Kæruleysi sem skapar misskilning
7.10.2009 | 16:49
Einu sinni fóru tveir bræður mínir í jarðarför en uppgötvuðu ekki fyrr en langt var liðið á athöfnina að þeir þekktu ekki manninn sem var verið að jarða. Vitlaus jaðrarför, ef svo má að orði komast.
Lífið er fullt af mistökum sem síðar má skoða sem skemmtilegar uppákomum. Sögur myndast um hitt og þetta, sögur af heimskupörum, mistökum og vitleysum. Og sögumenn eiga oftast hlut að máli og þeir hlægja manna hæst af eigin óförum.
Ég geri góðan skammt af mistökum og vitleysum, kannski rúmlega það, og ættingjar, vinir, kunningjar og samstarfmenn hlægja að manni. Stundum eru uppákomurnar neyðarlegar og þegar frá líður, og maður hættir að skammast sín getur verið að maður sjái spaugilegur heliðarnar.
Þegar ég var yngri var ég frekar spéhræddur. Sá andskoti hefur þó rjátlast af manni með tímanum, sem betur fer. Kannski þess vegna get ég sagt nýjust söguna af mér en hún er um það er ég kom út úr skápnum, varð hommi.
Lesandinn kann að reka upp stór augu en ég vil áður en lengra er haldið fullvissa hann um að kynhneigð mín er óbreytt. Þetta voru bara allt mistök og Facebook að kenna.
Allir eru inn á Facebook. Ég er eða var undantekning. Gömul skólasystir sendi mér fyrir nokkrum rúmum mánuði boð um að bekkjarsystkini úr 12 ára bekk í Hlíðaskóla hyggðust koma saman. Hún rak mig beinlínsi nauðugan til að skrá mig á Facebook til að geta fylgst með. Það gerði ég samviskusamlega og ekkert meira með það. Ég rakti mig áfram og skráði mig með erfiðismunum á þess fésbók og náði að tengjast gömlu bekkjarsystkinunum mínum.
Nokkrum vikum eftir skráningu finn ég breytingu. Vinnufélagar og fjölmargir aðrir eru farnir að tala örlítið öðruvísi við mig en áður. Ég næ samt engum tökum á þess, fatta ekki alveg hvað er í gangi, en eitthvað var þetta allt örlítið og bókstaflega kynlegt. Oftar en ekki eru einhverjir að tala um homma og lesbíur og allir eru afar umburðalyndir en aldrei beinist umræðan að mér persónulega neða þega farið að tala í mín eyru um dúka, barnaföt og annað ... tja , kvenlegt. Og svo horfast einhverjir í augu og líta síðan blíðlega til mín sem veit gjörsamlega ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Nei, fjandinn, þetta er bara einhver misskilningur hjá mér.
Svo leiddi ég ekki frekar hugann. Samt þótti mér undarlegt er kunningi minn, mætur þingmaður spyr mig hvort ég sé að verða að kellingu í þessu vinnuumhverfi mínu. Jú, svaraði ég, grunlaus og illu heilli kæruleysilega, maður dregur sitt dám af þeim sem maður umgengst.
Síðan gerist að nokkrum dögum síðar að ég er að flækjast á síðunni minni á Facebook og kem ég þá auga á meinlega villu í persónulegum upplýsingum. Og mér krossbrá. Svona litu grunnupplýsingarnar út:
Kyn: Karlmaður
Börn: Bjarki Rúnar Sigurðarson, Heidrún S. Sigurðardóttir, Grétar Sigfinnur Sigurðarson,
Hjúskaparstaða: Einhleypur
Hefur áhuga á: Karlmönnum
Hvur fjandinn? hugsa ég. Hver í andskotanum er að gera at í mér? Og hvernig var það hægt? Í nokkur sekúndubrot varð ég hreinlega miður mín. Hvað skyldi fólk halda, börnin mín, Inga Jóna, vinkona mín, systkini, þessi risastóra ætt? Í henni hafa hvorki fundist prestar, kommar né kynhverfir einstaklingar.
Ég hafði greinilega ekki verið með hugann við skráninguna. Mistökin hlutu því að skrást á mig. Já, mistök voru þetta því enn er ég ekki í neinum skáp, hvað þá kominn úr honum. Er bara enn hinn sami og hafði notið þess að búa til þrjú börn og gert'ða í ótrúlegan fjölda skipta til viðbótar án þess að nein kona hafa kennt mér fleiri börn (... sjö, níu, þrettán).
Og þar sem ekkert hefur breyst breytti ég skráningunni umsvifalaust á þessa leið:
Hefur áhuga á: Konum
Ég hef svosem ekki leitt hugan að því hvaða afleiðingar þessi fyndna misskráning á Facebook hefur haft. Kannski fæ ég bráðum póst frá gömlu bekkjarsystur minni úr Hlíðaskóla þar sem hún býður mér að koma með kall á bekkjarmótið. Það minnir mig á gamlan vin, hann Guðstein sem var eitt sinn framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna meðan ég var formaður Neytendafélags Reykjavíkur. Hann talaði alltaf um eiginmann sinn og átti þá við konu sína. Nú, konur eru líka menn, sagði Guðsteinn, þegar fólk hváði.
Nú skynjaði ég ástæðuna fyrir breyttu andrúmslofti undanfarinna vikna. Ef til vill eiga ættingjar, vinir eða aðrir sem þekkja mig eftir að lesa þessar línur. Og sumir munu áreiðanlega heilsa mér aftur á götu og segja: Siggi minn, ég vissi að þetta var tóm vitleysa.
Og þá segi ég og byrja á innsoginu: Jááá, elskan, gasalega ertu nú sæt/ur að segj'etta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir söguna hún er sniðug - en svona getur gerst stundum
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 8.10.2009 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.