Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Aldrei hætta á gáleysisakstri í ám í Þórsmörk

Kort bráðabirgða2Fjöldi fólks veit ekki hvar Þórsmörk er en hefur þó margoft komið þangað. Fjöllmargir rugla og bulla og halda að Þórsmörk sé allt landið þarna í krinkanum milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls.

Í þokkabót kallar Vegagerðin veginn inn eftir Þórsmerkurveg. Samt liggur þó ekki í Þórsmörk heldur í Bása á Goðalandi.

Til að komast í Þórsmörk þarf að aka yfir Krossá, hún er ekki brúuð og því enginn vegur þangað heldur vegleysa. Vegurinn ætti að kallast eitthvað allt annað, til dæmis Básavegur.

Meðfylgjandi er kort sem ég kastaði upp í flýti. Á því sjást landsvæði sem undir engum kringumstæðum má kalla Þórsmörk. Það er einfaldlega rangt og brýtur gegn öllum hefðum, munnlegum og skriflegum heimildum um örnefni. Ein helsta heimildin er bókin Þórsmörk eftir Þórð Tómasson í Skógum og að auki árbækur sem Útivist hefur gefið út og kort sem félagið hefur unnið í samvinnu við Ferðafélag Íslands og fleiri aðila.

Efst á kortinu er landsvæði í brúnleitum lit. Það er Þórsmörk. Sunnan við það (munum að norður er alltaf upp á kortum) er Goðaland, litað með rauðu. Austan við það eru Hrunar, Múlatungur, Guðrúnartungur og Teigstungur. 

Vestan við Goðaland er Merkurtungur og þá Stakkholt og vestan frá skriðjöklinum er Steinsholt og hann heitir Steinsholtsjökull.

Með þessum örnefnum og mörgum fleiri er afar auðvelt að rata og ferðast, ekki fer á milli mála hvert ferðinni er heitið.

Einar Sveinbjörnssonm veðurfræðingur, fer ekki beinlínis með rangt má þar sem hann talar í fréttinni á mbl.is um hættu á gáleysisakstri í Þórsmörk. Hann á eflaust við að á veginn inn eftir falla margir ár og lækir. Auðvitað hefði blaðamaðurinn átt að leiðrétta Einar enda engin hætta í Þórsmörk.

Eini vegurinn sem er í Þórsmörk er frá Ranatá vestast á Merkurrana og inn að Húsadal. Enginn hætta er á gáleysisakstri í ám í Þórsmörk nema menn vilji telja Krossá til hennar og það er mér svo sem að meinalausu. Enginn mun hins vegar aka yfir lækinn sem fellur eftir Langadal vegna þess að þar er enginn vegur. Sem sagt lítil hætti á gáleysislegum akstri.

Ekki skal gert lítið úr vatnsföllum á leiðinni inn í Bása. Einu sinni voru taldar yfir fimmtíu ár og lækir á þeirri leið en það kann að hafa breyst. Af stórum ám hefur Akastaðaá verið oft til trafala, Jökulsáin sem kemur undan Gígjökli og ekki síður Steinsholtsá.

Margir vita að Krossá getur verið verulegur farartálmi í vætutíð eins og núna. Einnig er getur Hvanná verið til mikilla erfiðleika en hún er er vestan við Goðaland. Í henni er mikill straumur.

Dæmi eru um að Básalækurinn hafi bólgnað upp og flætt yfir veginn og gert margan bílstjórann óstyrkann. Strákagilslækur er oftast meinleysislegur en í svona tíð getur hann orðið að straumhörðu skaðræðisfljóti sem engu eirir og spillir landi og vegum.


mbl.is Hætta var á gáleysisakstri í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atkvæðin sem engum gagnast

kosningSvo virðist sem tólf flokkar bjóði fram til þings að þessu sinni, jafnvel þrettán. Helmingur þeirra á eflaust erindi á þingið en mun ekki ná inn.

Hér er fjallað stuttlega um sex flokka sem ekki virðast eiga nokkra möguleika á að koma manni á þing miðað við  skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Morgunblaðið og birt var 7. október 2016.

Atkvæði greidd þessum flokkum gagnast engum.

Björt framtíð: Hefur sama og ekkert gert þau þrjú ár sem flokkurinn hefur verið á þingi. Þekktastur fyrir að reyna að breyta klukkunni. Flokkurinn fékk 8,2% atkvæða í kosningunum 2013 og sex þingmenn. Mælist með 4,1% fylgi og engan mann kjörinn.

Húmanistaflokkurinn: Hann hefur lengi reynt sig í þingkosningum. Fékk 126 atkvæði í kosningunum 2013. Afar snautleg niðurstaða en forystumenn framboðsins mega eiga það að þeir eru með stefnu sem þeir trúa á og berjast fyrir henni.  Mælist ekki í skoðanakönnunum.

Dögun: Flokkurinn fékk 3,1% atkvæða í síðustu kosningum, 5.855 kusu hann. Kom ekki þingmanni að og samkvæmt skoðanakönnunum eru flokkurinn langt frá því að koma manni á þing. Mælist með 0,3% fylgi.

Alþýðufylkingin: Eini kommúnistaflokkurinn sem býður fram til þings. Hann fékk 118 atkvæði í síðustu kosningum, líklega bara vandamenn sem kusu hann. Flokkurinn er náskyldur Vinstri grænum en er þó trúr sínum grundvallarmálum meðan VG útvatnar sín til þess að ná fleiri atkvæðum. Mælist með 0,3% fylgi.

Flokkur fólksins: Bauð ekki fram 2013. Virðist ekki fá mikið fylgi þrátt fyrir skelegga frammistöðu formanns flokksins og sannfærandi stefnuskrá. Mælist með 3,2% fylgi sem er merkilega mikið.

Íslenska þjóðfylkingin: Bauð ekki fram 2013. Virðist samkvæmt skoðanakönnunum ekki ná neinu fylgi. Ástæðan er eflaust afstaða flokksins til flóttamanna sem fellur landsmönnum greinilega ekki vel í geð. Mælist með 2,2% fylgi.

Í lýðræðislegum kosningum mega allir taka þátt, bæði bjóða fram og kjósa. Í öllum vestrænum löndum býður ógrynni flokka sig fram í kosningum til þings og sveitarstjórana. Þetta ber vitni um áhuga fólks á stjórnmálum og tilraunum þeirra til að hafa áhrif sem er afar jákvætt.

Ofangreindir flokkar munu, ef allt fer eins og spáð er, ekki ná manni inn í næstu þingkosningum. 

Kjósendur verða því að gera það upp við sig hvort þeir ætli að kjósa þessa flokka eða aðra þá sem líklegri eru til árangurs.  

Svo má alveg rökstyðja þá fullyrðingu að betra sé að kjósa einhvern þessara flokka heldur en marga af þeim sex sem munu mjög líklega ná mönnum inn á þing.

Loks má velta fyrir sér fyrirsögn þessa pistils. Er hún rétt? Byggir ekki lýðræðið á þátttöku? Þar af leiðandi skiptir hvert greitt atkvæði máli, jafnvel þó það falli ekki sigurvegaranum í skaut.

 


Allt með kyrrum kjörum, fáir skjálftar nema í pólitík

ErrorFjölmiðlar voru uppfullir af fréttum um jarðskjálfta í Kötlu í síðustu viku og væntanlegt eldgos. Þá var ýmislegt sagt sem ekki stóðst.

Draumspakt fólk fullyrti að nú færi að gjósa. En ekkert gerðist nema það eitt að í lok mánaðarins á að kjósa. Til þings. Líklega eru það hörmungar sem um er ræðandi.

Jarðskjálftar koma í hrinum og ekki eru allir skjálftar fyrirboðar eldgosa. Fjarri því. Stundum eru miklir skjálftar um allt land og svo verður hlé, rétt eins og nú stendur yfir.

Veðurstofa Íslands er með ágæta vefsíðu um jarðhræringar og aðra óáran sem kunna að valda landsmönnum erfiðleikur. Frá því klukkan 12 síðasta laugardag og fram til klukkan 12 á mánudegi hafa mælst 64 skjálftar á og við Ísland.

  • Tveir skjálftar mælast tvö stig, og einn 2,1 stig. 
  • Um 23 skjálftar eru milli eins og tveggja stiga.

Þetta þykir nú ekki merkilegt á eldfjalla- og jarðskjálftaeyjunni góðu.

Líklega er Katla farin í haustfrí sem og aðrir vættir sem valda ókyrrð á landinu. Nema auðvitað stjórnmálaflokkarnir. Þeir valda ókyrrð víða, þó ekki eins og hér áður fyrr.

Annars veldur það mér sífelldum vonbrigðum hversu áðurnefnda draumspaka fólkið og ófreska skuli aldrei láta vita af hörmungum fyrirfram. Alltaf eftir á. Svona eins og þegar Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, sagðist hafa séð bankahrunið fyrir en honum láðist bara að segja frá því. Bömmer.

 


Grundvallaratriði að fara rétt með örnefni

SteinsholtsáHún heitir Steinsholtsá, fljótið sem kemur úr Steinsholtsjökli áður gróf sig um dal þann sem nefndur er Steinsholtsdalur og er á því landsvæði sem nefnist Steinsholt.

Steinsholtsá ... tvöfalt eignarfall í þrísamsettu örnefni.

Af hverju getur mbl.is og aðrir fjölmiðlar ekki farið rétt með örnefni?

Annað hvort er það vegna fljótfærni eða of margir blaðamenn eru ekki betur að sér í landafræði. Hvorugt er góð afsökun.

Ekki heldur sú að Landsbjörg hafi sent út fréttatilkynningu með rangt rituðu örnefni. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að þetta ágæta slysavarnarfélag hafi ekki á að skipa fólki sem getur skrifað villulausar fréttatilkynningar.

Já og svo er það þetta með Steinsholtsá. Hún var hér áður fyrr mikill farartálmi. Einhvern tímann var jarðýtu sigað á ánna og hún ruddi úr vegi einhverju þrepi fyrir neðan vaðið. Það hafði safnað vatni á vaðinu og þar fyrir ofan og gert mörgum jeppamanninum skráveifu. Nú er það helst í vætutíð að áin verður erfið yfirferðar. Kosturinn er þó sá að botninn er mjög góður og traustur fyrir akandi umferð.

Myndin er af Steinsholtsá, horft niður hana, í norðaustur (Tindfjöll til vinstri). Jóhannes heitir steinninn fyrir miðri mynd. Hann er nefndur eftir Ferðafélagsmanninum Jóhannesi Kolbeinssyni. Bjargið er tiltölulega nýkomið á þessar slóðir. Kom þangað 1967 er stærðar bjarg hrundi hátt í Steinsholti og niður á skriðjökulinn, ollir miklu flóði sem bar leir, sand og grjót af ýmsum stærðum niður á láglendið sem ruddist út í Markarfljót og sáust ummerki þess allt til sjálfar. Sjálfar náttúruhamfarirnar, hrunið, mældust á jarðskjálftamælum.

Enginn sem komið farið hefur í Steinsholt með góðri leiðsögn getur gleymt því að öll örnefni dregin af því eru með tvöföldu eignarfalli eins og fram kemur í upphafi pistilsins.


mbl.is Straumur bar bíl 25 metra niður á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinilegt sigurmark í landsleiknum

MarkGreinilegt er af meðfylgjandi skjáskoti úr fótboltaleik Íslands og Finnlands í gærkvöldi að boltinn fór yfir línuna og þar af leiðandi í markið.

Boltinn hafði verið á marklínunni en Alfreð Finnbogason sparkar honum inn og á myndinni er boltinn nærri því komin í andlit finnska markmannsins og Alfreð stígur á línuna á þeim stað þar sem boltinn hafði áður verið.

Boltinn er því að minnsta kosti tveimur „boltum“ fyrir innan.

Á möl fyrir framan bílskúrshlera í Hlíðunum í gamla daga hefði þetta verið talið mark og engin mótmæli tekin gild - sérstaklega ekki þeirra sem fengu markið á sig. Betur get ég varla rökstutt þetta álit mitt.

Þetta sést allt ágætlega í frétt á mbl.is.

Já, og svo er það annað. Markmaðurinn var með aðra hönd ofan á boltanum þegar Alfreð sparkaði honum (boltanum) inn. Telst það brot?

 

 


mbl.is Var þetta löglegt mark? (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur er virkasti framíkallari Alþingis

Ef einhver þyrfti að sækja námskeið í mannasiðum og reiðistjórnun væri það Steingrímur J. Sigfússon, hinn eldklári, mælski en öri leiðtogi Vinstri grænna. Dæmin um reiðiköst hans á Alþingi eru óteljandi og öll þess eðlis að virðing Alþingis hefur tekið dýfur í kjölfarið.

Steingrímur telst ábyggilega einn virkasti framíkallari landsins og er þó með einna lengstan starfsaldur allra þingmanna. Hann hefur þó lítið lært í mannasiðum á þingtíma sínum.

Yfirleitt er það þannig að flestir verða lítt varir við eigin bresti en þeim mun ákafari í að opinbera meinta galla í lunderni annarra. Þetta sést yfirleitt mjög vel í fari stjórnarandstöðunnar á þingi. Næst því koma orð sem svokallaðir „virkir í athugasemdum“ í nokkrum fjölmiðlum láta frá sér fara. Þannig er orðstír þingsins dreginn í svaðið.

Alþingi Íslendinga er engin fyrirmynd í almennum rökræðum. Þegar rökin bresta tíðkast þar að berja á ríkisstjórn og meirihluta með formælingum og leiðindum.

Þetta er í sannleika sagt ógeðsleg framkoma og lítt til þess fallin að hvetja gott og skynsamt fólk til að gefa kost á sér í þingmennsku. Frekar götustráka og -stelpur sem eru þekktari fyrir munnsöfnuð en skynsemi, þekkingu eða reynslu. Lítið bara á bara suma framboðslista.


mbl.is „Þarft að fara á námskeið í mannasiðum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningapróf segir ekkert um pólitíska afstöðu

Svokölluð „kosningapróf“ eru í besta falli lélegur samkvæmisleikur. Það getur aldrei komið í staðinn fyrir rökhugsun hvers og eins. Þar að auki geta spurningarnar seint endurspeglað hið pólitíska svið og því til viðbótar eru svörin of einhæf.

Sá sem hefur skoðun á stjórnmælum getur aldrei tekið undir já eða nei svör. Þannig aðferðarfræði er alls ekki greindarleg. Útilokað er að pólitísk skoðun byggist á þessu:

  1. Mjög ósammála
  2. Frekar ósammála
  3. Hvorki sammála né ósammála
  4. Frekar sammála
  5. Mjög Sammála
  6. Vil ekki svara

Sá sem semur spurningarnar getur hæglega verið leiðandi í spurningum sínum, lagað þær þannig til að sá sem tekur „prófið“ fer ósjálfrátt eftir leiðandi svörum höfundarins. Þar að auki er ekkert gefið upp um einkunnagjöfina. Afar einfalt er að segja að svörin/fullyrðarnar sýni að sá sem prófið tekur sé á allt annarri skoðun en hann í raun og veru er.

Tökum sem dæmi fullyrðingu eins og þessa:

Íslensk menning á undir högg að sækja vegna alþjóðavæðingar.

Svarið getur hvorki verið já eða nei eða eitthvað þar á milli. Fullyrðingin krefst umræðu og yfirlegu og að því loknu hefur maður myndað sér skoðun. Hún er ekki ein af þeim sex möguleikum sem gefnir eru hér á undan.

Væri skynsamur maður spurður að því hvort menningin eigi undir högg að sækja vegna alþjóðavæðingar þá getur svar hans verið afar fjölbreytilegt og snerti aldrei þessi sex svör.

Dæmi: Vissulega á tungumálið undir högg að sækja. Hins vegar blandast íslensk menning að hluta til saman við menningu annarra þjóða rétt eins og alltaf hefur gerst en þó aldrei hraðar en núna. Það þýðir hins vegar ekki að menningin verði önnur, heldur ný bætist við. Er það slæmt? Já, ef ný menning útrýmir tungumálinu. Nei, ef tungumálið eflist og auðgast. Já, ef íslensk menning hefur aldrei komist í snertingu við utanaðkomandi menningu.

Þetta er hins vegar ekki allt enda mörgu sleppt, jafnt það sem gott er og einnig hitt. Þar af leiðandi er ein af fullyrðingunum sex ekki nægileg og svarið verður svarið seint flokkspólitískt.

Þessi lágkúra sem „kosningapróf“ sannarlega er hefur enga þýðingu. Þetta er eins og þegar við unglingarnir í gamla daga skiptumst í hópa eftir því hvort við „héldum með“ Bítlunum eða Rolling Stones. Eða þá hvort við vorum Valsarar eða KR-ingar. Í sannleika sagt vissu allir að bæði Bítlarnir og Rollingarnir sömdu góð lög, raunar frábær, þess á milli sem þau voru lakari ... eða okkur fannst þau léleg. Valur átti sína slöppu leiki og einnig KR en stundum urðu þessi félög Íslandsmeistarar í fótbolta, handbolta eða körfu.

Sama er með stjórnmálin. Afar auðvelt er að fletja þau út, gera stefnu og skoðanir að einhverjum dægurmálum sem breytast eftir því hvernig vindurinn blæs. Þannig eru „kosningapróf“.

Jú, auðvitað er ég hlyntur því að Ísland aðstoði aðrar þjóðir og taki á móti flóttamönnum. Vandamálið felst ekki í því að sumir vilji það ekki. Meiru máli skiptir að sumir sem vilja setjast hér að eru ekki á flótta meðan aðrir eru að berjast fyrir lífi sínu. Þeir hugsan í stjórnmálum verða líka að átta sig á því að fjármagn er takmarkað og ekki er hægt að gera allt fyrir alla jafnvel þó viljinn sé fyrir hendi.

Sá sem er svo skyni skroppinn að hann þurfi að taka „kosningapróf“ til að átta sig á pólitískri stöðu sinni her að biðja um að einhver ljúgi að sér. Hann er ruglaður í ríminu og lætur aðra ráðskast með sig án þess að skilja það. Svipað eins og að skoða ljósmyndir af fólki í þeim tilgangi að dæma um innræti þess ...

Í þessu ljósi öllu ættu menn að geta skilið ljóð Steins Steinars:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir,
það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.

 


mbl.is Taktu kosningaprófið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vit og vitleysa um kirkjujarðir og afstöðu Pírata

Flutningsmenn tillögunnar [þingflokkur Pírata] telja ljóst að ríkið sé löngu búið að greiða fyrir þær kirkjujarðir sem það fékk afhentar með samkomulaginu um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá árinu 1997 en eins og réttilega hefur verið bent á liggur enginn ákveðinn listi fyrir yfir þær eignir. Ríkið hefur nú þegar greitt yfir 30 milljarða til þjóðkirkjunnar vegna samningsins, eða um það bil 1,5 milljarða á ári.

Þetta segir í þingsályktunartillögu Pírata um að ríkisstjórnin hefji undirbúning að uppsögn samkomulags frá 1997 við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir og launagreiðslur presta. Fyrsti flutningsmaður er Birgitta Jónsdótir, alþingismaður.

Séra Geir Wage, prestur í Reykholti, teflir staðreyndum fram gegn þessari þingsályktunartillögu Pírata. Hann segir í snjallri grein í Morgunblaði dagsins (feitletrun er mín):

Þessi fullyrðing er villandi og beinlínis ósönn, því skýrslu kirkjueignanefndar fylgdi í tveimur bindum yfirlit yfir þessar eignir frá 1550 til útgáfuárs þeirra 1992 eftir Ólaf Ásgeirsson þjóðskjalavörð, sem nefndin rjeði til verksins. Þar eru ljósrit kaupbrjefa og annarra gjörninga er þær varða og nákvæm skrá yfir sögu eignarhalds þeirra þau 442 ár, sem skráningin tekur til. Hafi kirkjumálaráðuneytinu láðst að halda skrár yfir meðferð sína og annarra stofnana stjórnarráðsins á þeim eignum, sem það hafði í fjárhaldi og til ráðstafanar um 90 ára skeið, væri það tilefni til sjálfstæðrar rannsóknar, en varla gild ástæða til þess að svipta kirkjuna á Íslandi lögvörðum rjettindum.

Fullyrðingar sem Píratar byggja þingsályktunartillögu sína eru því að hluta til fallnar um sjálft sig enda má ljóst vera hvaða eignir standa undir samkomulagi ríkis og kirkju frá því 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.

Geir segir svo í lok greinar sinnar og skýtur hann bæði á Pírata og fjármálaráðuneytið og virðist hafa talsvert til síns máls í báðum miðum:

Enginn vafi ljek því á því, hvaða verðmæti það voru, sem afhent voru með kirkjujarðasamkomulaginu í lögum 78/1997, eins og haft er eftir fjármálaráðuneytinu í greinargerðinni. Virðist sú fluga frá ráðuneytinu komin og er Pírötum á þingi því nokkur vorkunn, að vita ekki betur. Vekur þetta samhengi til umhugsunar um það vald sem embættismönnum er fengið með því að alþingismenn og alþýða öll hefur til skamms tíma treyst upplýsingum ráðuneyta og verið óvarin fyrir þeirri túlkun upplýsinga sem þaðan rennur í mörgu samhengi og, að því er virðist, rangfærslum þar sem einnig má bæta í með þögninni, eins og hjer vaknar grunur um.


Blettameðferðin og ginningarfíflin

Rétt í þessu var að birtast á Morgunblaðsvefnum aldeilis dæmalaust óviturlegt myndband þar sem ung blaðakona lætur „sérfræðing“ setja sér sogbolla með tilheyrandi tilþrifum. Sjón er sögu ríkari.

Ekki tekst blaðamanni betur til í umfjöllun sinni en að hún virðist gleypa við þessu gagnrýnislaust og láta hafa sig að ginningarfífli.

Græðarinn gapir þarna meðal annars um að sogbollarnir örvi blóðflæðið og dragi úr bólgum þegar hið gagnstæða í raun sést á myndunum :)

Það sem fæstir átta sig á í þessu sambandi er að græðararnir nudda rækilega um leið og sogbollaseremonían fer fram. Takið eftir roðanum sem kominn er áður en bollunum er beitt.

Nuddið gefur vitanlega vellíðan og getur örvað blóðrás í vöðvum. En að sogið hafi áhrif á vöðvana er ofsagt. Hið gagnstæða væri raunin ef sogið næði þangað niður, sem það ekki gerir.

Ofangreind tilvitnun er af Fésbókarfærslu Björns Geirs Leifssonar, læknis. Hann stendur svokallaða „Vitleysisvakt“ og tekur fyrir „lyf“, „lækningar“ og annað álíka sem er í raun ekkert annað en vitleysa og rugl en í versta falli skipulögð fjárplógsstarfsemi.

Björn Geir hefur ekkert álit á þessari „blettameðferð“. Fjöldi fólks lætur hafa sig að ginningarfíflum og því miður virðist sá ágæti leikmaður íslenska landsliðsins, Guðjón Valur Sigurðsson, vera einn þeirra. Um hann er lítið „frétt“ á mbl.is í dag

Niðurstaða Björns Geirs ein einföld. Þetta eru bara blekkingar og aðferðin vita gagnslaus. Sorglegt að svona hindurvitni skuli ná til fólks.


mbl.is Guðjón Valur í „blettameðferðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruddaskapur úr ræðustól Alþingis bætir ekkert

Sá sem uppnefnir aðra er rökþrota, kann ekki eðlileg samskipti. Svona talsmáti er í áttina að því ofbeldi sem byggist á leiðindum og einelti. Virðing Alþingis eða þingmanna vex ekki með þessu.

Allir hafa kynnst fólki sem ástundar leiðindi og ókurteisi. Maður þekkir þetta úr skólagöngu, á starfsferli eða bara á förnum vegi. Þetta er alltaf leiðindafólk, gerir lífið ömurlegt og truflar sálarlíf annarra.

Vel má vera að skipulagsleysi ríki nú á síðustu dögum yfirstandandi þings. Það bætir hins vegar ekki úr skák ef menn missa stjórn á sér og fara að uppnefna fólk úr ræðustól Alþingis. Það verður síst af öllu til þess að traust almennings á þinginu vaxi.

Hvað þarf að gerast til að fólk komi fram við hvert annað af ýtrustu kurteisi? Hvað er það sem kallar á ruddaskap? Eru einhverjir á þeirri skoðun að fyrir vikið að skipulag þingsins verði fyrir vikið miklu betra og skilvirkara?

Hverju telur Árni Páll Árnason að hann fái áorkað með því að kalla þingmenn stjórnarflokkanna „dólga“? Auðvitað hefur hann ekki hugsað þessa hugsun til henda. Lætur bara gremju eða reiði ná yfirhöndinni. Orð hans eru skráð og verða ekki tekin aftur. Síst af öllu eru þau honum til sóma jafnvel þó einhverjir samþingmenn hans hrópi upp yfir sig af hrifningu og kæti.

Líklega er það bara ég sem hef það á tilfinningunni að orðræðan stjórnarandstöðunnar líkist æ meir rökleysu og ruddaskap „virkra í athugasemdum“ á lélegum fjölmiðlum.


mbl.is „Þingdólgar!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband