Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
Aumlegt yfirklór forsætisráðherra
24.3.2011 | 14:04
Forsætisráðherra hefur brotið jafnréttislög. Um það er ekki hægt að deila. Hún er æðsti yfirmaður í forsætisráðuneytinu og ber ábyrgð á öllum þeim störfum sem þar eru unnin. Verði einhverjum á mistök, ber hún ábyrgð. Brjóti einhver lög, ber hún ábyrgð. Það getur ekki verið flóknara.
Þessu til viðbótar skal þess getið að í ráðuneytinu starfar 41 maður, þar af níu manns á skrifstofu yfirstjórnar, sem hafði með höndum ráðninguna. Á svona litlum vinnustað er útilokað annað en að forsætisráðherra viti hvað sé verið að vinna og hverjir sinni hvaða störfum. Getur nokkur sem til þekkir fullyrt að forsætisráðherra, stjórnmálamaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir, hafi ekki vitað eða fylgst með ráðningu skrifstofustjóra?
Auðvitað vissi konan um ráðninguna og allan ferilinn. Og auðvitað var borið undir hana hvern hún vildi fá sem skrifstofustjóra. Það liggur í hlutarins eðli.
Þar af leiðandi er það meira aumingjans yfirklórið hjá Jóhönnu að kenna ráðgjöfum forsætisráðuneytisins um ráðninguna eða starfsfólkinu.
Ég veit hreinlega ekki hvort er verra fyrir Jóhönnu, sem aldrei tekur nokkrum ábendingum, að kenna öðrum um ákvörðina, hafa vísvitandi brotið jafnréttislögin sem hún sjálf setti eða þá að vera svo slæmur stjórnandi að hún hafi enga stjórn á ráðuneyti sínu.
Hvað sem tautar og raular ber æðsti yfirmaður í ráðuneytinu hina endalegu ábyrgð. Hins vegar er sá sem stöðunni gegnir þekkt fyrir að fara sínu fram hvað svo sem lög og reglur segja.
![]() |
Gat ekki sniðgengið matið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekki lengur fyndið
23.3.2011 | 14:35
![]() |
Grafalvarleg staða ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frekar vafasöm ferðasaga ...
23.3.2011 | 09:44

Margt vantar í þesssa frétt til að glögg mynd fáist af ferðalagi mannsins. Hvar hóf hann ferðina og hvar endaði hann hana? Þeir vita sem þekkja til, gönguskíðamenn, jeppamenn og vélsleðamenn, að það er fífldirfska að keyra áfram í blindu færi.
Þeir sem hafa fyrir sér trausta gps leið geta svo sem lullað áfram á vélsleða eða í jeppa en maður hangandi í segli er berskjaldaður fyrir óhöppum. Ég trúi því einfaldlega ekki að maðurinn hafi siglt áfram á skíðum í eins metra skyggni á 50 km hraða. Það er bara eins og að loka augunum og renna sér niður fjallshlíð, taka sjensinn á að lenda ekki á grjóti eða ofan í gili eða gljúfri.
Líklegast hefur hann hætt ferðinni einhvers staðar fyrir norðan Nýjadal þegar skafrenningurinn varð honum ofviða.
Hins vegar kemur það heim og saman við mína reynslu að maðurinn skuli hafa orðið svona afskaplega þreyttur í fótunum. Það reynir gríðarlega á fætur að standa og stýra sér á 50 km hraða og enn verra er þegar ferðast er um á skara.
Svona apparat eins og Frakkinn brúkaði hafa lengi verið í notkun. Þetta eru einfaldlega segl. Fyrstu útgáfurnar voru eins og fallhlífar og þegar Tjaldborg fór að framleiða slík tæki voru þau nefnd orðskrípinu fjallhífar ekki vegna þess að þau hífðu upp fjöll heldur áttu þau að hífa notandann upp fjallshlíðar.
Við félagarnir ákváðum að einfaldlega orðið segl og til hátíðarbrigða orðið vindgreip enda tækið miðað við að grípa vindinn og ferðast með honum. Þegar í harðbakkan sló var nú tækið oftast kallað golugreip, vegna þess að þegar það var dregið upp skall oftast á blankalogn og skíðamenn stóðu eins og illa gerðir hlutir og biðu vindsins.
Við notuðum vindgreipina oft. Sigldum einhverja metra á Vatnajökli, upp á Eyjafjallajökul, fórum milli Landmannalauga og Þórsmerkur að hluta með aðstoð vindgreipar og svo framvegis. Í mestri hættu lentum við hins vegar í upphafi er við vorum að prófa vindgreiparnar á ísilögu Rauðavatni. Þá hvessi svo hressilega að einn félagi okkar þaut yfir vatnið á örskotsstundu og var nærri því orðinn fyrir bíl á Suðurlandsvegi.
Við annað tækifæri komst góður vinur minn á gott skrið á vindgreip en lenti á girðingu, gat ekki losað sig vegna þess að hann þurfti að bakka en hvass vindurinn togaði hann með afli í öfuga átt. Þar lá hann fastur með kvölum uns hlátri nærstaddra linnti og þeir losuðu hann úr klípunni.
Meðfylgjandi mynd er tekin á Vatnajökli fyrir um tuttugu árum og þar er á ferð skíðamaður með vindgreip en athygli vakir afturhlaðinn bakpoki.
![]() |
Hræddist á miðri leið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Icesave tilboð bæjarstjórnar Akureyrar
22.3.2011 | 23:39
- Hringvegurinn verði allur með bundnu slitlagi.
- Hvergi verði einbreiðar brýr.
- Hringvegurinn verði alls staðar jafn breiður (það er hann alls ekki).
- Skilið verði alls staðar á milli akstursstefna.
- Af verði teknar þúfurnar, hringvegurinn verði einfaldlega sléttur.
- Kröppu beygjurnar verði lagaðar af.
- Vegarhlutar þar sem slys hafa orðið verði endurhannaðir.
- Vegrið verði tekin upp þar sem hætta er á útafkeyrslu.
- Öfugur hliðarhalli verði hvergi á hringveginum.
- Lögð verði áhersla á að tvöfalda hringveginn.
- 300.000.000 krónur á mínútuna
- 214.000.000 krónur á hvern kílómetra
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
DV verður að standa í lappirnar
22.3.2011 | 21:06
Fjölmiðlar þurfa að vernda heimildarmenn sína. Að öðrum kosti er úti um fréttaöflun þeirra. Heimildarmenn og gögn þeirra eru eitt og hið sama. Hvort tveggja þarf að varðveita.
Margt má eflaust um DV segja en eitt er þó víst að forráðmenn blaðsins verða að standa í lappirnar í málinu að öðrum kosti bíður frjáls fjölmiðlun gríðarlega hnekki og traust almennings á þeim mun hverfa. Málareksturinn á því ekki aðeins við DV heldur alla aðra fjölmiðla hér á landi.
![]() |
Úrskurðurinn hneyksli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þau þrjú ætla ekki að fella stjórnina
22.3.2011 | 16:40
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, er samherji Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur. Enginn munur á viðhorfi þessara þriggja og í sjálfu sér undarlegt að hann hafi ekki fylgt þeim úr þingflokknum.
Þegar nánar er skoðað kemur hins vegar allt annað í ljós. Brotthvarf tvímenninganna var í raun yfirlýsing þeirra fyrir hönd grasrótarinnar í flokknum um að hann væri á kolrangri leið í svo mörgum málum og þrátt fyrir tveggja ára ríkisstjórnarsetu hefur ekkert gerst. Mistökin eru of mörg. Atvinnuleysið er of hátt, Icesave vofir yfir, ESB, óánægja er með Bankasýslu ríkisins og fleira og fleira.
Þau tvö, eða ætti ég að segja þrjú, ætluði ekki að fella ríkisstjórnina. Þeim hugnast ekki óvissa um stjórnarþátttöku og búast jafnvel við stjórnarandstöðu falli ríkisstjórnin. Það varð því niðurstaðan að skilja króann eftir. Þess vegna fóru þau ekki þrjú úr flokknum. En síðan er bara spursmálið hvort hann klofni ekki og tveir ráðherrar fylgi Ásmundi úr flokknum.
Það er borin von að VG sé stjórntækur flokkur. Til þess er hann of sundurleitur og óstýrlátur. Í eðli sínu er hann stjórnarandstöðuflokkur. Þegar þannig flokkur kemst í ríkisstjórn endar allt með ósköpum vegna þess að hann getur ekki einu sinni farið eftir eigin stefnumálum.
![]() |
Ásmundur áfram í þingflokki VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
... fáein ungbarns tár
22.3.2011 | 14:46

Sú aðferð að gráða náttúruna og gera lista yfir fallegustu fossa heims er álíka vitlaus og fegurðarsamkeppni kvenna. Hvort tveggja er í eðli sínu forheimskandi því þetta byggist á smekk, aðstæðum og mörgu fleiru. Fegurðin fólks býr að innan. Að minnsta kosti finnst okkur ljóta fólkinu það ...
Náttúrufegurð byggist á mörgu. Þegar ég starfaði innan Útivistar gerðum við nokkrum sinnum viðhorfskannanir meðal farþega félagsins. Í ljós kom sú ótrúlega staðreynd að allar ferðir voru góðar eða mjög góðar. Veður skipti engu máli, mistök fararstjóra, lélegar rútur eða óhöpp. Ferð var einfaldlega góð vegna þess að fólk naut útiveru og hreyfingar, endorfínið fékk að streyma um æðarnar og gleðin jókst.
Einn fallegasti foss sem ég hef séð er nafnlaus að ég held. Hann sá sem verður til fyrir neðan útfallið á Hólmsarlóni. Umhverfið er afar látlaust og græni liturinn ráðandi.
Gullfoss er svo sem fallegur og tignarlegur en hvernig orti ekki Matthías Jochumsson um Dettifoss:
Þó af þínum skalla
þessi dynji sjár
finnst mér meir ef falla
fáein ungbarns tár.
Jú, Gullfoss er glæsilegur en hann hefur aldrei heillað mig eins og litlu fossarnir, jafnvel þessir nafnlausu sem fela sig víða um land. Hvað með svo fossa eins og Stjórn, Foss á Síðu og fleiri og fleiri.
![]() |
Gullfoss með fallegustu fossum heims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ár frá gosinu á 5VH, upprifjun
21.3.2011 | 23:59

Fyrir nákvæmlega gerðist nokkuð sem gerði það að verkum að mér krossbrá og ég fékk dálítið kvíðakast. Jú, það er rétt, þann 21. mars 2010 hófst gosið á Fimmvörðuhálsi. Nákvæmlega þá var ég staddur á heimili sonar míns og tengdadóttur og ég var að passa.
Og svo gerist það um eitt leytið að tilkynning kemur um að gos sé hafið og það sé líklega í Eyjafjallajökli. Ég var nokkuð snjall þessa nótt og dró fram tölvuna og bloggaði. Leitaði heimilda og sá m.a. að bjarminn frá gosinu sást á vefmyndavél RÚV á Búrfelli. Engum hafði hugkvæmst á þessum tíma að skoða hana. Með því að miða út bjarmann sá ég fljótt að gosið var á Fimmvörðuhálsi. En hvar? Ég var ekki viss.
Sem sagt, mér brá við fréttirnar um gosið og að mér sótti kvíði þegar mér skildist að gosið væri á Fimmvörðuhálsi sem ég þekki svo vel. Ég var mjög svartsýnn og skrifaði þetta kl. 01:47 um nóttina:
Samkvæmt ógreinilegri mynd á mbl.is er trúlegast að eldsumbrotin séu á Fimmvörðuhálsi eða mjög neðarlega í Eyjafjallajökli austanverðum. Sama er að segja með vefmyndavélina á Búrfelli. Bjarminn virðist lýsa upp austurhlið Eyjajfallajökuls. Þetta hefur fengiðst staðfest á viðmælanda hjá fréttastofu Útvarps sem segir að kosið sé beint norðan við Skógafoss. Þar með má búast við að Fimmvörðuskáli sé farinn eftir tuttugu ár.

Við hjá Útivist höfðum byggt skála á Fimmvörðuhálsi 1991, lent þar í hrikalegum vandræðum og málferlum við vont fólk, en haft sigur. Nú var ég reglulega hræddur um að Fimmvörðuskáli væri horfinn. Ég velti málunum fyrir mér og bloggaði aftur kl. 02:16 og sagði þá meðal annars:
Sé þetta rétt að gosið sé ekki í jökli þá er lítil hætta á vatnsflóði. Á móti kemur þá hraun og mikið öskufall. Fimmvörðuskáli stendur á háum hrygg og fyrir norðan hann er mikil slétta sem var áður full af ís en er nú svo til tóm. Handan sléttunnar er hryggir og þar norðan við hallar niður í Hvannárgil og nokkru austar í Hruna.
Ég sá fram á mikið öskufall en ekki mikið hraun. Hins vegar reyndist hraunið vera mikil skemmtun fyrir fréttamenn og ferðamenn og þá var orðið sjónarspil svo ofnotað að jaðraði við misnotkun.
Svo þykknaði þó í mér þegar fréttamenn fór ítrekað rangt með staðarnöfn og kölluðu Goðaland æ ofan í æ Þórsmörk. Rugl í landafræði mega ekki gerast hjá fjölmiðlum og þess vegna sagði ég í blogginu:
Svo er ekki úr vegi að beina því til fréttamanna að þeir fari rétt með staðarnöfn. Norðan undir Fimmvörðuhálsi er Goðaland og raunar fleiri svæði. Þórsmörk er norðan Krossár.

Reyndar þurfti ég sífellt að þurfa að leiðrétta fjölmiðla en enginn las bloggið mitt nema vingjarnlegt fólk sem tók undir mér mér. Verra var þegar yfirvöld; lögregla, sýslumaður, almannavarnir og fleiri gáfustofnanir beruðu þekkingarleysi sitt í landafræði. Síðar átti ég samtal við lögreglumann í Básum sem vissi varla hvar á landinu hann var staddur - eða þannig ... en það er nú önnur saga.
Mér var stórskemmt þegar ég fékk hringingu um tvö leytið um nóttina frá félögum mínum, þeim Óla Þór Hilmarssyni og Reyni Sigurðssyni, fjallamönnum í Útivist, en þeir voru komnir á stjá og reyndu hvað þeir gátu til komast framhjá lögreglunni sem lokað hafði Suðurlandsvegi.
Um síðir gátu þeir komist að Keldum og sáu þar nægilega mikið til gosstöðvanna að þeir gátu staðfest við mig að gosið væri norðan í Bröttufannarfelli. Okkur félögunum var mikið létt. Fimmvörðuskáli var þá óhultur. Og þá bloggaði ég meðal annars klukkan 03:02:
Viðmælandi Rúv í Fljótshlíðinni lét svo um mælt fyrir nokkrum mínutum að gosbjarmann bæri í Rjúpnafell. Það þýðir einfaldlega að gosið er á miðjum Hálsinum. Öruggt má telja að þetta sé gos í einum gíg og úr honum komi hraun sem fellur að öllum líkindum niður í Hvannárgil. Má þá telja að Básar séu ekki í hættu en Hvannárgil er langt en mynni þess horfir í Langadal þar sem skáli Ferðafélagsins er. Fylgi hraunrennsli þessu gosi má ætla að langur tími líði þar til hraunið nái út úr gilinu nema það sé þeim mun þunnfljótandi.
Sem betur fer var ég ekki sannspár um að hraunið myndi ná út úr Hvannárgili. Hraun féll ekki í það fyrr en í lok gossins. Mest féll í Hrunárgil, það tók lengi við og entist gosið ekki til að fylla það né að koma hrauninu út úr gilinu.
Næst bloggaði ég kl. 04:41 og skammaðist þá enn einu sinni vegna bágborinnar landfræðiþekkingar fréttamanna og annarra sem um gosið fjölluðu.
Eftir þetta fór ég bara að sofa. Sem betur fer voru barnabörnin góð og vær og ég gat haft mína hentisemi í blogginu.
Sex tímum síðar vaknaði ég með andfælum, datt í hug, eiginlega í svefni, að nota myndir og kort með pistlunum. Það reyndist hið mesta þjóðráð enda var mikil þörf á slíku.
Á meðfylgjandi korti sem fengið var að láni hjá ja.is hefur sprungan verið merkt inná með rauðum lit. Þó er ekki víst að hún sé svona löng. Gossprungan er í stefnunni norðaustur, suðvestur sem er nokkuð þvert á hefðbundnar stefnur á Hálsinum en þá liggja flestar í austur vestur. Smella má á mynd og kort til að stækka.
Þar sem gossprungan er hallar niður í eitt af afgilum Hvannárgils. Hallinn er lítill á þessum slóðum en eftir því sem komið er nær gilinu eykst hallinn.
Ég held að nákvæmlega á þessum slóðum hafi orðið eitthvað jarðsig fyrir nokkrum árum. Margir töldu það fyrirboða um eldsumbrot en svo gerist ekkert fyrr en mörgum árum síðar.
Samkvæmt myndum virðist hraunrennslið ekki vera mikið og öruggt má telja að ekkert bendi enn til þess að hraun sé farið að renna niður í Hvannárgil.
Kortið var eiginlega með þeim fyrstu sem birtust og sýndu staðsetningu gossins. Önnur kort birtust ekki fyrr en líða tók á daginn. Eftir þetta skrifaði ég hver pistilinn á fætur öðrum og afköstin voru slík að ég náðu óskiljanlegum hæðum á vinsældarlista bloggsins á mbl.is, nokkuð sem ég hafði aldrei hugsað um. Var svona frekar montinn þegar heimsóknir náðu dag eftir dag yfir tuttugu þúsund. Mest urðu þær 24.292 þann 28 mars. Það met held ég að ég muni seint slá.
Mestu skipti um vinsældir bloggsins að ég notaði kort og myndir. Setti örnefni inn á myndir, lýsti staðháttum og reyndi að gefa lesendum mínum eins góðar upplýsingar og þekking mín leyfði. Því miður fór ég stundum fram úr mér. Enga þekkingu hef ég til dæmis á jarðfræði en lét það bar alls ekki trufla frásögnina og fékk stundum bágt fyrir. Það sem gladdi mig þó mest voru vinsamlegar athugasemdir, hrós og hvatningar sem ég fékk á meðan ég skrifað um gosið á Fimmvörðuhálsi og síðar í Eyjafjallajökli.
Toppurinn var að birta góða pistla með skýringarmyndum og kortum. Verst var að fara rangt með og það alversta var eitt sinn er ákefðin þeysti fram úr skynseminni og ég bullaði eitthvað um jarðskjálfta á 99 km dýpi undir Eyjafjallajökli. Vinsamlegir lesendur bentu mér í kurteisi á að ég hefði mislesið töflu um jarðskjálfta hjá Veðurstofunni og tekið 99% áreiðanleika fyrir 99 km dýpi. Ég eyddi færslunni um leið og þetta komst upp og hef skammst mín síðan.

Jæja, þessi færsla var nú bara til minningar um gosið á Fimmvörðuhálsi. Þykir afar vænt um þann stað rétt eins og Eyjafjallajökul þó hann sé nú mikið spjallaður.
Örlögin höguðu því þannig að aldrei komst ég að gosstöðvunum meðan Óli Þór og Reynir vinir mínir voru þar nánast fastagestir og sáu jafnvel jörðina rifna og nýjan eldgíg verða til. Ég fékk einhverja fjandans flensu og komst ekki á ról fyrr en í lok gossins og þá var eiginlega allt fjörið búið.
Áðurnefndir félagar mínir gengu um daginn á á Eyjafjallajökul og lituðust um við gíginn. Auðvitað átti ég að vera þar en hvar var ég þess í stað?
Jú, ég var að passa barnabörnin, rétt enn einu sinni. Þeim hafði nýlega fjölgað um eitt. Og hvaða sjéns á einn jökull á móti þremur fallegum börnum. Ekki nokkurn!
En félagar mínir spyrja í forundran hvers konar kelling ég sé orðinn. Meðfylgjandi mynd létu þeir helvískir taka af sér, glottandi þarna við gíginn stóra, Guðnasteinn í baksýn. Og svo símsendu þeir mér hana bara til að ergja mig. Mér er svosem alveg sama, þetta hefur örugglega verið hundleiðinleg ferð ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2011 kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Andlát ríkisstjórnar rætt við tækifæri
21.3.2011 | 13:18
Tveir segja sig úr fimmtán manna þingflokki. Öðrum þingmönnum þykir þetta eiginleg ekkert tiltökumál. Við ræðum þetta líklega síðar í dag ..., segir einn ráðherranna. Virðist þó ekki viss.
Nei, það er engin krísa í þingflokknum. Allt er í stakasta lagi. Farið hefur fé betra. Við erum svo upptekin að byggja upp nýtt Ísland eftir hrunið að smámálin komast ekki á borð hjá okkur.
Auðvitað er þetta tómt bull. Það sjá allir. Það er krísuástand í þingflokkum VG og Samfylkingarinnar. meirihlutinn er orðinn 33 þingmenn. Þá eru taldir með villingar eins og Jón Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason og öllum til skemmtunar er flokkaflakkarinn Þráinn Bertilsson. Jafnvel Ögmundur Jónasson er talinn til óþekktarormanna og Björn Valur Gíslason hefur látið að því liggja að hann nenni ekki þingstörfum.
Svo láta einhverjir eins og það skipti ekki máli þó fjöðrunum fækki.
Náttúruhamfarir skekja þingflokk VG og ríkisstjórnina og þingflokkurinn ætlar ekki að fjalla um málið fyrr en við tækifæri.
Þetta er nú einmitt ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur misst af hverju tækifærinu á eftir öðru til að bæta hag þjóðarinnar. Hún gerir sér enga grein fyrir stöðu sinni. Ríkisstjórnin er löngu dauð en líkið gerir sér ekki grein fyrir því. Fundar kannski um andlát sitt við tækifæri ...
![]() |
Þingflokkur ræði úrsögn síðar í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Brotthvarf Lilju og Gísla skipti engu máli
21.3.2011 | 11:57
Þetta eru nú ekki neinar sérstakar fréttir. meirihluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi er brotgjarn vegna þess að hann er ekki byggður á sameiginlegri stefnu heldur framar öllu andstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum og ákefð í valdastólanna. Hvort tveggja er ekki grunnur fyrir stjórnmálaþátttöku.
Málefnalega er ríkisstjórnin á hnjánum og hefur verið það frá upphafi. Brotthvarf Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar skiptir þar engu máli.
![]() |
Ætla ekki að styðja stjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |