Orkan í Blönduvirkjun

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Ofangreind ályktun Alþingis er ekki nema rétt um eins og hálfs árs gömul. Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri á Skagaströnd, minnir á hana í ágætri grein í Morgunblaði dagsins. Það þýðir því ekkert að agnúast út í forna yfirlýsingu ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen frá því 1982. Hún var einfaldlega endurnýjuð af Alþingi 15. janúar 2014 og sú heldur gildi sínu þangað til annað verður ákveðið.

Staðreyndin er sú að fólki fækkar á Norðurland vestra. Jafnvel þó atvinnuleysistölur séu þar lægri en víðast annars staðar segir það ekki alla söguna. Þeir sem til þekkja vita að atvinnumöguleikar í fámenninu á landsbyggðinni eru litlir. Þeir sem missa vinnuna fara einfaldlega annað, í flestum tilviku á höfuðborgarsvæðið. Þegar annað hjóna á í hlut er viðbúið að fjölskyldan flytjist öll í burtu.

Afleiðing verður oftast sú að mikilvægasta fólkið vantar í samfélögin, fólkið sem býr til börnin. Efnahagsleg þýðing þessa fólks sem er á aldrinum 20-45 ára er miklu meiri heldur en hjá öðrum aldurshópum. Þetta er fólkið sem hefur allt annað neyslumunstur en eldra fólk og yngra. Það fjarfestir, verslar og ferðast á allt annan hátt en aðrir.

Þjóðfélagið í heild verður að huga að byggðamálum. Það hefur einfaldlega ekki efni á að landshlutar fari í eyði. Halldór G. Ólafsson segir í niðurlagi greinar sinnar:

Það er gott að búa í Húnavatnssýslu enda þar góð samfélög og gott fólk. Svæðið má muna fífil sinn fegurri enda þurft að greiða dýru verði stórfelldar breytingar á atvinnuháttum. Húnvetningar hafa allt of lengi sætt sig við að staðbundin auðlind, þ.e. orka Blönduvirkjunar, hefur ekki verið nýtt svæðinu til framdráttar. Alþingi hefur sent frá sér vel ígrundaða tillögu sem styður réttmæta kröfu Húnvetninga og því er rétt að leggjast saman á árarnar og snúa vörn í sókn.


mbl.is Óvissa með Blöndu-samþykktina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í hvert sinn sem farið er af stað í herferð fyrir álveri er mönnum stillt upp við vegg: Annað hvort álver eða að byggðin fer í eyði. 

Í engum af þeim gögnum, sem snerta Blönduvirkjun allt til ársins 2014 finnst stafur né orð um að orka hennar skuli verða notuð á heimaslóðum. 

Ályktunin 2014 er því ekki endurnýjun á einu eða neinu, heldur upphafið á þeirri ætlun manna að á endanum rísi 360 þúsund tonna álver suður af Skagaströnd, því að hingað til hefur það ævinlega orðið niðurstaðan þegar lagt er upp í slíka vegferð, í Helguvík, á Reyðarfirði og á Bakka, að minna álver gefi ekki nægan arð. 

Álver á Hafursstöðum þýðir einfaldlega, úr því að orka Blönduvirkjunar er þegar nýtt upp í topp, að virkja verður fyrir 700 megavött í nýjum virkjunum. 

Þegar fyrirætlanir um álver í Þorlákshöfn voru viðraðar árið 2007 var höfuðröksemdin sú að hætta væri á að byggðir á Suðurlandi færu annars í eyði og að nota ætti orku Suðurlands á Suðurlandi. 

Þegar reisa átti álver á Dysnesi við Eyjafjörð var sagt, að það yrði að gera til þess að "bjarga" Akureyri og Eyjafirði, sem annars stefndu í auðn vegna hruns iðnaðar SÍS í kjölfar hruns markaðar í Sovétríkjunum.

Álver í Helguvík var líka sagt nauðsynlegt til þess að forða Suðurnesjum frá hörmungum vegna atvinnuleysis. 

Ómar Ragnarsson, 15.7.2015 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband