Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014
Má skerða ferðafrelsi þjóðarinna vegna blankheita?
31.3.2014 | 09:14
Í morgunþætti Ríkisútvarpsins ræddust við Ögmundur Jónasson, þingmaður og fyrrum innanríkisráðherra, og Garðar Eiríksson, formaður Landeigendafélags sem telur sig eiga Geysissvæðið. Mér þótti Ögmundur koma vel frá umræðunum en Garðar síður. Í gærdag var einhver þáttur á Stöð2 þar sem ræddust við Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, og Helgi Hjörvar, alþingismaður. Þar var tæpt í stutta stund á meintri baráttu landeigenda og innheimtu þeirra að einstökum svæðum. Tók þar bæjarstjórinn einhliða upp hanskann fyrir landeigendur og lagðist algjörlega gegn rétti landlausra landsmanna.
Breytingar á umræðunni
Ljóst er að umræðan um rukkanir landeigenda fyrir aðgang að einstökum stöðum er að breytast dálítið. Vilji margra er til þess að hún verði pólitískari og bendir ýmislegt til þess að boxin séu fyrirfram ákveðin. Annars vegar á Sjálfstæðisflokkurinn að vera málsvari landeigenda af því að hann styður eignaréttinn og hins vegar eiga vinstri flokkarnir að bera hag alls almennings fyrir brjósti og berjast gegn yfirgangi landeigenda og fjárplógsstarfsemi þeirra.
Sjálfstæðisflokknum stillt upp við vegg
Þetta er slík einföldun á flóknu máli að upplýst fólk hlýtur að vara við því að umræðan falli í þetta far. Framar öllu er ástæða til að benda Sjálfstæðismönnum, jafnt forystumönnum flokksins á þingi og í sveitarstjórnum sem og stuðningsmönnum þeirra að engin ástæða er til að láta stilla sér upp við vegg.
Ferðafrelsi
Staðreyndin er einfaldlega þessi. Þjóðin hefur þrátt fyrir eignarétt verið frjálst að ferðast um landið án takmarkana. Forfeður okkar gerðu sér það snemma ljóst að ferðafrelsið er grundvöllur byggðar í landinu og þannig hefur það verið frá því að lagaákvæði um óhindraða för var sett í Grágás.
Forn réttur skal gilda
Við Sjálfstæðismenn höfum hingað til staðið vörð um frelsið og lítum á það sem einn af mikilvægustu þáttum í sjálfstæðisstefnunni. Ekki einungis eigum við að gæta að tjáningarfrelsinu heldur einnig frelsi okkar til athafna og þar með talið ferða um landið. Skiptir engu máli hvert erindið er. Við megum ekki afnema fornan rétt.
Náttúrpassi er vond leið
Þar af leiðandi eigum við að berjast af krafti gegn öllum frelsisskerðingum. Við þurfum að benda iðnaðarráðherra flokksins að drög hennar að lögum um náttúrupassa ganga einfaldlega gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins og þau lög mega aldrei verða lögð fram og tengjast flokknum. Verði það gert rjúfum við friðinn, efnum til átaka sem hæglega geta klofið flokkinn.
Berjumst fyrir frelsinu
Drjúgum hluta ævi minnar hef ég varið í ferðalög um landið og oftast á tveimur jafnfljótum. Það skal aldrei verða að ég sætti mig við að flokkurinn minn hafi forgöngu um að skerða frelsi mitt til ferða. Þess vegna beini ég þeim orðum mínum til Sjálfstæðismanna. Við eigum að taka afstöðum með frelsi gegn helsi og þeim sem að slíku vinna. Við eigum einfaldlega að berjast fyrir frelsinu eins og við höfum ávallt gert.
Frelsisskerðin vegna blankheita
Við eigum ekki að sætta okkur við að það sé einhver þrautalending fjárvana ríkissjóðs að skattleggja för okkar um landið. Það má aldrei verða. Forystumenn flokksins verða að finna önnur úrræði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Grófur glæpamaður gróf sig út og skildi eftir gat
30.3.2014 | 11:55
Lögreglan í Stokkhólmi í Svíþjóð leitar nú að manni sem tókst að flýja úr fangelsi með því að grafa sig út. Maðurinn sat inni fyrir gróf rán og lögreglan lítur á hann sem hættulegan glæpamann.Í veggnum í klefa hans fann lögreglan stórt gat sem leiddi út úr byggingunni. Þar fyrir utan hafði hann klippt í sundur girðingu sem umlykur fangelsið. Líklegast hefur hann fengið aðstoð að utan og verið sóttur á bifreið.Fangelsið sem hann flúði úr er í svokölluðum 2. flokki öryggisfangelsa, næsti flokkur fyrir neðan hæsta öryggisflokk. Mikill fjöldi lögreglumanna tekur nú þátt í leitinni að manninum.
Gróf sig út úr fangelsi í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bullkort með fróðlegri grein í Morgunblaðinu
29.3.2014 | 08:57
Röng landakort eru einfaldlega villandi. Morgunblaðið fellur í þá ljótu gryfju í frétt sinni um flóð úr Öræfajökli að birta kort með röngum staðsetningum.
Bærinn Freysnes sem er hótel og býður upp á margvíslega þjónustu og á korti Morgunblaðsins er hann staðsettur við mynni Morsárdals - á friðlýstu svæði.
Lómagnúpur er staðsettur að því er virðist sunnan við fjallið Björninn, fjarri réttum stað. Örnefnið Skeiðarárjökull er einhverra hluta vegna næstum komið út af jöklinum á kortinu. Líklega handvöm.
Verra er að flóðið er sagt koma úr Kotárjökli. Samkvæmt merkingunni rennur það niður með Svínafelljökli og yfir Svínafellsfjall sem samt er gríðarhátt, slagar víða hátt í 1000 metra. Kotárjökul er hins vegar í sunnan við bláa litinn eins og sjá má á merkingum mínum á kortinu. Þetta gengur ekki upp vegna þess að það er hinn þröngi dalur Kotárjökuls sem á að magna flóðið. Vissulega getur það líka gerst með flóð niður Svínafellsjökul en það mun þó aldrei fara yfir byggðina í Svínafellstorfunni, fjallið skýlir henni.
Ég gat ekki fundið neitt um þetta verkefni Veðurstofunnar á vef hennar. Þar af leiðandi veit ég ekki hvort kortið er unnið af Morgunblaðinu eða Veðurstofunni. Í það minnsta hefði Mogginn átt að vita betur.
Svo er það annað. Af hverju eru svona fá örnefni á kortinu? Af hverju er Skaftafell ekki merk inn á það og til dæmis Fagurhólsmýri? Og hvers vegna eru vegir ekki inni á því? Niðurstaðan er aumlegt og gagnslítið kort sem unnið hefur verið í flaustri. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Sjálf fréttin hefði mátt vera ítarlegri vegna þess að í henni er einungis stiklað á þeim atriðum sem mestu skipta. Birta þarf öll kortin. En líklega eru þau í endurhönnun ...
Flóð myndi geysast niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Slitabú bankanna eru ekki atvinnugrein ...
28.3.2014 | 08:18
Engu líkar er af fréttaflutningi af blómlegri starfsemi slitabúa föllnu bankanna en að um sé að ræða nýja atvinnugrein og hún sé til framtíðar. Í fimm ár hafa ótrúlega margir starfsmenn þessarar langlífu starfsemi stundað margvísleg störf allt frá því að skrá niður kröfuhafa, makka með þeim og unnið að fjárfestingum með eignir búanna. Ábyggilega er þetta allt göfugt og þarflegt. Þarna vantar þó niðurlag ...
Slitabúin greiða gríðarlega há laun til starfsmanna og svo eru fjöldi verktaka sem vinna þar í föstu starfi en gæta þess að launin séu greitt til hlutafélaga. Þar er svo hægur leikurinn að fela þau í alls konar kostnaði þó endastaðan sé ávallt sú að einn einstaklingur fær meira í sinn hlut en laununum nemur.
...en nú er eiginlega nóg komið, rétt eins og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins nefnir á aðalfundi Seðlabankans. Gera þarf upp búin og ganga frá kröfunum í eitt skipti fyrir öll - á íslensku forsendum.
Ekki annað að gera en setja búin í þrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ráðherrarnir sem sviku allt, gagnrýna nú skuldaleiðréttinguna
27.3.2014 | 08:47
Formenn Samfylkingar og Vinstri grænna renna á rassgatið þegar þeir fara að tjá sig um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar, aðstoðina við heimilin í landinu, verkefnið sem þessir tveir flokkar kunnu ekki að leysa, gátu það ekki eða vildu ekki.
Þó verður að viðurkennast að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrum ráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og fyrrum ráðherra, eru bæði trú hugmyndafræði vinstri stjórnarinnar sem þau sátu í. Þar var hin yfirlýsta stefna að tala sem mest um vanda heimilanna en gera sem minnst fyrir þau. Þess vegna finna þau aðgerðum ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar vegna forsendubrestsins í hruninu allt til foráttu. Sársaukinn og öfundin í málflutningi þeirra er eiginlega áþreifanlegur.
Svo óforskömmuð eru þessir stjórnmálamenn að þau sjá engan ljósan punkt í tillögunum, að minnsta kosti eyða þau engum tíma til að fagna því sem vel er gert heldur fordæma allt rétt eins og að smávægilegir gallar séu einkennandi fyrir verkefnið, viljann og tilganginn.
Það er ekki tryggt að þeir sem urðu fyrir forsendubresti fái hann bættan.
Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu í morgun, maðurinn sem fékk heil lög kenndi við sig af því að þau tóku rétt sem Hæstiréttur hafði dæmt skuldurum og færði fjármagnsfyrirtækjunum í staðinn. Hann tók bankanna einfaldlega framyfir heimilin í landinu. Það er þjóðarskömm að þessum manni sem talar og talar en að baki liggur engin hugsun.
... og það hefur auðvitað verið okkar nálgun að horfa á greiðsluvandann en ekki eingöngu skuldabyrðina.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna sem í fjögur ár horfði upp á vandann en gerði ekkert nema illt fyrir heimilin í landinu. Ekki nokkurn skapaðan hlut enda var hún ráðherra í ríkisstjórn sem var meira í ætt við skrifræði en lýðræði, tók beinlínis afstöðu gegn heimilunum. Það er skömm að þessari konu sem ekki frekar en formaður Samfylkingarinnar getur sé neitt jákvætt í aðgerðum sem þau gátu ekki sjálf druslast til að gera og ekki vantaði þá hvatningu þjóðarinnar.
Þegar þjóðin þurfti á aðstoð að halda þá voru Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason víðsfjarri og unnu að verkefnum sem skiptu ekki nokkru máli og jafnvel á þeim vettvangi stóðu þau sig illa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Efnahagshrunið var bara vont veður segir formaður Bjartrar framtíðar
27.3.2014 | 07:52
Mér finnst það ekki góð hugmynd að deila fjármunum til þeirra sem skulda mikið og eiga mikið, segir hann. Guðmundur segir hrunið, líkt og vont veður, hafa kallað á björgunaraðgerðir.
Þetta segir formaður flokksins sem vill að öll dýrin í skóginum séu vinir. Til þess að svo megi verða hefur hann lagt til að klukkunni verði seinkað svo hægt sé að sofa lengur frameftir á morgnanna.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, stígur nú allskyndilega fram í stjórnmálum og líkir efnahagshruninu 2008 við vont veður og telur aðgerðir ríkisstjórnarinnar afar slæmar.
Þannig hugsa nú stuðningsmenn vinstri stjórnarinnar sálugu. Hún lofaði öllu fögru vegna hrunsins en stóð ekki við neitt.
Nú er komin önnur ríkisstjórn sem lofaði aðgerðum og stendur við loforð sín. Þá vaknar skyndilega Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, við illan draum, og hefur allt út á efndirnar að setja. Var honum þó ekki lofað neinu, ekki frekar en í ESB viðræðuslitnum.
Það væri mjög slæm hugmynd í vondu veðri að fara í almenna björgunaraðgerð og senda öllum peysu. Þetta er svipað, margir eiga peysu og þurfa ekki peysu, sumir þurfa hana. Það er nokkurn veginn þannig sem þetta blasir við mér, segir hann.
Hann hefur þá skoðun að aðstoð ríkisstjórnarinnar við þá sem urðu fyrir skaða vegna verðtryggingarinnar megi líkja við peysugjöf í vondu veðri. Sjálfur stóð hann af sér vonda veðrið í föðurlandi, dúnúlpu og dúnbuxum og galla utanyfir.
Björt framtíð er einfeldningslegur og gamaldags stjórnmálaflokkur með þankagang á borð við þann sem einkenndi ákveðna forystumenn í gömlu vinstri flokkunum. Slíkir sáu ekki skóginn fyrir trjánum og allt var slæmt nema það sem þeir sjálfir fundu upp.
Eitt er þó víst, þeir sem lentu í hremmingum efnahagshrunsins, töpuðu hluta eða öllu eiginfé sínu í heimilum sínum, munu ábyggilega ekki taka undir með Guðmundi Steingrímssyni um vonda veðrið og allra síst formælingar hans á efndir loforða ríkisstjórnarinnar. Ummælin hitta hann sjálfan fyrir og opinbera hallærislegar skoðanir þeirra sem ekki eru í neinum tengslum við heimilin í landinu.
Gáfuðustu Íslendingarnir og þeir dómgreinarlausustu
26.3.2014 | 09:22
DV leitaði til málsmetandi álitsgjafa í leit að gáfaðasta núlifandi Íslendingnum.
Fjölmargir komust á blað en álitsgjafar blaðsins eru samróma um að frú Vigdís Finnbogadóttir sé gáfuðust okkar allra. Aðrir þekktir Íslendingar sem komust á listann eru Davíð Oddsson, Katrín Jakobsdóttir og Andri Snær Magnason.
Nú er búið að finna út hverjir eru gáfaðastir Íslendinga. Dv.is slær þessu upp á vef sínum í dag og þykir einstaklega mikill sómi að, sérstaklega ef DV selst meira fyrir vikið. Listinn yfir gáfumennin er þó ekki birtur á vefsíðunni og ekki nennti ég að kaupa mér blaðið, til að skoða listann. Ég er nægilega gáfaður til að láta ekki fallerast fyrir ómerkilegum trixum sem maður hefði ábyggilega fallið fyrir í menntaskóla.
Hins vegar þykist ég vita að allir sem eru á gáfumannalistanum séu þekkt fólk. Þar af leiðandi er þar enginn af vinum mínum, kunningjum og samstarfsmönnum um ævina því frægðin hefur ekki verið þeirra fylginautur. Engu að síður lít ég óskaplega mikið upp til fjölmargra þeirra fyrir gáfur, atgervi og ekki síður manngæsku. Þó er fjarri mér að vilja eða geta raðað þeim upp í gáfnafarsröð. Á því sviði er ég einfaldlega ekki nógu gáfaður.
Hitt er svo annað mál, hverjir láta hafa sig út í þann leik að draga menn í dilka eftir gáfum. Hvernig í ósköpunum er til dæmis hægt að setja mann eins og Andra Snæ Magnason í sæti á eftir Vigdísi Finnbogadóttur? Hver er eiginlega þess umkominn að geta dæmt um gáfur með því að fylgja aðeins yfirborðslegum forsendum og haldið því jafnframt fram að einn sé gáfaðri öðrum.
Einu sinni skrifaði ég grein í Morgunblaðið og nefndist hún Vitlausasti þingmaðurinn og átti þar við samflokksmann minn sem gerði sig sekan um tóma steypu er hann ritaði grein sem hann kallaði Vitlausasta framkvæmdin eða eitthvað í þeim dúr. Maðurinn var þó langt í frá vitlaus, frekar dálítið gáfaður eins og flestir. Þó fannst mér að dómgreind hans væri lítið í snertingu við heilabúið er hann myndaði sér áðurnefnda skoðun og færði ég ágæt rök fyrir því, þó ég segi sjálfur frá.
Þannig er oftast. Engin innistæða er fyrir upphrópunum um heimsku og þar af leiðandi ekki heldur fyrir ofurgáfum. Því fer fjarri að Vigdís Finnbogadóttir sé gáfuðust Íslendinga og Andri Snær Magnason sá næstgáfaðasti. Svona uppáhaldslistar eru einfaldlega marklausir og barnalegir.
Hitt er þó til umhugsunar hvort að þessir álitsgjafar blaðsins í þessari umfjöllun fái ekki sæmdarheitið dómgreindarlausustu Íslendingarnir:
- Benedikt Bóas Hinriksson blaðamaður
- Bjarni Eiríksson ljósmyndari
- Einar Lövdahl, ritstjóri Stúdentablaðsins
- Elmar Garðarsson stjórnmálafræðingur
- Guðríður Haraldsdóttir, ritstjóri Vikunnar
- Guðrún Hildur Ragnarsdóttir, formaður meistaranema við stjórnmálafræðideild HÍ
- Guðfinnur Sigurvinsson sjónvarpsmaður
- Halldór Högurður þjóðfélagsrýnir
- Helga Dís Björgúlfsdóttir blaðakona
- Hilda Jana sjónvarpskona
- Jóhann Einarsson, formaður Vélarinnar
- Malín Brand blaðamaður
- Margrét H. Þóroddsdóttir, stud.jur., formaður Lögréttu
- Una Björg Einarsdóttir, MA í mannauðsstjórnun
Rjóminn og gistiþjónustan
25.3.2014 | 09:31
Þrátt fyrir létta gagnrýni mína á Moggann í gær fyrir dálítið einhliða uppsetningu á frétt um leiguverð á íbúðum fyrir ferðamenn þá bregst hann ekki í dag. Í fréttaskýringu á leiðaraopnu er greinin Rjóminn fleyttur af gistiþjónustunni eftir Kristján Jónsson, blaðamann.
Fyrirsögn greinarinnar á við að margir einstaklingar leigja út íbúðir sínar en gefa tekjurnar ekki upp. Þessi svarta leigustarfsemi er auðvitað stórt vandamál, ekki aðeins fyrir ríkissjóð heldur skekkir hún samkeppnisstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Vart þarf að hafa um það mörg orð að sá stendur óumdeilanlega betur að vígi sem greiðir ekki skatta og gjöld en hinn sem samviskusamlega telur rétt fram. Hinn fyrrnefndi fleytir óumdeilanlega rjómann af gistiþjónustunni.
Þó ég sé í aðra röndina dálítill aðdáandi svartrar atvinnustarfsemi vegna dugnaðar og sjálfsbjargarviðleitni sem oft bitist í slíku getur maður ekki orða bundist út af gistiþjónustunni. Í sannleika sagt er ekkert nýtt í þeirri atvinnugrein. Hún gengur út á að sinna frumþörfinni, hvíldinni. Í grunninn sofa allir eins, meðvitundarlausir og væntanlega eins og börn ... Hins vegar getur umgjörðin og þægindin í kringum þjónustuna verið mismunandi og á því byggst verðlagningin oftast.
Gisting í gömlum, uppgerðum bílskúrum eða kjallaraherbergjum er varla eftirsóknarvert og ekkert nýjabrum í slíku nema síður sé. Ég hef skoðað fjölda vefsíðna þar sem verið er að gylla gistinguna og jafnvel skoðað mörg herbergi og íbúðir. Því miður verður að segja eins og er að sumt af þessu er ekki merkilegt og í litlu samræmi við myndir og alls ekki verðlagninguna. Og allir sem ég ræddi við hafa litlar áhyggjur af skattinum því í fæstum tilvikum er boðið upp á annað en handskrifaða kvittun fyrir greiðslu
Næst á dagskránni hjá Morgunblaðinu er að gera mann út af örkinni til að skoða gistingarnar og taka myndir. Afraksturinn verður án efa afar forvitnilegur.
Eftirspurn eftir dýrri gistingu og ferðum
24.3.2014 | 09:18
Dæmi eru um að íbúðir miðsvæðis í Reykjavík séu leigðar til erlendra ferðamanna fyrir vel á aðra milljón króna á mánuði.
Hverjar geta nú verið tekjurnar af einu hótelherbergi á mánuði? Ekki er óalgengt að herbergi betri hótelum borgarinnar kosti um 200 Evrur nóttin. Það þýðir tæplega 32.000 íslenskar krónur, miðað við að gengið sé 158 krónur, og tekjurnar af hótelherberginu einu saman því tæp ein milljón króna, 948.000 krónur.
Allar tölur þurfa að vera í skiljanlegu samhengi annars eru þær gangslausar til upplýsingar. Þó íbúð sé leigð út á eina og hálfa milljón krónur á mánuði þarf það ekkert að vera nein goðgá. Fleiri rúmast til dæmis í íbúð þannig að meðalverðið á mann verður oft miklu lægra en jafnvel hótelherbergi kostar. Eftirspurn er grundvöllur verðlagningar.
Svo er það alþekkt í ferðaþjónustunni út um allan heim að verð eru mismunandi og þykir engum merkilegt. Fimm stjörnu hótel eru dýrari en farfuglaheimili vegna þess að markhópurinn er annar. Í mörgum borgum í Evrópu og víðar um heim kostar nóttin á stöku hótelum jafnvel eina milljón króna, jafnvel meira. Nýtingin á þessum hótelum er nærri 100% á ári ... sem sagt næg eftirspurn.
Þannig hótel eru ekki á Íslandi. Allir vita að eftirspurn er eftir dýrum hótelum er fyrir hendi og skorturinn á þeim hefur takmarkandi áhrif á ferðaþjónustuna þó svo að hún geti ágætlega lifið með því. Vandinn er þó sá að tekjur af massaferðamennsku er miklu minni en af betur stæðum ferðamönnum svo gripið sé til frasa.
Ég er ekki að setja út á Morgunblaðið en næst ætti það að kanna hvað kostar að fara í nokkrar ferðir sem erlendum ferðamönnum bjóðast. Ekki fara í Kynnisferðir eða hópferðabílaleigurnar. Ekki fara í massaferðaþjónustuna. Lítið frekar til þeirra sem eru að bjóða verulega góðar ferðir í lúxusbílum, þyrlum og bjóða um leið upp á frábærar veitingar. Þessar ferðir eru ekki ódýrar ... og ég er ansi hræddur um að þá munu einhverjir reka upp stór augu og óðar gleyma útleiguverðinu á íbúðum á Stjörnubíó-reitnum.
Staðreyndin er einfaldlega sú að það er eitt að bjóða ferðamanni gistingu og ferð í rútu á Þingvelli, Gullfoss og Geysi og annað er að bjóða ferðamanni lúxusgistingu og lúxusbíl, jafnvel þó farið sé á Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Hvort tveggja er til. Svo er það allt annað mál hvort Skúli Eggert viti af þessu.
Leigan á aðra milljón á mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Var Vaðlaheiði sprengd í loft upp ...?
23.3.2014 | 12:28
Líklega er það merki um elli og smámunasemi að gera athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. Ég þurfti að lesa fyrirsögnina á frétt mbl.is tvisvar sinnum til að átta mig á því að enginn hefði sprent Vaðlaheiði í loft upp heldur væru sprengingar hafnar í göngunum sem verið er að gera í gegnum heiðina.
Já, smámunasemi, kunna eihverjir að segja. Ég hef alla tíð notað Excel mikið í störfum mínum og í slíkum töflureikni skiptir miklu að formúlur séu rétt ritaðar til að útkoman skili sér eðlilega. Enginn heldur því til dæmis fram að það sé smámunasemi að sleppa því að loka sviga. Þá er verður útkoman einfaldlega röng eða forritið getur ekki reiknað dæmið og gerir athugasemdir.
Sama er oftast auðvitað með tungumálið. Fólk er þó ekki eins smámunasamt og Excel forritið og lætur gott heita ef hægt er að skilja það sem sagt er.
Vaðlaheiði sprengd á nýjan leik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |