Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
Um örnefnagerð og stórkoslegt landslag í Hvannárgili
31.8.2011 | 11:46
Ég skrifaði mikið um gosið á Fimmvörðuhálsi á síðasta ári. Birti myndir og bjó til nokkur kort sem sýndu m.a. framgang hraunsins og örnefni.
Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að veita upplýsingar. Í fjölmiðlum voru þær því miður oft af skornum skammti. Líklega er ekki auðvelt fyrir fjölmiðlafólk að skrifa um staðhætti sem það þekkir ekki, jafnvel þó heimildir séu nægar. Eins fannst mér fréttatilkynningar og umsagnir stjórnvalda um eldgosið oft ansi ónákvæmar.
Yfirleitt fékk umfjöllun mín um gosið nokkuð góðar viðtökur. Auðvitað hefði ég getað gert betur og vandað mig meira en ber fyrir mig flýtinum. Mér fannst svo miklu skipta geta birt skýringu í blogginu með nýjum fréttum til að ná til sem flestra lesenda.
Umdeild örnefnasmíði
Meðal athugasemda sem ég fékk í byrjun var sú að ég leyfði mér nefna nafnlaust gil Innra-Suðurgil. Það má sjá á meðfylgjandi korti. Þetta er afgil, mjög innarlega í Hvannárgili, liggur suður og austur að Fimmvörðuhálsi.
Hvannárgil er víða torfarið, en stórkostleg náttúrusmíði. Það sem ég nefndi Innra-Suðurgil er ekki síður tilkomumikið. Stundum getur það verið ófært nema göngumaðurinn hafi yfir tækjum að ráða til að komast yfir torfærurnar. Um gilið hefur ég tvisvar farið, í bæði skiptin lent í miklum mannraunum ... eða þannig.
Ástæðan fyrir því að ég valdið þetta nafn er að aðeins utar er Suðurgil og gengur inn að jökli. Á þess og Innra-Suðurgils eru Merkurtungur og þar ber hæst Merkurtungnahaus, mikilúðlegt og glæsilegt fjall, 868 m hátt, hærra en Esjan. Eiginlega er ekki hægt að hafa gilið ónefnt svo stórt og mikilfenglegt sem það í raun er.
Hverjir hafa búið til örnefnin?
Sumir segja að það eigi ekki að vera á færi einstaklinga að búa til örnefni. Það hefur þó hins vegar lengst af verið þannig en nú sér einhver stofnun um samræmingarmálin. Mér til afsökunar hef ég þá staðreynd að einungis örnefni ná aðeins yfir lítinn hluta landsins. Það er afar bagalegt fyrir ferðamenn. Lítil reisn er yfir því að nota gps-punkta til að segja frá staðháttum. Mikið óskaplega yrðu það flatar og óspennandi lýsingar.
Gönguferð um Hvannárgil
Um síðustu helgi gekk ég með góðum vinum frá Básum og upp á Fimmvörðuháls. Veðrið var afskaplega gott og frábærar aðstæður fyrir áhugaljósmyndarann sem í mér býr. Þetta er nú líklega í þriðja sinn sem ég kem á eldstöðvarnar og í fyrsta sinn sem ég geng Hvannárgil eftir gos.
Meðfylgjandi mynd tók ég af gilmótum Hvannárgils og hins ónefnda sem ég hef kosið að nefna Innra-Suðurgil. Það er aldeilis engin smásmíði. Hrikalegir hamraveggirnir eru nær lóðréttir og áin er ekkert minni en sú í sjálfu Hvannárgili. Innst inni má greina lítinn skriðjökul sem gengur niður af Hálsinum og ofan í gilið. Hann eru nú miklu minni en þegar ég fór síðast niður hann. Myndin skýrir sig sjálf með þessum groddalegu örnefnamerkingum.
Snyrtileg náttúrusmíð
Þarna er svo önnur mynd sem ég tók af hrauninu sem rann ofan af Fimmvörðuhálsi og í Hvannárgilið. Takið eftir hversu snyrtilegur hraunstraumurinn er. Ekki að spyrja að móður náttúru. Mikið óskaplega hefði mig langað til að vera þarna þegar hraunið brann og rann. Það er nú líklega orðið kalt en þó stíga smáir gufubólstrar upp úr því fyrir neðan hamrana.
Þegar ég skoða kortið hérna fyrir ofan kemur í ljós að staðsetning hraunsins í Hrunaárgili og Hvannárgili er nokkuð nákvæm. Er bara ánægður með það enda hafði ég aðeins vefmyndavélar og ljósmyndir úr fjölmiðlum mér til stuðnings.
Vinstri grænir og rannsóknirnar
31.8.2011 | 09:26
Þjóðin hlær að Vinstri grænum. Á flokksfundi þeirra um síðustu helgi var samþykkt ályktun þess efnis að rannsóknarnefnd skuli skipuð til að komast að því hvers vegna þeirra eigin ríkisstjórnin hafi samþykkt aðgerðir Nató í Líbýu.
Vinstri grænir voru á móti innrásinni í Írak og heimtuðu að samþykki ríkisins fyrir henni yrði rannsakað. Það hefur auðvitað ekki verið gert.
Hér er ekki úr vegi að nefna skemmtilegan leiðara í Morgunblaðinu í morgun. Hann nefnist Rannsóknarríkisstjórnin og fjallar um innantómar hótanir Vinstri grænna um að rannsaka stuðning Íslands við innrásina í Írak á sínum tíma og loftárásirnar á Líbýju.
Mér þótti eftirfarandi úr leiðaranum einstaklega vel að orði komið svo ekki sé talað um upplýsinagildið:
Jóhanna Sigurðardóttir, sem líkt hefur þingmönnum VG við ráfandi villiketti, hefur af þessu tilefni áréttað að stjórnarliðar eigi að tala af virðingu hverjir um aðra. Hún benti jafnframt á að utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefði hagað sér kórrétt í Líbíumálinu. Hann hefði í einu og öllu fylgt ályktun Alþingis um málið, sagði Jóhanna. Það var vissulega mjög vel af sér vikið hjá utanríkisráðherranum í ljósi þess að Alþingi hefur enga ályktun gert um málið. Yfirlýsing Jóhönnu er talin hluti af Dýrafjarðarafbrigðinu í pólitískri refskák, sem enginn teflir betur en núverandi forsætisráðherra landsins.
Hvernig geta Vinstri grænir gert ríkari kröfur til nokkurs ráðherra í mikilvægu máli en að hann fari í hvívetna og út í æsar eftir ákvæðum þeirrar ályktunar sem Alþingi hefur ekki gert í tilteknu máli? Nú er það svo að fjöldi þeirra ályktana sem Alþingi hefur aldrei gert er augljóslega mikill, jafnvel óteljandi líkt og eyjar Breiðafjarðar og hólar Vatnsdals. Miðað við það hlýtur að sæta furðu að Össur skuli verða fyrsti ráðherra landsins til að fylgja samviskusamlega eftir sérstakri ályktun sem Alþingi hefur ekki gert um tiltekið mál, því ekki geta aðrir ráðherrar afsakað sig með því að ekki hafi verið úr nægilega mörgum ályktunum af því tagi að velja.
Lilja er eins og aðrir stjórnarþingmenn
30.8.2011 | 20:51
Gríðarlegur órói hefur verið í þjóðfélaginu undanfarin tvö ár. Hrunið hafði sitt að segja en ánægja með ríkisstjórnina hefur verið stigvaxandi. Ástæðan er einfaldlega sú að stjórnin hefur ekki staðið sig á nokkurn hátt annan en að reyna að halda í horfinu og það gerir húnmeð skattahækkunum. Lilja Mósesdóttir studdi þessa ríkisstjórn með ráðum og dáðum. Þó svo að hún hafi hætt í þingflokknum hefur hún ekki breytt um skoðun. Eini munurinn er sá að hún er á móti ESB aðildinni að öðru leyti er sami rassinn undir henni og öðrum stjórnarsinnum.
Lilja Mósesdóttir er fulltrúi gamla tímans. Hún er á móti einkafyrirtækjum. Hún vill skattleggja þau vegna þess að hún sér ofsjónum yfir því sem nefnist hagnaður.
Þrátt fyrir menntun sína skilur hvorki Lilja né aðrir stjórnarþingmenn þörf á aukinni verðmætasköpun í landinu. Hún heldur að ríkisvaldið búi hana til.
Lilja metur afleiðingar hrunsins og aðgerða/aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar rétt. Staðan er sú að fjöldi fólks á sífellt erfiðar með að afla sér tekna til að standa undir kaupum á nauðþurftum og geta greitt fyrir húsnæði sitt.
Avinnuleysisbætur eru skammtímalausn. Langflestir vilja einfaldlega vinnu við hæfi. Fólk vill almennt ekki vera á framfæri ríkisins.
Störf verða hins vegar ekki til ef þjóðfélagið er ofskattað. Veltan í þjóðfélaginu er svo lítil að ný þjónustustörf myndast ekki. Og á sama tíma halda stjórnarþingmenn að það sé hægt að gera tilraunir með aðalatvinnuveg þjóðarinnar.
Gleymum því ekki að Lilja Mósesdóttir hefur lýst því yfir að skattleggja eigi útflutningstekjur þjóðarinnar til að afla gjaldeyris fyrir ríkið.
Þjóðin kemst aldrei upp úr rústum hrunsins með þessum vinnubrögðum Lilju Mósesdóttur og annarra stjórnarþingmanna.
Er ekki kominn tími til að fá fólk til að vinna almennilega að stjórn landsins? Velferðarstjórnin stuðlar aðeins að eigin velferð. Förum út á göturnar og kollvörpum stjórninni.
Vaxandi ójöfnuður á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað segir Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn um þetta?
30.8.2011 | 09:21
Ekki er beinlínis allt í sóma hér á landi þótt Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi lýst yfir ánægju sinni með árangri ríkisstjórnarinnar og þar með hætt eftirliti sínu. Þetta verður Helga Magnússyni, formanni samtaka iðnaðarins, dálítið umhugsunarefni og í grein á bls. 17 í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
Helgi er á þeirri skoðun að hagvaxtarleiðin leggi grunn að góðum kjörum fólks. Ríkisstjórnin virðist ekki vera á sömu skoðun.
Hann telur upp átján atriði sem velferðarstjórnin hefur annað hvort ekki náð tökum á eða er einfaldlega hluti af stefnu hennar:
- Atvinnuleysi er enn í hæstu hæðum og ekkert bendir til þess að það minnki umtalsvert á næstunni.
- Atvinnuleysi er einnig farið að verða varanlegt hjá stórum hópum en ekki einungis tímabundið
- Fólk hefur flúið land. Við erum að missa fólk úr mikilvægum stéttum til útlanda. Það hefur óbætanlegt tjón í för með sér.
- Um 20 þúsund störf hafa tapast.
- Aukin hætta er á að námsmenn sem halda utan sjái sér ekki hag í að flytjast heim og taka þátt í því að efla þjóðfélagið til framtíðar
- Kaupmáttur hefur rýrnað stórlega. Kaupmáttur ráðstöfunartekna fólks hefur fallið um tugi prósenta.
- Vextir fara hækkandi, m.a. vegna rangrar ákvörðunar Seðlabankans um að hækka vexti. Var það til að slá á þenslu? Hvaða þenslu?
- Verðbólga er tekin að vaxa á ný. Ekki verðbólga vegna athafna eða þenslu heldur verðbólga vegna skorts á fjárfestingum og hagvexti.
- Fjárfestingar í landinu á síðasta ári voru í sögulegu lágmarki í 70 ár.
- Hagvöxt hefur vantað. Vonir stóðu til að með réttum ákvörðunum mætti koma hagvexti hratt í 4-5%. En vegna seinagangs og viljaleysis stefnir í allt of lítinn hagvöxt, e.t.v. einungis 1-2% á ári sem gerir lítið til að vinna á óleystum vandamálum. Án öflugs hagvaxtar stefnir hér í áframhaldandi stöðnun og stöðnunarverðbólgu.
- Allt of hægt gengur að rétta við erfiða skuldastöðu fólks og fyrirtækja. Enn eru þúsundir fyrirtækja án úrlausna á því sviði og tugir þúsunda heimila.
- Íslendingar búa enn við gjaldeyrishöft. Hvernig ætla menn að losna við þau og setja íslensku krónuna í forgrunn að nýju? Eru einhverjar líkur á því að það takist á næstunni?
- Gjaldeyrishöftin draga mikinn mátt úr hagkerfinu. Þau valda því einnig að mikilvægir mælikvarðar eru villandi. Gengið er rangt skráð vegna gjaldeyrishaftanna og verðbólgan er raunverulega meiri.
- Þrátt fyrir ítrekaða samninga við ríkisvaldið um að ryðja úr vegi hindrunum vegna hagvaxtarskapandi framkvæmda á sviði orkunýtingar, stóriðju, annars iðnaðar og samgangna gengur hvorki né rekur. Mikilvæg mál frestast og eru tafin aftur og aftur. Stöðugleikasáttmáli var gerður fyrir tveimur árum sem tók á helstu þáttum. Fæst gekk eftir og ekkert af því sem mestu varðaði um hagvöxt.
- Ríkisstjórnin hefur valið tímann eftir efnahagshrunið til að fara í stríð um stefnu í sjávarútvegsmálum til framtíðar. Vegna þess er ríkjandi skaðleg óvissa í sjávarútvegi og forsendur þar til framkvæmda, fjárfestinga og ákvarðana eru brostnar í bili. Einmitt þegar þjóðin þarf hvað mest á öflugri framþróun í greininni að halda.
- Landsmenn eru að sligast undan skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Skattar eru komnir í hæstu hæðir, jafnt beinir og óbeinir skattar. Og enn er hótað frekari skattahækkunum.
- Hin grimma skattastefna dregur máttinn úr atvinnulífinu, fjárfestar hika og erlendir fjárfestar eru hræddir við þann óstöðugleika sem hringl í skattastefnu veldur. Einn og einn ofurhugi lætur samt ekki hugfallast. Almenningur kvartar sáran undan skattpíningunni.
- Er Icesave ekki enn í uppnámi?
Íslensku evrusérfræðingarnir og hinir
30.8.2011 | 08:55
Ein skemmtilegasta framhaldssagan í Morgunblaðinu er sagan af Evruspekingunum þremur. Mogginn þreytist ekki á að gera at í þeim, snýr þá sundur og saman í háði.
Í morgun, þriðjudag má lesa þetta í Staksteinum:
Staksteinar hafa verið í hópi áköfustu aðdáenda þeirra Sigríðar Ingadóttur, Björgvins Sigurðssonar og Össurar Skarphéðinssonar, eins og kunnugt er.
Þeir brutust til metorða í aðdáendaklúbbi þeirra þriggja eftir að þremenningarnir sópuðu evruvandanum út af borðinu með afgerandi greiningu sinni á honum.
Öllum var létt, eða að minnsta kosti hefði átt að vera það.
En þau Merkel kanslari, Sarkozy forseti, Delors evruguðfaðir, Alan Greenspan og handfylli af nóbelsverðlaunahöfum í hagfræði hafa þó verið staðin að ólæsi og því vaðið áfram í villu með alvarlegum afleiðingum.
Og nú bættist í hópinn fjármálaráðherra Póllands, Jacek Rostowski, af öllum mönnum: Forystumenn innan ESB verða að ákveða hvort þeir vilji vinna saman og greiða hátt verð fyrir að halda evrusvæðinu á lífi eða undirbúa í alvöru stýrða upplausn svæðisins, segir hann í Gazeta Wyborcza, helsta dagblaði Póllands, mánudaginn 29. ágúst.
Jacek Rostowski segir að Þjóðverjar verði að leggja mat á hvaða afleiðingar það hefði fyrir þá að evran yrði aflögð. Fjármálaráðherrann telur að valið standi á milli þessara tveggja kosta: Að greiða hátt verð fyrir framhald evrunnar eða bera mikinn kostnað af brotthvarfi hennar. Þeir sem átta sig ekki á þessu leika sér að eldi.
Hvar enda afleiðingar ólæsisins?
Stór hluti viðbótartekna fer í skattinn
30.8.2011 | 08:49
Skyldi það vera satt að við kaffiborðin í fyrirtækjum landsins sé talað af meiri skynsemi um skattamál en í fjármálaráðuneytinu? Um það er auðvitað erfitt að dæma. Hins vegar er ljóst að almenningur tekur ákvarðanir af allt öðrum forsendum er norræna velferðarstjórnin. Og almenningur bregst við hækkandi sköttum.
Í niðurlagi leiðara Morgunblaðsins í dag, þriðjudag, er komist afar vel að orði:
Ungir menn um þrítugt, til dæmis, sem ættu undir eðlilegum kringumstæðum að taka glaðir við allri þeirri aukavinnu sem þeim býðst, þeir vilja ekki aukavinnuna í dag, því svo stór hluti af viðbótartekjunum fer í skattinn, segir hann. Skattaumhverfið virðist vera komið algjörlega úr böndunum og er farið að letja og skemma fyrir okkur. Það er pirrandi að hugsa um þetta, því þeir sem eru duglegir vilja ekki vinna sér inn meira þótt þeir gætu og myndu með því skapa sér aukatekjur sem gætu svo farið í að greiða niður skuldir eða örva verslun og þjónustu.
Þannig er talað af almennri skynsemi úti á hinum almenna vinnumarkaði. En í stjórnarráðinu gildir ekki almenn skynsemi. Þar ræður gömul og úr sér gengin pólitísk þráhyggja ríkjum. Þess vegna hefur endurreisnin gengið svo brösuglega og verið svo miklu hægari og langdregnari en hefði þurft. Bankahrunið var vissulega bölvað. En hvers vegna í ósköpunum þurfti að gera illt verra?
Þarna er vitnað til orða Kristmunds Þórissonar, framkvæmdastjóra Almenna bílaverkstæðisins. Ekki get ég séð stjórnþingmenn verjast þessum orðum hans en veit að þeir munu verða sér að athlægi fyrir að reyna.
Rétt er að hrunið hafði hrikalegar afleiðingar fyrir landsmenn en hvers vegna þurfti að gera illt verra?
Ríkisstjórnin þvinguð til aðgerða
26.8.2011 | 13:40
Er þetta ekki dæmigert fyrir ríkisstjórnina. Það er orðinn fréttamatur þegar stofnanir samfélagsins eru fjárþurfi. Eftir umræðu í fjölmiðlum þar sem innanríkisráðherra þráast við og ber fyrir sig blankheitum, ekki aðeins í hugmyndum heldur einnig ríkissjóðs fæst loksins niðurstaða.
Gerum ekki lítið úr blankheitum ríkissjóðs. Gagnrýnum heldur getuleysi ríkisstjórnarinnar sem hefur þau ráð ein að skattleggja almenning og fyrirtæki til að afla fjár. Hún drepur niður í orði og á borði alla sjálfsbjargarviðleitni og kann ekki eða getur ekki eflt þjóðfélagið og hvatt fólk til dáða.
Er ekki kominn tími til að segja velferðarstjórninni upp störfum?
Útlendingastofnun fær aukið fé | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Án díselolíu deyr íslenska þjóðin úr hungri ...
26.8.2011 | 12:45
Las í morgun ansi góða fréttaskýringu í Fréttablaðinu um Orkuskipti í samgöngum, skrifuð af Kolbeini Óttarsyni Proppé, blaðamanni. Með greininni er rammaviðtal við Einar Einarsson vélaverkfræðing.
Mér finnast skoðun Einars svo ákaflega merkileg að ég endurbirti klausuna í heild sinni.
Einar Einarsson vélaverkfræðingur gagnrýnir stjórnvöld fyrir að stuðla ekki að frekari rannsóknum á lífdísel. Fólksbílaflotinn sé vissulega mikilvægur en hann sé í raun kremið á kökunni. Þægindi sem megi leysa öðruvísi.
Mér finnst menn oft loka augunum fyrir hinu óskaplega mikilvægi dísilolíunnar fyrir íslenskt efnahagslíf og matvælaöryggi. Ef við misstum dísilolíu í hálft til eitt ár myndi íslenska þjóðin einfaldlega deyja úr hungri.
Einar bendir á að fiskiskipa- flotinn gangi allur fyrir dísilolíu, áliðnaðurinn treysti á inn- og útflutning knúinn af dísil, ferðamenn fljúgi til landsins á flugvélum knúnum steinolíu, sem sé í raun dísilolía, og séu síðan keyrðir um allt land á dísilknúnum farartækjum. Þarna eru komnar þrjár helstu stoðirnar undir íslenskt efnahagslíf, sem allar eru knúðar dísli. Svo má nefna dráttarvélar í landbúnaði og ýmiss konar vinnuvélar.
Einar segir gagnrýnivert að engin ríkisstofnun vinni að rannsóknum á lífdísli. Miklir fjármunir hafi farið
í rannsóknir á vetni, sem litlu hafi skilað. Í ljósi mikilvægis dísilolíunnar fyrir íslenskt samfélag sé einboðið að mun meiri rannsóknir þurfi að gera á staðgengli hennar. Hann nefnir Jón Bernódusson hjá Siglingastofnun sem frumkvöðul í rannsóknum á repjuolíu.
Borgarstjórinn hættur, fjölmiðlastjórinn í vanda
25.8.2011 | 13:51
Hinn raunverulegi borgarstjóri Reykjavíkur, gafst upp og gerist framkvæmdastjóri þekkingarseturs. Eftir situr fjölmiðlastjórinn, Jón Gnarr Kristinsson, með sárt ennið.
Hvað á hann nú að að gera? Sumir myndu ráðleggja honum að halda áfram sínu einfalda striki, sinna opnunum, vígslum, skemmtunum, hanastélsboðum, skjóta úr rásbyssu og klæða sig í konuföt.
Aðrir myndu ráðleggja honum að ráða einhvern annan í starf borgastjóra, einhvern sem hefur vit á fjármálum og rekstri, hefur nef í pólitík.
Svo eru þeir til sem munu segja; Blessaður hættu nú þessari vitleysu áður en þú skemmir eitthvað meira.
Regína Ásvaldsdóttir hefur verið hinn raunverulegi borgarstjóri Reykjavíkur. Hún hefur sinnt öllum leiðinlegu verkefnunum; bókhaldinu, uppgjörinu, fjármálum, ráðningamálum, niðurskurðinum og svo framvegis. Fjölmiðlastjórinn, Jón Gnarr, hefur séð um skemmtilegu verkefnin. Regína hefur staðið sig afskaplega vel en skiljanlegt er að hún vilji núna hætta í því starfi þar sem félagsskapurinn er skelfilega lítið skapandi. Er ekki ástæða til að þakka henni fyrir vel unnin störf. Hvar væri borgin ef hennar hefði ekki notið við á þessum síðustu og verstu tímum?
Regína stýrir þekkingarsetri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lygileg orðanotkun vinstri manna
25.8.2011 | 12:52
Stundum koma alþingismenn ekki auga á hið augljósa. Svipað eins og að sjá ekki tréin fyrir skóginum ... Ólína Þorvarðardóttir, segir um kvótafrumvarp sitt í Mogganum í morgun:
Við vissum það þegar við fórum að boða þessar breytingar að það væru hagsmunaöfl í landinu sem myndu krækja höndum saman til þess að standa í vegi fyrir þeim, og fjármálastofnanir eiga auðvitað hagsmuna að gæta, segir Ólína.
Er það svo undarlegt að fjármálastofnanir eigi hagsmuna að gæta hjá þeim aðilum sem þær hafa lánað til? Nei, þess vegna eru fjármálastofnanir hagsmunaöfl.
Er það svo undarlegt að Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, sjómenn og útgerðarmenn auk stjórnmálaflokka hafi lýst sig á móti kvótafrumvarpinu? Nei, auðvitað ekki.
ASÍ telur að verði frumvarpið að lögum muni atvinnuleysi aukast, SA telur gjaldþrot fyrirsjáanleg verði það að lögum og fleiri eru á þessari skoðun. Jafnvel Landsbankinn gaf út ítarlega skýrslu um málið og varar eindregið við því.
Hefði ég staðið fyrir þessu frumvarpi myndi ég líklega endurskoða afstöðu mína. Að öllum líkindum kæmist ég að þeirri niðurstöðu að frumvarpið væri gallað. En Ólína sér enga galla á málinu og veit miklu betur en allir umsagnaraðilar til samans - enda eru þeir hagsmunaaðilar ...
Þegar fjölmargir taka höndum saman og vara við atvinnuleysi, gjaldþrotum og stórkostleg tapi ríkissjóðs vegna eins frumvarps er ekki ástæða til að taka tillit til þeirra?
Svo er það alveg stórmerkilegt hvernig orðanotkun vinstri manna er lygileg. Hagsmunasamtök er greinilega vont orð og á að gera þá sem teljast til þeirra afar tortryggileg. Höfum samt í huga að öll höfum við hagsmuni af fjölmörgum málum. Sjúklingar geta myndað hagsmunasamtök sem hafa það að markmiði að tryggja faglega umönnun þeirrra. Sama er með aldraða, foreldra, atvinnurekendur, atvinnulausa og raunar allan almenning, við erum hagsmunaaðilar af ýmsu tagi. Og það er ekkert ljótt við það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)