Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Bjarni, geturðu opnað fyrir ræstingarfólkinu?

Ný ríkisstjórn hefur tekið við ... já, völdum á Íslandi. Um leið er sagt í fjölmiðlum að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi fengið „lyklavöld“ í sínum ráðuneytum. Þetta orð er svo endurtekið í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum, líklega vegna þess að fráfarandi ráðherra afhendir þeim nýja lykil að húsinu.

Orðið „lyklavald“ er svo sem ágætis orð. Einnig má tala um „húsbóndavald“ nema auðvitað í því tilfelli að kona sé ráðherra. Þá er þetta orðið dálítið spaugilegt að kona sé ráðherra og fari með húsbóndavald. Þannig er nú svo margt karlkennt í málinu.

„Lyklavald“ í eintölu eða fleirtölu er samt skrýtið orð og varla lýsandi yfir starf ráðherra. Eðli máls samkvæmt eru fleiri en ráðherrar með lykil að húsnæði ráðuneytis og sannarlega eru það völd í sjálfu sér að geta opnað læstar dyr og skellt í lás á eftir sér.

Hins vegar kann það að vera að enginn annar en húsvörður hafi lyklavöldin í ráðuneyti og opni það að morgni og loki þegar dagur er að kvöldin kominn. Ég sé nú ekki alveg fyrir mér að ráðherrann sé kallaður til þessara verka í upphafi og lok vinnudags eða á öðrum tímum þar fyrir utan.

„Sæll Bjarni, þetta er Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri. Ræstingafólkið er komið. Gætir þú opnað fyrir því og læst svo á eftir þeim þegar það er búið að þrífa? Þú ert nú með lyklavöldin.“

Nei, „lyklavöldunum“ fylgja auðvitað engin völd. Lyklarnir eru bara lyklar, ekki slíkir sem maður sér í bíómyndunum sem forsetar eða hershöfðingjar fá í hendur til að ræsa gjöreyðingarvígtól. Það kallast nú alvöru lyklavöld.

Hér heima eru þetta bara lyklar. Þeim fylgja engin völd umfram það sem við hin höfum með okkar lyklum, að opna og loka húsakynnum okkar.


Logi formaður leggur aðeins til formælingar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur greinilega farið á skyndinámskeið fyrrum formanna flokksins. Hann kann alla frasanna, allar „blammeringarnar“ sem og annað nauðsynlegt til að sýnast vera ábyrg stjórnarandstaða. Frétt mbl.is þar sem vitnað er í „nýársbréf“ formannsins til flokksmanna er merkileg þó bréfið virðist ekki vera það.

Formaðurinn stundar ómerkilegar ófrægingar. Slíkt mun ekki skila honum árangri, hvorki í fjölgun atkvæða né heldur mun álit á honum aukast.

Hið eina sem Logi virðist kunna er að tvinna saman gamalkunnug stef úr fornlegri stjórnmálabaráttu hér á landi. Hins vegar veit hann ekki að nú eru komnar nýjar kynslóðir sem eru aldar upp við gjörólík skilyrði en þau sem voru þegar þessi slagorð spruttu upp.

Afleiðing þess að Samfylkingin þekkir ekki aðstæður er einfaldlega sú að Samfylkingin er við það að þurrkast út. Logi hefur lært af fyrri formönnum, þeim sem komu flokknum á kaldann klaka. 

Ekkert í frétt mbl.is bendir til þess að formaðurinn hafi nokkurn áhug á framtíðinni, hann leggur ekkert annað til en formælingar. Mikið ákaflega er það sorglegt.


mbl.is Stjórn um „óbreytt ástand“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best gekk Kínverjum þegar Hannes varði ...

Kín­verj­ar höfðu nokkra yf­ir­burði í fyrri hálfleik og voru meira með bolt­ann. Besta færi hálfleiks­ins fengu þeir þegar Hann­es Þór Hall­dórs­son varði vel í mark­inu.

fotbolti_GrasÍslenska landsliðið í fótbolta vann í dag Kínverska landsliðið, tvö, núll. Af því tilefni er frétt sett inn á mbl.is og gangur leiksins rakinn á góðan og gagnlegan máta. Ástæða til að þakka fyrir það.

Hins vegar vöktu ofangreind orð athygli mína. Yndislega skemmtilegt hnoð og því verður seinni málsgreinin botnlaus, eiginlega hringavitleysa.

Ég verð að viðurkenna að ég hló upphátt. 


Fordæmingin og bölbænir ...

Fordæming og bölbænir eru nærri því lenska í íslenskum stjórnmálum. Síst af öllu eru margir stjórnmálamenn þannig innrættir að þeir geti óskað öðrum velfarnaðar.

Doo dooMér datt þetta í hug þegar ég las í einhverjum fjölmiðlinum orð fyrrverandi forsætisráðherra sem telur að ný ríkisstjórn sé sú versta sem hann hefði getað hugsað sér. Hvorki meira né minna.

Svipaðar hugrenningar eru ættaðar frá ýmsum fólki í stjórnmálaflokkum sem ekki eiga aðild að þessari nýju ríkisstjórn.

Farið þið í rass og rófu, vonandi gengur ekkert upp hjá ykkur. Við munum gera tilveru ykkar að algjöru helv...

Svona er viðhorfið í stuttu máli.

Eftir hrunið töluðu margir fjálglega um að breyta „orðræðunni“ í íslenskum stjórnmálum, auka veg og virðingu Alþingis og stjórnsýslunnar.

Það sem merkilegast er við þessar hugmyndir er að þeir sem hæst göptu um þær eru enn hrópendur af gamla skólanum, þeir iðka formælingar en leggja mun minni áherslu á rökræður og hávaðalausar umræður. Má vera að þeir geti ekki slíkt.

Á þinginu sitja þeir súrir eftir sem mistókst að mynda ríkisstjórn og reyna í stað uppbyggilegs starfs að ala fyrirfram (svona til vonar og vara) á tortryggni og mála skrattann á vegginn í svart-hvítum litum.

Af hverju segir enginn eitthvað á borð við þetta?

Við óskum nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og vonumst til að hún standi að sem flestum þjóðþrifamálum, stuðli að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, bæti kjör hinna lægst launuðu, komi til móts við þarfir aldraðra og öryrkja og skapi enn betri skilyrði fyrir þjóðina til að blómstra og þrífast.

Vissulega er þörf á aðhaldi stjórnarandstöðum, fólki sem hefur ákveðnar og andstæðar skoðanir við þá sem mynda meirihlutann. Gáfur, skynsemi og farsæld verður ekki til með því einu að maður utan úr bæ setjist í ráðherrastól. En öllu má þó ofgera.

Nú hef ég hreinlega áhyggjur af því að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar og byggðir landsins séu í verulegri hættu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa talað um þau mál og mér sýnist að þar eigi að láta til skarar skríða.

Á sama tíma bíður uppstokkun fjármálakerfisins og sala gígantískra verðmæta sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks náði að færa til ríkisins frá kröfuhöfum. Ég gæti ekki hugsað mér verri ríkisstjórn til að halda utan um þau mál.

Þetta segir fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra í vefritinu pressan.is. Hann sendir Sjálfstæðisflokknum kalda kveðju, var hann þó í þrjú ár í nánu samstarfi við flokkinn. Nú eru allt í einu undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar í hættu sem og byggðir landsins. Halda mætti að sá fyrrverandi sé að ræða um hryðjuverkasamtök, ekki fyrrum samstarfsfólk í ríkisstjórn og kollega á Alþingi.

Svona tal ætti að heyra fortíðinni til, þeim tíma er upphrópanir dugðu en röksemdirnar hurfu í moldryki. Þannig hélt maður að væru ekki viðhorfin í Framsóknarflokknum en eru kunnugleg úr ranni Vinstri grænna.

TortolaHeld að þetta sé ein ljótasta bölbæn sem nokkur ríkisstjórn hefur fengið í vegarnesti og er honum biður síst af öllu til sóma.

Það eina sem vantar hjá manninum er að hann fremji svokallaðan „voo doo“ seið sem þekktur er á eyjum í Karabíahafinu. Þar er víst margt annað iðkað sem ekki þolir dagsljósið.


Hæstiréttur dæmdi Svandísi Svavardóttur seka

SvandísUm leið og ný ríkisstjórn virðist komin á koppinn eru þingmenn Vinstri grænna komnir í gamla gírinn. Þeir komust ekki í ríkisstjórn og eru nú með ólund.

Ekki eru nema tvær vikur síðan þingheimur fagnaði eftir að hafa samþykkt fjárlögin nær einum rómi. Af því tilefni datt fjölmörgum í hug að nýir tímar hefðu runnið upp, þar sem þingmenn úr ólíkum flokkum hefðu lært að vinna saman, landi og þjóð til heilla.

Nei, þetta voru falsvonir. Ekkert hefur breyst hjá Vinstri grænum. Kommaliðið skiptir reglulega um nafn og á það nýjasta hefur ansi vel fallið á.

Hin hýra og káta Svandís Svavarsdóttir vill nú vita hvort umboðsmaður Alþingis sé sammála henni um að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, hafi gerst brotlegur við siðareglur ráðherra vegna þess að hann lagði ekki fram skýrslu sína um eignir Íslendinga í aflandsfélögum á þeim tíma sem henni hentaði.

Auðvitað er þetta alveg hrikalega illa að verki staðið hjá Bjarna. Hann hefur þó ekki fengið á sig dóm vegna embættisfærslu sína eins og sumir. Nefnum bara nafn eins ráðherra. Sá heitir Svandís Svavarsdóttir og var umhverfisráðherra í alræmdri ríkisstjórn sem kennd var við Jóhönnu og Steingrím.

Hæstiréttur dæmdi 2011 að Svandís ráðherra hafi ekki haft heimild til að hafna tillögu sveitarstjórnar Flóahrepps um aðalskipulag sem gerði ráð fyrir virkjun við Urriðafoss. Það hafði hún þó gert af því að hún hélt að hún kæmist upp með það. Dómurinn gerði hana hins vegar afturreka með málið og neyddist hún um síðir til að staðfesta skipulagið.

Þetta minnir mann á að varhugavert er að stunda grjótkast úr glerhúsið.


mbl.is Telur Bjarna hafa brotið siðareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúð óskast á leigu

Ég er að leita að íbúð til leigu sem allra fyrst.

Viti lesandinn af einni slíkri væri afar ánægjulegt að fá að vita af henni í síma 864 9010 eða á netfangið sigurdur.sigurdarson@simnet.is. 


Hin hljómfagra enska á móti forpokaðri íslensku?

Svo virðist sem að orðfátækt breiðist nú út, skilningur á íslensku fari þverrandi og hjá mörgum fjölmiðlungum er hann sýnilega þorrinn. Skilst nú fátt annað nema með fylgi lýsingararorð með náfölu nafnorði.

Sjaldgæt er að hér á landi lygni eða hvessi. Skilningssnauðir rita fyrir sína líka, að vindur sé mikill eða minnki. Á sama hátt minnkar rigningin eða hún hættir, aldrei er sagt og skrifað að eftir vætutíð stytti upp eða uppstytta sé væntanleg.

Sums staðar fyrir norðan gerist oft æði hlýtt á sumrin í suðaustanátt. Hnúkaþeyr er kyndugt orð og lýsandi.

Þegar lygnir eftir heitan sumardag verður oft til dalalæða þegar kalt loft læðist yfir heita jörð. Fallegt orð.

Sjaldan er rökrætt eða skiptst á orðum. Oftast er það kallað að talað sé mikið eða lítið, sannfærandi eða ekki.

Ekki ganga menn lengur á fjöll, yfir Kjöl eða milli staða. Þess í stað er labbað út um allar trissur. Enginn klífur lengur Hvannadalshnúk, margir labba þangað upp, færri ganga. 

Svo rýr er íslenskan orðin að komið er til fundar á bílaleigubíl, fundað við borðstofuborð og þar eru íhugaðar ákvörðunartökur vegna yfirsteðjandi vandamála. 

Viðskiptalífið hefur ákveðið að enskan sé tungunmál framtíðarinnar hér á landi. Langflest heiti íslenskra fyrirtækja eru orðin ensk og sum eru svo heimskuleg að ekki tekur neinu tali. Látum vera fyrirtækið sem heitir Icelandair. Bræður telja sig kunna að brugga og þeim datt ekkert gáfulegra í hug en að kalla bræðrabruggið Brothers Brewery. Gáfukona stofnaði Birna Pop-up Shop, kjánalegt skop varð til þess að gleraugnaverslun er nefnd Eyesland og þar sem hæsti tindur landsins gælir við himinnhvolfið varð gáfumaður svo heltekinn af náttúrufegurðinni að hann nefndi söluboxið sitt Glacier Goodies.

Það er eitthvað svo hljómfagurt að nota ensku í stað forpokaðrar íslensku. Eða hvað?


Vanhugsuð ummæli eiganda vélsleðafyrirtækisins

VélsleðahópurFyrirtæki sem nefnist „Mountaineers of Iceland“ fór með hóp fólks í vélsleðaferð á Langjökul. Veður var ekki gott og fór versnandi. Hjón úr hópnum týndustf í óveðrinu og fundust ekki fyrr en sjö tímum síðar. Í fjölmiðlum sögðu þau farir sínar ekki sléttar og kenndu fyrirtækinu alfarið um.

Hér er kjarni málsins: Viðskiptavinir eru eðlilega óánægðir eftir að hafa lent í lífsháska. Einn eigenda fyrirtækisins svarar fyrir hönd fyrirtækisins í frétt í Fréttablaðinu og kennir hjónunum um háskann. Það eru stór mistök.

Svona gera menn ekki. Út sjónarmiði í almannatengsla tapar fyrirtækið á því að reyna að réttlæta sig á kostnað viðskiptavinar.

Hvað hefði þá átt að gera? Jú, vanda sig. Leita umsvifalaust til almannatengslafyrirtækis og fá aðstoð í málinu. Ráðgjafi í almannatengslum hefði kannað aðstæður. Hann hefði til dæmis skoðað verkferla í vélsleðaferðum, þeir ættu kannski að vara svona.

  1. Kynning í upphafi ferðar
  2. Fatnaður sem fyrirtækið leggur viðskiptavinu til, hjálmur, kuldaskór, vatnsheldur galli og vettlingar.
  3. Leiðbeiningar um akstur vélsleða
  4. Tæknilegar upplýsingar um vélsleðann
  5. Bil á milli ökutækja á ferð
  6. Hvað á að gera þegar vélsleði bilar eða ferðafélagar týnast
  7. Fjöldi leiðsögumanna og verkefni þeirra
  8. Staðsetning leiðsögumanna í hópnum og á hvaða sleðum hver þeir ber ábyrgð
  9. Neyðarútbúnaður í vélsleðum
  10. Annað sem máli skiptir

Í frétt Fréttablaðsins er talsmaður fyrirtækisins reiður og fúll. Það kann aldrei góðri lukku að stýra. Fyrirtækið hefur ábyggilega tapað miklu á þessu viðtali, bæði peningum og áliti.

Í viðtalinu segir maðurinn:

  1. Hjónin skrökva
  2. Þau fara ekki með rétt mál
  3. Veðrið var ágætt
  4. Hjónin týna hópnum
  5. Þau slökkva óvart á sleðanum og eru lengi að setja aftur í gang
  6. Þau aka frá þeim stað þar sem þau týndu hópnum sem gerir illt verra
  7. Þau hafa sleðann ekki í gangi og því eru engin ljós fyrir leitarfólk
  8. Þau fóru ekki eftir fyrirmælum

Vera má að allt það sem eigandinn segir hafi verið rétt en við lestur fréttarinnar læðist að manni sá grunur að maðurinn segi ekki alla söguna rétta. Varla getur það hafa verið tilgangurinn með dæmalausa viðtali. Og ég velti þessu fyrir mér:

  • Báru þessi tíu leiðsögumenn ekki ábyrgð á ákveðnum sleðum, til dæmis fimm sleðar á leiðsögumann?
  • Hvernig stendur á því að hjónin sem týndust voru öftust?
  • Er ekki vaninn sá að einn leiðsögumaður sé aftastur í hópi?
  • Er ekki neyðarsendir á hverjum vélsleða?
  • Eru leiðsögumenn ekki í stöðugu talstöðvarsambandi við hvern annan?

Vélsleðahópur2Reglan á að vera sú að lendi fyrirtæki í alvarlegum vandræðum á að leita til fagmanna í kynningarmálum. Það er ekki gert til að hægt sé að réttlæta eitt eða neitt heldur til að rétt sjónarmið komi fram. Einnig til að eigendur og stjórnendur fyrirtækja láti ekki eitthvað vanhugsað út úr sér sem eyðilagt getur fyrir fyrirtækinu. Fréttin í Fréttablaðinu er dæmi um alvarleg mistök stjórnanda fyrirtækis.

Hvers vegna geri ég þetta hér að umtalsefni. Jú, vegna þess að ég hef staðið fyrir rekstri fyrirtækis í jöklaferðum. Um margt getur stjórnandi ráðið, annað ekki. Hvernig sem allt fer þurfa menn að tileinka sér ákveðna þjónustulund gagnvart viðskiptavinum og varkárni í ferðum. Framar öllum er að gera ekkert vanhugsað eins og einn eigenda „Mountaineers of Iceland“ gerði.

 


Jarðskjálfti og léleg landafræðiþekking

DVTrúgirni er neikvætt orð og í eðli sínu slæmt. Hér áður fyrr trúði ég hverju orði sem birtist í dagblöðum en nú er ég gætnari. Til dæmis veit ég hvar Þingvellir eru en blaðamenn DV vita það ekki, því miður.

Þá er spurningin hvernig maður bregst við „frétt“ í DV sem segir að Þingvellir séu sunnan við Þingvallavatn. Mér er eiginlega ekki hlátur í huga heldur miklu frekar harmur. Hvað er raunarlegra en fjölmiðlungur sem þekkir ekki landið sitt og kann ekki að skrifa ... og er svo fljótfær að hann leitar ekki heimilda?

Enginn jarðskjálfti varð í dag á Þingvöllum þó svo að fyrirsögn í vefritinu dv.is haldi því fram. Raunar segir í fréttinni að jarðskjálftinn hafi verið sunnan vatnsins og hefði það eitt átt að geta aðvarað blaðamanninn. Nei, hann tók ekki eftir því. Líklega er hann svo menntaður sem margir aðrir að hann telji að völlurinn sem þingið var forðum háð sé allt í kringum vatnið sem við hann er kennt.

JarðskjálftarNóg um það. Stór jarðskjálfti varð í Grafningi, norðaustan við Hengil og sunnan við Þingvallavatn. Þetta eru um tuttugu km í beinni loftlínu sunnan við Þingvelli. Þeir 

Upptök skjálftanna eru á sniðreksbelti sem kennt er við Reykjanes og er það austasta af sex eldstöðvakerfum og er það kennt við Hengil og hefur sprungustefnu upp í Langjökul. 

Vestan við sprungukerfið færist landið til vesturs en hinum megin til austurs.

Í jarðskjálftahrinunni í morgun urðu þarna um 37 skjálftar, þar af þrír stórir, 2,8 stig, 2,0 stig og loks sá stærsti 3,7 stig.

Litlar líkur benda til þess að um sé að ræða eldivirkni, miklu frekar afleiðing spennu sem hefur myndast við jarðskjálfta á undanförnum misserum í hinum eldstöðvakerfunum Reykjaness. Á þessu svæði er fjöldi sumarhúsa og má búast við að þeir hafi skolfið talsvert.

 


mbl.is Skjálfti upp á 3,8 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilltir hæstaréttardómarar ... eða hvað?

Mér skilst að nokkrir hæstaréttardómarar dragi andann nokkurn veginn án utanaðkomandi aðstoðar. Það er nú meiri andskotinn og bendir til spillingar.

Nokkrir þeirra hafa fengið aðstoð heilbrigðiskerfisins til að koma sér til heilsu eftir veikindi og jafnvel slys. Þetta telst auðvitað til misnotkunar á kerfinu.

Einn hæstaréttardómari er skráður í íþróttafélagið Fram, sem er bara hrikalega ljótt og andstyggilegt og ætti ekki að leyfast.

Svo eiga þeir húsnæði og jafnvel sumarbústaðalóðir. Hvað er eiginlega að gerast? Þetta lið virkar næstum því eins og venjulegt fólk.


mbl.is Lítt skuldugir en félagslyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband