Án díselolíu deyr íslenska þjóðin úr hungri ...

Las í morgun ansi góða fréttaskýringu í Fréttablaðinu um Orkuskipti í samgöngum, skrifuð af Kolbeini Óttarsyni Proppé, blaðamanni. Með greininni er rammaviðtal við Einar Einarsson vélaverkfræðing.

Mér finnast skoðun Einars svo ákaflega merkileg að ég endurbirti klausuna í heild sinni.

Einar Einarsson vélaverkfræðingur gagnrýnir stjórnvöld fyrir að stuðla ekki að frekari rannsóknum á lífdísel. Fólksbílaflotinn sé vissulega mikilvægur en hann sé í raun kremið á kökunni. Þægindi sem megi leysa öðruvísi.

„Mér finnst menn oft loka augunum fyrir hinu óskaplega mikilvægi dísilolíunnar fyrir íslenskt efnahagslíf og matvælaöryggi. Ef við misstum dísilolíu í hálft til eitt ár myndi íslenska þjóðin einfaldlega deyja úr hungri.“

Einar bendir á að fiskiskipa- flotinn gangi allur fyrir dísilolíu, áliðnaðurinn treysti á inn- og útflutning knúinn af dísil, ferðamenn fljúgi til landsins á flugvélum knúnum steinolíu, sem sé í raun dísilolía, og séu síðan keyrðir um allt land á dísilknúnum farartækjum. „Þarna eru komnar þrjár helstu stoðirnar undir íslenskt efnahagslíf, sem allar eru knúðar dísli. Svo má nefna dráttarvélar í landbúnaði og ýmiss konar vinnuvélar.“

Einar segir gagnrýnivert að engin ríkisstofnun vinni að rannsóknum á lífdísli. Miklir fjármunir hafi farið

í rannsóknir á vetni, sem litlu hafi skilað. Í ljósi mikilvægis dísilolíunnar fyrir íslenskt samfélag sé einboðið að mun meiri rannsóknir þurfi að gera á staðgengli hennar. Hann nefnir Jón Bernódusson hjá Siglingastofnun sem frumkvöðul í rannsóknum á repjuolíu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einar segir gagnrýnivert að engin ríkisstofnun vinni að rannsóknum á lífdísli.

Hann nefnir Jón Bernódusson hjá Siglingastofnun sem frumkvöðul í rannsóknum á repjuolíu.

Er Siglingastofnun ekki ríkisstofnun?

Tilraunaræktun á repju hófst fyrir tilstilli Siglingstofnunar sumarið 2008, á tíu stöðum víðsvegar um landið. Fyrsta uppskeran skilaði sér ári seinna með miklum ágætum, og tilraunir til að pressa úr henni olíu hafa gefið góða raun en hana má nýta sem eldsneyti á venjulegar dísilvélar. Sumarið 2010 var íslensk repjuolía prufukeyrð með táknrænum hætti þegar hún var notuð til að knýja ráðherrabíl samgönguráðherra sem er LandCruiser jeppi með venjulegri dísilvél. Vorið 2011 fékk Siglingastofnun afnot af húsnæði í eigu olíufélagsins N1 þar sem nú er unnið að því að pressa olíu úr repjunni, en fyrirtækið hyggur á sókn á þennan markað í framtíðinni.

Greinargerð Siglingastofnunar Íslands um verkefnið: Umhverfisvænir orkugjafar. Ræktun á repju og nepju til framleiðslu á lífrænni dísilolíu fyrir íslenska fiskiskipaflotann.

Miklir fjármunir hafi farið í rannsóknir á vetni, sem litlu hafi skilað.

Stór hluti þeirra fjármuna held ég að hafi komið frá Daimler-Benz í Þýzkalandi, en auðvitað má deila um hversu miklu þeir hafi skilað. Á Íslandi hefur verið opnuð fyrsta almenna og varanlega áfyllingarstöðin í heiminum fyrir vetnisbíla af öllum stærðum og gerðum, og allnokkrir slíkir eru skráðir til almennrar notkunar á götum landsins. Þó þetta sé auðvitað bara rétt svo byrjunin, þá setur þetta Ísland samt í allra fremstu röð í vetnisvæðingu á heimsvísu.

Nokkur íslensk fyrirtæki og bílaverkstæði hafa einnig verið að prófa sig áfram með aukabúnað í bensínbíla til að keyra þá á blöndu af vetni og bensíni og ná þannig fram hreinni bruna og betri eldsneytisnýtingu.

Framfarir og breytingar í þessum bransa eru vissulega hægfara. Ég myndi þó segja að þær séu síst hægari hér á landi en annarsstaðar.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.8.2011 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband