Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Eru framsóknarlausir fréttatímar í Ríkisútvarpinu framundan?

Nú þegar ný forusta hefur verið kjörin í Framsóknarflokknum velti ég tvennu fyrir mér:

  1. Er hugsanlegt að draga muni úr fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af Framsóknarflokknum og fréttir fari að verða uppbyggilegri og meira upplýsandi um lífið og tilveruna?
  2. Gæti verið að vegur Framsóknarflokksins fari nú vaxandi eftir ótrúlega margar fréttir um flokkinn í Ríkisútvarpinu á undanförnum mánuðum?

Hið fyrra hefur verið svo þreytandi og leiðinlegt og endað með því að maður veit „of mikið“ um Framsóknarflokkinn, líklega meir en manni er hollt.

Hið seinna hefur ábyggilega ekki verið upphaflegt markmið fréttastofu Ríkisútvarpsins að hafa Framsóknarflokkinn sem fyrstu, aðra eða þriðju frétt í nær öllum fréttatímum. Afleiðingin hlýtur vera sú að sumt fólk veit hreinlega ekki hvernig á að lifa lífinu án flokksins og það greiði honum ósjálfrátt atkvæði í þingkosningunum í lok október.

Óska nú landsmönnum framsóknarlausra draumfara um ókomna framtíð og ekki síður framsóknarlausra frétta í Ríkisútvarpinu í jafnlangan tíman.

 


mbl.is Lilja Dögg kjörin varaformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hljóðin sem berast upp úr jarðskorpunni eru furðuleg

Goðabunga, óróiÞar sem jarðskjálftahrinunni er nú lokið í Mýrdalsjökli langar mig til að ræða suttlega um það sem mér finnst athyglisverðast við þessa þrjá daga. Hér á ég fyrst og fremst við óróann sem mældist undir jöklinum.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá eru víða um land tæki sem Veðurstofa Íslands hefur sett upp til að mæla hljóð sem koma úr jarðskorpunni en þau eru á tíðni sem mannlegt eyra getur ekki greint.

Hljóðin eru nefnd órói og er mæld í mælieiningunni Hz (Hertz). Óróinn verður til þegar til dæmis kvika þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna eða þegar jarðskjálftar verða og jafnvel kunna að vera fleiri ástæður.

HeiðarbærÁ Mýrdalsjökli eru tæki sem mæla óróann í Kötlu, t.d. á Goðabungu, Austmannsbungu og víðar.

Hins vegar geta jarðhræringar og jafnvel eldgos orðið víðar í Mýrdalsjökli en í Kötluöskunni og þar af leiðandi eru tæki sett á jökulinn og í kringum hann. 

Á efstu myndinn sést að óróinn hefst um miðjan síðasta fimmtudag og honum lýkur fyrir miðnætti í gær. Þetta er bláa tíðnin sem mæld er frá 2 til 4 Hz. Örvarnar benda á dagsetningar á lárétta ásnum, upphaf og endi jarðskjálftahrinunnar, svona á að giska.

Heiðarbær er vestan Þingvallavatns, 120 km frá Kötluöskjunni. Óróamælirinn þar nemur umbrotin í Mýrdalsjökli þokkalega. Sjá næst efstu myndina. 

FagurhólsmýriNærri 120 km er frá Kötlu og að Fagurhólsmýri. Þar er mælir og á honum má greina jarðskjálftahrinuna í Mýrdalsjökli og þriðja myndin er þaðan.

Um 110 km norðan við Kötlu er Skrokkalda, lengst uppi Sprengisandi. Óróinn mælist líka á mælum þar, en tíðnin þar er nokkuð lægri, en þó mun skýrari mæling en á hinum tveimur stöðunum. Gæti ástæðan verið sú að Skrokkalda er á gosbeltinu en Heiðarbær og Fagurhólsmýri utan þess, það er þess hluta sem er í stefnunni norðaustur og suðvestur, þvert yfir landið?

Auðvitað sést óróinn betur á mælum Veðurstofunnar eftir því sem þeir eru nær Mýrdalsjökli.

SkrokkaldaÞar að auki getur óróinn birst á mælum í mismunandi myndum og sumum ansi skemmtilegum eins og hér skal rakið.

Neðsta myndin er af óróa sem mældist í tækjum við Dyngjujökul þann 26. ágúst. Hugsanlega eru hann ættaður frá bergganginum sem flutti kviku frá Bárðarbungu og að eldstöðinni við Holuhraun árið 2014. Hann er enn í fullu fjöri þó þrýstingur í honum dugi ekki til að valda eldgosi ... ekki enn.

Þarna virðist blá tíðnin birtast eins í hviðum, rétt eins og taktföst tónlist eða kveðandi hjá mannfólkinu.

Dyn Órói 160826Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur, sagði að því er mig minnir að hann hafi „spilað“ hljóð frá eldgosum á um sextíu sinnum meiri hraða en upptakan er áog náð að hlusta á ansi skemmtilega takta.

Hvað skyldi nú heyrast ef við gætum spilað þennan takt frá mælitækinu við Dyngjujökul. Ég er viss um að það væri ansi fróðleg upplifun.

Tek enn og aftur fram að ég er ekki jarðfræðingur, aðeins áhugamaður. Þar sem skilningur minn er takmarkaður svo ég tali nú ekki um gáfur, er vert að fara að dæmi fornra sagnamanna og afsaka fyrirfram sé eitthvurt missagt hér að ofan.

 

 


Stjarnan og KR hefðu átt að berjast við FH um titilinn

Bolti2FH varð Íslandsmeistari í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta. Liðið er gott, árangur þess jafn og stöðugur, skipulag liðsins er traust og liðsmenn þess eru margir hverjir frábærir. FH spilaði skemmtilegasta og besta fótboltann.

Þjálfarinn er frábær, heldur ró sinni nokkuð vel en virðist afar skipulagður í verkefni sínu. Kominn er tími á að reist verði að minnsta kosti 40 m há stytta af honum á áberandi stað í Hafnarfirði, helst á Hamrinum.

Árangur Stjörnunnar er hrein hörmung þrátt fyrir að hafa lent í öðru sæti. Liðið hefði átt að vera í toppbaráttunni ásamt KR en klikkaði. Margir leikmenn eru góðir en skipulag liðsins virkar tilviljunarkennt, sérstaklega framlína, þar er treyst á einn mann.

Miðjan var oft frekar slök og yfirsýn hennar er ekki góð, hugsanlega er leikskilningurinn lélegur. Sumir liðsmenn, sem þó hafa skorað mörg mörk, virkuðu oft latir, samvinnan stundum hræðilega slök. Ofmatið er slíkt að margir ætluðu sér oft að skora tvö mörk eða fleiri í hverri sókn. Þannig háttalag gengur ekki upp.

Guðjón Baldvinsson er stjarna liðsins, stórkostlegur leikmaður. Á hæla hans kemur Baldur Sigursson, traustur, harður og glöggur leikmaður. Með þeim á Veigar Páll Gunnarsson að vera. Hann var alltof lítið notaður þrátt fyrir að vera snillingur með boltann og frábæran leikskilning. Gallinn er bara sá að hann var of þungur, það sást langar leiðir.

Þjálfarinn þarf að íhuga stöðu sína og aðstoðarþjálfarinn líka. Með svona góða leikmenn á ekki að vera hægt að tapa sjö leikjum og gera þrjú jafntefli. Miðað við þetta er annað sætið eins hræðileg niðurstaða. Sagði ekki Snæfríður Íslandssól í bók Laxness: „Frekar það versta en það næst besta“.

Flestir voru búnir að afskrifa KR-inga eftir hörmulega byrjun. Ný þjálfari tók við liðinu og hafði ekki aðeins skoðun á því hvernig það ætti að leika heldur fékk leikmennina til að gera eins og fyrir þá var lagt. Þriðja sætið er engin tilviljun, KR-ingar áttu það svo sannarlega skilið. Auðvitað áttu þeir að veita FH og Stjörnunni harða samkeppni í allt sumar. KR er stórveldið.

Stjórn KR á að sjá sóma sinn í því að bjóða Willum Þór Þórissyni tíu ára samning sem þjálfari og á hæstu launum. Án tilkomu Willums hefði stjórnin öll þurft að segja af sér en með ráðningu hans bjargaði hún sér í horn. Willum er stjarna liðsins ásamt Óskari Erni Haukssyni, varnarleikmanninum Gunnari Þór Gunnarssyni og miðjuleikmönnunum.

Önnur lið í deildinni áttu ekki skilið að komast efstu þrjú sætin. Vonbrigði sumarsins eru Valur, Breiðablik og Fjölnir. Öll eru þau brokkgeng. Jafnteflisleikirnir eyðulögðu mikið fyrir þeim auk þess að í liðunum eru of margir leikmenn sem ekki eru nægilega góðir.

Mér finnst kominn tími til að Fjölnir geri harða og sannfærandi atlögu að Íslandsmeistaratitlinum.

Landsbyggðaliðin þrjú ÍA, ÍBV og Víkingur frá Ólafsvík héldu sér í deildinni, tvö síðast nefndu liðin með naumindum. Þau þurfa að vanda sig fyrir næsta ár, byggja upp betra lið sem eflaust verður mikið vandamál fyrir Ólafsvíkinga, þeir byggja á útlendum málaliðum.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband