Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

bubbar, bjöggar, helgar, siggur ...

Mikið getur maður glaðst yfir velgengni hins hógværa og hæfileikaríka tónlistarmanni sem gegnir nafninu Mugison. Þó ekki væri nema vegna þess að um leið beinast augu fjölmiðla frá öðrum alltofmikiðumfjölluðum hetjum íslenskra tónlistar, bubbunum, bjöggunum, helgunum, siggunum og öllum þeim sem endalaust er sagt frá. Vart má opna fjölmiðil svo ekki sé sagt frá því hvað þessir bubbar, bjöggar, helgar, siggur og aðrir kærleikspáfar borða, nota, sofa, dvelja, hugsa ...

Svo rammt hefur að þessu kveðið að fjölmiðlarnir eru komnir með innantökur af samviskubiti og fyrir löngu farnir að iðka fjölmiðlasirkús, það er fjölmiðlamenn gera öðrum fjölmiðlamönnum skil í viðtölum og mannlífsmyndum af öllu mögulegu tagi. Við meðaljónarnir þekkjum því orðið tónlistarmenn og fjölmiðlamenn óþægilega mikið, jafnvel betur en eigin foreldra eða systkini. Hver biður eiginlega um þetta?

Óskandi væri ef Mugison fengi að sinna tónlist sinni án þess að skuldbinda sig til að segja fjölmiðlunum stöðugt frá því hvernig hægðir hans eru á litinn, hvað hann hafi fengið í morgunmat, hvort hann sé með ilsig, sé afturbata alkóhólisti eða eiturlyfjaneytandi, hafi verið í laxveiði, gengið á Hornstrandir eða skrölt Laugaveginn frá Snorrabraut og niðrúr ...

Kúdd-nott-ker-less, eins og úllingarnir segja á amrísku.


mbl.is Engir miðar eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbjörn, Tvíbjörn og hinir bræðurnir

Skrýtið hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á íslenskum vefmiðlum. Einn birtir óstaðfesta frétt og giskar í fljótheitum á hvers vegna Ingjibjörg Sólrún hefði sagt sig úr Samfylkingunni.

Annar vefmiðill birtir fréttina með tilvísun í hinn og býr um leið til sögu með því að framkvæmdastjóri flokksins vilji ekki tjá sig um nöfn þeirra sem sagt hafa sig úr flokknum né ástæður.

Loks birtir fréttastofa RÚV viðtal við konuna sem um ræðir og segist hún vera enn í flokknum og hafi bara alls ekki sagt sig úr honum.

Fjórði fjölmiðilli eltir svo þann þriðja og endurtekur innihald fréttarinnar.

Einbjörn togaði í Tvíbjörn ...

Með þessu móti má áreiðanlega dag hvern fylla íslenska vefmiðla með óstaðfestum og staðfestum sögusögnum út í það endalausa ... 

Minnir allt á innbyrðis samskipti bankanna fyrir hrun. Allir keyptu í hinum og í skyldum fyrirtækjum á vegum þeirra. Síðan fór allt í hrikalega bendu sem enn er verið að greiða úr á kostnað skattborgaranna.

Hvað skyldi nú kosta að halda úti skynsamlegum fjölmiðli, sæmilega íhaldssömum, sem ekki hleypur eftir skúbbi heldur kappkostar að segja réttar fréttir og góðar fréttaskýringar á því sem þegar hefur gerst? 


mbl.is Ingibjörg enn í Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moggabloggið þarf að breytast

Í nákvæmlega fimm ár hef ég nýtt mér bloggþjónustu Morgunblaðsins og kann þokkalega við mig. Miklu skiptir að vefútgáfa blaðsins er yfirleitt ágætlega skrifuð, þar koma að verki margir afbragðsgóðir blaðamenn og útlit og hönnunin tekur reglulega jákvæðum breytingum.

Eitt er þó það sem ekkert hefur breytst frá því 2006 og það er format bloggsins. Þá þegar var það stirt og óþægilegt í notkun og enn hefur ekkert breytst þrátt fyrir stórstígar, tæknilegar framfarir í tölvum og forritun. Því gerist ég afar þreyttur. Sérstaklega vegna þess hve þunglamalegt er að nota þetta kerfi, verst er þó hvað það er leiðinlegt.

Og hvað er svo sem að? Jú nefna má þetta:

  • Grafískur hamur er ekki „default“, ekki það fyrsta sem upp kemur.Hef enga trú á því að margir noti „HTML-ham“. Ástæðan er fyrst og fremst sú að fólk vill sjá það sem það fær (What You See is What You Get).
  • Ljósmyndir takmarkast við .jpg format. Ekkert val, engir kostir. Vinnslutíminn mynda er fáránlega langur.
  • Meðhöndlun texta hefur ekki tekið neinum breytingum. Textastærð er ekki sjáanleg, nauðsynlegt er að prófa sig áfram til að finna þá réttu. Einungis er boðið upp á eina leturtegund.
  • „Drag and drop“ er ekki til, þ.e. ekki er hægt að draga texta eða myndir yfir í bloggið.
  • Stjórnborðið er leiðinlega flókið, síst af öllu neytendavænt.
  • Upplýsingar eru allar frekar faldar eða vantar.
  • Og fleira má áreiðanlega draga upp.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig staðan er hjá öðrum fjölmiðlum eða hjá öðrum aðilum sem bjóða bloggvistun. Það breytir því ekki að bloggformatið hjá Mogganum virðist vera frekar frumstætt. Af hverju er til dæmis ekki unnið að því að búa til hjálplegar tengingar? Nefna má tengingu við kort eða loftmyndir eins og Samsýn gerir fyrir ýmsa aðila, t.d. ja.is.

Sumir halda því fram að Mogginn hafi engan áhuga á blogginu, sé eiginlega að reyna að losa sig út úr því. Ég vona að það sé ekki rétt. 

Staðreyndin er nefnilega sú að bloggpistlar geta verið gríðarlega upplýsandi. Í þjóðféalginu er fjöldi fólks sem hefur góða þekkingu á fjölmörgum málum og geta í bloggi sínu eflt fjölmiðlanna og styrkt. Þetta er að minnsta kosti ástæða til að uppfæra bloggformatið hjá Mogganum.


Makkinn er víruslaus

Tölvur frá Apple eru ekki með vírusa, það er óumdeilanleg staðreynd. Þetta má ég fullyrða án þess að nein opinber stofnun skipti sér af. Ég get líka fullyrt að tölvur og tæki frá Apple eru að mínu mati miklu, miklu betri en samkeppnisaðila fyrirtæksins.

Hins vegar má umboðsaðili Apple-tölva ekki segja þetta í auglýsingum eftir því sem Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri epli.is segir í grein á blaðsíðu 15 í Fréttablaðinu í dag. Hann segir:

Þetta byggir á þeirri einföldu staðreynd að fyrirtækið hefur ekki, eftir margra ára starfsemi, fengið vélar til viðgerðar þar sem vírusa hefur verið að finna. Stjórnendur fyrirtækisins töldu sig vera í fullum rétti til að segja frá þessu. Þess má einnig geta að á heimasíðu framleiðanda er fullyrt að enga PC-vírusa sé að finna í Apple-tölvum (það er löngu viðurkennd málvenja í íslenskum tölvuheimum að tala um vírusa (en ekki PC-vírusa) þegar kemur að tölvum, enda er þetta sama tóbakið). Mér vitanlega hefur eftirlitsbatteríið í heimalandi Apple ekki fett fingur út í þessa staðhæfingu sem þó hefur verið haldið á lofti svo árum skiptir.

Neytendastofa úrskurðaði nýlega að epli.is ætti að greiða 1,5 milljónir króna vegna þess að í auglýsingu fyrirtækisins er maður nokkur látinn segja þetta:

Ég reyni að lifa ofsalega heilbrigðu lífi. Ég læt helst ekkert ofan í mig nema það sé bara ávextir og grænmeti, lífrænt, makróbíótískt, bíódínamískt, vegan, blessað, enda ég fæ aldrei neinar pestir. Enga vírusa. 

Auðvitað vita allir hvað átt er við. Áður hafði Neytendastofa bannað fyrirtækinu að fullyrða að Apple-tölvur væru ekki með vírusa eins og PC-tölvur fá oft. Þetta er nú engu að síður staðreynd eins og fram kemur hér að ofan.

Bjarni Ákason er eðlilega ósáttur við niðurstöðu Neytendastofu. Hann er hins vegar hvort tveggja, beittur penni og húmorískur og segir því þetta, sem fær lesandann til að hlægja af opinberri stofnun sem er svo ósamkvæm sjálfri sér:

Reglulega glymja auglýsingar á neytendum um að hin eða þessi verslunin selji tilteknar vörur „tax free“. Með þessu er gefið í skyn að varan sé seld án skatta og þá líklega án virðisaukaskatts. [...] ekki kunnugt um neina þá vöru sem viðkomandi verslanir selja án virðisaukaskatts. Þó bregður svo við að Neytendastofa ákvað með úrskurði sínum frá 15. júlí í sumar að ekki væri ástæða til að bregðast við notkun verslana á þessu hugtaki. Þær mega sem sagt halda fram ósannindum í auglýsingum sínum. Það er greinilega sitthvað Jón og séra Jón.

Um þessar mundir heyrist á öldum ljósvakans að menn geti öðlast „Líkama fyrir lífið“ taki þeir þátt í sex vikna líkamsræktarnámskeiði. Sennilega vita flestir að það tekur gott betur en sex vikur að ná sér í gott form og að viðhald þess er lífstíðarverkefni en ekki sex vikna skorpuvinna.

Bifreiðaumboð hér í bæ auglýsir reglulega að það sé „öruggur staður til að vera á“. Algerlega er ómögulegt að skilja hvers vegna bílaumboð getur verið öruggur staður til að vera á. Eiga neytendur að halda að viðkomandi umboð veiti þeim skjól í náttúruhamförum. Leita menn skjóls í húsi umboðsins verði jarðskjálfti?

Á tiltekinni útvarpsstöð sem nú heldur upp á aldarfjórðungsafmæli sitt er því reglulega haldið fram að allir hlusti á stöðina („... allir eru að hlusta“). Engar mælingar, ekki nokkur einasta, sýna slíka hlustun svo vitað sé.

Á Suðurlandsbraut hangir uppi skilti frá símafyrirtæki þar sem fullyrt er að þú ráðir hvað þú borgir. Þetta er náttúrlega firra, fólk ræður ekki hvað það borgar fyrir vörur eða þjónustu sem það hefur keypt. Má ég borga 5-kall?

Íslenskt dagblað hefur um margra áratuga skeið auglýst að það sé „blað allra landsmanna“. Blaðið hefur samt aldrei verið blað allra landsmanna.

Ég hef notað Apple-tölvur næstum því frá upphafi framleiðslu þeirra og aldrei fengið vírus í þær. Fyndnir vinir mínir sögðu hér áður fyrr að ástæðan væri einfaldlega sú að vírusframleiðendum fyndist ekki taka því að búa til vírus fyrir lítinn markað. Markaðshlutdeildin hefur þó stækkað mikið á undanförnum en enn er Makkinn minn víruslaus. Vinir mínir eiga þó í nær eilífum vandamálum með sínar PC-tölvur.


Prófkjör eru betri leið en valnefnd?

Stjórnmálaflokkur hefur að minnsta kosti tvær leiðir til að velja fólk á framboðslista sinn. Annars vegar getur hann haldið prófkjör og boðið flokksbundnum stuðningsmönnum þátttöku eða jafnvel hafa það opið. Hins vegar gæti hann stofnað sérstaka valnefnd sem vel fólk á framboðslistann.

Síðarnefndu aðferðina telur Jónína Michaelsdóttir, fyrrum blaðamaður og öflugur þátttakandi í starfi Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin, vera betri, að minnsta kosti ekki verri en sú fyrrnefnda. Ágæt grein eftir Jónínu birtist á blaðsíðu þrettán í Fréttablaðinu í morgun undir fyrirsögninni „Eru prófkjör besta leiðin?

Ég er ekki sammála Jónínu þó ég sjái alvarlega galla við fyrrnefndu aðferðina. Vandamálið við þá síðarnefndu eru þó að mínu mati verri. Verst er líklega sú einfalda staðreynd að valnefndaraðferðin er ólýðræðisleg, skiptir engu hvernig að málinu er staðið. Sú hætta er alltaf fyrir hendi að einhverjir fái þar meiru um ráðið en aðrir hverjir veljast á framboðslistann. Innan stjórnmálaflokka eru menn ekki alltaf á einu máli um stefnuna og þá er alltaf hætt á því að gagnrýnendur fái ekki sama brautargengi í þröngri valnefnd og í prófkjöri, opnu eða lokuðu.

Tökum sem dæmi einhvern sem er fylgjandi ESB aðild en að öðru leiti með stefnu samhljóða þeirri Sjálfstæðisflokksins. Eða umhverfisverndarmann sem ekki vill virkja lengur á þann hátt sem gert hefur verið á undanförnum árum með hrikalegum umhverfislegum slysum. Eða þann sem er á móti kvótakerfinu í fiskveiðum. Eða þann sem er á móti sérstökum ívilnunum fyrir íslenskan landbúnað. Persónulega finnst mér betra að rökstyðja fall í almennu prófkjöri en í höfnun í fimmtán manna valnefnd. Og þessi rök gilda einnig á hinn veginn.

Vandinn við prófkjörin eru fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis. Sumir hafa þá aðstöðu að geta varið meira fjármagni í þau en aðrir. Á móti kemur að kjósendur eru ekki dómgreindarlausir. Fjölmörg dæmi sanna að fjáaustur í dreifibréf og auglýsingar hafa litlu skilað fjölda til frambjóðenda. Aðrir hafa náð miklum árangri. Á milli skilur skipulag en hönnuðir þeirra eru oft aðkeyptir.

Sá sem hefur hug á að reyna að komast í framboð hjá stjórnmálaflokki á í raun engra kosta völ gagnvart valnefnd. Hún er alvöld, jafnvel þó svo að almennur fundur stjórnmálaflokksins fjalli endanlega um framboðslistann, samþykki hann óbreyttan eða geri á honum einhverjar athugasemdir sem þó eru oftast lítilvægar.

Í prófkjöri eiga þó allir meiri von um að ná árangri. Hins vegar þarf að setja prófkjörum meiri og skilvirkari skorður en nú er. Brýnast er þó að jafna á einhvern hátt aðstöðumun frambjóðenda, ekki aðeins hvað varðar fjármagn heldur einnig annað eins og til dæmis kynningar.

Jónína nefnir fyrrum dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur sem dæmu um konu sem var „fagleg, yfirveguð, lét verkin tala og var nánast óumdeild“. Ég er alls ekki sammála um Rögnu. Hún hafði ágæta reynslu úr stjórnsýslunni, vönduð og líklega yfirveguð, hefði átt að halda sig þar. Ekkert merkilegt kom frá henni sem stjórnmálamanni. Þetta er ekki sagt konunni til lasts heldur miklu frekar til að benda á þá staðreynd að mikill munur er á góðum starfskrafti og góðum stjórnmálamanni. Sá síðarnefndi á ekki að færa bókhald eða ydda blýanta, hann er stefnumótandi, sér um framkvæmd og lætur stjórnsýsluna vinna.

Kosningin til stjórnlagaþings var misheppnuð tilraun vegna þess að þar áttu þekktu andlitin meiri möguleika. Ekki var kosið á milli stjórnmálaflokka. Það kom því engum á óvart að fjölmiðlaþekktri menn eins og Ómar Ragnarsson, Illugi Jökulsson, Þorvaldur Gylfason og aðrir álíka náðu kjöri. Stjórnmálaflokkar gefa meiri möguleika, óháð því hvort þeir eru þekktir eða hvernig útliti þeirra er háttað. Þar af leiðandi get ég svo sem alveg tekið undir niðurlagið í grein Jónínu þó ég sé ekki sammála erindi hennar:

Er það virkilega svo að við treystum fólki fyrir lífi okkar og limum af því að við höfum séð það í sjónvarpi, í blöðum eða á netinu? Sé það svo, eigum við ekkert betra skilið. 


Allur annar í stjórn en stjórnarandstöðu

Steingrímur J. Sigfússon hefur setið um 25 ár á þingi. Þjóðin er því farin að þekkja hann nokkuð vel. Hún sér að hann eru allur annar í stjórn en í stjórnarandstöðu þar sem hann var geymdur í rúm 22 ár. Þar fékk hann að rífa kjaft, ata andstæðinga sína auri og fara með þau lygimál sem hann hefur talið sóma sinn í.

Í stuttu leyfi frá stjórnarandstöðubekknum er hann allt í einu orðinn meyr og mjúkur og á það líklega að vera einhvers konar landsföðurleg ímyndarsköpun. Þjóðin lætur hins vegar ekki blekkjast. Menn hljóta að vera jafn málefnalegir, hver svo sem staða þeirra er á þingi. Líklega er hann farinn að átta sig á því að stjórnmál ganga ekki út á kjaftaganginn. 

  • Væri Steingrímur í stjórnarandstöðu þar sem ríkisstjórn sviki gerða samninga myndi hann áreiðanlega viðhafa jafnþung orð og ASÍ.
  • Hann mun aldrei hafa sama skilning á áformum og verkefnum ríkisstjórnar í stjórn og stjórnarandstöðu.
  • Alla tíð hefur hann talið sig, og þá flokka sem hann hefur verið í, sérstaka málsvara launafólks og andstæðing atvinnurekenda. Nú gerir hann báðum eins illt og hann getur.
  • Steingrímum er og verður tækifærissinni. Það sést best á viðhorfum hans til mála eins og ESB aðlögunarviðræðna, loftárásanna í Líbýu, ríkisfjármála og fleiri mætti nefna.

 


mbl.is Óþarflega stór orð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrældómur Íra og mishepnuð orðtök

Í frétt á mbl.is er frétt með fyrirsögninni „Írar horfi til Íslendinga“. Í henni er er sagt frá grein eftir metsöluhöfundinn Frederick Forsyth sem mörgum Íslendingum er vel kunnur. Hún nefnist á ensku „Only salvation is to leave the eurozone“. Hann er á þeirri skoðun að Írar eigi að henda Evruunni og fara að dæmi Íslendinga og láta bankaskuldirnar falla á eigendur þeirra en endurreisa bankakerfið á þann hátt sem gert var hér á landi.

Greinin birtist á vef Irish Independent. Í henni eru nokkrar missagnir sem þó breyta engu um megininntakið. Til dæmis heldur höfundurinn því fram að Ísland hafi ekki verið neitt annað en ferðaþjónusta og fiskveiðar fyrir hrun. Einnig ruglast hann á þjóðaratkvæðagreiðslunum og neyðarlögunum sem sett voru haustið 2008, áttar sig ekki á Icesave málunum.

Þetta er þó minniháttar mál. Aðalatriðið segir hann vera krónan sem hafi bjargað þjóðinni. Hitt hafi líka skipt miklu að stjórnvöld hafi ákveðið að við endurreisn bankakerfisins að fyrst kæmu Íslendingar og síðan spilavítisbankamennirnir og innlendir og erlendir lánadrottnar. Írar ákváðu að hafa röðin á hinn veginn. 

Greinin er ótrúlega vel skrifuð þrátt fyrir annmarka heimildarvinnu. Raunverulega ánægjulegt að lesa grein eftir mann sem hagar orðum sínum af slíkri háttvísi og virðingu fyrir tungumálinu eins og Forsyth gerir. En auðvitað eru ekki allir sammála honum og í athugasemdum fær hann bæði hól og last. Einn kallar Ísland bananalýðveldi án þess að rökstyðja það nánar. Rök annars eru þau að Ísland hafi sótt um aðilda að ESB og telur það rök gegn þeim sem Forsyth leggur fram.

Óvæntast var þó að rekast á þessa setningu í greininni:

For Ireland now, as the noose of thraldom from abroad tightens, the only salvation is to go the Iceland road.

Þurfti að lesa eitt orðið tvisvar og í seinna skiptið fannst mér ég kannast við það. Í orðabókinni segir:

thrall |THrôl| noun, the state of being in someone's power or having great power over someone.

Já, hann lýsir því að eina leiðin fyrir Írland sé að fara íslensku leiðina því sífellt þrengir að „hnútur þrældómsins“.

Forsyth minnir á hversu orðtakið „We are not Iceland“ hefur breyst og hversu staða okkar hefur skánað en Íra versnað.

Svona snúast vel orðuð orðtök í öndverðu sína og sumir missa virðingu og verða jafnvel að aðhlátursefni.

  • Read my libs,“ sagði Bush Bandaríkjaforseti.
  • The war is over,“ fullyrti Bush yngri Bandaríkjaforseti. 
  • I have never had sex with that woman“, sagði Clinton.
  • Það er svo margt í pípunum“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir og lofaði aukinni atvinnu.
  • Ísland mun einangrast og verða eins og Kúba norðursins,“ sagði Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra, þegar hann ætlaði að hræða landsmenn til fylgilags við Iceave frumvarp ríkisstjórnarinnar.

 

 


Nærsýnisleg þörf á gleraugum

Ekki ætla ég að álasa Tryggva þór Herbertsson fyrir lélegt mál, hann má halda því áfram sem hann kann. Hins vegar er það verkefni blaðamannsins að laga til orðalag viðmælendans svo skiljist. Hef aldrei vitað um lýsingarorðið 'skammsýnislegur'. Það gæti þó verið til. Gæti hæglega átt við í þessu tilviki, jafnvel um þröngsýni manna eða líkamlegt atgervi. 

Þó er þarf ekki mikla hugsun til að finna það út að fyrirsögnin gæti einfaldlega verið þessi: 'Breytingar gerðar af skammsýni'. 

Fyllist skelfingu ef fyrirsögn gæti orðið þessi: 'Nærsýnisleg þörf á gleraugum'.


mbl.is „Mjög skammsýnisleg ráðstöfun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Delluskrif Guðna Ágústssonar

Guðna Ágústsyni er mikið hampað, stundum af nauðsynjalausu. Hann ritar grein í Moggann í dag sem fær heiðursess í opnu blaðins, á móti forystugrein. Og fyrir hvað, grein sem er hrikalega ómarkviss langloka en alls ekki dæmalaus eins og ég mun rekja.

Kallinn skrifar alltaf of langt mál, setningar eru langar og oft ærið flóknar. Að auki virðist hann ekki alltaf viss hvernig hann ætlar að takast á við umræðuefni sitt. Hann fer út um víðan völl og innihaldið sömuleiðis. Hann kann alls ekki að skipuleggja hugsanir sínar og setja þær markviss í greinarform.

Núna ritar hann um Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hann segir vera miskunarlausan gagnvart Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra. Dellan í Guðna er alveg hrikaleg, en kannski er það bara vegna þess að hann kann ekki að nýta sér dæmisögur sínar. Hann segir til dæmis:

Við sem sátum á Þingvelli á afmælishátíð lýðveldisins 1994 minnumst enn fyrirboðans um að Jóhanna hyrfi úr ríkisstjórninni. Þá flugu tíu hvítir svanir yfir þingstaðinn og komu að vörmu spori níu til baka en ráðherrarnir voru þá tíu talsins. Þá spáði sá glöggi maður Ólafur Þ. Þórðarson því að Jóhanna gengi út strax að hátíð lokinni sem varð niðurstaðan.

Óskiljanlegt að maðurinn skuli bera svona á borð við lesendur sína. Kannski er ég svo illa innrættur en ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta við lesturinn. Ónotalegur bjálfahrollur fer þó um mann - og ég er líklegast bjálfinn. Og Guðni heldur áfram:

Þetta minnir á annan Hóla-Jón Arason sem galt skoðana sinna sem píslarvottur einn haustdag í Skálholti og dó fyrir kóngsins mekt. Ég verð að segja fyrir mig að pólitísk sannfæring er heilagt mál, hún á ekki að vera föl fyrir völd eða gull.

Er nú ekki fulllangt gengið að líkja þessum tveimur Jónum saman? Þeir eiga ekkert annað sameiginlegt en nafnið - jú og þeir hafa báðir starfað á Hólum. En Guðni lætur ekki staðar numið í dæmisögunum og ávarpar formann Vinstri grænna, sjálfan Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og brýnir hann að koma til liðs við Jón. Svo bankar hann uppá hjá Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, og segir:

... ber er hver að baki nema sér bróður eigi, vona að þið Jón fylgist að í brennunni, það gerðu þeir Skarphéðinn og Kári forðum. Samfylkingin er þér reið vegna Grímsstaðamálsins og staðfestu þinnar þar. Nú er Jón barinn og bannfærður í svita þess máls. Þess vegna ekki síst hriktir í vængjunum á milli vinstri og grænna. 

Ekki minnkar bjálfahrollurinn við þessa lesningu. Raunar skortir sárlega á í þessari grein að höfundur líki saman þeim Jesú Kristi og Jóni Bjarnasyni, það hefði fullkomnað greinina.

Væri ég stuðningsmaður Vinstri grænna eða Samfylkingar myndi ég áreiðanlega snarsnúast og taka afstöðu með andskotum Jóns Bjarnasonar. Það getur einfaldlega ekki verið að maður sem skrifar eins og Guðni hafi rétt fyrir sér því engin rök fylgja, ekkert annað en væmnar dæmisögur og tilraun til föðurlegrar áminningar. Sú tilraun mistekst gjörsamlega.

Ég er þó jafnundrandi og Guðni Ágústsson á eineltinu gagnvart Jóni Bjarnasyni. Sá meira að segja gæsir fljúga suður á land. Þær voru 32 en fjórar snéru aftur. Held að þetta sé fyrir snjóþungum vetri ... eða að ríkisstjórnin falli ... eða að fjórar vikur séu til jóla (þ.e.a.s. frá sýninni) ... eða að þetta hafi verið hrafnar en ekki gæsir og það leiðir hugan að hrafnaþingi ... eða ég er bjálfi ...

 

 


Fer Lýsing á hausinn?

Í dag var kveðinn upp dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur í máli Smákrana gegn Lýsingu. Skemmst er frá því að segja að fjármögnunarfyrirtækið tapaði málinu. Deilt var um hvort samningur sem þessir aðilar höfðu gert sín á milli væri lánssamningur eða leigusamningur. Niðurstaðan var að um hið fyrrnefnda var að ræða. 

Í pistli á bloggsíðu sinni fer Marinó G. Njálsson nokkuð vel yfir dóminn. Hann segir m.a.:

Merkilegt er til þess að vita, að Lýsing telji sig hafa gert allt rétt sem aðrir gerðu rangt með því einu að kalla hlutina öðru nafni.  Nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur bent fyrirtækinu á að svo er ekki.   Hið góða við þetta mál, er að Lýsing notaði öll vopnin í vopnabúrinu og þau reyndust haldslaus.  Hafa verður þó í huga að málið á eftir að fara fyrir Hæstarétt.  Þó mér þyki það ólíklegt, þá er aldrei hægt að útiloka þann möguleika að rétturinn snúi þessari niðurstöðu.  Þangað til mun Lýsing örugglega halda áfram að vörslusvipta fyrirtæki og einstaklinga í krafti þess að málunum sé ekki lokið fyrr en Hæstiréttur hefur kveðið upp rausn sína. 

Marinó telur þó mestu máli skipta vegna niðurstöðu héraðsdóms hvort Lýsing geti staðið sannað gjaldfærni sína staðfesti Hæstiréttur dóminn. Taka má undir þá skoðun Marinós að lántakar hjá Lýsingu muni án efa fara í hart. Fjöldi aðila hefur misst tæki og tól í krumlur Lýsingar og hugsanlegt er að fyrirtækið þurfi nú að bæta þeim skaðann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband