Tók persónulega á mig Icesave sökina

Ég lenti í því fyrr í dag að skattyrðast við konu hjá fyrirtæki nokkru í Amsterdam sem sér um að leigja syni mínum húsnæði þar í borg. Húnsæðismálin hafa verið í miklum ólestri í tvo mánuði svo ég ákvað að taka upp símann og tala beint við fyrirtækið.

Skemmst er frá því að segja að illa gekk að fá upplýsingar og ég fékk lítt að spyrja nauðsynlegra spurninga. Að lokum var skellt á. Þegar ég hringdi í son minn sem staddur var á skrifstofu fyrirtækisins sagði hann mér að skötuhjúin sem fyrirtækið áttu vildu ekki tala við mig vegna þess að þau héldu að ég tæki upp samtalið. Grunur minn um að þarna væri einhver maðkur í mysunni fannst mér staðfestur. Loks náði ég sambandi við karl einn sem reyndist illa að sér í málinu og frammí fyrir honum gjammaði stöðugt kona sem valdi mér hin verstu orð.

Það er út af fyrir sig allt í lagi að fá á sig gusu en út yfir allan þjófabálk tók þegar hún tók að ásaka þjóð mína um mikla glæpi. Í lauslegri endursögn sagði hún að Íslendingar væru gjaldþrota þjóð sem hefðu skaða fjölda fólks í Hollandi og við ættum ekkert erindi þar upp á dekk. Við lá að hún segði það engu skipta fyrir okkur feðga hvorum megin réttur okkar væri staðsettur.

Með alkunnri samningatækni og persónutöfrum gat ég þó róað konuna og eiginmann hennar og sagðist mikið vilja biðjast afsökunar á þeim skaða sem ég og aðrir Íslendingar hefðu valdið hinni miklu þjóð Hollendinga. 

Með því að leggjast í duftið og viðurkenna allar sakir síðan Jón Hreggviðsson sveik meinta prestsfrú í Amsturdammi og þar til Landsbankamenn prönguðu Icesave upp á saklausa niðja hennar, minnir að ég hafi líklega í leiðinni tekið á mig persónulega strand Het Vapen Van Amsterdam á Skeiðarársandsfjöru 1667. Og ekki fyrr en þá fékkst konan til að ræða leigumál Bjarka Rúnars sonar míns.

Vænti ég þess að Bjarki minn fái nú einhvern stað til að halla höfði sínu og nema þau fög sem hann vill. Til viðbótar við skuld mína vegna Icesave bætist nú greiðsla fyrir strandgóssið. Á móti kemur að nú þarf ekki lengur að skatta aðra landsmenn fyrir Iceave. Hefur því nokkuð til unnist á föstudeginum 13 þó ég hafi ekki glóru um það hvernig ég á að punga út fyrir öllu þessu sem ég lofaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.11.2009 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband