Bloggfærslur mánaðarins, september 2018

Umdæmi sem þekur, björgum rúllað og banni lyft ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Óþarfi að vera „á tánum“

„Að vera á tánum“ – one one´s toes, er orðið vinsælt hér. Haft um það að vera árvökull, á varðbergi, vel á verði, viðbúinn, við öllu búinn, viðbragðsfljótur, duglegur, einbeittur, standa sig vel, spenntur, fylgjast vel með (t.d. í sínu fagi) – o.fl. (auk þess að vera berfættur!). Eiginlega óþarft.

Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 21. september 2018.

 

1.

Að vera eini lög­reglumaður­inn í heilu um­dæmi gæti ef­laust verið sum­um ofviða, og hvað þá ef um­dæmið þekur svæði á við tvö og hálft Ísland.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Hér er sagnorðið að þekja rangt notað. Í malid.is segir:

þekja sagnorð 
fallstjórn: þolfall
mynda samfellda breiðu (yfir e-n flöt)
visnað lauf þekur gangstéttina
skógar þöktu stórt landflæmi

Lögregluumdæmi getur aldrei þakið neitt ekki frekar en hugsun getur þakið  borð eða hulið það. Dúkur getur þakið borðið að hluta eða öllu leyti, sama er með óhreinindi eða álíka.

Blaðamaðurinn er hefur lítinn orðskilning. Það sýnir sig best í nástöðunni, sömu orðin endurtekur hann æ ofan í æ. Umdæmi kemur fimm sinnum fyrir í þessari stuttu frétt, svæði fimm sinnum og sögnin þekja tvisvar. Hann framleiðir einfaldlega frétt sem er stórskemmd.

Tillaga: Eflaust getur það verið sumum ofviða að vera eini lög­reglumaður­inn í heilu um­dæmi, hvað þá ef það er á stærð við tvö og hálft Ísland.

2.

Áður en lagt var í hann sátu þátttakendur stutt námskeið hjá ökukennaranum Jussi Kumpumaki, sem fór yfir helstu atriði um hvernig ætti að keyra í brautinni.“ 

Grein á bls. 4 í bílablaði Morgunblaðsins 18.09.2018.     

Athugasemd: Frekar illa skrifuð grein blaðamanns Morgunblaðsins um hraðakstur á braut Kvartmíluklúbbsins í Kapelluhrauni í Hafnarfirð. Greinilegt er af ofangreindu að blaðamaðurinn er óvanur skrifum. Kennarinn fór yfir helstu atrið um hvernig … Þetta er barnalega skrifað og ótrúlegt að enginn á ritstjórn Moggans skuli gera athugasemd við þetta orðalag.

Fleira er furðulega orðað í greininni:

Aksturinn hófst svo á upphitun með því að aka svig milli keila …

Ekki er öllum ljóst hvað það er að aka svig en líklega er það þannig að nokkrum keilum er komið fyrir í beinni línu og ökumanninum er ætlað að aka á milli þeirra. Má vera að orðasambandi að aka svig sé til en líklegt er að fæstum er kunnugt um það.

Hraðinn var aukinn í hverjum hring þar til maður upplifði sig tæta í gegnum brautina eins og fagmaður á ljóshraða.

Þessi málsgrein gengur ekki alveg upp, má vera að þarna ætti að vera … að tæta. Ef blaðamaðurinn er sáttur við sögnina að tæta, hefði verið betra að segja þar til maður tætti í gegnum … Upplifunin má svo liggja á milli hluta, öll greinin er að hálfu um hana.

Gera má athugasemdir við margt fleira í greininni sem er flausturslega og gagnrýnislaust samin. 

Tillaga: Áður en lagt var í hann sátu þátttakendur stutt námskeið hjá ökukennaranum Jussi Kumpumaki, sem gaf nokkur góð ráð um aksturslag.

3.

Esjunni verður lokað á morgun á meðan björgum verður rúllað niður fjallið.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Orðskilningi margra blaðamanna á visir.is er verulega ábótavant. Sögnin rúlla merkir velta. Boltinn rúllar til dæmis eftir gólfinu sé ýtt við honum. Börn segjast hafa rúllað sér niður brekku. 

Á mbl.is er frétt um sama ruglið. Þar er málsgreinin algjörlega óskiljanleg:

Þegar þeir voru að leggja í hann klukk­an sjö í morg­un tók á móti þeim hóp­ur verk­fræðinga sem var í þann mund að fara að rúlla niður nokkr­um björg­um við fjallið nærri toppi Þver­fells­horns.

Samkvæmt fyrirsögninni og fréttum sér lesandinn fyrir sér að viðkunnanlegir verkfræðingar láti björg rúlla sí sona í rólegheitum niður Þverfellshorn, gangi líklega með þeim til að tryggja að allt fari nú að óskum.

Nei, bjarg, það er stór steinn, grettistak, rúllar ekki niður Þverfellshorn, það endasendist í loftköstum á vaxandi hraða, skilur eftir sig stórar skellur hér og þar uns hlíðina þrýtur og mýrin tekur við. Líkast til brotnar það á leiðinni og dreifst. Enginn, ekki nokkur maður, getur ráðið við bjarg sem fellur. Þyngdarlögmálið ræður og þar af leiðandi er kolrangt að nota sögnina að rúlla í fyrirsögn fréttarinnar og textanum.

Þess ber þó að geta að Esjunni verður ekki lokað. Göngumönnum er frjálst að fara upp Kerhólakamb, um Þverárkotsháls, upp Kistufell svo ekki sé talað um norðurhlíðar Esjunnar. Blaðamaðurinn áttar sig ekki á því hversu mikið stór Esjan er. Þar eru fleiri gönguleiðir en hann virðist átta sig á. Orðalagið ber vitni um sama barnaskap og þegar fréttabörnin segja að bíll „hafi klesst á annan“.

Tillaga: Lokað verður fyrir umferð um Þverfellshorn í Esju meðan lausum björgum er hratt niður. 

4.

Lyfjabanni Rússa lyft: „Mestu svik íþróttasögunnar“.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Börn eiga ekki að skrifa fréttir. Þau eru of mörg á Vísi Fréttablaðinu og Stöð2.

Hvað merkir að lyfta banni? Líklegt er að fréttabarnið hafi þarna verið að reyna sig við þýða úr ensku, „Russia’s doping ban lifted“. Barnið þýðir þetta þannig að einhver hafi lyft lyfjabanni. Blaðamaðurinn hefur hugsanlega ályktað að skjalinu sem lyfjabannið var ritað á hafi verið hafið til lofts, að minnsta kosti upp af borði. Í þokkabót er lyftingin kölluð „mestu svik íþróttasögunnar“. Öðru vísi er ekki hægt að skilja bullið.

Sé banni aflétt er því ekki „lyft“, fallið er frá því, það er afnumið, er ekki lengur í gildi eða álíka.

Þeir sem hafa ekki glöggan skilning á íslensku máli eiga ekki að starfa í blaðamennsku. Puntur. Ástæðan er einföld. Fákunnandi framleiða skemmdar fréttir og stunda þar með hryðjuverk á íslensku máli. Verstur andskotinn er sá að í birtingu skemmdra frétta felst innræting.

Fyrir utan ofangreint er hroðvirkni blaðamannsins áhyggjuefni. Dæmi:

Rússar voru dæmdir bann fyrir þremur árum …

Vantar ekki eitthvað í þessa setningu?

Níu af 12 meðlimum stjórnar WADA kusu með því að lyfta banninu, tveir kusu gegn því en einn sat hjá.

Var þetta kosning eða atkvæðagreiðsla. Blaðamaðurinn virðist ekki þekkja muninn.

Kosningin kom eftir að talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar hélt tölu þar sem hann sagði Rússa hafa lagað það sem var í ólagi.

Hvernig gat „kosningin“ (það er atkvæðagreiðslan) komið? Gekk hún inn um dyrnar eða birtist hún á einhvern annan hátt? Hvernig var hún klædd? Hvað sagði Rússinn sem breytti skoðun annarra nefndarmanna? Um það er ekkert sagt í „fréttinni“.

Ekki er alvont þó blaðamaður klúðri frétt. Stóra vandamálið eru hins vegar fréttastjórar og ritstjórar. Þeim er greinilega algjörlega sama um fréttaflutninginn, veita blaðamönnum ekkert aðhald eða tilsögn. Líklegast er að þeir séu engu skárri í íslensku máli en þessi vesæli blaðamaður. Svona lagað er til algjörrar skammar. 

Tillaga: Klúður og heimskupör fjölmiðlanna Vísis og Stöðvar2 og verða ekki leiðrétt hér.

 


Ókjörnir fulltrúar, ælt í bílinn, og misnotaðir lærisveinar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

 

1.

Ókjörnir fulltrúar sem styddu 90% af brjáluðum stefnum forsetans ættu ekki að segja bandarísku þjóðinni að vera róleg því þeir væru að stöðva hin 10% af stefnum Trump.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Eitt er að blaðamenn á Vísi skrifi illskiljanlegan texta og kalli fréttir, annað er að fara hreinlega rangt með og fullyrða að það séu líka fréttir. Verst af öllu er þegar þetta tvennt fer saman.

Ofangrein tilvitnun er furðuleg. Hvað er ókjörinn fulltrúi?

Ókjör getur þýtt mikið af einhverju, jafnvel ofboðslega mikið. Það á greinilega ekki við hér. Ókjör getur líka þýtt slæm kjör. Til dæmis væru það afspyrnu slæm kjör ef blaðamaður fengi lægstu laun allra, það gæti kallast ókjör. Aftur á móti geta það líka verið ókjör fyrir útgáfu að hafa ráðið lélegan blaðamann á góðum launum.

Sá sem ekki hefur verið kosinn í ákveðið embætti getur aldrei verið kallaður ókjörinn. Orðið er rassbaga og það vita allir sem eitthvað kunna fyrir sér í íslensku. Ensk orð er ekki alltaf hægt að þýða á íslensku og sama á við íslensk orð á ensku. Á ensku er til orðið unelected, til dæmis í orðasambandinu unelected bureaucrats sem þýðir fólk sem gegnir embætti en hefur ekki verið kjörið í það.

Í heimild blaðamannsins, New York Times, segir:

They’re not doing us a service by actively promoting 90 percent of the crazy stuff that’s coming out of this White House and then saying, Don’t worry, we’re preventing the other 10 percent.

Í allri greininni í New York Times hef ég hvergi rekist á unelected bureaucrats eða officials. Líklegast er því að blaðamaðurinn á Vísi hafi spunnið upp þetta með „ókjörna fulltrúa“. Sé svo gengur þetta þvert á góða siði í blaðamennsku.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

Neðanj­arðarlest­ar­stöð opn­ar á ný eft­ir 11. sept­em­ber 2001.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Í þessari frétt á Moggavefnum er röng. Neðanjarðarlestarstöð opnar ekki neitt, hún er opnuð.

Svona villa er ótrúlega algeng hjá blaðamönnum. Þeir skrifa um verslanir og hús sem opna en byggingar, fyrirtæki og önnur dauð apparöt opna ekki neitt. Fólk opnar verslanir, hús, byggingar og fyrirtæki.

Engu að síður stendur í meginmáli fréttarinnar:

Neðanj­arðarlest­ar­stöðin Cortlandt Street í New York í Banda­ríkj­un­um var opnuð á ný í gær 

Þarna er rétt með farið.  

Samskonar frétt er birt á Vísi og þar sem sama villa í fyrirsögninni en rétt er meðfarið í megintexta. Moggafréttin er þó skárri.

Í Vísisfréttinni er sagt að lestarstöðin sé „staðsett“ þar sem hún er. Af hverju þarf allt að vera staðsett? Hvað með að nota sögnina vera í staðinn?

Í MR í gamla daga fékk maður sérstakt tiltal fyrir að vera ekki samkvæmur sjálfum sér. Skárra var að hafa sömu villuna tvisvar eða þrisvar en að hrökkva úr og í.

Tillaga: Neðanj­arðarlest­ar­stöð opnuð á ný eft­ir 11. sept­em­ber 2001.

3.

Stjórnarmanni RÚV blöskrar tillögur ráðherra.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Blaðamenn á Vísi fara stundum með rangt mál, ofangreind fyrirsögn er dæmi um slíkt. Hvergi í fréttinni kemur fram að stjórnarformanninum blöskri tillögur ráðherra. Honum finnst aftur á móti vinnubrögð ráðherrans skrýtin. 

Á þessu tvennu er talsverður munur. Frekar andstyggilegt er þegar blaðamenn fara með rangt mál, slíkt kallast falsfréttir.

Tillaga: Stjórnarmanni RÚV finnst vinnubrögð ráðherra skrýtin. 

4.

Lloris ældi í bílinn og þurfti aðstoð við að komast úr honum.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Hver er munurinn á eftirfarandi:

  • Maðurinn ældi í bílinn …
  • Maðurinn ældi í bílnum …

Flestir átta sig á því að í fyrra tilvikinu hlýtur maðurinn að hafa staðið fyrir utan bílinn og gubbað inn í hann. Í seinna tilvikinu hefur hann setið inni í bílnum og kastað þar upp.

Blaðamaðurinn skilur ekki muninn á þessu tvennu og kemur það ekki á óvart. Þörf er á því að Vísir ráði til sín fólk með aðeins meira en lágmarksskilning á íslensku máli.

Tillaga: Lloris ældi í bílnum og þurfti aðstoð við að komast úr honum.

5.

Haustið byrjað að setja lit á Þingvelli.“ 

Fyrirsögn á myndatexta á forsíðu Morgunblaðsins 17.09.2018.       

Athugasemd: Góður maður sagðist fella tár sæi hann vondan texta. Hann átti ekki við texta með stafsetningavillum, röngum föllum eða tíðum. Slíkt má laga en ljótur texti stingur alltaf í augun.

Mynd eftir einn besta ljósmyndari landsins er á forsíðu Moggans. Hún er tekin úr lofti og sýnir Þingvallabæinn, Öxará og nágrenni. Stórfögur mynd og óvenjulegt sjónarhorn.

Hins vegar er textinn sem fylgir illa saminn og flatur. Hann er svona:

Haustið er byrjað að setja lit sinn á Þingvelli. Eftir einstaka frostnætur er laufið á trjánum orðið skrautlegra, gult og rautt. Trén draga efni úr laufþekjunni niður í rætur til að undirbúa vöxt næsta árs, áður en laufið fellur.

Ferðafólk sækir þjóðgarðinn heim allan ársins hring. Þeir sem eru með ljósmyndavélar og síma á lofti eiga von á góðu á þessum árstíma, litirnir skapa eftirminnilega stemningu.

Hvernig er hægt að taka svo til orða. Haustið er byrjað, haustið sé að setja lit sinn … Hvaða lit einkennir haustið? Er gult og rautt lauf skrautlegt? Nei, ég nenni þessu ekki. Þetta er tilgerðalegur og ljótur texti, verra er að stjórnendur blaðsins séu gjörsneiddir skilningi. 

Hver heldurðu, ágæti lesandi, að hafi orðað það sem ranglega er kallað „tillaga“ hér fyrir neðan? 

Tillaga: „Eitt gulnað blað, / aðeins eitt // fellur til jarðar / við fótspor þitt, // fótatak tímans / og tregi.“

6.

Fátt get­ur komið í veg fyr­ir að læri­svein­ar Heim­is Guðjóns­son­ar í HB vinni fær­eyska meist­ara­titil­inn í knatt­spyrnu í ár.“ 

Frétt á mbl.is.        

Athugasemd: Ótrúleg er vitleysan hjá íþróttafréttamönnum Morgunblaðsins. Á þetta hefur margsinnis verið bent að leikmenn í fótbolta eða handbolta eru ekki lærisveinar þjálfarans. Þetta er bull og snýr á haus hinni upprunalegu merkingu orðsins lærisveinn.

Þjálfarinn er að öllu leyti verkstjóri, segir fyrir um vinnu. Hann er ekki kennari. Þar að auki eru leikmenn í flestum tilvikum launaðir starfsmenn, að hluta eða öllu leyti. Má búast við því að þeir verði næst kallaðir lærlingar?

Af hverju þarf má starfsheitið þjálfari halda sér? Af hverju geta íþróttablaðamenn ekki nefnt hlutina réttum nöfnum? Velst bara illa gefið fólk í þessi störf?

Eru ritstjórar og fréttastjórar sáttir við skrif „lærisveina“ sinna í íþróttadeildinni? Eða ber nú að kalla yfirmenn blaðamanna lærifeður?

Loks er ekki úr vegi að geta þess að leikmenn í fótbolta verða ekki meistarar, heldur liðið. Valur verður Íslandsmeistari í fótbolta og þar með læris… ég meina leikmennirnir.

Tillaga: Fátt get­ur komið í veg fyr­ir að lið Heim­is Guðjóns­son­ar í HB vinni fær­eyska meist­ara­titil­inn í knatt­spyrnu í ár.


Uppdregin öxi, lagt á forseta og Hermann fúli

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Karl og kona voru handtekin vegna átaka þar sem öxi var dregin upp við Smáralind í Kópavogi á sjöunda tímanum í kvöld.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Þetta er nú meiri ruglfréttin á Vísi og raunar líka á mbl.is, sem lepur „fréttina“ upp úr fyrrnefnda vefmiðlinum. Ekki þykir það merkileg blaðamennska að afrita fréttir úr öðrum fjölmiðlum. Í því felst eiginlega uppgjöf.

Öxi var dregin upp“, segir Vísir í sjö línu frétt. Stuttu síðar í fréttinni er sama orðalagið endurtekið. Einnig er tvítekið að sá sem fyrir árásinn varð hafi ekki skaðast mikið.

Hvað merkir að draga upp öxi? Gæti þýtt að teikna hana, rissa. Líkur benda til að eigandi hafi dregið hana upp og ætlað að nota sem vopn. Í fyrirsögninni segir: 

Ráðist á mann með öxi í Kópavogi.

Hér er fréttin í heilu lagi. Ég hef leyft mér að gerast ritstjóri og stika í það sem blaðamaðurinn þarf að laga.

Karl og kona voru handtekin vegna átaka þar sem öxi var dregin upp við Smáralind í Kópavogi á sjöunda tímanum í kvöld. Lögregla telur að átökin megi rekja til innheimtu á einhvers konar skuld. Sá sem varð fyrir árásinni er sagður með minniháttar áverka.

Fólkið er sagt þekkjast og að um einhvers konar uppgjör hafi verið að ræða. Samskipti þeirra hafi endaði með átökum þar sem öxi var dregin upp. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru árásaraðilarnir handteknir og eru nú vistaðir í fangageymslu.

Sá sem varð fyrir árásinni er ekki talinn alvarlega særður eftir hana.

Blaðamaðurinn er líkast til alsendis óvanur skrifum. Hann reynir að lengja „fréttina“ með endurtekningum, fórnarlambið er ýmist sagt með minniháttar áverka eða ekki alvarlega sært. Hvað er „einhvers konar skuld“? Málið tengist ýmist innheimtu eða uppgjöri. „Átökin má rekja til innheimtu“ sem er loðið og illskiljanlegt orðalag. Fréttin er á einhvers konar löggumállýsku sem er a skjön við venjulegt ritmál og einnig talmál. Hverjir eru „árásaraðilar“? Hvernig eru „aðilar“ „vistaðir“ hvað er „fangageymsla“?

Sem sagt, fréttin er tómt rugl sem er birt án þess að ritstjóri eða fréttastjóri geri nokkra tilraun til að laga „fréttina“. Og á mbl.is  hefur enginn neitt að athuga við bullið lekur áfram. Ritstjórar og fréttastjórar beggja fjölmiðla eru ábyggilega saman í frí á einhverri huggulegri sólarströnd.

Tillaga: Gul viðvörun vegna hvassviðris og úrkomu.

2.

„„Við ætlum að vera miklu hófstilltari,“ sagði Mattis við aðstoðarmenn sína eftir að hann lagði á forsetann.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Hvað skyldi nú blaðamaðurinn eiga við í þarna við? Jú, með góðum vilja mætti segja að einhver hafi slitið símaviðtali við forsetann. Það er þó alls ekki víst.

Orðasambandið að leggja á einhvern getur merkt að leggja símtólið á símtækið, slíta samtali. Þetta sögðu menn iðulega fyrir tíma handsíma, gsm. Nú er símtölum yfirleitt slitið, fáir leggja á eða skella á enda varla hægt.

Orðasambandið getur þýtt ýmislegt annað. Nefna má að leggja fæði á sem þýðir að hatast við. Leggja á gæti þýtt galdur, eða hvað sagði ekki Búkolla í ævintýrinu:

Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stórri móðu, að ekki komist yfir nema fuglinn fljúgandi.

Og hárið úr hala kýrinnar varð að stóru fljóti.

Svo getur vel verið að þessi orð hafi einfaldari merkingu, maðurinn hafi lagt eitthvað á forsetann, til dæmis bók en iðulega var biblía eða sálmabók á brjóstkassa líks í kistu. Trump myndi nú bara hafa gott af því.

Enn má tína til. Oft leggur fólk á ráðin um að gera eitthvað fyrr eða síðar.

Af þessu má ráða að ekki er einhlítt hvað Mattis þessi hafi gert er hann „lagði á forsetann“.

Vera má að ég sé ekki mjög skarpur en blaðamenn þurfa að vera það svo þeir skiljist. Í upphafi hélt ég að ég hafi skilið en er ekki jafnviss eftir að hafa skrifað þetta.

Tillaga: Við ætlum að vera miklu hófstilltari,“ sagði Mattis við aðstoðarmenn sína eftir að hann sleit samtalinu/símtalinu við forsetann.

3.

Hermann„Ég held ekki að allur þessi náttúrulegi matur sé að gera þér nokkuð gott!“ 

Hermann, skopmynd á bls. 29 í Morgunblaðinu 05.09.2018.      

Athugasemd: Í gamla daga voru nýliðar í blaðamennsku látnir vinna við að þýða skopmyndir og sögur. Þóttu það ekki virðuleg verkefni. Þar af leiðandi var málfarið í þeim stundum ekki upp á marga fiska. Það var og er miður því ungt fólk les skopið ekki síður þeir sem eldri eru.

Hermann í Mogganum er kostulegur. Flestir þekkja náunga eins og hann, stórskrýtinn, sérgóðan, frekan og veit allt betur en aðrir, svona fúll á móti eins og oft er sagt.

Á teikningunni sem ofangreind tilvitnun fylgir hefur Hermann tekið upp á því að borða náttúrulegt fæði, salat og ábyggilega fleira. Afleiðingin er sú að hann er allur orðinn loðinn og ófrýnilegur. Ekki er þetta nú fyndnasta útgáfan af Hermanni, en látum það vera.

Sá sem þýðir textann hefði átt að hafa skipti á fornöfnum. Í stað þess að segja nokkuð gott fer betur á því að segja neitt gott. Hið fyrrnefnda er jákvætt en hið seinna neikvætt.

Flestir sem hafa um ævina náð góðum lesskilningi samfara miklum orðaforða átta sig á þessu. Hinir, þeir sem lítið hafa stundað lestur, eiga auðvitað bágt með að skilja muninn.

Tillaga: Ég held ekki að allur þessi náttúrulegi matur sé að gera þér neitt gott!

4.

Þýskaland og Tyrkland deila, Washington og Moskva skiptast á fúkyrðum, Hvíta húsið mótmælir, Kreml hefur í hótunum. 

Bækur, ritdómur eftir Björn Bjarnason á bls. 30 í Morgunblaðinu 05.09.2018.      

Athugasemd: Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra og alþingismaður, skrifar áhugaverðan ritdóm um bókina Stjórnmál eftir Timothy Snyder í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar, alþingismanns.

Bókin fær góða dóma hjá Birni. Hann segir meðal annars í dómnum:

Í erlendum fréttatextum er gjarnan talað um lönd, borgir og jafnvel byggingar eins og um gerendur sé að ræða: Þýskaland og Tyrkland deila, Washington og Moskva skiptast á fúkyrðum, Hvíta húsið mótmælir, Kreml hefur í hótunum. 

Vissulega skilst þetta á íslensku en betra er að segja: stjórnir Þýskalands og Tyrklands deila, ráðamenn í Washington og Moskvu skiptast á fúkyrðum, talsmaður Bandaríkjaforseta mótmælir, Kremlverjar hafa í hótunum. Guðmundur Andri velur báðar þessar leiðir í þýðingu sinni.

Varla þarf að fjölyrða frekar um ofangreinda tilvitnun. Ég er sammála Birni. Þar af leiðandi ætti ekki að segja að bíl hafi ekið á ljósastaur frekar að bíl hafi verið ekið á ljósastaur. Bíll getur aldrei verið gerandi nema auðvitað að hann hafi verið stjórnlaus. Alltaf skiptir máli hvernig atburðum er lýst.

Tillaga: Stjórnir Þýskalands og Tyrklands deila, ráðamenn í Washington og Moskvu skiptast á fúkyrðum, talsmaður Bandaríkjaforseta mótmælir, Kremlverjar hafa í hótunum.

5.

„Joachim Löw, landsliðsþjálf­ari Þjóðverja í knatt­spyrnu, staðfesti í dag að það væri eng­inn mögu­leiki á að Mesut Özil sneri aft­ur í landsliðið …“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Í ofangreindri tilvitnun fer blaðmaðurinn rangt með tíð sagnarinnar að snúa. Landsliðsþjálfarinn fullyrðir þetta og því á að nota viðtengingarhátt nútíðar, ekki þátíðar og en síður framsöguhátt í þátíð en í báðum tilvikum er 3. pers. eintölu eins, sneri.

 

Tillaga: Joachim Löw, landsliðsþjálf­ari Þjóðverja í knatt­spyrnu, staðfesti í dag að það væri eng­inn mögu­leiki á að Mesut Özil snúi aft­ur í landsliðið …

6.

„Jarðskjálfti að stærð 6,7 hef­ur skilið eft­ir sig mikla eyðilegg­ingu á Hokkaido, nyrstu eyju Jap­an, en skjálft­inn bæt­ist við röð ham­fara sem dunið hafa á land­inu und­an­farna daga, vik­ur og mánuði.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Velta má vöngum um orðalagið, hvort jarðskjálfti hafi skilið eftir sig eyðileggingu rétt eins og hann væri fellibylur. Mér finnst réttara að orða þetta á annan hátt, til dæmis að skjálftinn hafi valdið mikill eyðileggingu. Jarðskjálfti verður en fellibylur fer yfir.

Tillaga: Jarðskjálfti að stærð 6,7 valdið mikilli eyðilegg­ingu á Hokkaido, nyrstu eyju Jap­an. Hamfarir hafa hafa á land­inu und­an­farna daga, vik­ur og mánuði.


Vindgangur, samstuð og skemmdar fréttir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

 

1.

Gul viðvörun vegna vinds og úrkomu.“ 

Veðurfréttir á rás eitt í Ríkisútvarpinu kl. 10:03 29.08.2018.      

Athugasemd: Mikið hefur breyst hjá Veðurstofu Íslands á síðustu árum. Nýjar kynslóðir veðurfræðinga tala sínkt og heilagt um vind, hann sé lítill eða mikill. Sjaldnast er gefin einhver viðmiðun og því er engin hjálp í þessu tali. 

Í íslensku máli eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindstyrk. Sjá pistil á þessu bloggi. Jafnvel á sjálfri Veðurstofunni er listi yfir mat á vindhraða samkvæmt gamla kerfinu og einnig gefnir upp metrar á sekúndu (m/s), sjá hér. Svo virðist sem nýju veðurfræðingarnir þekki ekki þessi orð, að minnsta kosti eru þau þeim ekki tungutöm.

Stundum er sagt að ekkert hættulegt sé að falla fram af háu bjargi, hins vegar sé það lendingin sem skaði. Sama má segja um vindinn. Hann skaðar engan nema því aðeins að hraðinn sé mikill.

Andvari er ekki hættulegur og ekki heldur kul, gola, stinningsgola, kaldi og stinningskaldi. Eftir það verða aðstæður æ varasamari. Þá er hraðinn orðinn um það bil 14 m/s (7 gömul vindstig) og nefnist það allhvass vindur. Hvassvirði er frá  17 m/s (8 vindstig), stormur 21 m/s (9 vindstig) og upp frá því er vissara að gefa út rauða viðvörun.

Mikill skaði væri ef gömul og gild íslensk orð um vindstyrk séu sett til hliðar. Barnalegt og raunar gagnslaust er að nota „mikill vindur“ eða „lítill vindur“. Þetta er eins og að leggja af mælikvarða um lengd eða þyngd og segja í staðinn að laxinn sé langur eða stuttur, þungur eða léttur, nýfætt barn mikið þungt eða lítið þungt og svo framvegis. Nei, þetta gengi ekki upp. 

Vari veðurstofan við hvassviðri ber henni að tilgreina eins nákvæmt og henni er unnt hvað sé í vændum. Hvað í ósköpunum er mikill eða lítill vindur?

Tillaga: Gul viðvörun vegna hvassviðris og úrkomu.

2.

Hús íslenskunnar hefur þurft að bíða of lengi í grunni sínum.“ 

Grein eftir Vilhjálm Bjarnason, fyrrverandi alþingsmann í Morgunblaðinu 31.08.2018.      

Athugasemd: Í vel skrifaðri grein í Mogganum fjallar Vilhjálmur um gjafir þjóðarinnar til sjálfrar sín af ýmsu tilefni. 

Ofangreind tilvitnun er eitthvað biluð. Ekki er enn farið að byggja hús í grunninum og þar af leiðandi bíður þar ekkert hús.

Margt skondið er í greininni enda Vilhjálmur ágætlega ritfær:

Vert er þó að minnast orða hagyrðingsins; „sælla er að gefa en þiggja, á kjaftinn“.

Í mörgum tilfellum er þetta ábyggilega rétt. 

Vilhjálmur gagnrýnir að ekki sé byggt hús fyrir rannsóknir í hafi og vötnum en byggja frekar hafrannsóknarskip. Honum finnst þetta ekki neinn sérstakur rausnarskapur og segir:

Þjóðina getur allt eins vantað veghefil, jarðýtu eða vélskóflu!

Kaldhæðnin er yfirþyrmandi og vel að orði komist.

Tillaga: Hús íslenskunnar hefur ekki enn risið, alltof lengi hefur grunnurinn verið tómur.

3.

Urðu að stöðva tónleika eftir að Bono missti röddina.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina hefur takmarkaðan skilning og lélegan orðaforða. Hann áttar sig ekki á muninum á sögnunum að stöðva, hætta og aflýsa.

Hljómsveit sem lendir í vandræðum af þessu tagi hættir tónleikunum, stöðvar þá ekki, þeim er einfaldlega sjálfhætt. Hægt er að stöðva bíl, stöðva skemmdarverk, stöðva vatnsrennsli, átt er við að eitthvað sem heldur áfram þangað til einhver grípur inn í. Hægt er að hætta leik en fótboltaleik er stundum aflýst vegna veðurs. Lögregla hefur stundum stöðvað tónleika en það er allt önnur saga.

Í fréttinni er vísað í norska dagblaðið VG. Þar segir í fyrirsögn:

Bono mistet stemmen i Berlin, U2 måtte avlyse

Þarna stendur að U2 hafi þurft að aflýsa tónleikunum.

Í malid.is segir:

aflýsa sagnorð 
fallstjórn: þágufall
hætta við (t.d. samkomu, tónleika)
fundinum var aflýst vegna veðurs
kennarar aflýstu verkfallinu

Bono missti röddina og þar af leiðandi hætti hljómsveitin við tónleikana, aflýsti þeim, hún lék ekki áfram.

Sama frétt er á mbl.is en þar eru skrifin miklu skárri þó ýmislegt megi við þau að athuga. Þarna segir að tónleikunum hafi verið aflýst. Heimild Moggans er BBC.

Tillaga: Urðu að hætta við tónleikanna eftir að Bono missti röddina.

4.

Lögregla í Washington í Bandaríkjunum leitar nú að ökumanni sem trylltist eftir að hafa lent í samstuði við rútu.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Ofangreint er úr hroðvirknislega frétt sem er einfaldlega blaðamanninum og Vísi til skammar.

Hvað er samstuð ökumanns og rútu?

Hér er ein vitleysan enn:

Ökumaðurinn, ung kona, keyrði ítrekað á rútubílstjórann sem reyndi að hefta för hennar eftir áreksturinn.

Ekki er einu sinni hægt að giska á hvað blaðamaðurinn á við. Hvað þýðir til dæmis „ítrekað“? Merkir orðið þarna oft eða aftur og aftur? Af hverju er það þá ekki sagt frekar en að nota orð sem ekki þýðir það sama? Ökumaður og bílstjóri! Voru þeir á hlaupum eða ... ?

Hér er enn eitt:

Sest hún því næst upp í bíl sinn og ógnar ökumanni rútunnar sem tekið hafði sér stöðu fyrir framan bíl hennar á meðan hann hringdi á lögreglu.

Og í fjórða sinn bullar blaðamaðurinn svona:

Sjá má hvernig konan hótar því að keyra á rútubílstjórann áður en hún stígur bensíngjöfina í botn með þeim afleiðingum að rútubílstjórinn kastast upp á bíl hennar áður en hann kastast af honum eftir nokkra vegalengd.

Enginn, ekki nokkur maður á ritstjórn visir.is les yfir það sem skussarnir skrifa. Ritstjóri og fréttastjórar eru líklega engu skárri vegna þess að aftur og aftur („ítrekað“) er neytendum Vísis, Fréttablaðsins og Stöðvar2 boðið upp á skemmdar fréttir. Þetta ætlar engan enda að taka.

Tillaga: Ekki er hægt að leiðrétta bullið á Vísi, betra að endurskrifa.

5.

Myndbrot af fyrrverandi Bandaríkjaforseta George W. Bush að lauma sælgætismola í lófa fyrrverandi forsetafrúr Bandaríkjanna, Michelle Obama, við jarðarför þingmannsins Johns McCain í gær hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum.“

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Á íslensku er reglan sú að stöðuheiti fólks kemur á eftir nafni þess, ekki á undan eins og reglan er í ensku. 

Nóg hefði verið að nefna landið einu sinni í þessari löngu málsgrein. Þó því hefði verið sleppt hefði það ekki truflað neinn.

Einföldun á málsgreininni hefði ekki skaðað hana á neinn hátt. 

Blaðamaður sem ekki kann að fallbeygja er ekki mikils virði. Þarna er orðið frú kolrangt. 

Annars staðar í fréttinni stendur þetta:

Er nokkur betri leið til þess að eiga síðasta orðið en að láta okkur George ausa hann lofi frammi fyrir alþjóðlegum áhorfendahópi?

Þetta er ekki rangt orðalag en afar slæmt. Til dæmis þetta að ausa lofi. Þess í stað má nota sagnirnar að lofa eða hrósa og ef ætlunin er að auka enn við má lofa í hástert, lofa óspart og ábyggilega margt fleira.

Reglan Jónasar heitins Kristjánssonar fyrrum ritstjóra, er hins vegar þessi: Stuttar setningar. Setja punkt sem víðast. Til viðbótar er að stafsheiti eða stöðuheiti er haft á eftir nafni.

Tillaga: Myndbrot af George W. Bush sem laumar sælgætismola í lófa Michelle Obama í jarðarför Johns McCain í gær hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum.

6.

Flateyjargátan er lýst sem ...

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Margir eiga það oft til að gleyma fallbeygingu nafnorða sérstaklega þegar nafnorðið stendur fremst í setningu og sögnin sem stýrir fallinu er einhvers staðar aftar.

Hér á auðvitað að hafa nafnorðið í þágufalli.

Tillaga: Flateyjargátunni er lýst sem ...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband