Sagan af fulla kallinum og borgarstjóranum

Einhvern tímann birtist í fjölmiðli brandari um manninn sem týndi lyklunum sínum á leið heim til sín eftir mikla drykkju:

Lögreglumaður tók eftir manninum í myrkri nætur við Hringbraut þar sem hann skreið eftir gangstéttinni.

„Hvað ertu að gera hér?“ spurði löggan. Maðurinn sagðist vera að leita að húslyklunum sínum.

„Týndirðu þeim hér?“ spurði löggan, einkar fávíslega.

„Nei,“ sagði sá fulli. „Ég týndi þeim niðri í miðbæ en hér er bara miklu betri lýsing.“

Með rökum má fullyrða að best sé að leita að húslyklunum þar sem lýsingin er góð en lakari aðstæður í myrkri. Lesandinn veit hins vegar að þar með er ekki öll sagan sögð.

Ekkert fyndið er við söguna af Degi Eggertssyni, borgarstjóra, og samferðafólki hans sem ætla að heimsækja stórborgir til að kynna sér lestarsamgöngur.

Í stórborgum er ábyggilega margt til lærdóms um lestarferðir og þar er betra að vera heldur en í smábæjum. Hér má vísa til samanburðar í söguna af fulla kallinum.

Kjartan Magnússon er einn af þessum leiðinlegu borgarfulltrúum sem sífellt spillir starfsgleðinni hjá meirihlutanum í borgarstjórn, Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og stjórnmálaflokknum Píratar (vona að ég hafi ekki gleymt neinum) með einhverjum ómerkilegum athugasemdum.

Með rökum má fullyrða að best sé fyrir borgarstjórann að leita upplýsinga um lestarsamgöngur í borgum þar sem íbúar eru margfalt fleiri en í Reykjavík. Lesandinn veit hins vegar að þar með er ekki öll sagan sögð. Fjarri því.


mbl.is Affarasælla að heimsækja sambærilegar borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Ég hélt að ekki þyrfti að skipta um hjólbarða á sporvögnum.surprised

Hörður Þormar, 25.9.2016 kl. 13:19

2 identicon

"spurði löggan einkar fávíslega" hvað gerir þetta fyrir brandarann annað en að gera lítið úr heilli stétt fólks?

Grímur (IP-tala skráð) 25.9.2016 kl. 14:23

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Grímur, því miður er það svo að erfitt er að skýra út brandara. Við það missir hann merkinguna og skopið hverfur. Samt ætla ég að hjálpa þér að átta þig á skopinu.

Auðvitað á sá sem tapaði lyklunum sínum að leita á þeim slóðum sem hann týndi þeim. Það liggur í augum uppi. Engu að síður spyr löggan, eiginleg út í hött, hvort að sá fulli hafi týnt þeim þarna. Svarið skiptir engu máli heldur er spurning löggunnar sett í brandarann til að fá hið bráðfyndna svar þess fulla.

Í sannleika sagt hefði mátt setja í stað löggunnar vegfaranda sem er læknir, sjúkaliði, tamningamaður, nemandi, leigubílstjóri, lögfræðingur, bóndi svo einhver dæmi séu tekin. Það hefði ekki breytt neinu. Þessi „Grímur“ hefði samt ekki skilið brandarann, hvað þá pistilinn, og skrifað í blindni sinni að verið sé að „gera lítið úr heilli stétt fólks“.

Staðan er nefnilega sú að nú má aldrei gera grín að neinum, verið er að gera lítið úr heilli stétt fólks. Þvílíkt bull.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.9.2016 kl. 15:04

4 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Hvað varð um Hafnfirðingabrandarana? Hafnfirðingar gáfu þá sjálfir út í bók um árið og það út af fyrir sig, er einn brandarinn í viðbót. Sammála þér Sigurður, bæði í pistli og athugasemd.

Sindri Karl Sigurðsson, 25.9.2016 kl. 16:09

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér Sindri Karl. Hélt að vandinn væri mitt eigið skopskyn, engin skildi það.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.9.2016 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband