Hin hljómfagra enska á móti forpokaðri íslensku?

Svo virðist sem að orðfátækt breiðist nú út, skilningur á íslensku fari þverrandi og hjá mörgum fjölmiðlungum er hann sýnilega þorrinn. Skilst nú fátt annað nema með fylgi lýsingararorð með náfölu nafnorði.

Sjaldgæt er að hér á landi lygni eða hvessi. Skilningssnauðir rita fyrir sína líka, að vindur sé mikill eða minnki. Á sama hátt minnkar rigningin eða hún hættir, aldrei er sagt og skrifað að eftir vætutíð stytti upp eða uppstytta sé væntanleg.

Sums staðar fyrir norðan gerist oft æði hlýtt á sumrin í suðaustanátt. Hnúkaþeyr er kyndugt orð og lýsandi.

Þegar lygnir eftir heitan sumardag verður oft til dalalæða þegar kalt loft læðist yfir heita jörð. Fallegt orð.

Sjaldan er rökrætt eða skiptst á orðum. Oftast er það kallað að talað sé mikið eða lítið, sannfærandi eða ekki.

Ekki ganga menn lengur á fjöll, yfir Kjöl eða milli staða. Þess í stað er labbað út um allar trissur. Enginn klífur lengur Hvannadalshnúk, margir labba þangað upp, færri ganga. 

Svo rýr er íslenskan orðin að komið er til fundar á bílaleigubíl, fundað við borðstofuborð og þar eru íhugaðar ákvörðunartökur vegna yfirsteðjandi vandamála. 

Viðskiptalífið hefur ákveðið að enskan sé tungunmál framtíðarinnar hér á landi. Langflest heiti íslenskra fyrirtækja eru orðin ensk og sum eru svo heimskuleg að ekki tekur neinu tali. Látum vera fyrirtækið sem heitir Icelandair. Bræður telja sig kunna að brugga og þeim datt ekkert gáfulegra í hug en að kalla bræðrabruggið Brothers Brewery. Gáfukona stofnaði Birna Pop-up Shop, kjánalegt skop varð til þess að gleraugnaverslun er nefnd Eyesland og þar sem hæsti tindur landsins gælir við himinnhvolfið varð gáfumaður svo heltekinn af náttúrufegurðinni að hann nefndi söluboxið sitt Glacier Goodies.

Það er eitthvað svo hljómfagurt að nota ensku í stað forpokaðrar íslensku. Eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Langt er síðan að hætt var að tala um margt fólk, það er alltaf svo "mikið af fólki".

Hörðue Þormar (IP-tala skráð) 8.1.2017 kl. 17:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Orðið aukning er á góðri leið með að útrýma öllum öðrum orðum sem þýða eitthvað svipað eins og til dæmis fjölgun og sögninni að fjölga.

"Fólki fjölgar". Þetta heyrst varla sagt lengur heldur er sagt:  

"Það hefur orðið aukning í fjölda fólks."

Fólki fækkar á Vestfjörðum, en nú heyrist það varla lengur sagt heldur er sagt:  Það hefur orðið auking í neikvæðri fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum" svo að ég vitni í orð eins Vestfjarðaþingmanns. 

Það þykir fínt að vera með sem mestar málalengingar yfir einfalda hluti. 

Orðalagið með einum eða öðrum hætti er á góðri leið með að útrýma orðunum "svona" "þannig" og "hvernig." 

"Hvernig er þetta gert?" breytist í "Með hvaða hætti er þetta gert". 

"Gerðu svona" breytist í "Gerðu þetta með þessum hætti." 

O.s.frv.

Ómar Ragnarsson, 9.1.2017 kl. 09:47

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Hörður, hef sjálfur notað orðalagið „mikið af fólki“. Fékk einu sinni harkalega ráðningu fyrir vikið og hef ekki gleymt henni. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.1.2017 kl. 10:26

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ómar, ég tek eftir svona „málalengingarorðalagi“ í mörgum skýrslum sem ég les, bæði ritgerðum í háskólum sem og í stjórnsýslunni. Svona þykjustunni kanselístíll getur orðið tóm vitleysa, jafnvel bráðfyndin vitleysa eins og „neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum“ er lýsandi dæmi um.

Kunnáttu í íslensku máli og skrifuðu fer hingnandi vegna þess að æ fleiri lesa ekki bækur, finnst leiðinlegt að lesa.

Hef reynt að tileinka mér þessar ágætu reglur Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra:

    • Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.

    • Settu sem víðast punkt og stóran staf.

    • Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.

    • Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.

    • Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.

    • Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.

    • Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.

    • Hafðu innganginn skýran og sértækan. 

    S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.1.2017 kl. 10:37

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband