Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016
Svavar og Eiður rægja Davíð Oddson
2.8.2016 | 15:53
Nei en blaðið notar tækifærið daginn eftir að Guðni tekur við til þess að veitast að fjölmenningarstefnu í leiðara sínum. Það er einnig merkilegt og rétt að hafa í huga. Það er þetta sem útgerðin vill borga með hálfa miljón á dag.
Þetta segir Svavar Gestsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins í Facbook-færslu. Tilefnið eru orð Eiðs Svanbergs Guðnasonar á sama miðli sem segir um Davíð Oddsson og Morgunblaðið:
Sífellt verður maður meira hissa á Morgunblaðinu. Og það á verri veginn. Persónuleg fýluköst og dyntir ráða nú ritstjórnarstefnu þessa blaðs sem einu sinni var alvöru fjölmiðill, - alvöru þótt maður væri ekki alltaf sammála honum. Þetta er ótrúlegt.
Persónulegri verða menn ekki í níði sínu um aðra en þegar þeir Svavar og Eiður ræða um Davíð Oddsson. Hvorugur er nú beinlínis þekktur fyrir glaðværð, umburðalyndi og málefnalega umræðu í stjórnmálum. Báðir eiga hins vegar sameiginlegt að eiga Davíð Oddsyni grátt að gjalda fyrir margvíslegt sem þeir kenna honum um á þingferli þeirra. Báðir víla ekki fyrir sér að fara með ósannindi.
Frægastur er Svavar Gestsson fyrir makalausa aðkomu sína að Icesave málinu sem formaður samninganefndar við Breta og Hollendinga. Hann ætlaði þjóðinni að greiða með skattfé mörg hundruð milljarða króna skuld sem urðu til vegna gjaldþrots einkabanka. Bretar og Frakkar gátu ekki fengið betri samherja.
Þjóðin hafnaði Svavars-samningnum, 93% landsmanna greiddu atkvæði gegn honum. Sárari flengingu gat Svavar Gestsson ekki fengið fyrir hroðvirknisleg störf sín. Hrakfarir þáverandi ríkisstjórnar og Svavars Gestssonar verða uppi um alla framtíð, báðum til háðungar en öðrum til varnaðar.
Og EFTA dómstóllinn var á sama máli og hafnaði því að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn tilskipun um innstæðutryggingar eða mismunað innstæðueigendum.
Davíð Oddsson var einn þeirra sem barðist hvað harðast gegn samningum um Icesave. Hann var á þeirri skoðun að þjóðin ætti ekki að greiða skuldir vanskilamanna. Svavar var á gagnstæðri skoðun, hafði ekki gleggri skilning á verkefni sínu né hug íslensku þjóðarinnar.
Enn hefur hann ekki fyrirgefið Davíð andstöðuna en heiftin er svo mikil að skrökvar um leiðara Morgunblaðsins til að koma höggi á Davíð. Svavar er einn þeirra sem hvað harðast hafa staðið fyrir einelti gegn Davíð Oddssyni og orð hans á Facebook verða að skiljast í því ljósi.
Í leiðara Morgunblaðs dagsins segir einfaldlega:
Eitt fagurt orðið er fjölmenning. Það er varla hægt annað en að laðast að því. En góða fólkið tók það upp á arma sína af fullmiklu afli. Óðara mátti uppnefna hvern þann rasista eða nasista sem rétti upp hönd og spurði um hvað í orðinu fælist. Sá gerði það ekki aftur. Meðal þess sem ekki mátti nefna, hvort það gæti verið æskilegt að samhliða fjölmenningu færi lágvær, varfærin krafa um eðlilega tillitssemi og aðlögun að því sem fyrir var. Það er víðar gott fólk en á Íslandi.
Eru með þessum orðum verið að veitast að fjölmenningarstefnu?
Svavar er einn af góða fólkinu og hann túlkar orð óvinarins eftir hentugleikum, rétt eins og hann túlkaði stefnu fornvina sinna í Austur-Evrópu eftir sömu hentugleikum.
Eiður Guðnason, fyrrum alþingismaður og ráðherra, nær vart upp í nefið á sér vegna þess að Morgunblaðið birti ekki leiðara um hinn nýja forseta. Auðvitað er þetta ekkert annað en fyrirsláttur enda hefur blaðið mikið fjallað um forsetaskiptin. Forsíðan blaðsins í dag er undirlögð, stór mynd af forsetahjónunum og tilvitnun í ræðu forsetans. Á innsíðum er sagt frá fyrstu ferð forsetans og heilsíða um embættistökuna.
Eftir stendur tilgerðaleg gremja tveggja hatrammra andstæðinga Morgunblaðsins um eitthvað sem ekki stenst.
Svo má endalaust velta því fyrir sér hver skrifaði leiðara Morgunblaðsins rétt eins og hver skrifaði þetta á vefritið hringbraut.is sem Eiður vitnar í sem heilagan sannleika.
Vel heppnaðar nýbyggingar á Hverfisgötu
1.8.2016 | 21:55
Átti leið um Hverfisgötu. Hef fylgst þar með nýbyggingum á milli Klapparstígs og Smiðjustígs. Er svo íhaldssamur að mér finnst flestar breytingar á götumyndum í Reykjavík yfirleitt afar ljótar og þar að auki tortryggi ég meirihluta borgarstjórnar síðan Gnarrinn narraði borgarbúa með tilgerðalegri aðdáun sinni á njóla.
Aftur á móti tel ég hér hafi vel tekist til. Ný hús hafa verið byggð með gömlu útliti, ekki er um eina blokk að ræða heldar mörg og mismunandi hús. Og gamla húsið á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs fær að halda sér enda afar fallegt hús að utan og innan.
Í sannleika sagt er engu líkar en þessi hús hafi verið þarna í áratugi. Athugið að myndin er tekin í panorama og virkar dálítið sveigð og teygð.