Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Hvað gera hraunið og jökulfljótið?

Hraunið og JöklaLandslagið hefur að sjálfsögðu öll áhrif á hvernig Jökulsá og hraunið hegða sér. Hraunið er langt og mjótt vegna þess að það fellur niður í móti. Hvergi á leið þess er hindrun sem tefur fyrir leið þessi niður í móti.

Þetta kann að breytast þegar það mætir þrengingum í farvegi Jökulsá undir Vaðöldu. Gerist þá hugsanlega það að hraunið kemst ekki lengra heldur leitar upp úr farveginum og út á sandana og jafnvel kann svo að fara að það renni samkvæmt því sem sýnir á myndinni sem ég bjó til fyrir nokkrum dögum og hef áður birt hér.

Fyrir vikið er Jökulsáin innilokuð, að minnsta kosti í bili. Hún mun safnast upp og eftir því sem vatnið eykst í lóninu eru meiri líkur á því að hún finni aðrar leiðir. Jafnvel er möguleiki á því að hún leiti til austurs, í Hvannalindir og þaðan í Kreppu.

Hér munu verða á næstu dögum afskaplega forvitnilegir atburðir sem hugsanlega geta dregið dilk á eftir sér. Hvað gerir hraunið og til hvaða bragða grípur Jökulsáin til? Ef ekki væri um háalvarlega atburði að ræða mætti líkja þessu við endalausa sápuóperu í sjónvarpi.

Fylgist með næsta þætt þegar ... 

 


mbl.is Fossinn Skínandi kann að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengdarlaus áróður gegn því að fólk fái að sjá gosið

Hættulegustu staðir á Íslandi eru meðal annars þessir:
  • Bjargbrúnin, fallið drepur ekki heldur lendingin
  • Esjan og önnur fjöll, hætta er á að misstíga sig og velta niður hlíðar
  • Árbakkar, hættulegt að falla út í kalt straumvatn eða stöðuvatn
  • Storknað þúsund ára apalhraun, hætta á að misstíga sig, detta og reka höfuðið í
  • Gangbrautir yfir Miklubraut eða aðrar götur þéttbýlis
  • Vegaxlir þjóðvega eru hvorki gerðar fyrir gangandi eða hjólandi fólk
  • Stigi í heimahúsi, hætta á að fólk detti niður
  • Sæti á svölum Þjóðleikhúsinu, þær gætu hæglega brotnað
  • Sjúkrahús, þar deyr fjöldi manns á hverju ári
  • Rúmið í svefnherbergi fólks, hættulegasti staður í öllum heiminum, þar deyja flestir
Honum ætlar aldrei að linna, áróðrinum gegn því að fólk fari að gosstöðvunum fyrir norðan Dyngjujökul. Allt er tínt til. Hættulegt er í kringum gígana sem dæla upp hrauni en þangað leggur ekki nokkur maður leið sína vegna þess að glóandi hraun umlykur þá og auk þess er hitinn gríðarlegur.
 
Enginn minnist á að hættan vegna gasmengunar er hlutfallslega minni eftir því sem fjær dregur gosstöðvunum. Skyldi einhverjum vera hætta búin sem horfir á gosstöðvarnar úr tveggja km fjarlæg með strekkingsvindinn í bakið? Er fólkinu á Vaðöldu einhver hætta búin þó þangað standi vindurinn af gosstöðvunum?
 
Víða hefur gosið á Íslandi undanfarna áratugi. Þúsundir manna fóru að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi og enginn kenndi sér nokkurs meins þar. Þúsundir hafa líka farið að glóandi hraunum í Heklugosum.
 
Vissulega hafa tvisvar orðið banaslys í nánum tengslum við eldgos, eitt í Heimaeyjargosinu og annað í Heklueldunum 1947.
 
Áróður lögreglu og almannavarna breytir því ekki að fjöldi fólks vill fara að gosstöðvunum við Dyngjujökul. Hægur vandi er að verða við þessum óskum almennings og skipuleggja skoðunarferðir eins og ég hef áður rakið í pistli hér á þessum vettvangi.
 
Staðan er hins vegar þannig að yfirvöld treysta ekki fólki, jafnvel þeim sem hafa umtalsverða reynslu af fjallaferðum og ráða yfir mun meiri þekkingu en lögregla og almannavarnir samanlagt. 

mbl.is Hættulegasti staður á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta lag fyrir ...

Sá þessa limru í vísnaþætti í Morgunblaði dagsins. Hún er eftir hinn virðulega prest Hjálmar Jónsson, sem er þekktur hagyrðingur og spaugari:

Útvarpið ermar upp brettir
og ábyrgð af herðum sér léttir.
Um hádegisbil
hljómar þar spil:
Síðasta lag fyrir auglýsingar. 

Staðreyndin með Ríkisútvarpið er auðvitað sú að þar virðist ekki eiga að halda í hefðir.


Reyndum fjalla- og jeppamönnum er meinuð för á gosstöðvarnar

Fólk vill fá að sjá gosið í Holuhrauni og það á að fá að fara þangað - undir eftirliti. Á hverju má eiga von þarna við eldstöðvarnar:

  • Hættulegar gufur frá hrauninu
  • Sprengingar í hraunstrauminum 
  • Glóandi kvikuslettur frá gígunum
  • Sandbleyta
  • Slæmt veður
  • Slæmar aðstæður til aksturs

Ofangreint fælir ábyggilega fjölda manns frá því að fara þangað en ekki reynda fjallamenn.

Reynsluboltar 

Til að þóknast lögreglu og almannavörnum er er hægt að að útbúa öruggan og afgirtan stað í hæfilegri fjarlægð frá hrauni og eldstöðvum ef reynsluboltunum er ekki treyst.

Flestir eigendur fjórhjólabíla af stærri gerðinni eru vanir fjallaferðum og vita við hverju er að búast, jafnvel á eldgosasvæði. Almenningur er fráleitt ekki samansafn illa upplýsts fólks. Þvert á móti kann fólk að ferðast og fjölmargir þekkja eldgos af eigin raun.

Löggan

Ég fullyrði að reynsla og þekking í fjallaferðum hvort heldur er á jeppum eða gangandi er miklu meiri meðal almennings en hjá lögreglu og almannavörnum. Þetta sást svo ekki var um villst í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Þúsundir manna gengu upp á Hálsinn eða óku yfir Mýrdalsjökul til að sjá gosið ... og allir komu þeir aftur. Hins vegar hlógu flestir að lögreglunni sem reyndi meðal annars að takmarka för fólks að hrauni og gígum með plastborða. Sjá einnig þetta.

Vísindamenn og fjölmiðlamenn við gosstöðvar eiga við sömu hættu að etja og allir aðrir. Fjölmargir þeirra eru góðir fjallamenn. Munurinn hér er ábyggilega sá að hægt er að takmarka dvöl almennings við ákveðinn stað, einn eða fleiri. 

Áhugi almennings 

Nú veit enginn hvort gosið verði langvinnt eða skammvinnt, hvort til annarra atburða kunni að draga, til dæmis undir Dyngjujökli. Ekkert mun þó draga úr áhuga almennings að fara inn á svæðið nema ef til vill sú staðreynda að brátt haustar. Þar af leiðandi er ástæða til að leyfa takmarkaða umferð inn á svæðið undir eftirliti áður en veður breytast og færð tekur að spillast.

Hræðsluáróður 

Hræðsluáróður lögreglu og almannavarna um stöðu mála við gosstöðvarnar bíta ekki á skynsama fjallamenn. Þekkingin á landinu er mikil að þeirra hálfu og þeir sjá í gegnum hann.

Skipulag á gosstöðvum

Tiltölulega einfalt og auðvelt er að skipuleggja dvöl fólks við flæðurnar sunnan Dyngjufjalla. Hægt er að búa svo um að takmarkaður fjöldi dvelji í ákveðinn tíma á staðnum og er hann kemur til baka er annar hópur sendur. Nefna má til dæmis að um tvö hundruð manns fái að vera þarna á hverjum klukkutíma frá því klukkan tíu á morgnanna til klukkan 17. Þetta þýðir að um fjórtán hundruð manns geta farið að gosstöðvunum á degi hverjum, tæplega tíu þúsund manns á einni viku.

Upphafsstaður eru Hrossaborgir sem eru við þjóðveginn skammt austan við Mývatn. Þar er bílum hleypt inn í ákveðinni röð þannig að þeir séu tímanlega við Drekagil þar sem er „landamæraeftirlit“ og talið inn og út af svæðinu.

Heimsóknartímar 

Og hvernig á að velja fólkið? Jú, „heimsóknartímar“ verði einfaldlega auglýstir og geti fólk sótt um þann tíma sem því hugnast best. Fyrstur kemur fyrstur fær rétt eins og gildir við fjölmarga aðrar uppákomur í þjóðfélaginu. 

Skilyrðin gætu verið þessi: 

  1. Bíllinn sé fjórhjóladrifinn, að minnsta kosti á 33" dekkjum, veltur þó á tegund og gerð.
  2. Ökumaður og farþegar séu skráðir inn og út af svæðinu.
  3. Greidd er ákveð fjárhæð fyrir hvern bíl, óháð fjölda farþega. Aðgangseyrinn gengur svo upp í kostnað vegna umferðareftirlits og skipulags björgunarsveita. Reyndar má hugsa sér að þetta gæti verið fjáröflunarverkefni fyrir Landsbjörgu.
  4. Mæti einhver ekki að Hrossaborgum á tilsettum tíma er hann úr leik. Þarna verða ábyggilega einhverjir sem vilja greiða og stökkva inn í röðina.

Smám saman mun haustið ganga í garð þarna efra og þá lokast vegir sjálfkrafa og jafnframt dregur mikið úr áhuga fólks á fjallaferðum auk þess sem skammdegið gengur í garð. Þá verða sjálfkrafa gerðar auknar kröfur til bíla, s.s. stærri dekk og fleira.

Einokun á eldgosi 

Vandinn er sá að fjöldi fólks fær nú þegar að fara inn á flæður Jökulsár og allir eru skyndilega orðnir fjölmiðlamenn. Þeir sem mesta þekkingu og reynslu í fjallaferðum er  hins vegar bannað að fara þarna, hópar eins og 4x4 klúbburinn, jeppaklúbbur Útivistar og ábyggilega fjölmargir aðrir aðilar sem teljast bæði ábyrgir og reynslumiklir.

Það er engin sanngirni í því að banna þessu fólki för á gosstöðvarnar eða þá einstaklingum sem hafa mikla reynslu af fjallaferðum, síst síðri en margir sem þarna eru langvölum með ýmis konar starfsheiti.


mbl.is Ákærðir vegna aksturs um gosstöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá draumspaki segir til um þróun Flæðahrauns

Hraunið þróun

Maður nokkur sem ég þekki helst ekki hafði samband við mig í dag og það ekki í fyrsta sinn.

Þeir sem hafa nennt að lesa þessa pistla mína kannast ábyggilega við kauða. Hann hefur hér verið iðulega nefndur „sá draumspaki“ eða „berdreymni“.

Stundum, þegar ég hef ekkert annað fyrir stafni, hef ég vitnað í hann. Ekki það að ég hafi eina einustu trú á draumum eða því sem oft er nefnt yfirskilvitleg efni. Breytir engu þó að hann hafi stundum haft rétt fyrir sér. Til dæmis sagði hann fyrir um úrslit síðustu kosninga, þau stemmdu ekki alveg er úrslit voru það engu að síður. Eitt sumarið kvaðst hann hafa dreymt fyrir komandi vetri og viti menn, vetur kom á eftir hausti. Hann dreymdi einnig fyrir uppstyttu og draumurinn rættist.

Fyrir ekki alls löngu dreymdi hann draum þess efnis að maður knúði dyra hjá honum og kynnti sig sem Bárð og í annarri hendi hafði öskju fulla af einhverju sem þó var ekki matarkyns. Í hinni hendi hafði hann íslenskan bjór sem freyddi af og skalf höndin.

Auðvitað var þetta bara einn af þessum marklausu rugldraumum hins „draumspaka“.

Jæja, í dag sendi hann mér fax og á því voru dregnar útlínur hraunsins og sagðist hafa dreymt fyrir um hversu mikið það muni stækka á næstu dögum. Svo bað hann bað mig lengstra orða að birta þetta á blogginu mínu.

Hér er spáin og svo er bar að vita hvort hún rætist. Sjáanlega býst hann við að hraunið breikki og stækki. Mér finnst lokaútgáfan, þessi þarna bláa, frekar ósennileg. Eitthvað eru þó útlínur hraunsins kunnuglegar en ég átta mig ekki á hvað þær minna mig ...


Rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun

Vatnsdalur

Nafnið er fallegt, Forsæludalur. Gæti í huga nútímamannsins bent til þess að þar sé forsæla þegar alltof hlýtt er annars staðar. Þannig er þetta auðvitað ekki.

Innan við Vatnsdal er fjall sem nefnist Múlinn og þar er einnig Grímstungnaheiði og á milli er Forsæludalur. Hann er langur og liggur í suðaustur og eftir honum rennur Vatnsdalsá. Innarlega í honum er samnefndur bær og gengt honum, aðeins utar er Þórhallsstaðir, vettvangur frægs atburðar sem frá segir í Grettissögu.

Þar er frásögnin af honum Glámi sauðamanni. Þannig var að Þórhalli þeim sem bærinn er kenndur við hélst illa á sauðamönnum sínum. Í Grettissögu segir:

Það var eitt sumar á alþingi að Þórhallur gekk til búðar Skafta lögmanns Þóroddssonar. Skafti var manna vitrastur og heilráður ef hann var beiddur. Það skildi með þeim feðgum. Þóroddur var forspár og kallaður undirhyggjumaður af sumum mönnum en Skafti lagði það til með hverjum manni sem hann ætlaði að duga skyldi ef eigi væri af því brugðið. Því var hann kallaður beturfeðrungur.

Þessar lýsingar eru stórkostlegar og mætti hafa mörg orð um þær en til að stytta frásögnina hér enda samskipti með því að Skafti mælir með því að hann útvegar Þórhalli sauðamann sem er sænskur af ætt, „... ekki mjög við alþýðuskap.

Glámur gætti síðan fjár Þórhalls en einhver meinvættur var í dalnum og virðist Glámur hafa drepið hann en deyr sjálfur. Og Glámur lá eigi kyrr og mikil vandræði stöfuðu af afturgöngu hans.

Drap nú draugurinn Glámur hvern manninn á fætur öðrum og varð Þórhalli og fjölskyldu ekki vært í bænum og flutti allt í burtu. Lét draugurinn ekki duga að ásækja Þórhall heldur drap kvikfé og hrakti fólk af öllum bæjum í dalnum.

Þá gerist að að Grettir kemur til sögunnar. Viðskipti hans við drauginn eru stórkostleg og ekki aðeins að lýsingarnar séu sem ljóslifandi fyrir lesandanum heldur er í öllu þessu undirtónn sem á eftir að gjörbreyta eðli Grettis um alla framtíð.

Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gægðist innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti.

Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í sætinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr sætinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis sætin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum. En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.

Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.

En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið:

Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir,“ sagði hann, „að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af mun falla til þín sektir og vígaferli en flest öll verk þín snúist þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga.

Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum.

Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn. Þórhallur lofaði guð fyrir og þakkaði vel Gretti er hann hafði unnið þenna óhreina anda. Fóru þeir þá til og brenndu Glám að köldum kolum. Eftir það grófu þeir þar niður sem síst voru fjárhagar eða mannavegir. Gengu heim eftir það og var þá mjög komið að degi. Lagðist Grettir niður því að hann var stirður mjög.

Þórhallur sendi menn á næstu bæi eftir mönnum, sýndi og sagði hversu farið hafði. Öllum þótti mikils um vert um þetta verk þeir er heyrðu. Var það þá almælt að engi væri þvílíkur maður á öllu landinu fyrir afls sakir og hreysti og allrar atgervi sem Grettir Ásmundarson.

Þórhallur leysti Gretti vel af hendi og gaf honum góðan hest og klæði sæmileg því þau voru öll sundur leyst er hann hafði áður borið. Skildu þeir með vináttu. Reið Grettir þaðan í Ás í Vatnsdal og tók Þorvaldur við honum vel og spurði innilega að sameign þeirra Gláms en Grettir segir honum viðskipti þeirra og kvaðst aldrei í þvílíka aflraun komið hafa, svo langa viðureign sem þeir höfðu saman átt.

Þorvaldur bað hann hafa sig spakan „og mun þá vel duga en ella mun þér slysgjarnt verða.

Grettir kvað ekki batnað hafa um lyndisbragðið og sagðist nú miklu verr stilltur en áður og allar mótgerðir verri þykja. Í því fann hann mikla muni að hann var orðinn maður svo myrkfælinn að hann þorði hvergi að fara einn saman þegar myrkva tók. Sýndist honum þá hvers kyns skrípi. Og það er haft síðan fyrir orðtæki að þeim ljái Glámur augna eða gefi glámsýni er mjög sýnist annan veg en er.

Grettir reið heim til Bjargs er hann hafði gert erindi sín og sat heima um veturinn.

Myndin hérna fyrir ofan er tekin af Grímstunguheiði og horft út Vatnsdal. Verð að viðurkenna að ég hefur aldrei komið í Forsæludal og á þarf af leiðandi enga mynd þaðan. Dalurinn hefur þó verið lengi á lista yfir þá staði sem mig langar til að heimsækja. Hitt er svo annað mál, þó skylt sé, að Vatnsdalur er með fallegri dölum landsins.


mbl.is Sóttu slasaða konu í Forsæludal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísinn í Bárðarbungu sígur en enn sjást ekki brotalínur

Bárðarbunga 5-9, MTGHér er fallega mynd af Bárðarbungu sem Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, tók fyrir tveimur dögum. Kunnugir sjá að þar hefur orðið sig, en við leikmenn greinum það fæstir.

Þess vegna er gott að hafa til viðmiðunar teikninguna hér fyrir neðan sem unnin var á Veðurstofunni og birtist fjölmiðlum í dag.

Á henni má sjá þá lækkun sem orðið hefur á Bárðarbungu. Munum að flatarmál hennar er gríðarlega mikið eða um 65 ferkm.

bardarbunga_laekkukn_thversnid

Yfirleitt þegar hiti eða eldsumbrot eru undir jökli sem leiðir til að yfirborðið sígur brotnar ísinn og brotalínur verða sjáanlegar. Þetta muna flestir af myndum sem sýndar hafa verið af Skaftárkötlunum en úr þeim hleypur oft vatn og streymir undan jöklinum og í Skaftá.

Aungvar brotalínur hafa orðið á ísnum á yfirborði Bárðarbungu. Hvernig ætli nú standi á því? 

Þarna er sjö til áttahundruð metra þykkur ís sem sigið hefur um tæpa rúma fimmtán metra. Hugsanlega er það of lítið til að ísinn brotni, ef til vill þarf mun meira til. 

Sigið getur bent til þess að jarðhiti sé undir ísnum sem stafi af því að yfirborð jarðar hitni vegna nálægðar við kvikuþró sem þar er sögð vera. Ótrúlegt er hins vegar að eldgos sé hafið þarna undir nema það sé afar lítið. 

 

 

 


mbl.is Hraunið rennur kílómetra á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Býr nýja hraunið til lón sunnan við Vaðöldu?

Hraunið og JöklaHvað verður um hraunið sem nú rennur frá eldsprungu í norðanverðu Holuhrauni um flæður Jöklu? Þegar litið er á landakort eða loftmynd af svæðinu sést að landi hallar allt frá Urðarhálsi í áttina að Vaðöldu. Hún er dyngja, hæsti hluti hennar er í 941 m hæð.

Sé nægur kraftur í gosinu mun hraunið halda sömu stefnu og Jökla, að sunnanverðri Vaðöldu og í gljúfrið þar. Ástæðan er einfaldlega sú að sama aflið stýrir vatni og hrauni, þyngdaraflið. Í sömu átt stefndi Holuhraun fyrir tvö hundruð árum áður en það þraut örendið. Sama gerðu hraunin sem komu úr gígum sunnan við Þorvaldartind í Dyngjufjöllum. 

Gömlu gígarnir í Holuhrauni eru í um 790 m hæð. Nýju gígarnir, þeir nyrstu, eru í um 730 m hæð og þar sem hraunið hefur náð lengst er það nú í um 680 m hæð. Hraunið hefur núna runnið lengst í norðaustur um sjö km og á þeirri leið hefur það lækkað um tæpa eitthundruð m og er rétt tæplega hálfnað á leið sinni að Vaðöldu.

Hér ætla ég að leyfa mér að vera með dálitlar vangaveltur og byggja á kortinu hér fyrir ofan en grunnur þess er frá Landmælingum Íslands og ég hef bætt inn óábyrgum hugmyndum mínum um framþróun rennslis Jöklu og hrauns.

Munum að hraunið er þykkt og getur auðveldlega hindrað Jöklu á leið sinni. Hvað gerir hún þegar hraunið er fyrir?

Við Vaðöldu hefur Jökla grafið sig dálítið niður milli dyngjunnar og hraunbreiðunnar sem liggur að fjallinu. Í þann farveg mun hraunstraumurinn líklega renna og um leið tekur fyrir rennsli Jöklu í bili. Hún mun nær tæmast fyrir neðan en vatnið mun um síðir leita sér annarrar útrásar og flæmast jafnvel inn á Krepputungu, sunnan eða norðan við við Rifnahnjúk og í Lindaá og Kreppu. Hún gæt svo sem runnið í Hvannalindir og þaðan í Kreppu.

