Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Kvennaboltinn ómengaður af tuði, nöldri og hópmóðgunum

KR sigraði FH í bikarleik í knattspyrnu í gærkvöldi í rigningu. Horfði á leikinn í sjónvarpi af því að útivistarmaðurinn nennti ekki út í rigninguna, en það er nú önnur saga.

Um leið og ég kættist yfir úrslitunum og ekki síður hvernig KR liðið var skipað, fannst mér leiðinlegt að sjá hvernig leikmenn beggja liða brugðust við ákvörðunum dómarans. Svo hrikalegar voru aðfarirnar að manni fannst sem þær vörðuðu lífsafkomu viðkomandi leikmanna og framtíðarhorfur.

Þeir sem betur eru að sér í fótbolta halda því fram að þetta sé meðvituð ákvörðun leikmanna, þeim sé einfaldlega kennt að „terrorisera“ dómara. Þá séu minni líkur á því að þeir dæmi gegn liði hávaðaseggja. Margt má ugglaust um þetta segja en mér nákomnir segja það tóma vitleysu að mótmælin séu hluti af þjálfun. Ég tek það mátulega trúanlegt.

Svo víkur sögunni að kvennafótboltanum, ekki þeim hér á landi, sem er furðulega keimlíkur karlafótbolta, það er viðbrögðum við ákvörðunum dómara, heldur heimsmeistaramótinu sem lauk í gær í Kanada. Þar var leikinn frábær fótbolti. Í morgun las ég dálk í Morgunblaði dagsins sem nefnist Pistill og þar skrifar Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður. Hún segir eftirfarandi um heimsmeistaramóti og ég er fyllilega sammála henni:

Það var reyndar hálffurðulegt í fyrstu að sjá heilu leikina rúlla þannig áfram hnökralaust. Þannig var sjaldséð að nokkur leikmaður gerði sér mat úr smá tæklingu og færði í stílinn svo ætla mætti að andstæðingurinn hefði stuðað hann með rafbyssu.
Sömuleiðis voru leikirnir nær ómengaðir af því að þurfa að horfa á leikmenn elta dómarann með ýmist smávægilegu tuði og nöldri eða króa hann inni í háværri hópmóðgun yfir dómum eða ekki dómum.

Knattspyrnan sem spiluð hefur verið í Kanada hefur verið bæði falleg og hrein, ómenguð af þeirri ofurfrægð, ofdekri og peningahyggju sem er stundum að drepa karlaknattspyrnuna.
Þó hefur síður en svo vantað upp á spennu í anda heimsins bestu leikbókmennta, þar sem undanúrslitaleikur Japans og Englands verður að teljast til eftirminnilegri knattspyrnuleikja fyrr og síðar. [...]

Það loðir við orðfærið í karlaknattspyrnunni að leikmenn sem þola illa tæklingar eru kallaðir »kerlingar«. Eftir að hafa horft á HM í Kanada eru slík ummæli þvættingur - þar standa leikmenn af sér brot án vafsturs og vesens.

Ég velti stundum fyrir mér orðfæri í fjölmiðlum og gagnrýni það á stundum. Staðreyndin er að blaðamenn rita oft á tíðum undarlegt mál, þó ekki eins skrýtið og ég geri í upphafi. Þar eru fjórar forsetningar í röð, ekki beinlínis vitlaust (held ég) en stórskrýtið. Vandaðri textasmiður en hefði eftir yfirlestur umorðað málsgreinina: „KR sigraði FH í bikarleik í knattspyrnu í gærkvöldi í rigningu.“ Staðreyndin er nefnilega sú að gagnrýninn yfirlestur dugar yfirleitt þeim sem skrifa.

 


Eru það ökukennararnir sem skapa vandmál í umferðinni?

Draga má í efa að ökukennarar séu starfi sínu vaxnir. Sífellt fleiri ökumenn brjóta grundvallaratriði. Fæstum er um að kenna nema ökumönnum sjálfum ... og þeim sem kenna þeim.

Hér eru dæmi:

  1. Alltof margir kjafta í síma undir akstri og gerir ábyggilega annað hvort illa. Verra er þegar kjaftagangurinn í símanum truflar aksturinn en það er alltaf raunin. Fæstir kunna að aka bíl þegar síminn er við eyrað.
  2. Alltof margir hangsa á vinstri akrein og tefja þannig fyrir öðrum. Sá sem ekur á vinstri akrein og fer jafnhratt eða hægar en bíllinn sem er hægra megin er einfaldlega á röngum vegarhelmingi. Annars er furðulegt að fylgjast með því hversu margir velja vinstri akrein. Ef til vill er það sálfræðilegt, hugsanlega finnst fólki það vera eitthvað öruggara að hafa kannsteininn vinstra megin.
  3. Víða háttar þannig til að tvær akreinar verða að einni. Furðulegt er að fylgjast með því óðgoti sem grípur marga ökumenn sem ætla beint áfram en upgötvar að vinstri akreinin endar í vinstri beygju en sú hægri er beint áfram. Á síðustu stundu vaða þeir hugsunarlaust yfir á hægri akrein og valda stundum stórhættu.
  4. Fólk á það til að gleyma sér á beygjuljósum til vinstri. Þau loga oftast skemur en önnur ljós og því veitir ekki af að ökumenn séu vakandi og drífi sig af stað þegar hið græna kviknar.
  5. Tillitssemi ökumanna er einatt lítil gagnvart bílum sem koma inn á tveggja akreina götur. Þá ætti að vera sjálfsagt að víkja yfir á hina akreinina og auðvelda þannig öðrum aðkomuna. Nei, þess í stað halda margir að þeir eigi fyrsta veðrétt á sinni akrein og gefa hana alls ekki upp.
  6. Stefnuljós virðist lítið notað sem er miður því þau eru frábær uppfinning.
  7. Skrýtnast er að aka á eftir silakepp til dæmis á leiðinni upp á Hellisheiði. Fjári margir aka frá Rauðavatni í hægðum sínum, 70 til 80 km á klst meðalhraða. Þegar komið er að Lögbergsbrekku er boðið upp á tvær akreinar á austurleið og þá skyndilega uppgötvar silakeppurinn að hann getur farið hraðar og er þá óðar kominn yfir eitt hundraðið. Já, stórskrýtið.

Fleira mætti nefna sem mér finnst hafa farið á verri veg hjá ökumönnum undanfarna áratugi. Hef oft velt þessum málum fyrir mér og kemst ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að ökukennarar hljóti að sinna starfi sínu slælegar en þeir gerðu hér áður fyrr. Held þessari skoðun þangað til ég frétti af einhverju gáfulegra.


Barátta öfgafólks gegn lúpínu er gjörsamlega vonlaus

Lúpína í heiðmörkSannast sagna er stórfurðulegt hvernig sumt fólk berst svo hatramlega gegn landnámi gróðurs og breytingum á gróðurlendi.

Landvörðurinn í Vatnajökulsþjóðgarði heldur því fram að einhver hafi gróðursett lúpínu meðfram veginum í gegnum Eldhraun. Fjölmargir hafa bent á að fræ lúpínunnar geta borist þangað með öðrum hætti svo sem dekkjum bíla eða snjóruðningstækjum enda skammt í Eldhraun frá gróskumiklum lúpínubreiðum á Mýrdalssandi. Fjölmargir hafa bent 

Mosi er ekki alls staðar varanlegur gróður, hann víkur oftast verði á annað borð breytingar á gróðurfari. Víða fer mosinn hallloka gagnvart öðrum gróðurtegundum og ekkert við því að segja, þannig er náttúran. Mosinn er oft grunnur fyrir annan gróður sem þrífst þá betur. Á þessu eru þó þekktar undantekningar enda mosi oft með afbrigðum þaulsetinn og getur verið jafn einsleitur og lúpína. Hins vegar myndi engum detta það í hug að rífa birkiplöntur upp með rótum úr mosadyngjum. Hitt er þó þekkt að öfgafólk hér á landi fer um gróðurleysir til þess eins að finna lúpínu og rífa hana hana upp.

LúpinufjallidLúpína er stórkostleg jurt. Hún er vex hratt, dreifir vel úr sér og bætir jarðveginn nitri sem er afar mikilvægur fyrir annan gróður. Í kjölfar hennar getur svo aðrar tegundir átt auðveldar uppdráttar. Nefna má að skógrækt er mun auðveldari þar sem lúpína hefur farið um svo fremi sem þess er gætt að birkið nái upp úr lúpínubreiðum. Gerist það hörfar lúpínan því hún þrífst ekki í skugga hærri gróðurs.

Fjöldi fólks stundar hryðjuverk gegn lúpínu þrátt fyrir hið sára gróðurleysi sem ríkir á landinu. Engu líkar er en að tilgangurinn sé að vernda auðnirnar, berjast gegn landgræðslu. Þó er sannað að engin jurt dugar betur í landgræðslu en lúpína. Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar jafnvel hefur verið eitrað fyrir henni og það án tillits til þess hvernig umhverfinu reiðir af vegna eitursins.

SkaftafellSvo er bent er á að þessi ágæta jurt sé innflutt. Benda má á fjölmargar aðrar innfluttar jurtir sem notaðar hér á landi. Margir telja sér það til gildis að rækta í eigin garði heilan helling af innfluttum jurtum en þegar komið er út fyrir garðinn mega ekki sjást aðrar jurtir en þær sem kallast „íslenskar“. Auðvitað jaðrar þetta við einhvers konar rasisma.

Barátta öfgahópa gegn lúpínu er löngu töpuð. Hún mun vaða um landið, græða það upp búa í haginn fyrir öðrum jurtum.

Ég hef áður vitnað í orð Sigvalda heitins Ásgeirssonar um lúpínuna og geri það hér aftur:

Ég skil vel sjónarmið þeirra, sem elska grjótið, en finnst að þeir ættu að geta látið sér nægja eyðimerkur, sem liggja annaðhvort of hátt yfir sjó fyrir lúpínuna eða eru of þurrar fyrir hana. Eldgos hófust ekki við landnám og skógum var að mestu eytt áður en loftslag tóka að kólna. Eins er ljóst, að kólnunin hefði aðeins átt að færa gróðurmörkin neðar, en ekki eyða gróðri niður að sjávarmáli. Þar átti mannskepnan allan hlut að máli, því maðurinn hlýtur að ráða yfir sauðkindinni en ekki öfugt.

Það munu vera til rannsóknaniðurstöður, sem sýna, að háplöntur eru færri í lúpínubreiðu en í örfoka mel. Skyldi engan undra. En eins og rannsókn Daða Björnssonar í Heiðmörkinni sýnir skýrt, víkur lúpínan, nema þar sem er viðvarandi áfok eða árennsli. Gaman væri, ef rannsókn hans væri framlengd frá 1990, þegar síðustu lofmyndir, sem hann notaði munu hafa verið teknar og fram til dagsins í dag. Þá kæmi hygg ég í ljós, hve fyndin orð þau eru, sem höfð voru eftir bæjarverkfræðingi Garðabæjar í Mbl. 28. júní sl., þar sem hann spáði því, að lúpínan myndi leggja undir sig alla Heiðmörkina á næstu 10 árum

Af hverju ætti lúpínan að leggja Heiðmörkina undir sig aftur, svona nýbúin að því og hörfar ört (nema á einhverjum örfoka melum ofan við Vífilsstaðavatn, þar sem hún varð dálítið sein fyrir). Þegar lúpínan víkur, fjölgar háplöntunum aftur. Jafnframt fjölgar mjög jarðvegslífverum í lúpínubreiðu, miðað við örfoka land, sbr. rannsóknir Eddu Oddsdóttur. Fuglar gera sig heimakomna í lúpínubreiðum. Þar nærast þrestir á ánamöðkum og spóinn hefur einhverra hluta vegna nýtt sér lúpínuakra sem búsvæði, þótt fjarri fari því að þeir geti talist votlendi. Þéttleiki músastofnsins er líka gífurlegur í lúpínubreiðum og þ.a.l. fjölgar branduglu, þar sem mikið er um lúpínu.


mbl.is Áhugafólk reytir lúpínu úr mosanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efla þingmenn virðingu Alþingis með ræðum sínum?

Engu líkar en maður væri kominn þrjátíu ár aftur í tímann þegar maður hlusta á Svandísi Svavarsdóttur, alþingismann, í eldhúsdagsumræðunum. Hún vill nýja umræðupólitík og betri stjórnmál á Alþingi en getur ómögulega byrjað á sjálfri sér. Þingmaðurinn er bergmál gamalla og úreltra tíma og getur ómögulega samsamað sig við nútímann. Hún er einn þeirra þingmanna sem fær almenning til að efast um að virðingu þingsins sé til staðar. Hjá henni hefur andstæðingurinn alltaf rangt fyrir sér, hann gerir allt rangt og hún getur sannað það með því að segja hálfa söguna og sleppt mikilvægum staðreyndum. 

Sama var með ræðu Helga Hjörvars, þingmanns. Í áferðafallegri og vel fluttri ræðu lagði hann áherslu á að stjórnmálin þyrftu að breytast, það er að segja stjórnmál allra annarra en hans sjálfs og samherja hans. Pólitískir andstæðingar hans eru vonda liðið og hann telur sig vera í góða liðinu. 

Við þessi tvö, Svandísi og Helga vil ég segja þetta. Stjórnmál breytast ekki nema þingmenn líti í eigin barm, allir, hvar í flokki sem þeir standa. Hjá þeim og engum öðrum að finna ástæðuna fyrir þverrandi virðingu Alþingis. Ástæðan er aldrei framkoma pólitískra andstæðinga. Agætt væri að muna að sjaldan er ástæða til hefnda og síst af öllu í ræðustól Alþingis. Ráðist einhver á þingmann með alvarlegum ávirðingu og ókurteisi er það aldri ráð að svara í sömu mynt. Einungis með þannig nálgun er hægt að breyta íslenskum stjórnmálum og umræðuhefðinni.

Ræða Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var með allt öðrum og ferskari blæ en Svandísar og Helga. Hann benti þingmönnum á að virðing Alþingis væri framar öllu hjá þeim sem standa hverju sinni í ræðustól þess. Ef til vill var þetta dálítil könnu sem Bjarni lagði áheyrendum í hendur. Miðað við þessi orð, hvernig standa þeir sig, aðrir þingmenn sem til máls tóku?

Fallistarnir eru Svandís Svavarsdóttir og Helgi Hjörvar. Skiptir engu hversu vel menn flytja ræður sínar, hversu vel þeir hafi lært þær utan að eða hversu laglega þeir hnýta í andstæðinga sína. Þegar öllu er á botninn hvolft er það efni ræðunnar sem skiptir máli. Þessi tvö komu ekki með neinar lausnir, aðeins gamaldags ávirðingar sem þó standast varla skoðun þegar nánar er að gáð.

Þingmaður Pírata flutti ræðu sína, sem eflaust var hin besta. Hann mætti þó taka tilsögn í ræðumennsku, tala hægar, vera skýrmæltur og sleppa því byrsta sig. Með þetta leikrit var hann hreinlega kjánalegur í ræðustólnum og jók þannig varla á margnefnda virðingu Alþingis. Hann mætti auk þess muna að leikrit í beinum útsendingum koma ekki í staðinn fyrir vandlega unnið starf á meðan á þingi stendur og framlagningu vandaðra og gagnlegra frumvarpa til laga.

Nú er Oddný Harðardóttir, þingmaður í ræðustól. Hún talar eins og gamall krati í stjórnarandstöðu. Já, ... hún er krati. Minnti að hún væri í Vinstri grænum, enda í rauðri peysu. Svo var hún einu sinni fjármálaráðherra en enginn veit hvað hún gerði sem slík. Jú, hún jók á virðingu þingsins vegna þess að hún talaði frekar stutt. Það er alltaf kostur hver svo sem pólitíkin er.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, kemur ábyggilega úr sama ranni og Svandís Svavarsdóttir, eða ætti ég að segja sama áratug. Málflutningur hennar á betur heima á áttunda eða níunda áratug síðustu aldar. 


Engin mótmælir á Austurvelli

MótmæliTíu atvinnumótmælendur létu sjá sig á Austurvelli í kvöld í byrjun eldhúsdagsumræðna á Alþingi. Þeir létu sig fljótlega hverfa.

Hálftíma eftir að umræðurnar hófust inni á Alþingi starfaði enginn við mótmæli eins og glöggt má sjá af þessari mynd sem tekin var af vefmyndavél Mílu.

Líklega hafa mótmælendur ákveðið að hlusta áður en þeir mótmæla. Kanna hvað stjórnmálamennirnir segja. Mér finnst það líklegra en að hér hafi verið gerð tilraun upphlaupsafla til að búa til gagnslítil mótmæli gegn ríkisstjórn sem þó gerir meira gagn heldur en sú síðasta. Þá sáu þessir sömu mótmælendur lítinn tilgang til að arka á Austurvöll enda líklega pólitískir samherjar Samfylkingar eða Vinstri grænna. 


mbl.is Mótmælendur og túristar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband