottinum. Formlegt mál er því eins og spariföt sem við skörtum við ákveðin tækifæri eins og þegar við skrifum fræðilega ritgerð.
Margir háskólanemar hafa ekki nægilega gott vald á formlegu málsniði og skrifa því fræðilega texta sem minna á Facebook-færslur.
Leiðbeiningavefur um ritun á háskólastigi.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Í kjölfarið hefur lögreglan framkvæmt yfir hundrað handtökur.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hver er munurinn á að handtaka mann eða framkvæma handtöku (væntanlega á manni)?
Hið fyrra er sagnorð en í síðara tilvikinu er handtaka nafnorð. Íslensk mál miðast við sagnorð en til dæmis enska gengur út á nafnorð. Margir blaðamenn átta sig ekki á þessu og þýða beint af ensku á íslensku og smám saman hefur orðið til nafnorðastíll sem breytir málinu.
Dæmi um nafnorðastíl (ritun.hi.is):
- Gera könnun > kanna
- skila hagnaði > hagnast
- framkvæma lendingu > lenda
- gera athugun á > athuga
- leggja mat á> meta
- taka ákvörðun um > ákveða
- valda töfum á > tefja
Í fréttinni segir:
90-100% notenda EndroChat tengjast einhvers konar glæpastarfsemi
Nú eru allir reyndu blaðamennirnir, fréttastjórarnir og ritstjórarnir á Mogganum farnir í sumarfrí og gleymt að segja afleysingafólkinu að byrja ekki setningu á tölustöfum.
Blaðamaðurinn skrifar stutta frétt og er svo hrifinn af nafnorðinu kjölfar að hann notar það tvisvar. Slíkt heitir nástaða.
Tillaga: Í kjölfarið hefur lögreglan handtekið meira en eitthundrað manns.
2.
Þessi lögsókn snýst um að standa upp fyrir sjálfa mig og skilgreina virði mitt.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Málsgreinin er tóm vitleysa, hrá þýðing úr ensku. Niðurstaðan er sú að ekkert skilst.
Hvernig er hægt að standa upp fyrir sjálfum sér (sjálfan sig (þolfall) eins og segir í tilvitnuninni)? Það er auðvitað útilokað enda tökum við ekki svona til orða á íslensku. Í staðinn má nota orð eins og virðingu, heiður og álit.
Heimildin er vefur enska blaðsins The Sun. Þar segir:
This lawsuit is about standing up for myself and asserting my self-worth.
Þetta má þýða eins og segir í tillögunni.
Tillaga: Lögsóknin/Stefnan snýst um virðingu mína og mannorð.
3.
Fyllt var á birgðir áður en Baldur var togaður í Stykkishólm
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er ekki rangt orðalag en óvenjulegt. Sjaldgæft er að orða það svo að bílar né skip séu togaðir þó vera kunni að farartækin séu tekin í tog. Hins vegar eru til togarar, það er fiskiskip sem draga troll, botnvörpu. Togbílar finnast ekki en til eru dráttarbílar og dráttarbátar.
Tillaga: Fyllt var á birgðir áður en Baldur var dregin til Stykkishólms
4.
75 ár eru liðin frá því að Föðurlandsstríðinu mikla lauk.
Grein á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 4.7.20.
Athugasemd: Valdimar nokkur Pútín skrifar grein í Moggann og byrjar hana á tölustöfum. Það gerir enginn, ekki einu sinni Rússar.
Í greininni stendur:
20. öldin hafði í för með sér mikil átök á heimsvísu en
Aftur byrjar Valdimar málsgrein á tölustöfum. Svo kemur hann með þetta orð heimsvísu. Hver er munurinn á heiminum og heimsvísu. Jú, hið síðarnefnda er oftast óþarfi nema þegar sérstakra skýringa er þörf.
Auðvitað skrifar Valdi ekki á íslensku en þýðandinn mætti vera betur að sér.
Tillaga: Sjötíu og fimm ár eru liðin frá því að Föðurlandsstríðinu mikla lauk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mest hataðasti, ryðja sér rúms og Prósjopp
1.7.2020 | 14:55
Orðlof
Lýsingarorð
Besta aðferðin til að greina á milli lýsingarorða og atviksorða er að skipta um tölu eða kyn í setningunni.
Ef vafaorðið lagar sig eftir fallorðinu þá er það lýsingarorð en annars atviksorð.
Hann málaði húsið rautt, hann málaði húsin rauð.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Múlaþing bar sigur úr býtum.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Múlaþing er ekki keppandi. Múlaþing er nafn sem flestir kusu í kosningum um heiti á nýju sveitarfélagi á Austurlandi. Heitið var valið.
Býti er samkvæmt orðabókinni skipti, kjör, fengur sem er skipt. Óhætt er að segja að einhver hafi borið sigur úr býtum. Sá hefur því unnið.
Einnig er til orðalagið að bera mikið eða bera lítið úr býtum og merkir það að hagnast, græða mikið eða lítið.
Blaðamaður Fréttablaðsins áttar sig ekki á eðli orðalagsins og notar það rangt.
Tillaga: Flestir kusu nafnið Múlaþing.
2.
Ég var mest hataðasti maður Íslands.
Frétt á baksíðu viðskiptablað Morgunblaðsins 1.7.20.
Athugasemd: Vera má að viðmælandanum hafi orðið á að segja þetta en sjálfsagt er að gera þá kröfu að blaðamaðurinn lagi bull en dreifi því ekki.
Lýsingarorð stigbreytast:
Mikið, meira, mest.
Hataður, hataðri, hataðastur.
Ofrausn er að nota tvö lýsingarorð í efsta stigi. Nóg er að segja að maðurinn hafi verið sá hataðasti á Íslandi.
Allir sjá að mest gengur ekki með öðru lýsingarorði, gerir ekkert gagn, styrkir ekki frásögnina í þessum tilvikum sem öðrum: Mest sprettharðastur, mest stökkhæstur eða annað álíka bull.
Tillaga: Ég var hataðasti maður Íslands.
3.
Hlaðvarpið heldur áfram að ryðja sér rúms hér á landi.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Hér er ekki alveg rétt með farið. Orðtakið er svona: ryðja sér til rúms. Það merkir að breiðast út, hljóta almenna viðurkenningu og um fólk; láta til sín taka.
Í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir:
Líkingin er hugsanlega dregin af skipsrúmi, sbr. orðatiltækið ryðja sér til rausnar og ríkis, sigurs og sæmar. [ ]
Líklegra er þó að líkingin vísi til þess er menn urðu að sanna hreysti sína með því að ryðja eða kippa öðrum manni úr sæti til að hljóta viðurkenningu (til dæmis við hirð) en því er einna best lýst í Flateyjarbók:
Hann bað mig þar sitja sem ég gæta rutt mér til rúms og kippt manni úr sæti.
og einnig
og spurði eg þá, hvar eg skyldi sitja, með því að eg gæti hvergi rutt mér til rúms.
Tillaga: Hlaðvarpið heldur áfram að ryðja sér til rúms hér á landi
4.
Kylfingar eru mjög sáttir og ég hef fengið mikið hrós fyrir nafnið.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Nafnið sem kylfingar hæla er Prósjopp. Ég er kylfingur og lýsi furðu minni á þessari nafngift. Hún er heimskuleg og óvirðing við íslenskt mál.
Langbest fer á því að íslenskt nöfn séu notuð á íslenskum markaði. Annað er tóm vitleysa. Sé miðað við ferðamenn ætti íslenskt heiti að vera ráðandi en enskt gæti verið undirliggjandi.
Hér eru nokkur fyrirtækjaheiti:
- Air Iceland Connect, hét áður Flugfélag Íslands og þótti öllum gott nafn
- Attentus mannauður og ráðgjöf ehf. ráðgjafafyrirtæki
- AutoCenter, bílahreinsun.
- Barion, sport- og veitingastaður í Reykjavík
- Brothers Brewerey, bruggfyrirtæki í Vestmannaeyjum
- Culican, veitingastaður í Reykjavík
- Domavia, fyrirtæki í eigu Ísavia, hefur umsjón með flugvöllum innanlands.
- Donky republic bike, rafmagnsreiðhjólaleiga í Reykjavík.
- Dr. Football, hljóðvarpsþáttur fyrir íslenska hlustendur. Einnig Dr. Football-pubquiz
- Eyesland, gleraugnaverslun
- Fontana, baðstaður við Laugarvatn.
- Glacier Goodies, söluvagn í Skaftafelli
- Grand Brasserie, veitingahús í Reykjavík
- Hengill Ultra, hlaupakeppni umhverfis Hengil, fjall á Íslandi
- Home and you (borið fram: hómendjú), húsgagnaverslun í Reykjavík
- Kompaní, viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins
- Möst C íslensk fataverslun fyrir konur
- Prósjopp. Golfverslun
- Sky Lagoon, nýtt baðlón í Kópavogi.
- Sofestive, fyrirtæki í viðburðar- og verkefnastjórnun
- Strúktúr, húsainnflutningsfyrirtæki
- Sumac grill, veitingahús í Reykjavík
- Terra, fyrirtæki sem hét fjórum ágætum íslenskum nöfnum
- The Garage, gisting í Varmahlíð undir Eyjafjöllum
- The Rift, malarhjólreiðakeppni við Heklu, fjall á Íslandi
- Thor´s Power Gym, líkamsræktarstöð á Íslandi
- Townhouse Hotel, í miðborg Reykjavíkur
- Train station, íslensk líkamsræktarstöð í Reykjavík.
- Treemember, félag um trjárækt
- Two birds, fjártæknifyrirtæki á íslenskum markaði,keypti Auðbjörg ehf. og sameinaði undir enska heitinu
- Vök baths, laugar skammt frá Egilsstöðum
Þetta er grátlegur listi jafnvel þó sum nöfnin séu nokkuð skondin, svona einnota brandari ef svo má segja. Hér hefur aðeins verið stiklað á örfáum nöfnum sem ég hef skrifað hjá mér á undanförnum misserum.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)