Verði farvegur Jöklu undir Vaðöldu of þröngur mun hraunið smám fylla litla gljúfrið og þá skríða upp úr honum og dreifa sér á svæðið í kringum Rifnahnjúk, rétt eins og Jökla. Þá er nú ansi hætt við að áin lokist af og lón taki að myndast á þessum slóðum.

Á kortinu hér fyrir ofan er hugsanleg staða eftir til dæmis viku, veltur á krafti gossins. Þarna gæti Jökla átt sér þá einu leið að sameinast Kreppu sem út af fyrir sig er ekkert stórmál nema ef á leiðinni þangað muni hún eyðileggja Hvannalindir. Flestum er sárt um þá vin. Auðvitað vita allir að Jökla og Kreppa sameinast hvort eð er fyrir ofan Herðubreiðarlindir.

Þó kann að fara svo að hraunið renni aðeins vestan við Rifnahnjúk, fari ekki austan við hann. Þar gæti það haldið áfram í norður og Jökla samsíða. Þar hafa svo sem áður runnið hraun og Jökla er ekkert ókunnug á þessum slóðum og nóg er plássið.

Loki hraunið lengi fyrir rennsli Jöklu mun myndast lón við Vaðöldu og langt upp að Dyngjujökli . Um síðir myndi hún þó brjóta sér leið í gengum hraunið og finna sér gamla farveginn sinn einhvers staðar fyrir neðan. Hér endurtekur sig ábyggilega gömul atburðarás.

Rauði liturinn á myndinni merki hraunið á að giska þar sem það er í dag. Appelsínuguli liturinn er hugsanlegt hraunrennsli næstu daga. Blái liturinn er lón sem verður til ef Jökla lokst inni. Örvarnar merkja rennslisátt hrauns og vatns. 


Ragnar skjálfti birtir greinar í Mogganum um jarðskálftaspár

Árið 1988 hófust svo fjölþjóðlegar rannsóknir á Íslandi, sem miðuðu að jarðskjálftaspám, þar sem Suðurlandsundirlendið var valið sem sérstakt rannsóknarsvæði. [...]

Við sem skipulögðum þetta verkefni lögðum áherslu á að við yrðum að læra af reynslu og ekki síst af mistökum við margar fyrri tilraunir til að spá. Þessar spár hefðu byggst mikið til á tölfræðilegum úttektum á ýmiss konar fyrirbærum, m.a. miðlungsstórum skjálftum, sem þekkt voru á undan stórum skjálftum án þess að reyna að skilja af hverju fyrirbærin stöfuðu. Við vildum fara aðra leið, sem sé að leggja megináherslu á að rannsaka eðli þeirra breytinga í jarðskorpunni sem gætu leitt til stórra jarðskjálfta.

Þannig kemst Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, að orði í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann boðar að hann muni birta í samvinnu við Morgunblaðið greinaflokk undir yfirskriftinni „Að segja fyrir um jarðskjálfta“.

Þetta er merkileg tímamót, að minnsta kosti í tvennum skilningi. Morgunblaðið og Ragnar, sem er einn af fremstu vísindamönnum landsins, ætla að kynna rannsóknir í jarðskjálftafræðum og möguleika á að segja fyrir um skjálfta. Þetta eru afar ánægjuleg að við almenningur fáum að kynnast rannsóknum Ragnars en hann er sem kunnugt er afar ritfær og getur skrifað um fræðileg efni á þann veg að leikmenn skilji.

Hitt er svo aldeilis stórmerkilegt að gamli komminn skuli nú kominn í mála hjá gamla íhaldsmálgagninu sem hér áður fyrr var oftlega af pólitískum félögum Ragnars sakað um lygi, hún kölluð Moggalygi. Tímar breytast og mennirnir með - sem betur fer.

Við erum án efa fjölmargir sem áhuga hafa á jarðskjálftafræðum og bíðum nú spenntir eftir greinum Ragnars sem haft hefur viðurnefnið „skjálfti“ (heiðursnafnbót, án efa). Ástæða er til að þakka báðum, Ragnari og Mogganum fyrir framtakið. 

Í niðurlagi greinar sinnar í Morgunblaði dagsins segir Ragnar skjálfti eftirfarandi sem er afar forvitnileg nálgun hans og annarra vísindamanna vegna rannsókna á Suðurlandsskjálftum.:

Í örstuttu máli benda niðurstöðurnar til þess að greina megi aðdraganda stórra skjálfta og finna upptök þeirra og misgengissprungu árum eða jafnvel áratugum áður en þeir bresta á. Þetta opnar möguleika á gagnlegum viðvörunum á undan hættulegum skjálftum sé eftirlit nægilega skilvirkt. Til að fylgjast með framvindunni á hverjum stað þurfi þar sívökult „jarðváreftirlit“, sem byggist bæði á sjálfvirkri úrvinnslu og samstillingu allra mælinga, samstundis, og á stöðugri túlkun og líkansgerð sjálfvirkra tölvukerfa og vísindamanna


Gríðarleg fækkun skjálfta og gos undir jökli

140905 Skjálftar

Þróun gosvirkninnar við norðanverðan Vatnajökul má taka saman í eftirfarandi: 

  • Skjálftum hefur stórlega fækkað
  • Berggangurinn ryðst ekki lengur til norðurs heldur hefur numið staðar
  • Vegna berggangsins eru flestir skjálftar undir norðanverðum Dyngjujökli
  • Skjálftavirkni hefur aukist í Herðubreiðartöglum og norðan Herðubreiðar 

Líklega eru næstu atburðir þeir að gossprungan lengist til suðurs eða það hreinlega taki að gjósa undir Dyngjujökli, þar sem hann er innan við 150 m þykkur. Afleiðingin verður hlaup í Jöklu, þó miklu minna en ef gjósa myndi sunnar þar sem jökullinn er þykkari.

Myndin til hægri sýnir fjölda skjálfta síðustu tvo daga í Dyngjujökli og á flæðunum. Inn á myndina hefur verið merkt rautt strik þar sem skjálftarnir eru hvað þéttastir undir jöklinum. Þar er hugsanlegt að gjósi. 

140830 Skjálftar kl. 1258

Önnur myndin sýnir fjölda skjálfta eins og þeir voru fyrir viku, laugardaginn 30. ágúst. á þessum tveimur myndum er gríðarlegur munur.

Skjálftum hefur fækkað en nú er kominn einhvers konar sigdalur sem liggur því sem næst eins og skjálftaþyrpingin sýnir á neðri myndinni.

Þegar rýnt er í háloftamyndir af svæðinu má sjá að sigdalurinn er á þekktum slóðum. Áður en hann varð til voru þarna sums staðar greinilegar brotalínur sem bendir til að jarðskorpan sé veik og hafi þar af leiðandi sigið þegar berggangurinn breikkaði. Brotlínur sigdalsins fylgja að minnsta kosti að hluta þessum gömlu sprungum.

Núna vekur athygli að berggangurinn er sagður vera mun nær yfirborði, rúmlega einn km en var áður sagður á fimm km dýpi.

140905 Skjálftar viku 36 b

Fyrir utan atburði í Bárðarbungu vekur það athygli leikmannsins hversu mikill órói er austan við Öskjuop og í Herðubreiðartöglum. Jarðvísindamenn vilja helst ekki ræða þetta opinberlega enda eflaust ekki ljóst hvort eða hvernig þetta tengist bergganginum og umbrotum í Bárðarbungu. Hins vegar verður forvitnilegt að fylgjast með atburðum þarna.

Á kortinu hér til hægri eru merktir þeir skjálftar sem orðið hafa frá því síðasta sunnudag og það kemur frá Veðurstofu Íslands rétt eins og gögnin sem myndirnar tvær hér fyrir ofan byggja á. 

Að lokum er ekki úr vegi að geta þess að alveg furðulega rólegt hefur verið á landinu síðustu þrjár vikur og varla að jarðskjálfti hafi mælst svo heitið geti nema í norðanverðum Vatnajökli og þar um kring.

Getur verið að áhrif Bárðarbungu séu svo gríðarleg að lítið gerist annars staðar meðan umbrot eru þar? 

Viðbót kl. 13:50:

Síðustu fréttir herma að á Dyngjujökli hafi uppgötvast sigketill á svipuðum slóðum og strikið á efstu myndinni hér fyrir ofan. Það bendir til að hiti sé undir og draga kunni þar til tíðinda síðar í dag eða kvöld.


mbl.is Ný gossprunga í Holuhrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband