Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Þarf fyllerí að fylgja bjórneyslu

Það væri nú aldeilis gaman ef maður ætti þess kost á að fá sér bjórglas á landsleik. Hver veit nema maður legði á sig að fara á völlinn í stað þess að sitja heima fyrir framan sjónvarpið og horfa á sama leik.

Fyrir tveimur árum sat maður nokkur fyrir aftan mig í stúkunni á Laugardalsvelli og hafði hátt enda raddsterkur með afbrigðum. Talaði við sessunaust sinn eins og hann væri með síma við eyrað og hrópaði af og til hvatningarorð út á völlinn. Öllum var hann til ama sem í kringum hann sátu. Skyndilega birtust tveir drengir, vallarstarfsmenn og hvísluðu einhverju að manninum. Hann ætlaði að gera sig digran en þeir voru ákveðnir. Annað hvort læturðu okkur fá áfengið eða þú ferð út, sögðu þeir.

Þetta endaði með því að maðurinn afhenti pela af einhverjum vökva og horfði á bikarúrslitaleikinn til enda, án mikils hávaða.

Jú, mikið væri nú gaman ef maður gæti fengið sér bjór á vellinum. Vandinn er hins vegar sá að oft fylgir fyllerí bjórneyslu. Getur verið að hægt sé að bjóða upp á áfengi án þess að fyllerí fylgi? Eða þarf maður að velja.


mbl.is Borgin hafnaði fyrstu umsókn um bjórsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlegt afrek Ingólfs

Úr því að margir ganga árlega á Everest halda ýmsir að það hljóti að vera létt verk og löðurmannlegt. Svo er hins vegar ekki. Það krefst mikillar þjálfunar og einbeitingar. Þetta tókst Ingólfi Geir Gissurarsyni og er mikil ástæða til að fagna með honum og ekki síður óska honum til hamingju með afrekið.
mbl.is Ingólfur Geir kominn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrek hreyfihamlaðs að komast upp á Eyjafjallajökul

DSC00055

Þetta er frábær frétt á mbl.is. Hreyfihamlaður maður kemst á sérútbúnum sleða upp á Eyjafjallajökul. Miklu léttar er að komast upp á Eyjafjallajökul, hann er ekki eins hár og brattur og Öræfajökull en engu að síður alveg stórkostlega fallegur.

Ég efast ekki um að Leifur Leifsson, fjallasleðamaður, komist að Hámundi. Upp tindinn getur stundum verið erfitt að komast, jafnvel fyrir fólk með fulla hreyfigetu.

Vandamálið er samt að komast til baka. Jökullinn er nægilega brattur til að maður á skíðum kemst á fljúgandi ferð niður, hvort heldur á Fimmvörðuháls eða vestur af honum. Líklega er sleðinn útbúinn með góðum bremsum og félagar hans hjálpa án efa til. Eitt er þó víst, Leifur og félagar eiga eftir að skemmta sér vel í ferðinni á Eyjafjallajökli.

Meðfylgjandi mynd er tekin við Guðnastein, efst á Eyjafjallajökli vestanverðum. Lengst til vinstri er Hámundur, hæsti tindur jökulsins, 1651 m. 


mbl.is Á handsleða upp Eyjafjallajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlega slæm þjónusta Símans

Erlent niðurhal í þessum mánuði hefur nú náð 50 GB sem er umfram innifalið erlent gagnamagn. Hraðinn á tengingunni þinni til útlanda hefur nú verið takmarkaður. Takmörkun á hraða til útlanda verður afnumin við kaup á auknu gagnamagni eða um næstu mánaðamót.

Hér http://www.siminn.is getur þú keypt þér aukið gagnamagn.

Þetta er úr tölvupósti sem fékk ég í gær frá Símanum, fyrirtæki í síma- og netþjónustu sem ég hef skipt við síðustu áratugi. 

Notið ég þjónustu Símans umfram það sem áskrift mín segir til um er sjálfsagt að greiða fyrir það. 

Það er hins vegar refsingin sem ég er óhress með. Þar sem ég hef notað meira magn en innifalið var í áskriftinni skal nú takmarka hraðan á tengingu minni til útlanda. 

Hver er eiginlega munurinn á hraða og magni hjá Símanum? Hvernig tengist þetta á þann hátt að umframmagn geti takmarkað hraða?

Mér finnst þetta eins og að refsa mér fyrir að tala mikið í símann minn með því að neita mér um að senda SMS boð. Eða að bankinn minn refsi mér fyrir að fara yfir á debet eða kredit kortinu mínu með því að takmarka notkun mína á heimabankanum.

Auðvitað er þetta bara bull hjá Símanum. Ég reyndi þó að fá upplýsingar frá þjónustufulltrúa en fékk aðeins stöðluð svör, ekkert sem skýrir málið. Samt var fullyrt að „ástandið“, lélega þjónustan, muni aðeins gilda til næstu mánaðarmóta og þá falli allt einhliða í ljúfa löð.

Ég er bara ekki sáttur við hraðatakmarkanirnar og alls ekki óskaplega lélegar skýringar. Hvort tveggja er ömurlega slæm þjónusta.

 


Grjótbjörg gnata

Enn hann úti sér hrímilagt vor um héröð öll og víð. Skelfur jörð, grjótbjörg gnata og bresta, losna gufur. Brennur land, brenna fjöll og renna í eldi, hverfa þá ár og eyðast akrar og sökkva tún. Svart gerist sólskin og harmur dimmur, þrífst fátt. Af leggjast bú, úti er smali, fuglar yfirgefa hreiður. Land hverfur í sæ.

Svo segir í því forna ljóði Auðnarspá (eða Auðarspá). Höfundur spáir um ókomna tíð. Hann sér endalok lands og jafnvel þjóðar. Miklir jarðskjálftar ríða yfir, hrynur ú björgum, eitrað loft kemur upp, eldgos verða, hraun rennur sem stíflar ár og jarðir sökkva í gjósku. Aska er í lofti svo sólarljósið nær ekki í gegn og landið leggst í eyði og sjór gengur á land.

Þetta er ekki fögur framtíðarsýn og eflaust ástæðan fyrir því að ljóðinu hefur ekki verið hampað líkt og Hávamál eða Völuspá svo gersemarnar séu nefndar. Allt kvæðið brann í Kaupmannahöfn 20. okt. 1728 ásamt fleiri bókum Árna Magnússonar. Þó er til afrit af ofangreindu erindi, ritað eftir minni.

Svo segir í bréfi nokkru sem mér barst. Held að þetta sé tóm skrök ... eða hvað? Vorið er að minnsta kosti kalt og jarðskjálftar hafa verið miklir síðasta mánuðinn. Nema þetta hafi átt við efnahagshrunið og vinstri stjórnina sem á eftir kom ... varla nýju stjórnina.


Snjóhengja gamla Landsbankans við að bresta

Fyrir þjóðarbúið eru skuldir Landsbankans við gamla bankann síðan grafalvarlegar. Útilokað er að tiltækur verði nægur gjaldeyri á markaði sem stendur nýja bankanum til boða nema að aðrir kaupendur gjaldeyris verði sveltir. Slíkt getur ekki leitt til neins annars en gegndarlauss kapphlaups um allan lausan erlendan gjaldeyri sem ætti að hafa verulega veikingu krónunnar í för með sér. Staðan í dag er einfaldlega sú, að þjóðarbúið býr ekki til nægar erlendar tekjur til að standa undir greiðslu þessara skuldabréfa, þó svo að Landsbankanum gæti tekist að öngla fyrir aurnum úr rekstri sínum.

Skuldabréf nýja Landsbankans við þann gamla er enn ein snjóhengjan sem þarf að losa um án tjóns fyrir þjóðarbúið. Hana verður að leysa á sama hátt og hinar með því að kröfuhafinn, LBI hf. (gamli Landsbanki Íslands), þarf að gefa eftir hluta kröfunnar eða sætta sig við að hún verði ekki til útgreiðslu fyrr en eftir nokkur ár og þá verði hún greidd til baka á mun lengri tíma en gert var ráð fyrir. Að mönnum hafi síðan dottið í hug að bæta við þessa snjóhengju skilyrta skuldabréfinu er mér síðan gjörsamlega óskiljanlegt.

Svo ritar Marinó G. Njálsson um Landsbankann á bloggsíðu sinni. Þetta er háalvarlegt mál og varla að nokkur maður átti sig þegar mesta umræðan fer í það að velta fyrir sér hvort starfsmenn eigi að fá 4% hlutafjár í bankanum. Þeim sama banka sem virðist vera ógjaldfær.

 


Nei, Egill Helgason, nú ferðu rangt með

Það hefur verið talað um að við séum í aðlögunarviðræðum við ESB.

Þetta er hugtak sem var fundið upp í áróðursskyni.

Ef við hefði verið um aðlögun að ræða væri líklega margt sem þyrfti að vinda ofan af eftir viðræður sem hafa staðið í næstum fjögur ár.

En svo er ekki.

Svo ritar Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður, á heimasíðu sína á eyjan.is. Þetta er mikill misskilningur hjá Agli og raunar svo alvarlegur að maður verður eiginlega kjaftstopp.

Viðræður við ESB eru ekki samningaviðræður heldur aðlögunarviðræður. Þetta segja stjórnendur ESB sjálfir og er að finna í bæklingi sem sambandið gaf út og heitir Understanding Enlargement - The European Union’s enlargement policy.

Í honum segir eftirfarandi (uppsetningin er mín til að auðvelda skilning á efni textans):

1.

First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates odoption, implimentation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. 

2.

And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable

3.

For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.

4. 

For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Skýrara getur þetta varla verið. „Accession negotiations“ heita viðræðurnar en ekki „negotiations“. Veit ekki hvernig Egill Helgason getur þýtt þetta öðru vísi en sem aðlögunarviðræður. Eftirfarandi setur enn frekari stoðir undir þá skýringu og þetta eru hluti af skilyrðum stjórnenda ESB: 

Candidates consequently have an incentive to implement necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a country’s political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country. 

Ofangreint þýðir einfaldlega það að umsóknarríkið á að aðlaga stjórnsýslu, lög og reglur sínar að því sem gildir hjá Evrópusambandinu. Punktur.

Viðræðurnar sem ESB nefnir aðlögunarviðræður, á ensku „accession negotiations“, fjalla um 35 kafla sem nefndir eru „Acqis“. Þessir kaflar fjalla um einstaka málaflokka, t.d. landbúnað, flutninga, orkumál, fiskveiðar og svo framvegis, allt upp talið í ofangreindum bæklingi.

Þegar viðræður hefjast um einstaka kafla, kaflinn er opnaður, eins og sagt er, þá þarf umsóknarríkið að sýna á skýran og skilmerkilegan hátt hvort að það hafi tekið upp kröfur ESB sem um ræðir í hverjum kafla eða hvernig það ætli að gera það. Þeim köflum er lokað þegar ESB er sátt við framgang málsins, aðlögunin hefur átt sér stað eða verið er að gangsetja hana.

Ég tók eftir því að fjölmargir rituðu athugasemdir við þennan örstutta pistil Egils Helgasonar. Fæstir af þeim hafa haft fyrir því að kynna sér málin. Þetta eru eftirfarandi

  1. Andrés Péturson
  2. Atli Hermannsson
  3. Sigurður Helgi Helgason
  4. Ómar Bjarki Kristjánsson
  5. Helgi Jóhann Hauksson
  6. Árni Finnsson
  7. Jón Skaptason,
  8. Eygló Aradóttir
  9. Þorstein Óskarsson
  10. Ragnhildur Kolka

Ótrúlegt er að lesa komment eftir þetta fólk sem ekkert hafa haft fyrir því að lesa skilyrði ESB fyrir inngöngu inn í sambandið. Þetta fólk áttar sig ekkert á því út á hvað viðræðurnar ganga, giskar bara út frá eigin brjóstviti sem yfirleitt er ekki fullnægjandi.

Staðreyndin er einfaldlega að viðræðunum lýkur þá aðeins þegar ESB ríkin eru sátt við aðlögun Íslands, ekki fyrr. Þá er aðlöguninni lokið, Ísland búið að taka upp lög og reglur ESB og aðlaga stjórnsýsluna.

Hvað er þá eftir? Ekkert. Nema því aðeins að til dæmis í viðræðunum um fiskveiðilögsöguna neiti Ísland að fara að kröfu ESB um að opna hana fyrir skipum aðildarþjóðanna og sætta sig við yfirstjórn fiskveiðanna færist til Brussels. Þá verða umræðurnar ekki lengri, þeim verður einfaldlega slitið að hálfu ESB. Sama á við um hvern og einn af þeim 35 málaflokkun, „Acqis“, sem um þarf að ræða.

Hugtakið „Accession negotiations“ er ekki áróður heldur einfaldlega uppfinning ESB vegna aðildarumsókna.


Arfakóngurinn í nábýlinu

Ég er enn í miðri kennslustund, og nú þarf ég að hreyfa aðeins við þeim sem farnir eru að dotta. Ég bið hópinn um að finna skemmtilegt orð sem megi nota yfir plástur. Þögn. »Meinloka,« segi ég. Hlátur. En hvað um kirkjugarð? Þögn. »Nábýli,« segi ég. Hlátur. Að lokum: Finnið annað orð yfir garðyrkjumann! Þögn. »Arfakóngur,« segir kennarinn. He, he.

Í Morgunblaðinu er mikið af góðum dálkum sem eru afar fróðlegir. Ég hef minnst á nokkra hér í pistlum mínum. Vil nú vekja athygli á Tungutaki Baldurs Hafstað í dálkinum Málið sem nokkrir góðir íslenskumenn halda út. Ofangreint ritar Baldur í blaðið í dag.

Af hógværð og gamansemi bendir Baldur á hversu mikilvægt er að vanda málfarið svo aðrir misskilji ekki. Hann segir í upphafi:

Ég er áhugamaður um greinarmerki og tel að allir kennarar ættu að fara yfir reglur um þau með nemendum. Það er t.d. sjálfsagt að afmarka ávarp með kommu: »Heill og sæll, Guðmundur minn, og gleðilegt sumar.«

Lítum á eftirfarandi málsgrein: Umsjónarmaðurinn sagði skólastjórinn er asni. Án greinarmerkja leynast hér tvær andstæðar merkingar:

»Umsjónarmaðurinn,« sagði skólastjórinn, »er asni.«

Og:

Umsjónarmaðurinn sagði: »Skólastjórinn er asni.« 

Þetta hljóta allir að átta sig á.

En svo heldur Baldur áfram og skemmtir lesandanum: 

Enn er eitthvað eftir af kennslustundinni. Hvernig væri að nota tímann til að sýna fram á að setningafræði sé skemmtileg? Kennarinn: »Ég hitti Jóhannes í Bónus.« Þögn. »Í Bónus hitti ég Jóhannes.« Þögn. »Semsagt: Ég get tekið forsetningarliðinn 'í Bónus' og fært hann til innan setningarinnar ef þessi Jóhannes er ekki hinn eini og sanni Jóhannes í Bónus. Með öðrum orðum: 'Í Bónus' er í seinna tilvikinu alveg sjálfstæður setningarliður. Þessi Jóhannes var bara staddur í Bónus þegar ég hitti hann (hann hefur aldrei komið nálægt verslunarrekstri). Í fyrra tilvikinu er 'í Bónus' aftur á móti óaðskiljanlegur hluti Jóhannesar. Ég hitti semsagt sjálfan Jóhannes í Bónus - inni á öræfum!

Ég læri yfirleitt eitthvað af því að lesa svona skemmtilega og fræðandi pistla. Ástæða er til að þakka Morgunblaðinu fyrir að bjóða upp á fræðslu og Baldri og kollegum hans fyrir fræðsluna.

 


Ferðafrelsi almennings í húfi

Öll eru ákvæði þessi svo sem sjá má brotakennd. En þó má segja, að í þeim felist sú meginstefna um rétt mann til útilífs og umferðar, að landeiganda beri að lola meinalaus afnot af landareign sinni, nema sérstök ákvæði mæli á annan veg.

Svo segir Sigurður Líndal, prófessor, í ritinu Útivist sem Landvernd gaf út 1979. Í grein sinni rekur hann þágildandi lög um útivist og ferðalög og rifjar upp forn lög, meðal annars úr Jónsbók. 

Forfeður okkar voru um margt réttsýnir og framsýnir. Í Jónsbók er getið um rétt manna til að fara á hestum um land í annarra eigu og æja þeim þar sé það ekki í ræktun. 

Þetta skiptir auðvitað miklu máli enda hrikalegt ef staðan verður sú að landeigendur geti lokað opinberum vegum og hindrað þá sem um þá vilja aka eða elta uppi ferðalanga sem bera allan sin farangur á bakinu til þess að rukka þá.

Inn á þetta kemur Sigrún Ágústsdóttir, lögfræðingur og sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, í viðtalinu í Morgunblaðinu og mbl.is.

Hvað sem öllu líður verður það ekki liðið að meintir landeigendur loki stórum landsvæðum sem hingað til hafa verið opin til þess að hafa það að féþúfu. Þá verður í sundur friðurinn milli meintra landeigenda og annarra landsmannna og afleiðingarnar geta orðið hrikalegar.

 

 


mbl.is Gjald á grundvelli afnota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villtur, þreyttur, blautur, kaldur og leiður útlendingur

Myndin sem birtist með fréttinni um leit að manni á Fimmvörðuhálsi er tekin í Hvannárgili, um 200 metrum fyrir neða Heljarkamb. Hvorugur staðurinn telst til Fimmvörðuháls. Þetta er eins og að segja götu í Kópavogi vera í Reykjavík.

Líkur benda til þess að maðurinn sé á leiðinni frá Skógum og ætli sér í Bása eða Langadal í fyrsta áfanga. Hann er án efa búinn að ganga í sex til tíu klukkustundir, komin er þoka og hann er villtur, kaldur, blaugur, þreyttur og vonsvikinn.

Þetta er alltaf að gerast og á eftir að aukast eftir því sem útlendingum fjölgar í gönguferðum á Íslandi. Þeir halda að náttúran, veðrið og aðstæður sé eins og í göngu í heimalandinu. Skelfingar ósköp sem margir verða fyrir vonbrigðum. Aðstæður eru allt aðrar en auglýsingarnar segja til um.


mbl.is Leit á Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband