Þjóðin á Ólafi Ragnari Grímssyni mikið að þakka

Ólafur_Ragnar_Grímsson,_September_2011_(cropped)Þjóðin stendur á tímamótum. Lýðræðislega kjörinn forseti hættir eftir tuttugu ár í embætti og annar tekur við.

Full ástæða er til að þakka fráfarandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir þjónustu hans við þjóðina. Hann reyndist afar vel, var þarfur maður og var fastur fyrir þegar sótt var að þjóðinni en kunni engu að síður að halda sér til hlés þegar það átti við.

Ég man þegar það spurðist út í þröngum hópi að hann ætlaði að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands. Fyrir einskæra tilviljun frétti ég af því mjög snemma og ég hló. Ólafur Ragnar sem forseti ... Kanntu annan? Hann verður aldrei kjörinn ... Alþýðubandalagsmaður ... puff.

Ég reyndist ekki sannspár, raunar starfaði ég fyrir annan frambjóðanda en hafði ekki erindi sem erfiði.

Á fyrsta kjörtímabili Ólafs Ragnars voru samherjar mínir í stjórnmálum á tánum og fussuðu og sveiuðu þegar hann bara á góma. Að sama skapi voru gamlir samherjar hans óvenju undarlegir. Þeir jafnvel brostu og hlógu sem sjaldan gerðist nema þegar einhver meiddi sig eða mismælti. Engu að síður hittist svo á að stóran hluta embættistíðar Ólafs Raganars voru gömlu samherjar hans á Alþingi í stjórnarandstöðu en þá loksins að þeir komust á kjötkötlunum varð af því saga til næsta bæjar.

Vegakerfið í Barðastrandasýslum

Það kemst enginn hjá því sem um Barðaströnd fer að kynnast því að því miður er verulegur munur á vegakerfinu í Barðastrandarsýslu og í öðrum landshlutum. Það er greinilegt að það þarf að gera verulegt átak á næstu árum til að Barðastrandarsýsla haldi jöfnuði á við aðra landshluta. Ég vil hvetja til þess að menn líti á það sem sameiginlegt verkefni Íslendinga allra en ekki sem sérmál Barðstrendinga.

vegurMargir muna eftir fyrstu ferð Ólafs Ragnars um Vestfirði er hann kvartaði undan slæmu ástandi vega í Barðarstrandarsýslum. Ofagreind tilvitnun er úr Morgunblaðinu 24. september 1996. Maður hugsaði með sjálfum sér hvað forsetinn væri að vilja upp á dekk með svona yfirlýsingu. Hann ætti að vera þægur og góður og ekki skipta sér af stjórnmálum, engin hefð væri fyrir öðru.

Líklega hugsaði þáverandi samgönguráðherra líka eitthvað á þessa leið og raunar vandaði hann forsetanum ekki kveðjurnar fyrir afskiptasemina. Vera má að forsetinn hafi þarna skipt sér af málum sem komu embætti hans ekki við. Hins vegar vissu allir að vegir í Baraðastrandasýslum voru vart boðlegir á þessum árum.

Fjölmiðlafrumvarpið

Fyrstu árekstrar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við Alþingi urðu er svokallað fjölmiðlafrumvarp var lagt fram á Alþingi árið 2004. Í stuttu máli fjallað frumvarpið um að koma í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun í fjölmiðlun. Margir höfðu áhyggjur af því að sömu eigendur væru á fjölmiðlum; dagblöðum og útvarps- og sjónvarsstöðvum. Og þarna kom það berlega í ljós hversu „sósíalistinn“ Ólafur Ragnar Grímsson var trú sínu liði og barðist fyrir „réttlæti“ auðhringa og ríka fólksins sem vildi allt gera til að fella ríkisstjórn sem gaf þeim ekki lausan tauminn.

Alþingi samþykkti fjölmiðlafrumvarpið, forsetinn neitaði að skrifa undir og þar með hefði það átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem varð þó ekki. Lögin voru dregin til baka. Þegar þarna var komið sögu var ekkert sem benti til þess að forseti lýðveldisins yrði neitt annað en handbendi vinstri manna.

Bankahrunið

Þá gerðist hið óvænta. Bankarnir hrundi og í kjölfar þess komst ríkisstjórn vinstri manna  til valda undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Stjórnin ætlaði að vera svo góð, kenndi sjálfa sig við velferð, skjaldborgir og allt sem gott mátti nefna. Efndirnar urðu slæmar. Almenningur þjáðist, ekkert vitrænt var gert vegna hrunsins, fólk og fyrirtæki skattpínd, íbúðir teknar af fólki og flótti brast í liðið, þúsundir flúði til baka til Noregs. Í þetta sinn undan áþján Jóhönnu hárfögru og Skallagríms skattara. 

Þá rak Icesave málið á fjörur stjórnvalda, það var rekinn sem varð ríkisstjórninni að aldurtila, rétt eins og trjábolurinn sem rak í Drangey forðum daga og markaði örlög Grettis og Illuga.

Icesave-lögin felld

Manninn má oft reyna en þegar stórkostlegir atburðir gerast sést úr hverju einstaklingurinn er búinn. Þannig varð það með Ólaf Ragnar Grímsson sem átti tvo kosti þegar Alþingi Íslendinga samþykkti fyrsta Icesave-samninginn. Hann gat verið þægur og góður, gert það sem fyrir hann var lagt og skrifað undir lögin. Málið dautt.

Þjóðin reis hins vegar upp á málefnalegan hátt, ekki með pottaglamri á Austurvelli, ruddalegri aðför að einstaklingum, rógi eða grjótkasti. Nei, hún sagði hingað og ekki lengra. Þúsundir landsmanna lögðu vinnu í að sýna fram á hversu fráleit aðferðafræði ríkisstjórnar vinstri manna var, að leggja mörg hundruð milljarða króna ábyrgð á ríkissjóð Íslands til að tryggja skuldir gjaldþrota einkafyrirtækja.

Hinn kostur forseta lýðveldisins Íslands var að neita að skrifa undir þessi lög og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu sem og hann gerði þann 5. janúar 2010.

Ríkisstjórn vinstri manna ætlaði sem sagt að ábyrgjast skuldir gjaldþrota banka. Hversu fráleitt er það ekki? Aðferðin sem hún notaði var hrikaleg. Ráðherrar og fræðimenn framleiddu ósannar upplýsingar til dæmis að þjóðin mynd enda sem Kúba norðursins samþykkti hún ekki lögin.

Það þurfti ekki aðeins kjark til að neita að skrifa undir lögin, heldur einnig skynsemi og þekkingu. Allt þetta hafði Ólafur Ragnar Grímsson til að bera og þjóðin þakkaði honum traustið. Man einhver núna hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fór. Jú, 93,2% þjóðarinnar hafnaði samningnum, aðeins tæp 2% vildi samþykkja hann.

Það var nákvæmlega þarna að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms dó. Hún vissi bara ekki af því, hefði hún gert það hefði hún sagt af sér. Lýðræðiskennd vinstri flokkanna var ekki svo rík að það flögraði að þeim að gera slíkt. Heldur hjó hún aftur í sama knérunn.

Icesave-lögin felld aftur

Þann 16. febrúar 2011 voru önnur lög um Icesave samþykkt frá Alþingi Íslandinga. Ólafur Ragnar Grímsson neitaði aftur að skrifa undir og því fóru þau í þjóðaratkvæðagreiðslu og 60% þjóðarinnar hafnaði þeim.

Engin ríkisstjórn í sögu íslenska lýðveldisins hafði orðið fyrir slíkri rasskellingu sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Þegar þarna var komið sögu var hún ekki bara dauð heldur steindauð en sem fyrr vissi hún ekki af því.

Eins og til að strá salti í sárin úrskurðaði EFTA dómstólinn á þessa leið þann 28. janúar 2013: 

Dómur EFTA-dómstólsins í Icesave- málinu felur í sér að Ísland er sýknað af kröfum ESA um að vera lýst brotlegt við EES-samninginn. Dómstóllinn hafnar því að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn tilskipun um innstæðutryggingar eða mismunað innstæðueigendum.

Skipsbrot vinstri stjórnarinnar var því algjört. Í dag reyna þeir að endurskrifa söguna og segja að Icesave hafi engu máli skipti. Þvílík endaskipti á raunveruleikanum sem það nú er.

BessataðirMikilhæfur forseti

Nafn Ólafs Ragnars Grímssonar hefur verið markað í sögu íslensku þjóðarinnar. Vegur hans var mestur þegar á þurfti að halda og þjóðin þakkaði honum með því að kjósa hann í fjórða sinn.

Þegar á reyndi lét hann sig engu varða persónulega hagsmuni, gömul pólitísk sambönd, vináttu við samherja heldur tók framar öllu afstöðu með Íslandi; þjóðinni og lýðveldinu. Fyrir það verður honum seint fullþakkað.

Sá sem margir töldu í ólíklegastan til afreka reyndist hafa það bakbein til að spyrna við fótum þegar ríkisstjórn Íslands ætlaði að ganga erinda erlendra ríkja á kostnað íslensku þjóðarinnar.

Segja má að vegur Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta hafi farið vaxandi allt frá því hann gagnrýndi vegakerfið í Barðastrandasýslum forðum daga. Hér hefur verið stiklað á stóru málunum en vissulega fjölmörgum öðrum sleppt. 

Í dag þökkum við forsetanum samfylgdina í tuttugu ár. Á morgun kemur nýr dagur og þá er tekur annar við og honum er að sjálfsögðu óskað velfarnaðar.


mbl.is Eftirminnilegt Bessastaðalíf í 20 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Vel mælt Sigurður.

Ég tek sannarlega undir hverju orði þínu og vil líka bæta því við að fráfarandi þjóðhöfðingi okkar hafi ætíð verið sómi okkar og þegar á reyndi sverð okkar og skjöldur.

Jónatan Karlsson, 31.7.2016 kl. 18:43

2 identicon

Tek undir hvert orð.

Vel mælt.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 31.7.2016 kl. 18:50

3 identicon

Sæll Sigurður - sem og aðrir gestir, þínir !

Sigurður síðuhafi !

O: jæja. 

Það lá að.

Ólafur Ragnar Grímsson: var alla sína tíð, frá öndverðunni í Möðruvallahreyfingunni / og síðar, einungis fyrir sig og sína hagsmuni.

Og - dyggur varnarskjöldur valdastéttarinnar, jafnframt.

Vinnandi fólk: á honum ekkert gott upp að inna, fremur en öðrum þeim, sem setið hafa vaktirnar, í þágu burgeisa- og arðræningja þessa lands.

Sama gildir - um arftaka hans.

Lofar því: að vera stilltur og þægur / og gæta þess vel, að rugga ekki fúnum prömmum verðtryngingar og vaxtaokurs, t.d.

Sigurður síðuhafi - Jónatan og Sigurður K !

Lesið betur: og farið yfir illa klístraða efnahags-  og stjórnmála sögu landsins, áður en þið takið til við, að hylla frekar, þessi þjálu verkfæri valdastéttarinnar.

Einungis - vinsamleg ábending mín, til ykkar þremenninga / sem annarra.

Með beztu kveðjum af Suðurlandi - að öðru jöfnu /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 31.7.2016 kl. 23:09

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sú söguskýring virðist ætla að verða ofaná að það hafi bara verið vondir vinstrimenn sem ætluðu að koma Icesave yfir á þjóðina en svo hafi það verið forsetinn sem kom okkur til bjargar. Við eigum hins vegar að vita að Iceave-málið fékk ríkisstjórn Jóhönnu og Steinsgríms í arf frá ríkisstjórninni sem sat þar á undan sem samþykkti að ganga til samninga við Breta og Hollendinga vegna uppgjörs Icesave skuldarinnar. Sbr. hér:

Til umræðu var 10 ára lán með 6% vöxtum og jöfnum greiðslum. Alþingi 38. fundur 28. nóv. 2008 úr ræðu Bjarna Benediktssonar Sjálfstæðisflokki: „... Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.“

Forsetinn skrifaði að sjálfsögðu undir það sem samþykkt var á Alþingi varðandi Icesave á þessum tíma. Menn geta svo velt fyrir sér hvað ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem tók við af "hrunstjórninni" hefði haldið áfram, en þá hefðu flestallir Sjálfstæðismenn stutt Icesave fram í rauðan dauðan en vinstri menn mun síður. Núverandi afstaða Sjálfstæðismanna til Ólafs Ragnars ræðst  fyrst og fremst af framgöngu hans í málinu en það var auðvitað vinstri stjórnin sem tók á sig það högg, en ekki hægri stjórnin sem samþykkti á sínum tíma að gangast við Icesave skuldinni. Þannig er nú pólítíkin og sagan. Við fögnum þó því að Icesave-málið fór vel að lokum.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.8.2016 kl. 12:49

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Emil, bestu þakkir fyrir innlitið.

Síst af öllu eru vinstri menn vondir. Undir það myndi ég aldrei skrifa né heldur að allir hægri menn séu góðir. Stjórnmál ganga ekki út á að klína merkimiðum á fólk þó það tíðkist nú af offorsi og hrikalegri lítilmennsku.

Eins og fram kemur í pistlinum mínum sem og í ágætum þætti um forsetann í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi var það almenningur sem vakti athygli á Icesave samningnum í upphafi og hversu ósanngjarn hann var.

Vinstri stjórnin neitaði lengi vel að verið væri að semja við Breta og Hollendinga en engu að síður spurðist út að verið væri að semja í „reykfylltum bakherbergjum“. Skyndilega var kominn samningur sem meðal annars Indefence hópurinn krufði til mergjar. Niðurstaðan var einfaldlega sú að samningurinn var óþarfur og í þokkabót hafði vinstri stjórnin tekið á sig skuldbindingar sem hún átti ekkert með að gera.

Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms fékk Iceave málið í fangið en kunni ekki að glíma við það. Þá var inDefence hópurinn afar mikilvægur ásamt fjölda annarra einstaklinga og kletturinn í hafinu var Ólafur Ragnar Grímsson.

Þetta eru staðreyndir en vissulega er fjölmörgu sleppt hér. Vonlaust er að fara út í umræður um það hvað hefði getað gerst hefði vinstri stjórn ekki tekið við völdum. Slíkt eru bara tilgangslausar ágiskanir.

Vandamál íslenskra stjórnmála er heift, ruddaskapur, rógur og hálfsannleikur. Menn þurfa að venja sig á að ræða málin málefnalega á Alþingi sem og annars staðar. Hávaði skaðar eyru og skilning.

Já, sem betur fer fór málreksturinn vegna Icesave vel en það var ekki ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms að þakka. Þess vegna skrifaði ég pistilinn um Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands. Honum eigum við mikið að þakka.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.8.2016 kl. 13:10

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Reyndar vil ég trúa því að Icesave málið hafi farið á besta veg einmitt vegna þess hversu ferlið var langt og strangt enda vann tíminn alltaf með okkur. Ég ætla alls ekki að gagnrýna forsetann fyrir sinn þátt eða gera lítið úr honum. Ég vil heldur ekki gagnrýna Bjarna Ben fyrir það sem hann sagði á þingi í desember 2008. Ég vil almennt trúa því að stjórnmálamenn vinni að málum sem réttast sýnist hverju sinni og það gildir í þessu máli öllu. Dómur sögunnar er þó oft harður og ósanngjarn sérstaklega ef sagan er skrifuð af sigurvegurum ef við getum orðað það svo. Ég er í því sambandi dálítið efins um það að Ólafur Ragnar ætli að setjast við skriftir eftir fosetatíð sína til að gera upp pólitísk mál og samskipti sín við stjórnamálamenn og ríkisstjórnir. Ég vil nú helst ekki rifja upp það sem eitt sinn var sagt um Ólaf, að fyrst valtaði hann yfir andstæðinga sína og bakaði svo yfir þá á eftir. En maður á auðvitað ekki að vera rifja upp svona ósmekklegheit á þessum degi. Ólafur var oftast ágætur forseti og ég kaus hann tvisvar.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.8.2016 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband