Ingibjörg þarf að skýra sitt mál miklu, miklu betur

Þetta eru afar athyglisverðar upplýsingar en fráleitt nógu tæmandi. Ekki er nóg að segja frá þessari kröfu og láta sem að þetta sé bara ávirðing á Sjálfstæðisflokkinn. Það gengur alls ekki.

Ingibjörg má ekki skilja svo við söguna að hún segi ekki frá sínum eigin viðbrögðum við kröfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og norrænna stjórnvalda. Hún verður líka að segja frá því hvort ráðherrar eða þingflokkur Samfylkingarinnar hafi rætt þetta mál og sé svo hverjar urðu málalyktir.

Svo er ég að velta því fyrir mér hvers vegna Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var að skipta sér af þessum málum í apríl. Á hverra vegum var hann að gera það?

Hálfsagðar sögur stjórnmálamanna um bankahrunið eru marklitlar. Komi fram nýjar upplýsingar þarf að krefja stjórnmálamenn svara. Það er ekki hægt að leyfa þeim að fullyrða eitthvað og komast upp með það.

Var það svo að Sjálfstæðisflokkurinn stóð í vegi fyrir breytingum á stjórnsýslunni og ekki síður að það hafi verið erindi Samfylkingarinnar í ríkisstjórn að breyta stjórnsýslunni? Ingibjörg hélt þessu fram í þættinum og ég held að hvort tveggja sé rangt. Spyrillinn lét líka hjá líða að spyrja frekar út í þessi mál. Hvernig er það annars, hlusta spyrlar sjónvarpsins ekki á viðmælendur sína.

Núna virðist sem allir stjórnmálamenn nema Sjálfstæðismenn hafi séð hrunið fyrir og þeir segjast hafa varað eindregið við því. Hvers vegna kom þá bankahrunið svona mikið á óvart, erlendis og hér á landi?

Ég er hvorki hagfræðingur né stjórnmálamaður og sá bankahrunið ekki fyrir. Hefði ég gert það hefði ég áreiðanlega staðið upp og ekki sest niður fyrr en ég hefði náð athygli fjölmiðla, stjórnmálamanna og almennings og fengið fram breytingar. Sama hlýtur sá að gera sem sér að bíll er á leiðinni fram af bjargbrún, hann linnir ekki látum fyrr en bíllinn hefur að minnst kosti numið staðar og hann hefur náð tali af bílstjóranum.

Ég held nú sé komið nóg af þeim spámönnum sem búa til spádóma sína eftirá.


mbl.is IMF varaði við í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband